Dómaranámskeið KKÍ

Ert þú næsti FIBA dómari?

Laugardaginn 17. október mun körfuknattleikssambandið halda dómaranámskeið.

Áætlað er að það standi yfir milli kl. 09:30 og 16:00. Um er að ræða námskeið sem fer einungis fram á netinu.

Það er hagur hreyfingarinnar að fjölga góðum og efnilegum dómurum og því hvetjum við alla félagsmenn til að skrá sig.

Skráning fer fram með því að smella HÉR!

#FélagiðOkkar


Búið er að opna fyrir skráningar á haustönn 2020

Í dag 15. júlí var opnað fyrir skráningar í flest allar greinar hjá félaginu fyrir haustönn 2020.

Allar skráningar fara fram  í Nora skráningakerfi félagsins https://fjolnir.felog.is/

Við hvetjum foreldra til að skoða fjölbreytt úrval íþrótta í Fjölni!

#FélagiðOkkar


Framhaldsaðalfundur körfuknattleiksdeildar

Aðalfundir deilda félagsins eru haldnir á eftirfarandi dögum:

04.03.2020 kl. 20:00 – Körfuknattleiksdeild (Egilshöll)

Dagskrá framhaldsaðalfundar skal vera:

d) Kjör formanns
e) Kjör stjórnarmanna

17. grein

Stjórn hverrar deildar skal skipuð minnst fimm mönnum, formanni sem kosinn er á aðalfundi viðkomandi deildar og fjórum meðstjórnendum, ásamt tveimur til vara einnig kjörnum á aðalfundinum.

Lög fjölnis https://fjolnir.is/felagid-okkar/log-felagsins/

#FélagiðOkkar


Við sækjum jólatré

Gleðilegt nýtt ár! 🎄

Sækjum jólatré heim að dyrum dagana 5. – 6. janúar.

Verð: 2.000 kr. millifært á 0114-26-9292 kt. 670900-3120.

Tölvupóstur: karfa@fjolnir.is (millifærslukvittun, heimilisfang, nafn, símanr. og staðsetning á jólatré).


Frábær mæting á dómaranámskeiðið

Dómaranámskeiðið var haldið miðvikudagskvöldið 23. október sl. í Dalhúsum og frítt inn fyrir allt Fjölnisfólk. Námskeiðið gekk vel en alls voru 18 sem mættu, og var fólk af öllum aldri komið til að bæta körfuboltaþekkingu sína.

Kennari námskeiðsins var Jón Bender, formaður Dómaranefndar, og honum til aðstoðar var Halldór Geir Jensson dómari. Þeir félagar fóru yfir helstu reglur og í gegnum löglega varnarstöðu, staðsetningar á velli, hvernig á að flauta í flautuna og merkjagjöf.

Þátttakendur hafa nú lokið grunnstiginu í dómgæslu og eru því með réttindi til að dæma hjá grunnskólaaldri. Þeir sem vilja halda áfram og taka annað stigið fá réttindi til að dæma alla leiki nema tvær efstu deildir karla og kvenna.

Virkilega vel gert hjá Fjölni að ná svona góðri mætingu, og voru þátttakendur mjög sáttir eftir námskeiðið sem og leiðbeinendur. Það er jákvætt fyrir okkar vaxandi starf að fólk sýni þennan áhuga á fræðslu í íþróttinni, en það er henni sem og starfinu okkar, til uppdráttar.

Áfram Fjölnir!


Frítt dómaranámskeið 23. október

Jón Bender mun halda dómaranámskeið fyrir Fjölnisfólk í Dalhúsum 23. október kl. 19:30 – öllum að kostnaðarlausu. Námskeiðið er opið öllum foreldrum og áhugafólki um körfubolta í Fjölni, sem og iðkendum sem eru í 9. flokki eða ofar.

Jón Bender er körfuboltafólki kunnugur en hann hefur dæmt körfubolta í fjöldamörg ár og situr núna sem formaður Dómaranefndar, og hefur gert undanfarin ár. Það er því um hágæða körfuknattleiksvitneskju að ræða hérna.

Við hvetjum alla foreldra sem vilja kynna sér leikinn frekar að kíkja upp í Dalhús, sem og alla iðkendur (9. flokk og eldri) sem vilja gera aðeins meira til að bæta sig í íþróttinni.

Það eru ekki mörg frí námskeið, af þessum mælikvarða, sem hægt er að sækja til að efla sig og bæta við sig þekkingu. Þetta er námskeið sem allir ættu að skrifa á dagatalið sitt.

Viðburðinn má finna á Facebook hérna.


Sjálfboðaliðinn

Hvað er körfuboltalið án leikmanna?
Frekar augljóst svarið; það væri náttúrulega ekkert lið. Kjánaleg spurning í raun.

En hvað er körfuboltadeild án sjálfboðaliða?
Það er aftur á móti spurning sem ekkert alltof margir gera sér grein fyrir vægi svarsins. Ef ekki væri fyrir fólkið sem gefur deildinni þessa nokkra auka klukkutíma á viku, sem annars færu í Netflix, símann eða annan dauðan tíma, þá væri lítið sem ekkert starf á lífi.

