Margrét Ingþórsdóttir snýr aftur

Það er okkur mikil ánægja að tilkynna það að Margrét Ingþórsdóttir, hinn reynslumikli markvörður, hefur snúið aftur til okkar frá Grindavík en hún skrifaði nýlega undir samning við Fjölni.

Margrét er Fjölnisfólki vel kunn og hefur átt góð tímabil með Grafarvoginum en árið 2018 var hún valin Knattspyrnukona ársins hjá félaginu, hún á glæstan feril að baki þar sem hún hefur leikið alls 133 meistaraflokksleiki og telst því í hópi reynslumeiri markmanna landsins.
Margrét er mikilvægur hlekkur í liði Fjölnis, hennar mikla reynsla mun nýtast yngri leikmönnum vel og er hún mikil fyrirmynd yngri iðkenda og þá sérstaklega yngri markmanna.

Knattspyrnudeildin væntir mikils af Margréti og hlakkar til að sjá hana á milli stanganna í sumar. #FélagiðOkkar


Hertar aðgerðir stjórnvalda

Stjórnvöld kynntu stórhertar sóttvarnaraðgerðir á fundi sínum í Hörpu í gær sem tóku gildi á miðnætti og munu gilda í 3 vikur eða til og með 15. apríl næstkomandi.

Nánar má lesa um aðgerðinar með því að smella HÉR.

Allt æfinga og mótahald er óheimilt á þessu tímabili en fram kom í ræðu heilbrigðisráðherra að:

„Inni- og útiíþróttir verða óheimilar þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra bil milli fólks eða þar sem hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar, sundstaðir verða lokaðir sem og líkamsræktarstöðvar. Sviðslistastarf verður óheimilt, bæði æfingar og sýningahald.“ 

Hvaða áhrif hafa þessar hertu aðgerðir á okkur?

Æfinga- og félagssvæði Fjölnis er lokað frá og með 25. mars og til og með 15. apríl.

Þetta nær yfir:

  • Æfinga- og keppnissvæði í og við Dalhús og Egilshöll
  • Skrifstofu Fjölnis og félagaðstöðu í Egilshöll

Við beinum því til þjálfara félagsins að hvetja iðkendur til að sinna æfingum heima, halda fjaræfingar og leggja fyrir verkefni til að stytta biðina. Við kunnum þetta.

Starfsfólk Fjölnis eru til taks á skrifstofunni fyrir félagsmenn sem þurfa að ná í eigur. Vinsamlega hafið samband við Guðmund á gummi@fjolnir.is eða Arnór á arnor@fjolnir.is.

#FélagiðOkkar


Fræðslufyrirlestraröð hjá handboltanum

Undanfarnar vikur hefur barna- og unglingaráð Fjölnis boðið iðkendum sínum upp á áhugaverða fræðslu frábærra fyrirlesara. Hreiðar Haraldsson frá Haus hugarþjálfun ræddi um afrekshugarfar við 3. og 4.flokk félagsins, Arnar Sölvi Arnmundsson íþróttanæringarfræðingur fór yfir hvernig næring getur skipt miklu máli í íþróttum fyrir 4. og 5.flokk og loks ræddi Pálmar Ragnarsson við 5. og 6.flokk um jákvæð samskipti til að byggja upp sterka liðsheild og öfluga leiðtoga.
Við þökkum fyrirlesurunum kærlega fyrir fræðsluna og vonum að iðkendurnir okkar muni nýta sér þessa fyrirlestraröð til að verða enn betri íþróttamenn.

Fréttatilkynning vegna komandi takmarkanna

Við viljum beina því til þjálfara, foreldra og iðkenda að vísa í fréttir af komandi takmörkunum á heimasíðu félagsins sem og FB síðu. Við munum uppfæra stöðuna um leið og ráðuneytið og ÍSÍ gefur út á sínum miðlum.

Eins og við höfum gert vel þá þurfum við að bretta upp ermar, standa þétt saman og koma okkur í gegnum komandi takmarkanir.

