Upplýsingar


Almennt

Ný námskeið haustannar hefjast 21. ágúst 2023. Verið velkomin að koma og prófa æfingu.

Allir sem eru að hefja skautanám byrja í Skautaskólanum sem er fyrsti áfangi innan listhlaupadeildarinnar. Aðalmarkmiðið með skautakennslu á fyrstu árunum er að styrkja innri áhuga iðkenda með það fyrir augum að iðkendur njóti ástundunarinnar, finnist skemmtilegt í íþróttum og lagður er grunnur að íþróttaiðkun til framtíðar. Þegar ákveðinni getu er náð er iðkandanum boðið að færa sig yfir í framhaldshópana (Hóp 4) þar sem æfingar eru oftar í viku og eru meira krefjandi.

Skautaskólinn er einnig fyrir fólk sem hefur áhuga á að skauta sér til skemmtunar. Það eru æfingar fyrir unglinga og fullorðna sem henta bæði byrjendum en einnig þeim sem hafa æft skauta áður.

Innan Skautaskólans eru fimm hópar; ísbirnir, hópur 5, unglingahópur og fullorðinshópur. Iðkendur allra flokka æfa 2-3x á ís í viku og hópur 5 æfir einnig í íþróttasal (afís).

Ef það eru einhverjar spurningar vinsamlegast sendið fyrirspurn á yfirþjálfara Skautaskólans (listskautaskoli@fjolnir.is) eða á skautastjóra (skautastjori@fjolnir.is)

 

Kennslufyrirkomulag

Allir þjálfarar listhlaupadeildar kenna eftir grunnnámsskrá Skautasambands Íslands ‚Skautum regnbogann‘. Námsskráin er samansett af 7 stiga kerfi (rauður, gulur, grænn, appelsínugulur, blár, fjólublár og hvítur skauti) sem inniheldur kennsluaðferðir með þrepaskiptum markmiðum í sveigjanlegu og skemmtilegu námsumhverfi. Skautum regnbogann veitir skauturum góðan grunn og þjónar skauturum sem hafa áhuga á að nýta íþróttina sem tómstundagaman og einnig þeim sem huga seinna meir að keppni.

Skautum regnbogann leggur höfuðáherslu á að byggja upp grunnskautafærni á markvissan hátt. Stigin (skautarnir) innihalda margvíslegar æfingar sem allar stuðla að góðri undirstöðu innan íþróttarinnar. Farið er frá því einfalda til hins flókna í öllum áföngum kerfisins og hentar kerfið öllum nýjum skauturum sama hvort um er að ræða byrjendur eða aðeins lengra komnum.

Undirstöðuatriði íþróttarinnar eru eftirfarandi:

  • Líkamsburður og líkamshalli
  • Notkun á hnjám – að beygja hné
  • Notkun á ökklum
  • Rennsli
  • Brúnir, notkun brúna og notkun líkamsþyngdar
  • Taktur og samhæfing
  • Aukning á hraða og takti smám saman
  • Rétt spyrna

Skautum regnbogann er byggt á ofangreindum atriðum og kerfið veitir skautaranum góðan grunn ásamt því að styrkja stöðu hans innan íþróttarinnar í framtíðinni.

Skautarar eru stöðugt undir mati þjálfara og fá skautanælu þegar ákveðnu getustigi er náð og eru þau í sitthvorum litum eftir því hvaða stigi var verið að ljúka. Hvert stig inniheldur 10-12 æfingar sem skautari þarf að læra áður en mat fer fram. Þar sem listskautaíþróttin er einstaklingsíþrótt þá þurfa iðkendur og foreldrar að gæta þess að bera ekki einstaklinga saman og að fara fram á sama markmið fyrir alla. Skautarar fara í gegnum æfingarnar á mismunandi hraða þar sem sumir ná fyrr tökum á æfingunum en fyrir aðra getur það tekið lengri tíma. Má nefna að það getur tekið allt að 4 árum að ná efsta stigi (hvíta skautanum) en það hefur komið fyrir einstaka sinnum að skautari hafi náð því innan árs.

Afísæfingar eru mikilvægur hluti þjálfunar skautara. Á afís er markmið að bæta jafnvægi, þol, styrk og liðleika. Er það gert með æfingum og leikjum.

