Til upplýsingar

14. ágúst tók í gildi ný auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem heilbrigðisráðuneytið birti 12. ágúst sl. Auglýsingin gildir til 27. ágúst kl. 23:59. Markmið breytinganna sem nú taka gildi er sem fyrr að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 (tekið af vef isi.is).

Stærsta breytingin sem snýr að íþróttahreyfingunni er 6. grein auglýsingarinnar sem á við um nálægðartakmarkanir í íþróttum. Sérsambönd ÍSÍ eiga að setja sér reglur í samstarfi við ÍSÍ um framkvæmd æfinga og keppna í sínum greinum þannig að snertingar séu heimilar (tekið af vef isi.is).

Almenna reglan er sú að áhorfendur eru ekki leyfðir á íþróttaviðburðum hjá iðkendum fædd árið 2004 og fyrr, þann tíma sem auglýsingin gildir, samanber minnisblað sóttvarnalæknis. Á íþróttaviðburðum yngri iðkenda gildir 100 manna fjöldatakmörkun og 2 metra fjarlægð.

Samantekt og áherslupunktar:

  • Virðum 2 metra regluna á íþróttasvæðinu okkar, þetta á við um öll rými s.s. búningsklefa, íþróttsali og fundarými.
  • Hugum að einstaklingsbundnum sóttvörnum og smitvörnum. Handþvottur og spritt og notkun gríma ef það er ómögulegt að viðhalda 2 metra fjarlægð.
  • Forðumst blöndun flokka og hópa.
  • Forðumst margmenni að óþörfu og höldum áfram að vera skynsöm.
  • Höldum í bjartsýni og jákvæðni, það er gott að brosa.

 

Reglur KSÍ um sóttvarnir vegna COVID-19

Auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar

Minnisblað sóttvarnalæknis til ráðherra, dags. 11. ágúst

Reglur HSÍ og KKÍ um sóttvarnir á æfingum og æfingaleikjum vegna COVID-19

Reglur annarra sérsambanda sem hafa fengið samþykki ÍSÍ og sóttvarnarlæknis


Upphitun. Fjölnir - Víkingur R

Pepsi Max deild karla
13. umferð
Fjölnir – Víkingur R.
Fimmtudaginn 20. ágúst kl. 18:00 á Extra vellinum.

Næstkomandi fimmtudag mætast Fjölnir og Víkingur í 13. umferð Pepsi Max deildar karla. Eins og kom fram í síðasta pistli hefur leikjum Fjölnis gegn ÍA og Stjörnunni í 9. og 10. umferð verið frestað um óákveðinn tíma. Í síðustu umferð lutu Fjölnir og Víkingur í lægra haldi gegn fyrir hvoru Kópavogsliðinu. Fjölnir tapaði 3-1 gegn HK og Víkingur 2-4 gegn Breiðabliki.

Þjálfari Víkings, Arnar Gunnlaugsson, fékk að líta rauða spjaldið í síðasta leik Víkings og verður því í leikbanni á fimmtudag. Grétar Snær Gunnarsson fékk sitt fjórða gula spjald í sumar í tapinu gegn HK. Leikbann Grétars vegna uppsafnaðra gulra spjalda tekur ekki gildi fyrr en eftir leikinn gegn Víkingi. Ingibergur Kort Sigurðsson gæti komið aftur inn í lið Fjölnis eftir að hafa verið í leikbanni gegn HK. Daninn Christian Sivebæk er farinn aftur til Danmerkur eftir að hafa meiðst stuttu eftir komuna til Íslands. Torfi Tímoteus Gunnarsson og Valdimar Ingi Jónsson hafa báðir verið að glíma við meiðsli.

Viktor Andri Hafþórsson skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild í tapinu gegn HK á nitján ára afmælisdegi sínum. Fjölnir situr enn á botni deildarinnar með þrjú stig eftir tíu leiki. Fimm stig eru á milli Fjölnis og KA sem situr í næsta örugga sæti. Með sigri jafnar Fjölnir Gróttu að stigum. Víkingur er í áttunda sæti með þrettán stig. Fjölnir og Víkingur mætast nú í annað sinn í sumar. Leik liðanna í fyrstu umferð lauk 1-1. Félögin hafa mæst ellefu sinnum í efstu deild. Fjölnir hefur unnið sex viðureignir, Víkingur þrjár og tvær hafa endað með jafntefli. Nánar var fjallað um fyrri viðureignir liðanna í upphitunarpistli 1. umferðar.