#FélagiðOkkar


Strákarnir okkar stóðu sig vel

Um helgina fór fram Íslandsmót í áhaldafimleikum en Fjölnir átti fjóra keppendur í unglingaflokki karla. Á laugardag  fór fram keppni í fjölþraut, en þar gerði Sigurður Ari Stefánsson sér lítið fyrir og hafnaði í öðru sæti. Á sunnudeginum var svo keppt á einstökum áhöldum. Þar var Sigurður Ari Stefánsson Íslandsmeistari unglinga á stökk og hann hafnaði svo í  3. sæti á svifrá. Davíð Goði Jóhannsson hafnaði í 3. sæti á gólfi, hringjum, stökki og tvíslá og Bjartþór Steinn Alexandersson hafnaði í 3. sæti á bogahesti. Eliot Mar Rebora stóð sig einnig vel á mótinu en Eliot er með aldur til keppni í drengjaflokki og á framtíðina fyrir sér.

 

Við óskum strákunum okkar innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur.

 

Áfram Fjölnir.


Íþrótta- og tómstundastyrkur vegna áhrifa af Covid-19

Vinsamlegast ath. að umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til 15. apríl og gildir fyrir skráningar á haustönn 2020 og vorönn 2021.

Félagsmálaráðuneytið hefur opnað fyrir umsóknir á íþrótta- og tómstundastyrkjum fyrir börn sem koma frá tekjulágum heimilum.

Markmiðið er að jafna tækifæri til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Styrkirnir eru óháðir hefðbundnum íþrótta- og tómstundastyrkjum sveitarfélaga.

Við kynningu á styrknum sagði Ásmundur Einar Daðason, félags og barnamálaráðherra: ,,Covid-19 faraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á allt íþrótta- og tómstundastarf í landinu. Þegar þrengir að fjárhag fjölskyldna er mikil hætta á að þær dragi úr þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi og það á sérstaklega við um fjölskyldur í neðri hluta tekjudreifingarinnar. Rannsóknir sýna að íþróttir og frístundir hafa forvarnargildi og því er gríðarlega mikilvægt að við gerum allt sem við getum til að koma í veg fyrir brottfall hjá krökkum í íþróttum og tómstundum vegna faraldursins.”

Svona má sækja um styrk

Hægt er að sækja um styrk fyrir börn sem fædd eru á árunum 2005-2014 og búa á heimili þar sem heildartekjur heimilisins voru að meðaltali lægri en 740.000 kr. á mánuði á tímabilinu mars – júlí 2020. Styrkurinn er 45.000 kr. á hvert barn og um 13.000 börn eiga rétt á styrknum.

Afreiðsla styrkumsókna er á höndum sveitarfélaga landsins eftir að búið er að kanna rétt til styrksins inni á Island.is.
Nánari upplýsingar og leiðbeiningar má sjá hér.

Styrkina er m.a. hægt að nýta til niðurgreiðslu á þátttökugjöldum vegna íþróttaiðkunar. Sveitarfélög setja reglur um úthlutun stykjanna og getur fyrirkomulag verið breytilegt. Kynningarefni vegna styrksins hefur verið útbúið á fjölda tungumála.

Rannsóknir hafa sýnt að mikilvægt er að halda sem flestum börnum virkum í íþrótta- og frístundastarfi og tryggja jafnt aðgengi barna og unglinga að slíku starfi. Lögð hefur verið áhersla á að ná til sem flestra forráðamanna og hefur því verið komið af stað kynningarátaki á fjölda tungumála um íþrótta- og tómstundastyrkina.

Félagsmálaráðuneytið hefur gert myndbönd á níu tungumálum til kynningar á styrkjunum og má finna þau á linknum hér fyrir neðan / Ministry of Social Affairs has published videos in nine languages to introduce the subsidy and can be found on the link below:

https://www.youtube.com/channel/UC-Kaj_-DYRuKbbs_PKS2CqQ/videos


Fréttir af Vormóti ÍSS og Kristalsmóti

Það er heldur betur viðburðarík helgi hjá okkur á skautasvellinu um helgina. Um 110 keppendur voru skráðir til leiks á Kristalsmóti og Vormóti ÍSS og fór fyrri hluti mótanna fram í dag.