Það er þessu fólki að þakka að áhorfandinn fái sem bestu upplifunina á leikjum, þeim að þakka að bestu leikmenn landsins sæki í að koma til liðs við klúbbinn vegna hve allt gengur smurt, þeim að þakka að foreldrar vilja halda barninu sínu í íþróttinni því það er alltaf fundin lausn á málunum.

Þetta fólk er í raun mikilvægustu hlekkirnir í fjölbreyttu starfi körfuboltadeildarinnar og biðja aldrei um viðurkenningu eða laun fyrir starfið sitt. Þau passa að við fáum strax myndir á netið frá leik dagsins, sjá til þess að það sé heitt á könnunni á hverjum viðburði sem áhorfandinn mætir á, sjá til þess að allt skipulag á fjölliðamótum gangi smurlaust fyrir sig, sjá til þess að aðstandendur lengra frá geti horft á leikina beint í gegnum netið, sem sjá til þess að ráða bestu þjálfarana fyrir börnin okkar.

Ef ekki væri fyrir sjálfboðaliðann þá væri ekkert körfuboltastarf, og þá eigum við ekkert lið í Domino’s deildinni eða blómlegt yngri flokka starf sem hægt er að státa sig af.

Tveir klukkutímar á viku hljóma kannski ekki eins og langur tími fyrir venjulega manneskju, en fyrir körfuboltadeildina eru það dýrmætir tveir tímar uppá að allir sem koma að starfinu, eða viðburðinum, beint eða óbeint, njóta góðs af. Við eigum öll til að mikla fyrir okkur verkefni sem eru fyrir framan okkur. Byrja að mæta í ræktina eftir pásu, taka til í geymslunni, mála pallinn, eða byrja heimildarvinnu fyrir ritgerðina, en lykillinn er eins og í öllu að rífa sig bara af stað.

Hér með er þá áskorun, á þig sem lest þetta, að taka bara af skarið og verða hluti af mikilvægasta hlekknum í körfuboltadeildinni. Svo skemmir ekki fyrir hvað þetta er góður félagsskapur.

Sendu tölvupóst, eða hafðu samband í gegnum Facebook síðu okkar. Við hlökkum til að heyra frá þér.

Áfram Fjölnir – alltaf, allstaðar.


Stuðningsmannakort körfuknattleiksdeildarinnar

Stuðningsmannakortin eru komin út og tilbúin fyrir grjótharða Fjölnismenn! Salan er í fullum gangi og eru þrennskonar kort í boði. Um að gera að tryggja sér kort fyrir fyrstu umferð Domino’s deildarinnar sem hefst fimmtudaginn 3. október nk.

Árskortið er miði á alla heimaleiki meistaraflokks kvenna og karla, fyrir utan bikarleiki, ásamt 50% afslætti fyrir einn gest. Verð 20.000 krónur.

Bakhjarl er miði á alla heimaleiki meistaraflokks kvenna og karla, fyrir utan bikarleiki, ásamt 50% afslætti fyrir einn gest. Þar að auki er hægt að boða þjálfara hvers liðs á tvo fundi yfir tímabilið sem og frítt kaffi í leikjum. Verð 35.000 krónur.

Myndakortið er miði á alla heimaleiki meistaraflokks kvenna og karla, fyrir utan bikarleiki, ásamt 50% afslætti fyrir einn gest. Þessu korti fylgir einnig tækifærismyndataka úti eða í stúdíói Ljósmyndir og Myndbönd vorið 2020 (innifaldar 30 fullunnar ljósmyndir í bestu stafrænum gæðum. Verð 40.000 krónur – ath. aðeins 8 kort í boði.

Kortin er hægt að kaupa HÉR og bjóðum við uppá greiðsludreifingu hjá Nóra.

Takk fyrir stuðninginn! Hann skiptir máli.


Sambíómótið 2019

Körfuknattleiksdeild Fjölnis í samvinnu við SAMbíóin Egilshöll heldur enn eitt árið stórmót í körfuknattleik fyrir yngstu iðkendurnar.

Þátttakendur á mótinu eru stelpur og strákar fædd 2008 og síðar. Á síðasta ári mættu um 700 þátttakendur frá öllu landinu ásamt fjölskyldum sínum, liðsstjórum og þjálfurum.

Mótið fer fram fyrstu helgina í nóvember líkt og síðustu ár, þ.e. helgina 2. – 3. nóvember 2019.

Mótið er frábær fjölskylduskemmtun þar sem m.a. er boðið upp á fullt af körfubolta, bíó, sund, hrekkjavökustemmingu, andlitsmálun og ruslapokabúningagerð fyrir blysför og kvöldvöku, gistingu, mat, pizzuveislu og verðlaun.

Allir þátttakendur fara heim með veglegan Spalding körfubolta.

Að venju verður ekki keppt um sætin og stigin eru ekki talin opinberlega, heldur verður það leikgleðin sem ræður ríkjum og fá allir keppendur verðlaunapening að móti loknu. Mót þetta hefur skipað sér sess í stórmótum vetrarins og þar má jafnan sjá fullt af væntanlegum stórstjörnum, bæði hjá stelpum og strákum.

Þarna sjást oft tilvonandi þjálfarar í efstu deildum sem gjarnan stíga sín fyrstu skref með yngri körfuboltakrakka.

Skráningu lýkur 19. október, og allar nánari upplýsingar má finna inná heimasíðu mótsins HÉR.