Skautafélagið Björninn var stofnað 22.nóvember 1990 að Fannafold 219A í Grafarvogi.

Stofnendur voru nokkrir áhugasamir einstaklingar sem vildu hefja æfingar í íshokkí á nýopnuðu útiskautasvelli í Laugardal.

Stofnendur voru 10, allt áhugasamir ungir menn sem ætluðu allir að hefja æfingar í íshokkí.

Þeir voru:

Símon Pétur Sigurðsson
Snorri Gunnar Sigurðarson
Andri Þór Óskarsson
Sveinbjörn Sigurðsson
Ólafur Friðbert Einarsson
Hannes Pétursson
Pálmi Steinar Skúlason
Karl Jóhann Bridde
Jón Einar Eysteinsson
Jóhann Magnús Friðrikson

Enn í dag er einn af þessum frumkvöðlum, Snorri Gunnar Sigurðarson leikandi með meistaraflokki félagsins. Þó stefnir í það að Snorri snúi sér alfarið að dómgæslu, en hann er einn reyndasti íshokkídómari landsins.

Þá er Símon einnig einn af reyndustu dómurum hérlendis og er nú einn af þjálfurum félagsins. Hann lék um árabil í meistaraflokki fyrir Björninn.

Félagið á þeim bræðrum mikið að þakka.

 

Formenn félagsins frá upphafi hafa verið:

Símon Sigurðsson
Sveinbjörn Sigurðsson
Snorri Gunnar Sigurðarson
Magnús Jónasson

Æfingar hófust fljótlega á nýja svellinu í Laugardal, en búnaður var af skornum skammti þar sem enginn innflutningur var á íshokkívörum.

Þá um haustið hófu um tuttugu 10-11 ára drengir æfingar hjá félaginu.

Í dag eru tveir þessara drengja enn að leika með félaginu, Sigurður Einar Sveinbjarnarson og Jónas Breki Magnússon, sem leikið hefur m.a. í Svíþjóð og Finnlandi síðustu árin og leikur nú í vetur hjá “Birninum” í Gladsaxe í Danmörku.

Félagið dafnaði skjótt en íslenskt veðurfar lék stórt hlutverk í æfingum og oft varð að fresta þeim vegna veðurs.

Haustið 1992 stofnaði Björninn listskautadeild og réðst í að ráða erlendan þjálfara í listskautum til landsins, Valeriyu Lavrushinu, fyrst skautafélaga hérlendis. Hún var hér í tvo vetur, eða þangað til deildin lagðist af, eftir samstarf við SR. Það samstarf endaði með því að flestir iðkendur sem byrjuðu æfingar, voru látnir ganga í SR.

Hokkíið var þó aðaláhersla félagsins og var barna og unglingarstarfið þar í fyrirrúmi.

Fljótlega varð Björninn með flesta unglinga á hokkímótum og hefur það einkennt félagsstarfið alla tíð síðan, þ.e. áherslan á unglingana.

Árið 1998 varð mikli breyting á aðstöðu skautafélagana í Reykjavík sem bæði deildu útisvellinu í Laugardal. Þá var byggt yfir svellið og segja má að skautaíþróttirnar hafi þá loks farið að dafna. Ráðinn var erlendur þjálfari til félagsins, Jan Stolpe frá Svíþjóð sem reyndist okkur mikill happafengur, enda fór þar einn ástsælasti unglingaþjálfari Svíþjóðar. Jan varð piltunum okkar sem annar faðir og sóttu nokkrir þeirra til Svíþjóðar til æfinga, bjuggu heima hjá honum og gengu í lið þar, allt að áeggjan Jans.

Björninn tók því miklum breytingum með tilkomu Jans og byggir félagið enn á því góða starfi er hann sáði til hjá félaginu.

Sá dagur sem markar dýpstu sporin í sögu félagsins var án efa 29. október 2003.

Þá var skrifað undir samning við Reykjavíkurborg um heimavöll og félagsaðstöðu í nýrri íþróttahöll í Grafarvogi, Egilshöllinni. Með því lauk áralangri baráttu sem hófst 6. október 1994, þegar þeir Magnús Jónasson, fyrir hönd Bjarnarins og Snorri Hjaltason fyrir hönd Fjölnis, sóttu um lóð á Gylfaflöt í Grafarvogi fyrir Skautahöll Bjarnarins og Tennishús fyrir Fjölni.

Þessi barátta fyrir eigin aðstöðu tók því rúm níu ár. Rétt er að þakka borgaryfirvöldum mikinn skilning á þörfum félagsins.

Sú glæsilega aðstaða sem Birninum er búin í skautahöll Egilshallar er einstaklega vel heppnuð og á eftir að verða félaginu mikil lyftistöng.

Við þessi tímamót, ákvað stjórn félagsins að láta gera nýtt merki fyrir félagið.

Fyrirtækið CAOZ var fengið til verksins og hönnuðu þeir einkar skemmtilegt merki sem byggir á fjöllum,ís og höfði ísbjarnar. Tvær útgáfur eru á merkinu: “Skautafélagið Björninn” og “Björninn”. Fjöllin (jöklarnir) eru látin mynda nasir og vígtennur bjarnarins og ljósblái liturinn minnir á kulda og klaka. Gulur litur er í aðalmerkinu sem minnir á fyrri aðalliti félagsins. Þá geta athugulir séð að joðið í nafninu myndar kylfu, en það minnir á uppruna félagsins, þ.e. að Björninn var stofnaður sem íshokkífélag. Mikil “hreyfing” er í stöfunum sem mynda nafnið og á það við hraðann sem fylgir skautaíþróttum.