Heilsteyptur Haus – hugarfarsþjálfunar námskeið

Heilsteyptur Haus – hugarfarsþjálfunar námskeið

Barna og unglingaráð knattspyrnudeildar Fjölnis stendur fyrir námskeiði fyrir iðkendur í 3. og 4. flokki karla og kvenna í samvinnu við HAUS hugarþjálfun. Um er að ræða námskeið sem miðar að því að styrkja hugarfarslega þætti þátttakenda í gegnum fræðslu, heimaverkefni og eftirfylgni. Námskeiðið hófst vikuna 24. – 28. apríl og eru hóparnir fjórir sem samanstanda af u.þ.b. 20 iðkendum hver.

Hugarfarslegi/andlegi þátturinn í íþróttum og lífinu er ekki síður mikilvægur en sá líkamlegi og með þessu vill BUR stuðla að bættri líðan og sjálfsmynd iðkenda Fjölnis. Jafnframt er þetta fyrsti
viðburðurinn sem greiddur er að hluta til úr styrktarsjóð Fjölnismannsins Hálfdáns Daðasonar.

Markmið styrktarsjóðsins er að stuðla að fræðslu um geðheilbrigði og efla forvarnarstarf hjá yngri flokkum knattspyrnudeildar félagsins.

Heilsteyptur Haus er…
…hugarþjálfunarnámskeið fyrir yngri flokka og unglingaflokka í hópíþróttum þar sem iðkendur og þjálfarar læra að sinna þjálfun einbeitingar, sjálfstrausts og liðsheildar á reglubundinn hátt inni á æfingum samhliða tækniþjálfun og líkamlegri þjálfun.

Heilsteyptur Haus er fyrir…
…íþróttafélög sem vilja taka stórt skref í að sinna þeim hluta þjálfunar sem hefur verið stórlega
vanræktur í íþróttaþjálfun í gegnum tíðina og leiðir af sér ánægðarar íþróttafólk og betra íþróttafólk.

Heilsteyptur Haus samanstendur af:

  • 4 fyrirlestrum fyrir iðkendur
  • Vinnu iðkenda í styrktarprógrömmum á milli fyrirlestra
  • 4 þjálfarafundum
  • Þjálfarahandbók fyrir alla þjálfara


Sumarnámskeið Fjölnis í Egilshöll 2023

Fjölnir býður upp á fjölbreytt úrval námskeiða í allt sumar. Hægt er að velja eitt námskeið fyrir hádegi og annað eftir hádegi með eða án heitrar máltíðar. Sumarámskeiðin eru fyrir börn fædd 2013-2016. Fjölgreinanámskeiðin eru fyrir börn fædd 2014-2017, á því fá börnin að kynnast þeim íþróttum sem eru í boði hjá félaginu.

Skráning fer fram hér

Hvað er í boði?

  • Sumarnámskeið Fjölnis í Egilshöll (fjölbreytt úrval íþrótta) – þú setur saman daginn fyrir barnið þitt. Börn fædd 2013-2016
  • Fjölgreinanámskeið Fjölnis í ágúst – góður valmöguleiki til að kynnast úrvali íþrótta í Fjölni. Börn fædd 2014-2017

Hér má sjá nánari upplýsingar


Treyjunúmer

Ein af þeim knattspyrnureglum sem við verðum að fylgja er að allir hafi fast treyjunúmer. Nú er komið að þeim skemmtilegu tímamótum hjá yngra ári í 6. flokki í knattspyrnu að fá fyrstu úthlutun treyjunúmers. Iðkendur sem eru fæddir á slétttölu ári eiga að velja sér slétt númer á treyjuna sína. Þeir sem eru fæddir á oddatöluári velja sér oddatölu númer.

Ef fleiri en einn iðkandi óskar eftir sama númeri þá verður dregið um það hvaða iðkandi fær óskanúmerið. Yfirþjálfari (skrifstofa) sér um það. Aðrir iðkendur verða að velja annað númer.

Iðkendur halda sama númeri út þriðja flokk. Númerið er óbreytilegt og hver leikmaður má eingöngu hafa eitt númer.

Yfirþjálfari (skrifstofa) félagsins heldur utan um númer allra iðkenda.

Nýir iðkendur hjá félaginu tala við yfirþjálfara til að fá treyjunúmer. Þeir leikmenn sem eru í 2. flokki mega halda áfram með sama númer nema ef tveir eru með sama númerið. Ef tveir eru með sama númer þá verður að draga út. Yfirþjálfari (skrifstofa) sér um það.

