Stefna


Í íþróttum læra börn að fylgja reglum og tileinka sér hollar lífsvenjur og sjálfsaga.  Mikilvægt er að hver og einn fái með íþróttaiðkun sinni tækifæri til þess að upplifa sjálfan sig á jákvæðan hátt og öðlast sjálfstraust og sjálfsvirðingu. Í karate er mikið lagt upp úr því að læra sjálfsaga, einbeitingu, samvinnu, umburðarlyndi, tillitssemi og sýna traust og kærleika.  Íþróttir hafa uppeldislegt, menningarlegt og heilsufarslegt gildi fyrir þá sem þær stunda.  Við uppbyggingu íþróttastarfs, hvort sem um æfingar eða keppni er að ræða, skal miða að því að allir hafi jafngild tækifæri og séu metnir að verðleikum óháð uppruna, þjóðfélagsstöðu, litarhætti eða kyni.

 Meginmarkmið

Að kenna iðkendum aga, stundvísi og virðingu.
Að kenna iðkendum traust og kærleik.
Að efla skyn- og hreyfiþroska iðkenda.
Að efla íþróttaþroska barna.
Að efla félags-, tilfinninga- og siðgæðisþroska iðkenda.
Að veita jafnt stúlkum sem piltum fjölbreytt íþróttauppeldi.
Að vinna gegn brottfalli eldri iðkenda hjá deildinni.
Að byggja upp hjá iðkendum heilbrigðar og hollar lífsvenjur.
Að efla félagsvitund iðkenda hjá deildinni þannig að þeim sé ljóst að það sé merki félagsins/deildarinnar sem þeir eru að koma fram fyrir.
Að allir iðkendur hafi sterkar taugar til deildarinnar og vilji leggja sitt af mörkum til þess að efla hana.
Að deildin stuðli að því að ráða til sín menntaða þjálfara og stuðla að aukinni menntun þeirra, með það að leiðarljósi að menntaðir þjálfarar með áhuga fyrir starfi sínu laði að sér fleiri iðkendur.
Að stefna að því að skapa iðkendum góða aðstöðu til íþróttaiðkunar og keppni.