Lið Kky Íslandsmeistari um helgina.

Það er mikið búið að vera um að vera síðastliðnar helgar. En mótahaldi Fimleikasambands Íslands þessa vorönnina lauk nú um helgina þegar Íslandsmót í hópfimleikum fór fram. Skemmst er frá því að segja að lið okkar í Kky sigraði sinn flokk mjög sannfærandi með 3.870 stigum á undan næsta liði, frábær árangur hjá þessum ungu strákum. Liðin okkar í 3. og 4. flokki höfnuðu í 2. sæti í sínum flokkum og 2. flokkurinn í því þriðja. Glæsilegur árangur og greinilegt að framtíðin er björt í Grafarvoginum.

 

Helgina 29. – 30. maí fór fram Vormót í B og C deildum. En þar átti Fjölnir fjögur lið í keppni. Í 4. flokki C röðuðu lið Fjölnis sér í tvö efstu sætin. Lið okkar í 5. flokki B sigraði einnig sinn flokk og 3. flokkur B stóð sig einnig vel í sinni keppni.

 

Sömu helgi var keppt á Þrepamóti 3. En sú breyting er orðin á að nú er verðlaunað fyrir að ná þrepi. Fjölnisstúlkur stóðu sig vel á mótinu og voru alls fimm stelpur sem náðu 5. þrepinu en það voru þær Ásrún Magnea, Elísbet Freyja, Ingunn Lilja, Ísabella og Sunneva Arney.

 

Við óskum öllu okkar keppendum til hamingju  með árangurinn. Við minnum svo á að sumaræfingar hefjast mánudaginn 14. júní


Nýir Fjölnisbúningar í knattspyrnu

Kominn er í sölu nýr knattspyrnubúningur. Búningarnir eru frá Hummel og eru úr 100% polyester. Búningarnir eru til sölu í verslun Sport 24, Miðhrauni 2, Garðabæ. Afgreiðslutími eru nokkrir virkir dagar.

Verðskrá:

Treyja m/merkingu 8.990 kr.

Stuttbuxur m/merkingu 3.990 kr.

Sokkar: 1.990 kr.


Happdrætti Knattspyrnudeildar - útdráttur

Búið er að draga í happdrætti knattspyrnudeildar Fjölnis

Vinningskrá má nálgast hér.
Vinninga skal vitja á skrifstofu fyrir 1. júlí.

Takk fyrir stuðninginn! #FélagiðOkkar


Unglingalandsmót UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Selfossi um verslunarmannahelgina 2021. Mótið hefur verið haldið frá árinu 1992 og er stórskemmtileg og lífleg íþrótta- og fjölskylduhátíð þar sem saman koma þúsundir barna og ungmenna ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í afar fjölbreyttri dagskrá.

Unglingalandsmót UMFÍ er vímuefnalaus íþrótta- og fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11 – 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum. Á sama tíma er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna, mömmu og pabba og yngri systkinin og það kostar ekki krónu. Í ár geta 19 ára líka tekið þátt því mótinu í fyrra var frestað. Unglingalandsmótin hafa hvarvetna vakið mikla athygli enda frábært fjölskyldu- og vinafjör þar sem allir mótsgestir fá að prófa nýjar og forvitnilegar greinar. Við hvetjum vinahópa og fjölskyldur til að fara saman á mótið. Búist er við gríðarlegum fjölda þátttakenda á þessu ári enda stutt af höfuðborgarsvæðinu á Selfoss.

Unglingalandsmót UMFÍ 2021 fer fram 29. júlí – 1. ágúst á Selfossi. Skráningargjald er 7.900 kr. Skráning hefst 1. júlí næstkomandi.

