Knattspyrnudeildin er mætt á Facebook

Knattspyrnudeild Fjölnis er nú loksins mætt á Facebook. Þar munum við sýna frá starfi deildarinnar, allt frá yngstu iðkendunum yfir í meistaraflokka félagsins.

Á síðunni má einnig koma til með að sjá tilkynningar og auglýsingar er varða leiki, viðburði og fleira.

Við hvetjum alla til að setja like á síðuna og fylgjast með Fjölni en það má með sanni segja að það sé spennandi knattspyrnusumar fram undan.

 

Samfélagsmiðlar knattspyrnudeildar

Facebookfacebook.com/fjolnirfc
Instagraminstagram.com/fjolnir_fc
Twittertwitter.com/Fjolnir_FC
Snapchat - umf.fjolnir


Heimaleikjakortin eru komin í sölu

Heimaleikjakortin eru komin í sölu og þau eru öll rafræn. Hægt að ganga frá kaupunum með einföldum hætti í gegnum vefverslunina eða á fjolnir.is/arskort

Í boði eru þrjár tegundir:

 • Ungmennakort
  • Verð: 4.900 kr.
  • Gildir fyrir einn inn á völlinn. Aldur 16-25 ára
 • Árskort
  • Verð: 15.000 kr.
  • Gildir fyrir einn inn á völlinn
 • Gullkort
  • Verð: 25.000 kr.
  • Gildir fyrir einn inn á völlinn
  • Veitir aðgang að veitingum fyrir leik og í hálfleik

Öll heimaleikjakort eru rafræn og afhendast í gegnum appið Stubbur sem er sótt í símann.

Vekjum sérstaka athygli á ungmennakortinu sem er ætlað ungu fólki á aldrinum 16-25 ára og er einstaklega góðu verði.
Kortin gilda á alla heimaleiki meistaraflokks karla og kvenna Fjölnis.

Samstaða er lykilatriði.

Eins og allir vita þá hafa verið uppi sérstakar aðstæður í þjóðfélaginu um þessar mundir. Íþróttafélög eiga undir mikið högg að sækja og stór skörð eru höggin í tekjustofna þeirra. Fjölnir er þar engin undantekning. Til að mynda þá reiðir knattspyrnudeildin sig nær eingöngu á styrki og velvild fyrirtækja, einstaklinga, tekjur af ársmiðasölu og öðrum viðburðum.

Það er mikilvægt að Fjölnissamfélagið standi saman nú sem aldrei fyrr. Þau ykkar sem hafið tök á biðjum við vinsamlegast um að ganga frá kaupum á heimaleikjakorti við fyrsta tækifæri.

Takk fyrir þinn stuðning – hann skiptir máli!


Tveir leikmenn framlengja við Fjölni

Það er okkur mikil ánægja að tilkynna það að Guðrún Helga Guðfinnsdóttir og Laila Þóroddsdóttir hafa framlengt samningum sínum við Knattspyrnudeild Fjölnis.

 

Guðrún Helga Guðfinnsdóttir er 19 ára varnarmaður sem leikið hefur 25 leiki fyrir meistaraflokk kvenna. Guðrún sem gegndi lykilhlutverki á síðasta tímabili, er uppalin hjá okkur í Grafarvoginum og sinnir einnig þjálfun yngri flokka hjá félaginu. Hér er mikil Fjölniskona á ferðinni sem verður spennandi að fylgjast með í framtíðinni.

 

Laila Þóroddsdóttir er tvítugur varnarmaður sem leikið hefur 23 leiki í meistaraflokki kvenna, þar af 12 fyrir Fjölni og skorað í þeim eitt mark. Laila er öflug viðbót við hópinn en hún kom til okkar fyrir síðasta tímabil. Áður hafði hún leikið með Álftanesi í meistaraflokki og upp alla yngri flokka hjá Stjörnunni.

 

Það er mikið fagnaðarefni fyrir Fjölni að semja við þessa ungu leikmenn en Knattspyrnudeildin væntir mikils af þeim á komandi tímabilum. #FélagiðOkkar


Margrét Ingþórsdóttir snýr aftur

Það er okkur mikil ánægja að tilkynna það að Margrét Ingþórsdóttir, hinn reynslumikli markvörður, hefur snúið aftur til okkar frá Grindavík en hún skrifaði nýlega undir samning við Fjölni.

Margrét er Fjölnisfólki vel kunn og hefur átt góð tímabil með Grafarvoginum en árið 2018 var hún valin Knattspyrnukona ársins hjá félaginu, hún á glæstan feril að baki þar sem hún hefur leikið alls 133 meistaraflokksleiki og telst því í hópi reynslumeiri markmanna landsins.
Margrét er mikilvægur hlekkur í liði Fjölnis, hennar mikla reynsla mun nýtast yngri leikmönnum vel og er hún mikil fyrirmynd yngri iðkenda og þá sérstaklega yngri markmanna.

Knattspyrnudeildin væntir mikils af Margréti og hlakkar til að sjá hana á milli stanganna í sumar. #FélagiðOkkar


Hressir fótboltakrakkar á morgunæfingu

Í mars stendur iðkendum í 3. og 4. flokki karla og kvenna hjá @fjolnir_fc til boða að mæta á morgunæfingar inni í Egilshöll. Frábært þjálfarateymi tekur á móti iðkendum með fjölbreyttum æfingum og léttri morgunhressingu í lok æfinga. 4. flokkur reið á vaðið í vikunni og mættu rétt rúmlega 50 hressir og metnaðarfullir iðkendur sem létu ljós sitt skína.

#FélagiðOkkar


VITA og Fjölnir

Ferðaskrifstofan VITA og knattspyrnudeild Fjölnis gera með sér samstarfssamning til þriggja ára.