Áfram verður leikið án áhorenda. Stuðningsmenn geta samt sem áður keypt miða á leikinn og styrkt félagið. Einnig er hægt að styrkja með millifærslu (reikningsupplýsingar neðanmáls). Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Áfram Fjölnir!

 

#FélagiðOkkar

 

Grétar Atli Davíðsson

Knattspyrnudeild Fjölnis
0114-05-060968
Kt. 6312887589

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson

 


Upphitun. HK - Fjölnir

Pepsi Max deild karla

12. umferð

HK – Fjölnir

Sunnudaginn 16. ágúst kl. 17:00 í Kórnum

Pepsi Max deild karla er farin aftur af stað eftir tæplega þriggja vikna hlé. Á sunnudag fer Fjölnir í Kórinn og leikur við HK í 12. umferð deildarinnar. Leikjum Fjölnis gegn ÍA og Stjörnunni í 10. og 11. umferð hefur ferið frestað um óákveðinn tíma. Síðasti leikur Fjölnis í deildinni fór fram 27. júlí, lokatölur 1-3 fyrir Val. Ingibergur Kort Sigurðsson fékk rautt spjald í þeim leik og verður hann í leikbanni gegn HK. Degi áður en hlé var gert á íþróttaiðkun með snertingum féll Fjölnir úr leik í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar með 2-0 tapi gegn KR. Leikið var fyrir luktum dyrum og verður það sama uppi á teningnum á sunnudag.

Staðan í botnbaráttunni breyttist lítið á milli umferða. Fjölnir, Grótta og HK töpuðu öll sínum leikjum í síðustu umferð sem leikin var. Grótta lék sinn leik í 12. umferð í gærkvöldi og gerði 1-1- jafntefli við Stjörnuna. Enn er Fjölnir fimm stigum frá öruggu sæti. Ekki þarf að eyða mörgum orðum í mikilvægi leiksins á sunnudag. Fjölnir situr á botni deildarinnar með þrjú stig, fimm stigum á eftir HK sem er í næsta sæti fyrir ofan fallsvæðið með jafn mörg stig og KA sem leikur í dag, laugardag, gegn Val. Að leik loknum í Kórnum verður Fjölnir tveimur, fimm eða átta stigum frá HK.

HK hefur unnið tvo leiki í sumar, gert tvö jafntefli og tapað fimm leikjum. Sigurleikir HK komu gegn KR og Breiðabliki. Í síðasta deildarleik HK tapaði liðið 3-2 fyrir Fylki. Í millitíðinni lagði liðið Aftureldingu í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar. Á milli leikja hafa orðið mannabreytingar hjá HK. Bakvörðurinn Birkir Valur Jónsson hefur verið lánaður til Slóvakíu og til félagsins er kominn miðvörðurinn Martin Rauschenberg frá Stjörnunni.

Fjölnismenn ættu að þekkja ágætlega til nokkurra leikmanna HK liðsins. Þeir Birnir Snær Ingason, Arnar Freyr Ólafsson, Bjarni Gunnarsson og Guðmundur Þór Júlíusson leika í dag með HK en ólust allir upp í Fjölni. Sá síðastnefndi mun ekki spila á sunnudag vegna leikbanns. Einnig má nefna Pétur Guðmundsson þegar kemur að leikmönnum sem leikið hafa bæði fyrir HK og Fjölni. Pétur er í dag dómari í efstu deild karla. Þjálfari HK er Brynjar Björn Gunnarsson.

Fjölnir og HK hafa einungis tvisvar sinnum mæst áður í A-deild. Viðureignirnar fóru fram sumarið 2008 og hafði Fjölnir betur í þeim báðum. Leikur félaganna á Kópavogsvelli það sumar er merkilegur fyrir þær sakir að um er að ræða stærsta sigur Fjölnis í efstu deild, lokatölur 1-6. Gunnar Már Guðmundsson, Magnús Ingi Einarsson, Ólafur Páll Johnson, Ólafur Páll Snorrason og Pétur Georg Markan (2) skoruðu mörk Fjölnis í leiknum.