Keppni á Kristalsmótinu hófst kl. 08:00 í morgun og voru það keppendur í 6 ára og yngri og 8 ára og yngri sem fóru fyrstir inn á ísinn. Fjórir keppendur tóku þátt í flokki 6 ára og yngri. Í flokki 8 ára og yngri voru 10 keppendur, Perla Gabriela Giraldo Ægisdóttir var okkar fulltrúi í þeim hópi og stóð sig með prýði. Næst tók við keppni í flokki 10 ára og yngri voru 14 keppendur skráðir til leiks og áttum við þar 4 keppendur, Örnu Dís Gísladóttur, Margréti Ástrósu Magnúsdóttur, Selmu Kristínu S. Blandon og Unu Lind Otterstedt, sýndu þær æfingar sýnar af miklu öryggi og stóðu sig vel. Keppendur í flokkum 6, 8 og 10 ára og yngri fengu viðurkenningar fyrir þátttöku en ekki er raðað í verðlaunasæti í þeim flokkum. Því næst tók við keppni í flokki 12 ára og yngri og voru þar skráðar til leiks 11 stúlkur og 1 drengur, Líva Lapa og Ísabella Jóna Sigurðardóttir úr Fjölni kepptu í þeim flokki og stóðu sig mjög vel og hreppti Ísabella Jóna fyrsta sætið. Að lokum tók við keppni í SO flokkum og voru þar skráðar til leiks 12 stúlkur og 1 drengur. Eftir það var gert hlé á Kristalsmóti þangað til í fyrramálið.

Eftir hádegi var komið að keppni á Vormóti ÍSS. Keppni hófst á skylduæfingum hjá Advanced Novice, þar voru aðeins þrír skautarar. Tanja Rut Guðmundsdóttir úr Fjölni var önnur á ísinn og gekk ágætlega, hún endaði í þriðja sæti eftir fyrri daginn með 21,45 stig. Næst tóku við skylduæfingar hjá Junior Ladies þar sem voru einnig aðeins þrír skautarar. Þar áttum við tvo fulltrúa, þær Júlíu Sylvíu Gunnarsdóttur og Lenu Rut Ásgeirsdóttur. Lena var fyrst á ísinn og skautaði gott prógram náði nýju persónulegu meti í stuttu prógrammi með 27,76 stig. Júlía Sylvía var næst á ísinn og gekk ágætlega og endaði með 32,88 stig eftir fyrri daginn. Eru þær í öðru og þriðja sæti eftir fyrri keppnisdag. Næst á ísinn komu Senior Ladies með skylduæfingar og voru þar tveir skautarar skráðir til leiks, Herdís Birna Hjaltalín tók þátt á sínu fyrsta móti sem Senior skautari. Herdísi gekk nokkuð vel og endaði með 31,35 stig og í fyrsta sæti eftir stutt prógram.

Næst tók við keppni í Basic Novice, þar voru 13 keppendur og áttum við tvær Fjölnisstelpur í þeim flokki, þær Elvu Íseyju Hlynsdóttur og Írisi Maríu Ragnarsdóttur. Stelpurnar stóðu sig nokkuð vel en ansi mjótt var á milli stiga hjá keppendum í flokknum. Endaði Íris María í 8. sæti með 19,34 stig og Elva Ísey í 3. sæti með 24,10 stig. Næst stigu á ísinn keppendur í Intermediate Novice þar sem 5 skautarar tóku þátt, þar áttum við þrjá keppendur þær, Rakel Söru Kristinsdóttur, Andreu Marín Einarsdóttur og Söndru Hlín Björnsdóttur, stóðu stelpurnar sig vel og lenti Rakel Sara í öðru sæti með 24,04 stig. Sandra Hlín og Andrea Marín áttu ekki jafn góðan dag, en eiga nóg inni fyrir okkur næst. Að lokum var keppni í Intermediate Ladies og tók þar 1 skautari þátt. Eftir það var gert hlé á keppni þangað til í fyrramálið.

Á sunnudeginum hélt Kristalsmótið áfram og byrjaði á keppni í flokki 14 ára og yngri þar sem voru 7 keppendur, þar áttum við tvo skautara, Ástu Lovísu Vilhjálmsdóttur og Kaylu Amy Eleanor Harðardóttur. Stóðu þær sig vel og lenti Ásta Lovísa í fyrsta sæti í flokknum. Næst var keppni í flokkum 15 ára og eldri og 25 ára og eldri, en þar voru tveir keppendur í sitthvorum flokknum. Alrún María Skarphéðinsdóttir keppti í flokki 25 ára og eldri og skautaði gott prógram og var hún í fyrsta sæti. Þar með var keppni á Kristalsmótinu 2021 lokið.

