UMFÍ óskar eftir tilnefningum frá sambandsaðilum í Ungmennaráð sambandsins fyrir árin 2022 – 2023.

 

Ungmennaráð UMFÍ er skipað níu ungmennum á aldrinum 16 – 25 ára. Við skipun í ráðið er horft til þess að þau sem í því sitja séu á öllum aldri, af öllum kynjum og endurspegli landsmenn. Helstu hlutverk Ungmennaráðs UMFÍ er að vera stjórn UMFÍ til ráðgjafar um málefni ungs fólks og skipuleggja og standa fyrir viðburðum fyrir ungt fólk. Fundir ráðsins eru að öllu jafna haldnir á 4 – 6 vikna fresti ýmist með fjarfundarbúnaði og/eða sem staðfundir.

 

Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði er stærsti viðburður ungmennaráðs UMFÍ. Markmið og tilgangur ráðstefnunnar er að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í leik og starfi. Ráðstefnan hefur verið haldin árlega frá árinu 2009 og hefur hún fest sig í sessi sem einn af mikilvægustu viðburðum félagasamtaka fyrir ungt fólk á Íslandi enda fá ungmenni þar tækifæri til að koma saman og ræða heitustu mál dagsins bæði við jafningja og ráðamenn.

 

Þátttaka í ungmennaráði UMFÍ veitir einstaklingum tækifæri til þess að kynnast starfi UMFÍ og ungmennafélags-hreyfingarinnar. Þátttakendur kynnast ungmennum alls staðar af landinu, fá tækifæri til þess að vinna að viðburðum allt frá hugmyndastigi til framkvæmdar og hafa áhrif á aðra í sínu nærumhverfi.

 

UMFÍ leitar ungmenna sem hafa tekið virkan þátt í starfi íþróttahéraðs eða innan félags og/eða hafa áhuga á að láta gott af sér leiða og smita gleði út frá sér.

 

Umsóknarfrestur er til 19. janúar. Smellið hér til þess að sækja um.

 

Ungmennafélagið Fjölnir hvetur alla áhugasama félagsmenn til að sækja um í ungmennaráðinu. Starf ungmennaráðsins er fjölbreytt og skemmtilegt og veitir góða reynslu fyrir framtíðarverkefni.