Leikurinn gegn HK verður 200. leikur Ásmundar Arnarssonar sem þjálfari Fjölnis. Ásmundur var fyrst ráðinn til Fjölnis fyrir tímabilið 2005 og stýrði hann Fjölni út keppnistímabilið 2011. Ási er nú á sínu öðru tímabili eftir endurkomu í Grafarvog. Það má þó færa fyrir því góð rök að 200. leikurinn hafi verið fyrir tveimur leikjum síðan. Einhverra hluta vegna var Ásmundur skráður aðstoðarþjálfari í leik Fjölnis á Seltjarnarnesi sumarið 2011 og vegna marmarkmannsvandræða var hann skráður sem varamarkvörður í útileik Fjölnis gegn KA árið 2005. Skráður þjálfari í leiknum á Akureyri var fyrrverandi markvörðurinn Jón Þorbjörnsson. Í tveimur leikjum hefur Ási verið fjarverandi vegna leikbanns.

Eins og áður segir verður leikið án áhordenda. Það dugir því lítið annað fyrir okkur stuðningsmenn en að senda leikmönnum og starfsliði hugheilar baráttukveðjur. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Áfram Fjölnir!

 

#FélagiðOkkar

 

Grétar Atli Davíðsson

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

21 – Christian Sivebæk

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson


Upplýsingar til forráðamanna vegna XPS Network / Sideline

Kæru forráðamenn og iðkendur,

Nú erum við að fara í okkar annað tímabil með notkun á XPS Network / Sideline appinu.

Samningur á milli Fjölnis og Sideline Sports gerir öllum þjálfurum Fjölnis kleift að vinna með Sideline í sínu starfi sem mun hjálpa félaginu við að efla umgjörð, skipulag og gæði í kringum íþróttastarf félagsins.

Fyrir forráðamenn og iðkendur þá er um að ræða nýjan samskiptahluta í vörulínu Sideline. Samskiptahlutinn er ekki síst mikilvægur en með honum geta þjálfarar, iðkendur og forráðamenn haft yfirsýn með starfi Fjölnis í gegnum app í snjallsíma eða spjaldtölvu. Með Sideline appinu er með einföldum hætti hægt að hafa yfirsýn yfir æfingar, mætingar og margt fleira. Þjálfari getur með einföldum hætti sent út tilkynningar og haft samskipti við iðkendur eða forráðamenn.

Forráðamenn og iðkendur sem eru 18 ára og eldri eru beðin um að skrá sig út og aftur inn með rafrænum skilríkjum (sjá mynd).

Ef iðkendur fá beiðni um að skrá inn með fjögurra stafa PIN númer þá þurfa forráðamenn að fylgja eftirfarandi leiðbeiningum HÉR.

Forráðamenn og iðkendur eru beðin um að ná í appið HÉR.

Allar nánari upplýsingar og aðstoð má nálgast HÉR.

Aðeins þeir sem hafa gengið frá skráningu í félagið fá aðgang að appinu og því mikilvægt að ganga frá því á skráningasíðunni okkar https://fjolnir.felog.is/.

Við erum að vinna í uppsetningu á nýrri önn og biðjum ykkur að sýna biðlund og þolinmæði 🙂

Allar nánari upplýsingar veitir Arnór Ásgeirsson á arnor@fjolnir.is


Fjölnir teflir fram meistaraflokki kvenna í íshokkí

Stjórn íshokkídeildar Fjölnis hefur tekið ákvörðun um að tefla fram eigin liði í meistaraflokki kvenna á næsta tímabili. Þar með líkur þriggja ára samstarfi Reykjavíkurliðana í meistaraflokki kvenna.

Viljum við í stjórn íshokkídeildar Fjölnis þakka SR fyrir samstarfið og óskum þeim alls hins besta á komandi tímabili.


Upplýsingar til félagsmanna

Kæru forráðamenn, iðkendur og þjálfarar,

Í ljósi nýrra takmarkana á samkomum frá og með 31. júlí til og með 13. ágúst er þeim tilmælum beint til eldri flokka (16 ára og eldri, f. 2004 og fyrr):

  1. Að gert verði hlé á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til og með 13. ágúst næstkomandi eða þar til núgildandi auglýsing um takmarkanir á samkomum fellur úr gildi.
  2. Að æfingar og keppni í íþróttum án snertingar haldi áfram eftir því sem hægt er, að virtum reglum um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra.
  3. Að sameiginlegur búnaður verði sótthreinsaður milli notkunar/notenda.

Þetta þýðir að ef hægt er að æfa með því að fylgja ítrustu takmörkunum er það heimilt. Við ítrekum að nauðsynlegt er að gæta fyllstu varúðar og fara í einu og öllu að tilmælum heilbrigðisyfirvalda s.s. að virða fjarlægðarmörk og huga að handþvotti og sóttvörnum. Við höfum ákveðið að loka styrktarsalnum í Dalhúsum og búningsklefum í Egilshöll og Dalhúsum til og með 13. ágúst.