 

Reglur Skautaskólans

  • Iðkendur eiga að fara í viðkomandi klefa þegar mætt er á æfingar
  • Iðkendur verða að fara í skautana í klefunum eða í anddyri við innganginn
  • Iðkendur eiga ávallt að mæta tímanlega fyrir ísæfingu (5 mínútur) og sitja á bekkjum undir gluggunum við svellið þar til þjálfari kemur og opnar hliðið
  • Iðkendur mega ekki fara á svellið nema að þjálfari er á svæðinu
  • Iðkandi fer ávallt eftir fyrirmælum þjálfara og starfsmanna Egilshallar
  • Ganga skal vel um búningsklefa sem og aðra staði innan Egilshallar
  • Iðkendur taka fullan þátt á æfingunum og trufla ekki aðra iðkendur, t.d. með spjalli á meðan æfing stendur yfir
  • Iðkandi fer strax heim að lokinni æfingu (innan 30 mín). Foreldrar bera ábyrgð á að sækja börnin þar sem þjálfarar eru í frekari kennslu eða á þjálfarafundum í lok dags
  • Í lok hverrar ísæfingar eiga iðkendur að fara í klefa eða anddyri til að fara úr skautunum
  • Það er ekki leyfilegt að borða nesti í klefum, en hægt er að borða nesti frammi í anddyri við svellið, fyrir framan íþróttasalinn eða í félagsheimilinu
  • Iðkendur eiga að fara sjálfir í íþróttasal fyrir afístíma og vera mættir þar tímanlega

Foreldrar

  • Eiga að láta yfirþjálfara vita ef um ofnæmi, sjúkdóm eða sérþarfi er um að ræða (Ath. upplýsingar eru trúnaðarmál)
  • Eiga að sjá um að iðkendur mæti tímanlega svo að skautarinn komi ekki of seint á æfingu
  • Eiga að hjálpa börnum sínum í skauta, en þjálfarar sjá ekki um að hafa iðkendur tilbúna fyrir kennslu
  • Eiga að vera til taks fyrir yngstu iðkendurnar á meðan á æfingu stendur
  • Eru hvattir til að fylgjast með æfingu barna sinna úr stúkunni
  • Er ekki heimilt að trufla þjálfun með því að hafa samskipti við barnið eða þjálfara meðan æfingu stendur
  • Mega ekki sitja eða standa við svæðið fyrir aftan svellið, en það er svæði fyrir skautara og þjálfara
  • Eiga að virða vinnusvæði þjálfara og iðkenda. Foreldrar eiga því ekki að vera á ísnum eða í íþróttasal á meðan þjálfun stendur yfir
  • Foreldrar yngstu iðkendanna bera ábyrgð á að börn komi sér sjálf í íþróttasal fyrir afísæfingar
  • Tilkynna skal veikindi eða forföll

Búningsklefar

Skautaskólinn hefur aðgang að klefum 2 og 3 á skautasvellinu og eru klefarnir vinstra megin þegar komið er inn um aðalinngang skautasvellsins. Best er að mæta korteri áður en æfingin byrjar á svellinu til að hafa nægan tíma að klæða sig í.

Klæðnaður og búnaður á æfingu

Iðkendur skulu koma í hlýjum og teygjanlegum fötum á æfingu, mjög gott að vera í flísbuxum og flíspeysu. Mikilvægt er að iðkendur séu með vettlinga á svellinu. Hjálmar eru æskilegir fyrir alla byrjendur, hægt er að fá lánaða hjálma í höllinni. Best er að vera með sína eigin skauta en hægt er að fá lánaða skauta í höllinni. Á afís skal koma í íþróttafötum og strigaskóm. Gott er að taka með sér vatnsbrúsa á æfingu og smá nesti.

Breyting á æfingatímum

Það kemur fyrir að við þurfum að fresta/breyta eða aflýsa æfingum um helgar vegna móta eða námskeiða hjá sérsamböndum (Skautasambands Íslands eða Íshokkísambands Íslands). Æfingum sem þarf að fresta/breyta reynum við að færa yfir á anna dag ef það er hægt. Upplýsingar um breytta æfingatíma koma fram í Sideline skipulagsappinu.

Skautar

Við hvetjum alla iðkendur til þess að koma með sína eigin skauta, leðurskauta ef kostur er. Góðir byrjendaskautar fást t.d í Pollyönnu í Kópavogi og Everest. Við mælum með að nemendur og/eða foreldrar/forráðamenn leiti aðstoðar hjá þjálfurum við val á skautum. Mikilvægt er að skautar séu í réttri stærð og stífleiki þeirra henti fyrir þær æfingar sem skautarinn er að vinna í hverju sinni. Nauðsynlegt er að skerpa blöðin fyrir fyrstu notkun. Egilshöllin er með skerpingarþjónustu. Það þarf að skerpa að lágmarki einu sinna á önn. Nauðsynlegt er að eiga skautahlífar til þess að hlífa skautablaðinu og þurfa iðkendur einnig að hafa klút til þess að þurrka blaðið eftir ístíma.

Afís

Afís er í íssalnum fyrir ofan svellið. Iðkendur eiga að mæta í salinn í upphafi afístímans og skilja töskur eftir við vegginn í salnum. Athugið að ekki er leyfilegt að fara með nesti í salinn.

Forföll og veikindi

Mikilvægt er að láta vita ef iðkandi kemst ekki. Er það gert í gegnum Sideline skipulagsappið.