Mót fyrir alla fjölskylduna

Á Selfossi verður boðið upp á 24 stórskemmtilegar greinar. Þar á meðal eru knattspyrna, körfubolti og frjálsar íþróttir en líka aðrar nýlegri eins og strandhandbolta og standblak sem hafa slegið í gegn. Líka er hægt að skrá sig í hlaupaskotfimi (biathlon), bogfimi, borðtennis, golf og glímu, kökuskreytingar, rafíþróttir og margar fleiri. Fatlaðir geta eins og á fyrri mótum tekið þátt í fjölda greina.

Þátttakendur greiða eitt verð en geta skráð sig í eins margar greinar og þau vilja. Inni í verðinu er aðgangur að tjaldsvæði en greiða þarf fyrir rafmagn.

Öll kvöld verða tónleikar með vinsælasta tónlistarfólki ungu kynslóðarinnar ásamt því sem upprennandi tónlistarfólk og hljómsveitir frá Suðurlandi stíga á stokk.

Búist er við þúsund mótsgesta á Selfossi um verslunarmannahelgina og er verið að útbúa risastórt tjaldsvæði við Suðurhóla í útjaðri bæjarins fyrir þátttakendur af öllu landinu. Svæðið er í göngufæri við mótssvæðið. Til að skapa frábæra stemningu og gæta öryggis þátttakenda og mótsgesta verður ákveðnum götum lokað í kringum nokkra viðburði á Selfossi.

Vefsíða mótsins er www.ulm.is


Söfnun fyrir tjaldi á Kárapall - Vertu með í happdrættinu!

Sumarið fer vel af stað hjá meistaraflokkunum okkar, þar sem bæði lið eru með fullt hús stiga eftir tvo og þrjá leiki. Þar að auki eru strákarnir komnir áfram í 32-liða úrslit Mjólkurbikarsins. Frábær byrjun!
Með hækkandi sól og tilslökun á samkomutakmörkunum á næstu dögum mun stuðningsfólk vonandi flykkjast á völlinn til að styðja við #FélagiðOkkar.
Til að bjóða upp á sem besta umgjörð á heimaleikjum, sem oft hitta á matartíma, höfum við í hyggju að festa kaup á tilkomumiklu veislutjaldi þar sem fólk mun gætt sér á veitingum og mælt sér mót.
Tjaldið sem er 6 metra breitt og 9 metra langt, mun vera staðsett við Kárapall og umbreyta veitingaaðstöðunni við völlinn. Þar mun fólk geta tyllt sér fyrir leiki, í hálfleik og jafnvel eftir leik. Um er að ræða fjárfestingu á reisulegu tjaldi sem mun geta staðið af sér veður og vinda.

Til að fjármagna veislutjaldið hefur Knattspyrnudeildin sett sér markmið um að SELJA 500 AUKAHAPPDRÆTTISMIÐA í Happdrætti Knattspyrnudeildar Fjölnis sem nú stendur yfir og lýkur 31. maí.
Af því tilefni leitum til ykkar, kæra Fjölnisfólk, og óskum eftir ykkur aðstoð við að fjármagna tjaldið með kaupum á happdrættismiðum.
Sláum tvær flugur í einu höggi! Með kaupum á happdrættismiða áttu bæði kost á að vinna veglega vinninga og jafnframt styðja deildina við þessi kaup á veislutjaldi.

 

Miðinn kostar 2.000 kr. og verður happdrættisnúmerum dreift rafrænt á netföng fólks.
Greitt inn á eftirfarandi reikning:
👉Rkn: 0114-05-060968
👉Kt: 631288-7589

Þú setur svo skjáskot með greiðslu og netfang, á þennan þráð hér á facebook og færð happdrættisnúmerið sent.

Þú getur einnig sent okkur skilaboð með kvittuninni hérna.