Þá var komið að seinnihluta Vormóts ÍSS. Fyrst var keppni í yngri flokkunum Chicks og Cubs, en ekki eru veitt verðlaun eða birt úrslit í þeim flokkum. Í flokki Chicks voru 5 skautarar, þar á meðal okkar Ermenga Sunna Víkingsdóttir sem stóð sig vel. Gaman var að sjá fjölgun í flokknum milli móta. Næsti var keppni í Cubs flokkum, þar voru 7 skautarar, 6 stúlkur og 1 drengur. Okkar skautarar, Arína Ásta og Elín Katla stóðu sig vel. Að því loknu var komið að keppni í frjálsu prógrammi hjá Advanced Novice, Junior og Senior sem skautuðu stutta prógrammið með skylduæfingunum á laugardeginum. Tönju Rut skautaði gott prógram með minniháttar mistökum í Advanced Novice og fékk hún 36,85 stig fyrir frjálsa prógramið og endaði hún með 58,30 í heildarstig fyrir bæði prógröm og í þriðja sæti í flokknum. Lena Rut var aftur fyrst á ísinn í Junior Ladies og gekk ágætlega og endaði hún með 41.65 stig fyrir frjálsa prógramið og endaði hún með 69,41 í heildarstig fyrir bæði prógröm og í þriðja sæti í flokknum. Júlía Sylvía var önnur á ísinn og og gekk ágætlega, átti m.a. góða tilraun í þrefalt salchow og endaði hún með 55,37 stig fyrir frjálsa prógramið og endaði hún með 88,25 í heildarstig fyrir bæði prógröm og í öðru sæti í flokknum. Að lokum var keppni í Senior Ladies og var Herdís Birna önnur á ísinn, gekk henni vel þó stökkin hafi aðeins verið að stríða henni. Fékk hún 66,40 stig fyrir frjálsa prógramið og fékk hún samanlagt 97,75 fyrir bæði prógröm og endaði í 2. sæti á mótinu.

Yfir heildina gekk Fjölnisskauturum mjög vel og mátti sjá miklar framfarir frá seinasta móti, þá sérstaklega í Félagalínunni þar sem ekki hefur verið mót síðan í september. Við þökkum kærlega fyrir samveruna á mótinu, þá keppendum, þjálfurum, foreldrum, sjálfboðaliðum og starfsfólki.

 

Myndir frá mótinu má nálgast hér


Ofurhetjumót Gróttu

Ofurhetjumót Gróttu fór fram um helgina og átti Fjölnir bæði stúlkur og stráka sem tóku þátt á mótinu.

Iðkendur Fjölnis skemmtu sér vel á mótinu og stóðu sig eins og hetjur.
Það verður gaman að fylgjast með þessum flottu iðkendum keppa á næsta móti :)


Vormót ÍSS og Kristalsmót

Framundan er viðburðarík helgi hjá okkur á skautasvellinu í Egilshöll. En dagana 12. – 14. mars fara fram tvö listskautamót, annars vegar Kristalsmótið og hins vegar Vormót ÍSS. Vormótið er síðasta mótið í Bikarmótaröð ÍSS og verða Bikarmeistarar þessa tímabils krýndir í lok mótsins.

Vormót ÍSS

Dagskrá Vormóts má finna hér.

Keppnisröð og úrslit má finna hér.

Facebook viðburð mótsins má finna hér.

Kristalsmót

Skráningu á Kristalsmótið lýkur föstudaginn 5. mars en allar upplýsingar um mótið má finna í mótstilkynningunni.

Dagskrá Kristalsmótsins má finna hér.

Keppnisröð Kristalsmótsins má finna hér.

Facebook viðburð mótsins má finna hér.

Mikilvægar upplýsingar

Sóttvarnarreglur

  • Allir gestir þurfa að finna sér sæti og mega ekki vera andspænis hver öðrum
  • Gestir mega ekki fara í búningsklefana
  • Allir gestir þurfa að nota andlitsgrímu
  • Tryggja þarf að fjarlægð milli ótengdra gesta sé a.m.k. 1 metri
  • Gestir mega ekki hópast saman við verðlaunaafhendingu
  • Allir gestir þurfa að forskrá sig og tilkynna sig í móttöku við komu

Mikilvægt er að allir áhorfendur sem eru 16 ára og eldri forskrái sig á mótið í gegnum þennan tengil

*Forskráningu lýkur fimmtudaginn 11. mars