Ekki hika við að hafa samband yfirþjálfara ef einhverjar spurningar vakna.


Fjölnir og Samskip

Nú hafa meistaraflokkar knattspyrnudeildar Fjölnis spilað sína fyrstu leiki í nýjum búningum frá Puma. Það gleður okkur að kynna nýjan samstarfsaðila, Samskip, en merki þeirra er á baki allra búninga knattspyrnudeildarinnar; meistaraflokka og yngri flokka.

Samningurinn við Samskip var gerður til að heiðra minningu Sævars Reykjalín en hann var starfsmaður Samskipa og formaður barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar Fjölnis. Samningurinn var gerður til þriggja ára. Við þökkum Samskipum kærlega fyrir þennan rausnarlega styrk og hlökkum til samstarfsins næstu þrjú árin.

Á efri myndinni hér til hliðar má sjá Guðmund Lúðvík Gunnarsson, framkvæmdarstjóra Fjölnis ásamt Þórunni Ingu Ingjaldsdóttur, forstöðumanni markaðs- og samskiptadeildar Samskipa.

Á þeirri neðri má sjá bakhliðina á nýju búningunum.


Sumarstörf 2023 fyrir 15-25 ára

Líkt og fyrri ár munum við hjá Fjölni bjóða upp á fjölbreytt sumarstörf í tengslum við vinæslu sumarnámskeiðin okkar.

HÉR er umsóknareyðublað sem allir þurfa að fylla út til þess að sækja um starf.

ATH! 17-25 ára þurfa líka að fylla út umsókn í gegnum Hitt húsið. HÉR er hlekkur á þá slóð.

Umsóknarfrestur hjá Hinu húsinu er til 15. apríl.

Við hvetjum öll áhugasöm til þess að sækja um!


Halldór Snær á leið með U19 á lokakeppni EM

Íslenska U19 ára landsliðið tryggði sér sæti í lokakeppni EM sem fram fer á Möltu 3-16.júlí.

 

U19 landsliðið gerði sér lítið fyrir og vann riðillinn sinn með 7 stig. Þeir gerðu jafntefli við Tyrki 1-1, unnu Englendinga 1-0 og í gær unnu þeir Ungverjaland 2-0 en okkar maður Hilmir Rafn, uppalinn Fjölnismaður sem er nú leikmaður Venezia en á láni hjá Tromsø, skoraði annað mark Íslenska liðsins og gulltryggði sigurinn og í leiðinni miðann á EM!

 

Halldór og Hilmir eru mikilvægir hlekkir í U19 landsliðinu og er Knattspyrnudeild Fjölnis gífurlega stolt af þeim báðum og þeirra framförum!

 

Til hamingju Halldór og Hilmir og til hamingju Ísland!

 

#FélagiðOkkar 💛💙


Meistaraflokkur Fjölnis kvenna er nýkominn úr frábærri æfingarferð frá Pinatar á Spáni

Meistaraflokkur Fjölnis kvenna er nýkominn úr frábærri æfingarferð frá Pinatar á Spáni. Liðið æfði í 26 gráðu hita og sól vikuna 10 til 17.mars. Ferðin var vel nýtt, æfingar voru daglega frá því að lent var á Spáni og stundum tvisvar á dag þar sem ítarlega skipulagaðar æfingar voru í allt að tvær klukkustundir í einu. Æfingarnar fóru fram á glæsilegum æfinga- og keppnisvöllum Pinatar. Þá var einnig nýliðavíxla, skemmtanakvöld, go-kart kappaksturskeppni, strandarferð, verslunarferð og lokakvöldið fóru allir út að borða saman. Glæsilegur 20 manna hópur meistaraflokks ásamt þjálfurum sótti ferðina en þó nokkrir leikmenn meistaraflokksins náðu ekki að koma með vegna háskólanáms og annarra anna. Aðbúnaður var hinn besti, fjöldi æfingavalla, keppnisvöllur, glæsilegt hótel, kokkar elduðu matinn í allar máltíðir sem stundum var aðeins of hollur, flott og rúmgóð herbergi, góð sólbekkjaraðstaða og sundlaug, stutt á stöndina og á veitingastaði. Í alla staði fullkomið fyrir meistaraflokkinn.
Efsta röð: Gunnar Hauksson, Magnús Haukur Harðarson Kristinn Jóhann Laxdal . Miðröð: Marta Björgvinsdóttir, Elvý Rut Búadóttir, Lovísa María Hermannsdóttir, Petra Hjartardóttir, Eva María Smáradóttir, Elínóra Ýr Kristjánsdóttir, Guðlaug Ásgeirsdóttir og Oddný Sara Helgadóttir. Fremsta röð: Tinna Þórsdóttir, Alda Ólafsdóttir, Freyja Dís Hreinsdóttir, Aldís Tinna Traustadóttir, Ólöf Kristjana Þorvaldsdóttir, Harpa Sól Sigurðardóttir, Anna María Bergþórsdóttir og Guðrún Bára Sverrisdóttir.
ÁFRAM FJÖLNIR