 


Tveir frá Fjölni í U19 hópnum

Ólafur Ingi Skúlason landsliðsþjálfari u-19 ára liðs karla hefur valið hóp fyrir æfingaleiki við Færeyja. Liðið mætir U21 ára liði Færeyja 3. júní og hefst sá leikur kl. 16:30 að íslenskum tíma. U19 ára lið þjóðanna mætast svo 6. júní og hefst sá leikur kl. 14:00 að íslenskum tíma. Báðir leikirnir fara fram í Svangaskarði. Leikirnir verða fyrstu leikir liðsins undir stjórn Ólafs Inga.
Í hópnum á Fjölnir tvo fulltrúa, þá Hilmi Rafn Mikaelsson (2004) og Lúkas Loga Heimisson (2003).
Hilmir hefur tekið þátt í öllum þremur leikjum meistaraflokks á tímabilinu en hann skoraði annað af mörkum liðsins í 2-0 sigri á Grindavík síðastliðin föstudag.
Lúkas hefur komið við sögu í tveimur af þremur leikjum meitaraflokks á tímabilinu, þá er Lúkas með 6 mörk í 4 leikjum með 2. flokki félagsins í sumar.

Fjórfalt mótahald um helgina hjá Fimleikasambandinu

Um helgina var mikið um að vera í móthaldi. Alls fóru fram fjögur mót á vegum Fimleikasambands Íslands og átti Fjölnir keppendur á öllum mótunum og var árangurinn vægast sagt frábær.

 

Íslandsmót í stökkfimi

Fjölnir sendi tvö lið til keppni á Íslandsmótinu í Stökkfimi sem fram fór í Ásgarði í umsjón Fimleikadeildar Stjörnunnar. Liðin gerðu sér lítið fyrir og unnu bæði sína flokka. Meistaraflokkur A með 43.975 stig og 1. flokkur A með 36.400 stig

 

Bikarmót í hópfimleikum

Á Bikarmótinu í hópfimleikum sendi Fjölnir til keppni lið í 2. flokki. Stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og höfnuði í öðru sæti á eftir sterku liði Gerplu með 48.565 stig. Mótið, líkt og Íslandsmótið í Stökkfimi fór fram í Ásgarði, Garðabæ.

 

Íslandsmót í þrepum

Íslandsmótið í þrepum fór fram í Laugabóli, húsakynnum Ármanns. Í 1. þrepi 13 ára yngri sigraði Lilja Katrín Gunnarsdóttir með 51.066 stig. Lilja hafnaði svo í 3 sæti heilt yfir 1. þrepinu. En Íslandsmeistari er krýndur þvert á aldursflokka í Fimleikastiganum. Í 3. Þrepi 12 ára hafnaði Júlía Ísold Sigmarsdóttir í 2. sæti.

 

GK – Meistaramótið

Á GK meistaramótinu í frjálsum æfingum, sem einnig fór fram í Laugarbóli, héldu okkar keppendur áfram að standa sig vel. Í unglingaflokki karla sigraði Sigurður Ari Stefánsson í fjölþraut með 64.150 stig, í öðru sæti varð Davíð Goði Jóhannsson með 59.050 stig. Bjartþór Steinn Alexandersson keppti einnig og stóð sig vel. Sigurður Ari og Davíð Goði skiptu svo á milli sín sigrum á einstökum áhöldum þar sem Sigurður Ari sigraði á bogahesti, stökki og svifrá á meðan Davíð Goði sigraði á gólfi, hringjum og tvíslá. Í drengjaflokki sigraði Elio Mar Rebora með 44.750 stig.

 

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir af okkar keppendum frá helginni.