Það er einkar ánægjulegt að tilkynna að VITA verður einn af aðalstyrktaraðilum knattspyrnudeildar Fjölnis og styður þar með við mikilvægt íþróttastarf í hverfinu.

Markmið VITA er að bjóða upp á fjölbreytt úrval ferða frá Íslandi, góða þjónustu, úrval hótela og flugkost á samkeppnishæfu verði. VITA býður upp á margskonar ferðir vítt og breitt um heiminn. Má þar m.a. nefna:

 • Sólarlandaferðir til Costa del Sol, Tenerife, Kanarí, Krítar, Portúgal, Lanzarote, Almeria og Alicante.
 • Borgarferðir, skemmtiferðasiglingar, skíðaferðir, sérferðir og ævintýraferðir víða um heim.
 • Æfingaferðir fyrir fótboltafélög, Ferðir á leiki í enska boltanum, Knattspyrnuskóli Kristjáns Bernburg, Gothia Cup o.fl.
 • Golfferðir til Spánar, Tenerife, Portúgal og Madeira.
 • Viðskiptaþjónusta VITA gefur út flugmiða með nánast öllum flugfélögum í heiminum.

Þess má geta að VITA hlaut nýverið viðurkenningu frá Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki árið 2020. VITA er til húsa í Skógarhlíð 12, 105 Reykjavík.

Þú getur úrval ferða hjá þeim á vita.is.

Á myndinni eru Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri VITA, og Kolbeinn Kristinsson, formaður knattspyrnudeildar Fjölnis.

#FélagiðOkkar

Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri VITA og Kolbeinn Kristinsson, formaður knattspyrnudeildar Fjölnis

Íslensk knattspyrna 2020 komin í forsölu

Bókin Íslensk knattspyrna 2020 eftir Víði Sigurðsson er komin í forsölu og er á leið í búðir innan skamms en þetta er í fertugasta skipti sem þessi árbók knattspyrnunnar á Íslandi kemur út. KSÍ hefur um langt árabil átt samstarf við útgefendur hennar um að í henni birtist úrslit allra leikja á Íslandsmóti og bikarkeppni á vegum sambandsins ár hvert.

Bókin er væntanleg í búðir á næstu dögum og þegar er hægt að kaupa hana í forsölunni á nýrri heimasíðu bókaflokksins, islenskknattspyrna.is. Hún er á sérstöku tilboðsverði í forsölunni auk þess sem kaupandinn getur um leið og hann gengur frá greiðslu stofnað eigin aðgang að nýrri rafrænni útgáfu á bókaflokknum í heild sinni frá 1981 til 2019.

Bókin er 272 blaðsíður og skreytt 420 myndum af liðum og leikmönnum en fjallað er ýtarlega um Íslandsmótið í öllum deildum og flokkum, landsleiki, Evrópuleiki, bikarleiki, um atvinnumennina erlendis og fjölmargt annað sem tengist íslenskum fótbolta. Talsvert aukaefni er í bókinni í ár, enda árið óvenjulegt og fótboltinn líka.


Fjölnir semur við unga leikmenn

Knattspyrnudeild Fjölnis samdi á dögunum við 4 unga og efnilega leikmenn úr 2.fl félagsins. Leikmennirnir hafa allir spilað stórt hlutverk í sínum flokkum upp yngri flokkana og bindum við vonir við að leikmennirnir brjóti sér leið inní meistaraflokkinn og spili stórt hlutverk þar í framtíðinni.
á meðfylgjandi mynd eru leikmennirnir ásamt Gunnari Má yfirþjálfari – frá hægri Aron fannar Hreinsson, Sigurður Agnar Br. Arnþórsson, Arnar Ragnars Guðjohnsen og Sölvi Sigmarsson


Sjö leikmenn framlengja við Knattspyrnudeild Fjölnis

Nýverið framlengdu sjö ungir leikmenn samninga sína við meistaraflokk kvenna í knattspyrnu. Þetta eru þær Aníta Björg Sölvadóttir, Ásdís Birna Þórarinsdóttir, Hjördís Erla Björnsdóttir, Hrafnhildur Árnadóttir, Lilja Hanat, Lilja Nótt Lárusdóttir og María Eir Magnúsdóttir. Allar eiga þær sameiginlegt að vera uppaldar hjá Fjölni og munu vera mikilvægur partur af liðinu sem mun leika í 2. deild á komandi sumri. Samningar leikmannanna gilda til loka árs 2022.

Aníta Björg Sölvadóttir: 18 ára sóknarmaður / 25 KSÍ leikir í meistaraflokki

Ásdís Birna Þórarinsdóttir: 18 ára miðjumaður / 26 KSÍ leikir í meistaraflokki

Hjördís Erla Björnsdóttir: 18 ára miðjumaður / 29 KSÍ leikir í meistaraflokki / 4 leikir fyrir U17 landslið Íslands

Hrafnhildur Árnadóttir: 17 ára varnar- og miðjumaður / 39 KSÍ leikir í meistaraflokki

Lilja Hanat: 18 ára varnarmaður / 3 KSÍ leikir í meistaraflokki

Lilja Nótt Lárusdóttir 19 ára sóknarmaður / 41 KSÍ leikir í meistaraflokki

María Eir Magnúsdóttir 19 ára miðju- og sóknarmaður / 17 KSÍ leikir í meistaraflokki

Það er mikið fagnaðarefni fyrir Fjölni að semja við þessa uppöldu leikmenn. Knattspyrnudeildin hlakkar til komandi tímabila saman og væntir jafnframt mikils af þessum góðu og efnilegu leikmönnum sem eiga svo sannarlega bjarta framtíð hjá félaginu.

#FélagiðOkkar