Guðlaug Ásgeirsdóttir gengur til liðs við Fjölni

Guðlaug Ásgeirsdóttir hefur gengið til liðs við Fjölni. Guðlaug, sem er fædd árið 2005, er uppalin hjá Val en kemur til okkar frá KH þar sem hún lék á síðasta tímabili. Guðlaug er kantmaður, fljót og vinnusöm og með auga fyrir mörkum og stoðsendingum. Hún á að baki 30 KSÍ leiki og hefur skorað í þeim 4 mörk.
Knattspyrnudeild Fjölnis fagnar komu Guðlaugar og bindur miklar vonir við þennan hæfileikaríka leikmann.

#FélagiðOkkar

Mynd: Baldvin Örn Berndsen


Lovísa María Hermannsdóttir

Fjölnir hefur samið við Lovísu Maríu Hermannsdóttur út tímabilið 2024. Lovísa, sem er fædd árið 2001, er uppalin hjá FH en lék á síðasta tímabili með ÍH í 2. deild. Hún hefur samtals leikið 17 KSÍ leiki og skorað í þeim eitt mark. Lovísa er sókndjarfur hægri bakvörður og er frábær viðbót við þann unga og spennandi sem við erum að byggja upp.

Það er því mikið fagnaðarefni að semja við þennan sterka leikmann sem verður spennandi að fylgjast með í sumar. Knattspyrnudeild Fjölnis hlakkar til komandi tíma saman og væntir mikils af samstarfinu

#FélagiðOkkar

Mynd: Baldvin Örn Berndsen


TVÆR Í SÍNUM FYRSTA MEISTARAFLOKKSLEIK

Tvær stúlkur hjá Fjölni spiluðu sinn fyrsta meistaraflokksleik í kvöld þegar Fjölnir mætti ÍH í æfingaleik félaganna sem endaði með Fjölnis sigri 6-4.

Stúlkurnar Sara Sif Builinh Jónsdóttir og María Sól Magnúsdóttir eru báðar uppaldar hjá Fjölni.

Leikurinn var  æfingaleikur hjá meistaraflokknum og var mjög spennandi og jafn leikur þar til Fjölnis stúlkur kláruðu leikinn á loka mínútunum.

Fyrsta mark Fjölnis skoraði Alda Ólafsdóttir, þá fylgdi Marta Björgvinsdóttir eftir með annað mark liðsins, því næst Aníta Björg Sölvadóttir, þá Harpa Sól Sigurðardóttir með fjórða mark liðsins og var þá jafnt 4-4 þar til Aníta Björg Sölvadóttir kom með sitt annað mark í leiknum og færði Fjölni yfir í 5-4. Tinna Sól Þórsdóttir kom svo með lokamark leiksins og lauk leik 6-4 í verðskulduðum Fjölnis sigri. Bæði liðin munu spila í 2. deild í sumar og er stefna Fjölnis að sjálfsögðu að komast upp í Lengjudeildina.

Í leiknum í dag var öflugur hópur Fjölnis leikmanna: Elvý Rut Búadóttir, Marta Björgvinsdóttir, Adna Mestovic, Alda Ólafsdóttir, Aníta Björg Sölvadóttir, Lovísa María Hermannsdóttir, Hrafnhildur Árnadóttir, Ísabella Sara Halldórsdóttir, Tinna Sól Þórsdóttir, Guðlaug Ásgeirsdóttir, Aldís Tinna Traustadóttir, Petra Hjartardóttir, Freyja Dís Hreinsdóttir, Þórunn Eva Ármann og Vala Katrín Guðmundsdóttir.

ÁFRAM FJÖLNIR