Fjölnisblaðið er komið út

Fjölnisblaðið 2021 - kynningarrit knattspyrnudeildar er komið út
Rafræna útgáfu þess má nálgast hér:
Blaðið er hið veglegasta og var prentað í 6.500 eintökum og dreift í öll hús í Grafarvogi (þ.m.t. Bryggjuhverfi). En útgáfa þess markar upphaf keppnistímabils knattspyrnudeildarinnar.
Við þökkum kærlega þeim fjölmörgu fyrirtækjum og aðilum sem gerðu þessa útgáfu mögulega. Við hvetjum lesendur jafnframt sérstaklega til þess að virða fyrir sér auglýsingarnar og öll lógó-in inni á milli allra flottu Fjölnismyndanna þegar flett er í gegnum það.
Það er tvennt í prentuðu útgáfu blaðsins sem rétt er að benda á og leiðrétta hér með.
Hið fyrra er að fyrir slysni voru æfingatímar vetrarins birtir í stað sumarsins hjá yngri flokkunum.
Hið síðara er að liðsmynd af 2. flokki karla var ekki inni í blaðinu.
Beðist er velvirðingar á þessu. Bæði hefur verið lagað og uppfært í rafrænu útgáfu blaðsins.
Forsíðumyndina prýða þrír leikmenn meistaraflokks kvenna. Þetta eru þær Hlín Heiðarsdóttir, Sara Montoro og Elvý Rut Búadóttir (frá vinstri til hægri).
Gleðilegt sumar

Stelpu vika Íshokkídeildar Fjölnis

Stelpuvika Íshokkídeildar Fjölnis

Vikuna 24-30 maí

Íshokkídeild Fjölnis langar að bjóða öllum stelpum á aldrinum 11 ára og eldri að koma og prufa íshokkí í heila viku á hokkíæfingar einungis ætlaðar stelpum.
Verður þetta heil vika þar sem áhersla er lögð á að kenna stelpum íshokkí og endum við svo vikuna á því að halda lokahóf fyrir hópinn þar sem boðið verður upp á pítsu veislu og verðlaun fyrir þáttakendur.

Íshokkídeild Fjölnis býður upp á flottan hóp þjálfara, lánum allan útbúnað og það kostar ekkert fyrir stelpur að taka þátt í vikunni.

Dagskrá stelpuvikunnar:

Þriðjudagur 25. maí.
17:30 Þrek/skemmtun í Hellinum (frjálsíþróttasalnum við enda fótboltahúss)
18:25 - 19:15 Ísæfing
Fimmtudagur 27. maí.
16:50 - 17:45 Ísæfing
18:00 - 18:50 Hópefli/leikir
Laugardagur 29. maí.
16:15 - 17:45 Ísæfing, spilað íshokkí fullum ís
18:00 Pítsuveisla fyrir alla þáttakendur

 

Við hvetjum allar stelpur sem langar að koma og prufa að koma á æfingar hjá okkur í vikunni og kynnast því hversu skemmtileg er að æfa og spila íshokkí.
Öllum nánari upplýsingum er svarað í tölvupóst íshokkídeildar hokki@fjolnir.is eða síma 792-2255.

https://www.youtube.com/watch?v=Y3MEeAfoPkQ


Fjölnishlaup Olís 2021

Hið árlega Fjölnishlaup Olís verður ræst í 33. sinn við Grafarvogslaug í Dalhúsum á þjóðhátíðardaginn 17. júní kl. 11.

Eftirfarandi vegalengdir verða í hlaupinu:

  • 10 km hlaup
  • 5 km hlaup
  • 1,4 km skemmtiskokk

10 km hlaupið er hluti af Gatorade sumarhlaupunum.

Skráningargjöld

3.000 kr. í 10 km, 2.500 kr í 5 km í forskráningu á netskraning.is til miðnættis 16. júní. 1.000 kr í skemmtiskokkið – hámark 3.000 kr. á fjölskyldu.

Þátttakendur fá Gatorade í boði Ölgerðarinnar.

Fjöldi glæsilegra útdráttarverðlauna frá Olís.

Afhending gagna og skráning á staðnum verður frá kl. 18:00-20:00 þann 16. júní og á keppnisdag frá kl. 09:30-10:15 í anddyri Grafarvogslaugar í Íþróttamiðstöðinni í Dalhúsum.

Nánari upplýsingar á netskraning.is og sumarhlaupin.is