Skráningar opnar og æfingar hafnar

Skráningar opna 1. janúar
Skráningar á vorönn 2021 opna föstudaginn 1. janúar.
Allar upplýsingar um fjölbreytt úrval íþrótta í Fjölni má finna á fjolnir.felog.is.
Aðgangur að XPS Network appinu fæst þegar skráningu er lokið.
Frekari upplýsingar veitir skrifstofan á skrifstofa@fjolnir.is.

Katrín Tinna og Bjarni Anton íþróttafólk frjálsíþróttadeildar 2020
Val á íþróttafólki Fjölnis fór fram 17. des sl. Að þessu sinni voru Katrín Tinna Pétursdóttir og Bjarni Anton Theódórsson valin íþróttafólk frjálsíþróttadeildarinnar:
Íþróttakona: Katrín Tinna Pétursdóttir
Katrín Tinna er 17 ára gömul frjálsíþróttakona sem hefur æft frjálsar íþróttir í nokkur ár. Hún hefur náð góðum árangri í hástökki og langstökki og einnig spretthlaupum. Hún náði að stökkva yfir 1,71m í hástökki á Stórmóti ÍR í janúar sem er glæsilegur árangur. Gefur það 936 IAAF stig. Þessi árangur setur hana í 3. sæti á listanum yfir besta árangur í hástökki á Íslandi árið 2020.
Íþróttakarl: Bjarni Anton Theódórsson
Bjarni Anton er 22 ára gamall og hefur æft frjálsar íþróttir í mörg ár. Hann hefur aðallega einbeitt sér að styttri hlaupum og keppir í 100, 200 og 400 m hlaupum og náð mjög góðum árangri. Á þessu ári hljóp hann best 400m á tímanum 50,70 sek í Bikarkeppni FRÍ í mars. Gefur það 877 IAAF stig sem er frábær árangur. Þessi árangur setur hann í annað sæti á listann yfir bestu afrek í 400m hlaupi innanhúss á þessu ári. Þess má geta að Bjarni Anton tekur þátt í þjálfun yngri iðkenda deildarinnar og nýtur mikilla vinsælda hjá þeim og er góð fyrirmynd.
Óskar fær hvatningarverðlaun unglingaþjálfara
Uppskeruhátíð FRÍ var með óhefðbundnum hætti að þessu sinni vegna Covid. Veittar voru þar ýmsar viðurkenningar. Óskar Hlynsson yfirþjálfari hjá frjálsíþróttadeild Fjölnis fékk hvatningaverðlaun unglingaþjálfara. Óskar hefur haldið úti flottu starfi hjá Fjölni í fleiri ár og hefur myndað þar góðan hóp efnilegra frjálsíþróttaungmenna. Hann er mikil fyrirmynd, er hvetjandi og hefur verið duglegur við það að aðstoða FRÍ í ýmsum verkefnum. Deildin óskar honum til hamingju með verðlaunin. Sjá nánar frétt á síðu FRÍ hér.
Jólanámskeið handboltans
Handknattleiksdeild Fjölnis býður upp á ókeypis handboltanámskeið milli jóla og nýárs í öllum flokkum. Allar æfingarnar fara fram í báðum sölunum í Fjölnishöllinni.
Engin þörf er að skrá sig - það er nóg að mæta á svæðið. Þjálfarar viðkomandi flokka sjá um þjálfunina og taka vel á móti þeim sem vilja prófa handbolta.
Vonandi sjáum við sem flesta - bæði núverandi iðkendur og þá sem vilja prófa.
Með jólakveðju,
Handknattleiksdeild Fjölnis
Kjör á íþróttafólki og Fjölnismanni ársins 2020
Í gær fór fram kjör á íþróttafólki og Fjölnismanni ársins 2020. Við sýndum beint frá viðburðinum á FB síðunni okkar. Hægt er að horfa á útsendinguna með því að smella á þennan hlekk https://tinyurl.com/ydyv875n.
Íþróttakarl ársins er Hans Viktor Guðmundsson frá knattspyrnudeild:
Hans Viktor er fyrirliði og lykilleikmaður meistaraflokks karla Fjölnis í knattspyrnu og lék samtals 20 leiki á nýafstöðnu tímabili eða 2 leiki í bikar og alla þá 18 leiki sem leiknir voru í Pepsi Max deildinni. Hans Viktor hefur farið upp um alla yngri flokka félagsins og braust inn í meistaraflokksliðið af eftirminnilegum krafti sumarið 2016. Óhætt er að segja að tímabilið í ár hafi verið erfitt en Hansi var að öðrum ólöstuðum öflugasti leikmaður liðsins og mun leiða liðið áfram á næsta tímabili í þeirra baráttu sem framundan er við að koma liðinu beint aftur upp í deild þeirra bestu. Að lokum má geta þess að Hans Viktor er vitanlega einnig í hinum virta 100 leikja klúbb Fjölnis.
Íþróttakona ársins er Fanney Ragnarsdóttir frá körfuboltadeild:
Fanney er ótrúlegur leiðtogi og var hún mikilvægur partur í liði meistaraflokks kvenna Fjölnis í að koma liðinu upp um deild og hefur hún staðið sig virkilega vel á nýju tímabili í Domino’s deild kvenna þar sem Fjölnir eru eins og stendur á toppi deildarinnar. Fanney býr undir miklum hraða og styrk og notar þann hraða til að gera árás á körfu andstæðinga bæði til að skora og til að finna liðsfélaga sína. Fanney fór í gegnum alla yngri flokka Fjölnis og er mikil fyrirmynd fyrir yngri iðkendur Fjölnis.
Fjölnismaður ársins er Gunnar Jónatansson
Gunnar virðist hafa fleiri klukkutíma í sólarhringnum en flestir aðrir. Hann er alls staðar í kringum starf Fjölnis. Fyrir nokkrum árum var hann formaður Bjarnarins sem nú eru hokkí– og listhlaupadeild Fjölnis. Gunnar hefur beitt kröftum sínum víða í félaginu, hann hefur verið mjög öflugur að starfa fyrir körfuknattleiksdeildina og einnig alltaf boðinn og búinn að starfa fyrir aðalstjórn og aðrar deildir félagsins. Hann er ötull stuðningsmaður, mætir á flesta leiki, viðburði og ávallt tilbúinn að leggja hönd á plóg þegar leitað til hans. Hann er einkar laginn við að festa íþróttalífið á filmu, bæði í myndum og myndböndum. Hann veitir öllum aðgang að þessum gersemum á samfélagsmiðlum þar sem Fjölnisfólk og aðrir geta skoðað vel unnin myndbönd, viðtöl og myndir þar sem íþróttafólkið leikur aðalhlutverkið. Þar að auki hefur Gunnar tekið að sér að stýra stefnumótunarfundum körfuknattleiksdeildarinnar með mikilli lagni og eljusemi sem og rafrænum stefnumótunarfundi Fjölnis fyrir skemmstu, hann er líka liðtækur fundarstjóri, en hann hefur stýrt aðalfundum félagsins síðast liðin ár. Gunnar tók sæti í stjórn körfuknattleiksdeildar Fjölnis í febrúar á þessu ári. Mikil verðmæti felast í framlagi Gunnars til Fjölnis, verðmæti sem félagið getur seint fullþakkað.
Við óskum þeim innilega til hamingju með valið og vonum að þetta gefi þeim aukinn kraft til áframhaldandi góðra verka.
Ljósmyndari: Þorgils G.
Stjórn útsendingu: Arnór Ásgeirsson og Gunnar Jónatansson
Viðtöl: Eva Björg Bjarnadóttir
Hreyfimyndir af iðkendum: Alexander Hugi Jósepsson
Kynnir kvöldsins: Jón Karl Ólafsson
Upplestur tilnefninga: Guðlaug Björk Karlsdóttir og Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir
Astmi og íþróttir
Meðfylgjandi er rafræn útgáfa af fræðslubæklingi Astma- og ofnæmisfélags Íslands og ÍSÍ um astma og íþróttir.
Bæklingurinn er aðgengilegur á heimasíðu ÍSÍ með því að smella HÉR.
#FélagiðOkkar
Skautanámskeið dagana 28., 29. og 30. desember
Listhlaupadeildin verður með Jólaskautaskólann dagana 28., 29. og 30. desember kl. 9:00-12:45. Börnin mega mæta kl. 8:15 og verða rólegheit milli kl. 8:15-9:00 t.d. hægt að borða morgunmatinn sinn á staðnum. Í búðunum verður ýmislegt brallað, það verður farið á svellið, á afís, í leiki og að lokum teygt vel. Búið er að opna fyrir skráningu á fjolnir.felog.is og er verðið 8.000 kr. Einnig er boðið upp á námskeið fyrir framhaldshópana sömu daga.
Dagskráin er eftirfarandi
08:15-09:00 | Mæting/morgunmatur |
09:00-09:45 | Afís |
10:00-10:30 | Svell |
10:40-11:00 | Nesti |
11:00-11:30 | Leikir |
11:45-12:15 | Svell |
12:25-12:45 | Teygjur |
Vinsamlegast athugið að skráningu lýkur á miðnætti mánudaginn 21. desember.

Mánar og Mánabón eru nýjustu samstarfsaðilar Fjölnis
Mánar er ungt og öflugt ræstingafyrirtæki sem flutti höfuðstöðvar sínar í Grafarvoginn í nóvember.
Fyrsta verkefni þeirra í nýju hverfi var að gerast samstarfsaðili Fjölnis og vilja þeir tengjast félaginu strax frá byrjun. Þeirra markmið er að verða stór samstarfsaðili með tíð og tíma.
Mánar reka einnig bónstöð í hverfinu sem er undir sama nafni en kallast Mánabón þar sem markmiðið er að bjóða upp á frábæra þjónustu á frábæru verði.
Við hvetjum okkar Fjölnisfólk og Grafarvogsbúa að versla í heimabyggð.
Allar upplýsingar um þjónustu mána má finna á manar.is og manabon.is.
Íþróttafólk og Fjölnismaður ársins
Fimmtudaginn 17. desember 2020 fer fram val á íþróttafólki og Fjölnismanni ársins. Í ljósi aðstæðna munum við sýna beint frá viðburðinum á Facebok síðunni okkar. Þetta er í þrítugasta skipti sem valið fer fram og kjósum við íþróttakonu og íþróttakarl ársins ásamt því að heiðra Fjölnismann ársins. Við hvetjum allt Fjölnisfólk til að fylgjast með útsendingunni og klappa vel fyrir fólkinu okkar.
Upplýsingar um afreksfólk deilda, íþróttafólk félagsins og Fjölnismann ársins verða aðgengilegar á miðlunum okkar að útsendingu lokinni.
Í fyrra var Eygló Ósk Gústafsdóttir (sund) valin íþróttakona Fjölnis og Úlfar Jón Andrésson (íshokkí) valinn íþróttakarl ársins. Fjölnismaður ársins 2019 voru hjónin Lilja Björk Ólafsdóttir og Guðmundur Magni Þorsteinsson hlauparar í hlaupahóp Fjölnis.