Æfingar yngri iðkenda, þeirra sem eru 15 ára og yngri (f. 2005 eða síðar) fara fram með óbreyttu sniði. Við beinum því til forráðamanna að ef það þarf að fylgja barni á æfingar að aðeins einn forráðamaður mæti með barnið. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þá höfum við skilgreint inn- og útganga við Egilshöll. Vinsamlegast kynnið ykkur myndina vel.

Stjórnendur félagsins vinna náið með yfirþjálfurum og öðrum starfsmönnum félagsins í úrlausnum á æfingum fyrir þann hóp sem takmarkanirnar hafa mest áhrif á. Staðan er endurmetin eftir þörfum, í takt við uppfærð tilmæli heilbrigðisyfirvalda. Allar uppfærslur má finna á Facebook Fjölnis og heimasíðu okkar www.fjolnir.is.

Við óskum eftir því að allir félagsmenn okkar sýni gott fordæmi og hjálpi okkur að fylgja þessum tilmælum, með lausnarmiðuðum hugsunarhætti og jákvæðni.

Með Fjölniskveðju,
Forsvarsmenn Fjölnis

 


Upphitun - 16-liða úrslit: KR - Fjölnir

Mjólkurbikar karla

16-liða úrslit

KR - Fjölnir

Fimmtudaginn 30. júlí kl. 19:15 á Meistaravöllum

Nú tökum við hlé frá deildarkeppninni til að etja kappi við KR í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla. Fjölnir hefur ekki komist í gegnum þetta þrep keppninnar síðan árið 2015. Líkt og önnur úrvalsdeildarlið kom Fjölnir inn í bikarkeppnina í síðustu umferð. Þar vann Fjölnir Selfoss með þremur mörkum gegn tveimur. KR-ingar lögðu annað Grafarvogslið, Vængi Júpíters, 1-8 í Egilshöll í 32-liða úrslitum keppninnar. Um er að ræða annan leik Fjölnis gegn KR í Vesturbænum á rúmri viku. Viðureign liðanna í Pepsi Max deildinni í síðustu viku lauk með 2-2 jafntefli í fjörugum leik. Þar voru KR-ingar meira með knöttinn en Fjölnisliðið fékk hættulegri færi til að bæta við mörkum. Síðustu fjórar viðureignir liðanna hafa endað með jafntefli. Verði jafnt að loknum venjulegum leiktíma í Frostaskjóli á fimmtudag verður leikið til þrautar. Ef eitthvað mark má taka af síðustu leikjum liðanna má búast við hnífjöfnum leik.

Christian Sivebæk var frá vegna meiðsla í 1-3 tapinu gegn Val á mánudag. Ingibergur Kort Sigurðsson fékk að líta rauða spjaldið í þeim leik. Rétt er að taka fram að eins leiks bann Ingibergs telur ekki í bikarkeppninni. Jóhann Árni Gunnarsson er markahæstur Fjölnismanna á tímabilinu með þrjú mörk. Jóhann hefur í tveimur síðustu leikjum Fjölnis gert sitt hvort markið. KR-ingar gerðu 0-0 jafntefli við KA í síðasta deildarleik sínum.

Fjölnir og KR hafa þrisvar sinnum mæst í bikarkeppni KSÍ. Öllum viðureignunum hefur lokið með svarthvítum sigri. KR telst óneitanlega líklegra til að komast áfram í næstu umferð en Fjölnir hefur áður komið á óvart á móti KR. Líkt og komið var inná í upphitunarpistlinum fyrir deildarleik KR og Fjölnis í síðustu viku vann Fjölnir einn sinn merkilegasta sigur þegar liðið vann KR í fyrsta heimaleik Fjölnis í efstu deild. Eftirminnilegasti bikarleikur Fjölnis og KR er án nokkurs vafa bikarúrslitaleikurinn árið 2008. Fjölnir var þá nýliði í efstu deild og á leið í sinn annan bikarúrslitaleik á jafn mörgum árum. Grátlegt tap var niðurstaðan þar sem Fjölnismenn skoruðu eina mark leiksins í eigið net þegar 89 mínútur voru liðnar af leiknum. Stoltir en sárir Fjölnismenn gengu af velli eftir svekkjandi tap í bikarúrslitum annað árið í röð.

