Grunnpróf


Þjálfarar velja þá iðkendur sem þeir telja að séu tilbúnir til að taka grunnpróf. Haft er samband við foreldra áður en skráning í grunnpróf fer fram þar sem þeim er tilkynnt hvaða próf þjálfarar telja að iðkandinn eigi að taka. Engum er skylt að fara í grunnpróf en þau eru valfrjáls.

Markmið grunnprófa eru tvenns konar; annars vegar að meta grunnskautun skautarans og hins vegar þá eru þau nauðsynleg ef iðkandi vill fá keppnisrétt til að taka þátt á mótum Skautasambandsins (keppnisflokkar Skautasambandsins). Grunnprófum er skipt upp í tvennt; mynstur (grunnskautun) og element (stökk og spinnar). Í kerfinu eru alls 19 mynstur og svo eru element fyrir hvern keppnisflokk en þeir eru 8 talsins.

Chicks (8 ára og yngri), Cubs (10 ára og yngri), Basic Novice (12 ára og yngri), Intermediate Novice (14 ára og yngri), Intermediate Ladies (15 ára og eldri), Advance Novice (10-15 ára), Junior (13-17 ára og yngri) og Senior (18 ára og eldri)

 

Ef iðkandi vill nota grunnpróf til að meta grunnskautun getur hann farið í mynsturpróf.

Ef iðkandi vill fá keppnisrétt á mótum Skautasambandsins þarf hins vegar að taka bæði mynsturpróf og element (þó ekki endilega allt í einu). Það þarf að standast próf í öllum mynstrum (frá mynstri 1) en aðeins element í þeim keppnisflokki sem skautari stefnir að. Til dæmis ef iðkandi er í aldursflokki 10 ára og yngri þyrfti hann að ná mynstrum 1, 2 og 3 ásamt elementum fyrir keppnisflokkinn Cubs (10 ára og yngri) til að öðlast keppnisrétt í þeim flokki.

Nánari upplýsingar um grunnprófin má finna í handbók Skautasambandsins.

Kostnaður vegna grunnprófa er ekki inni í æfingagjöldum. Grunnprófsgjald (1800 krónur fyrir eitt mynstur og 2900 krónur fyrir element) greiðist við skráningu í grunnpróf.

 

Fyrirkomulag á prófdag

Mæting: Mæting í grunnpróf er 30-45 mín fyrir upphitunartíma á svelli. Vinsamlegast athugið að mæta ávallt tímanlega og þeir sem eru seint á dagskránni þurfa jafnvel að mæta enn fyrr þar sem oft ganga prófin hratt fyrir sig og þá hliðrast öll dagskráin. Þá er haldið áfram með næsta iðkanda óháð því hvaða tími er gefinn upp á dagskrá.

Dregið er um mynstur hálftíma áður en fyrsta prófið hefst. Ef iðkendur vilja draga sjálfir (þetta á bara við þá iðkendur sem geta dregið um mynstur) þurfa þeir að vera mættir þá en annars er dregið fyrir þá.

Klæðnaður: Keppnispeysa eða önnur svört/dökklituð peysa og svartar skautabuxur eða aðrar þröngar dökklitaðar buxur. Svartir/dökkir vettlingar. Hár tekið frá andliti.

Upphitun: Allir skautarar eiga að gera upphitun á gólfi fyrir próf (sjálfstætt). Þeir sem fara í mynstur fá 5 mínútna upphitun fyrir sitt próf á svellinu. Þeir sem fara í element fá 5 mínútna upphitun saman á svellinu áður en fyrsti iðkandi tekur prófið.

Fyrirkomulag – mynstur: Um leið og skautari er búinn að skauta mynstur á hann að fara til þjálfara síns og bíða eftir að dómari kalli á hann. Skautari er þá annað hvort beðinn um að endurtaka æfinguna, og fær 1 mínútu til þess að æfa sig, dómari biður skautara um að taka næsta mynstur (þar sem það á við) eða niðurstaða liggur fyrir.

Fyrirkomulag – element: Skautari framkvæmir öll elementin sín og dómarar munu kalla á hann með niðurstöðuna eða biðja skautarann um að endurtaka elementin. Skautari hefur þá 1 mínútu til þess að æfa áður en element eru endurtekin.

Niðurstöður: þjálfari er viðstaddur þegar niðurstöður eru tilkynntar og fá skautarar að vita niðurstöðu strax að prófi loknu. Hafi skautari staðist prófið mun dómari staðfesta það með handabandi.