KR hefur unnið bikarkeppnina fjórtán sinnum, oftar en nokkuð annað lið á Íslandi. Síðast varð KR bikarmeistari árið 2014. Á síðasta tímabili féll KR úr leik í undanúrslitum keppninnar. Í fyrra datt Fjölnir út í 16-liða úrslitum eftir tap í Vestmannaeyjum. Fjölmennum í Vesturbæinn og hjálpum okkar strákum að komast áfram í næstu umferð.

Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

21 – Christian Sivebæk

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson


Upphitun. Fjölnir - Valur

Pepsi Max deild karla

9. umferð

Fjölnir - Valur

Mánudaginn 27. júlí kl. 19:15 á Extra vellinum

Í síðustu umferð náði Fjölnir í sitt þriðja stig í sumar er liðið gerði 2-2 jafntefli við KR í Vesturbænum (hlekkur á mörkin úr leiknum). Frammistaðan gegn KR var til fyrirmyndar og þarf baráttan, aginn og viljinn sem liðið sýndi í síðasta leik að einkenna Fjölni í öllum leikjum sem eftir eru af tímabilinu. Margt jákvætt var við spilamennsku Fjölnis gegn KR. Ingibergur Kort Sigurðsson skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild eftir frábæra fyrirgjöf Hallvarðs Óskars Sigurðarsonar. Hitt mark Fjölnis gerði Jóhann Árni Gunnarsson. Einnig var ánægjulegt að sjá Torfa Tímoteus Gunnarsson koma aftur inn á völlinn eftir að hafa verið frá vegna meiðsla. Torfi lék síðustu fimmtán mínúturnar gegn KR. Viktor Andri Hafþórsson var í fyrsta sinn í byrjunarliði í efstu deild. Viktor lék fyrstu sextíu mínútur leiksins. Gera þurfti breytingu á byrjuarliði Fjölnis skömmu fyrir leikinn gegn KR þar sem Christian Sivebæk meiddist í upphitun. Undirrituðum er ekki kunnugt um alvarleika meiðslanna. Orri Þórhallsson sem var frá vegna meiðsla í leiknum á undan kom inn í byrjunarliðið í stað Danans.

Jafnteflið dugði þó ekki til að minnka bilið upp í öruggt sæti, á milli umferða hefur bilið upp í 10. sæti aukist um eitt stig. KA og Grótta náðu bæði einu stigi úr sínum viðureignum og HK vann sinn leik. Áfram stöndum við Fjölnismenn í brekku og reikna má með að baráttan fyrir sæti í deildinni að ári standi alveg til loka mótsins. Því verður að leggja allt í sölurnar á mánudaginn þegar Valur kemur í heimsókn.

Andstæðingurinn

Aðra umferðina í röð mætir Fjölnir toppliði deildarinnar. Valur skaut sér í 1. sæti með sigri á Fylki í síðustu umferð. Valur hefur leikið átta leiki í sumar; fimm sigrar, eitt jafntefli og tvö töp. Staðan í deildinni mun þó eitthvað breytast áður en flautað verður til leiks í Grafarvogi á mánudag þar sem tveir leikir fara fram á sunnudag. Valur er annað af tveimur liðum deildarinnar sem er með fullt hús stiga á útivöllum. Því verður að breyta á mánudaginn. Öll stig Fjölnis í sumar hafa komið á útivöllum. Valur er það lið sem skorað hefur flest mörk í deildinni í sumar (ásamt ÍA). Þriðjung marka Vals hefur Patrick Pedersen skorað. Pedersen fór meiddur af velli í síðasta leik Vals, óvíst er hvort hann taki þátt í leiknum á mánudag. Þjálfari Vals er Heimir Guðjónsson.

Fyrri viðureignir félaganna

Alls hafa Fjölnir og Valur mæst sextán sinnum í deildarkeppni. Valur hefur unnið helming viðureignanna, Fjölnir unnið þrjár og fimm hafa endað með jafntefli. Leikir Fjölnis og Vals hafa oftar en ekki einkennst af mikilli markaskorun. Að meðaltali eru skoruð tæplega fjögur mörk í leikjum félaganna. Aldrei hafa liðin gert markalaust jafntefli. Í ljósi sögunnar má því búast við markaleik. Fjölmennum á völlinn, styðjum okkar lið og vinnum saman að því að gulir skori fleiri mörk en rauðir á mánudaginn.

Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson

Miðasala á leikinn er hafin, nánar hér. Einnig verður hægt að kaupa miða við inngang.

Staðan í deildinni áður en 9. umferðin hefst.

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

21 – Christian Sivebæk

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson