Strætófylgdin í desember
Strætófylgdin verður með hefðbundnum hætti til og með þriðjudagsins 22. desember.
Við tökum svo upp þráðinn að nýju mánudaginn 4. janúar.
Sjá nánar á Besta leiðin
-Starfsfólk Fjölnis
Íslensk knattspyrna 2020 komin í forsölu
Bókin Íslensk knattspyrna 2020 eftir Víði Sigurðsson er komin í forsölu og er á leið í búðir innan skamms en þetta er í fertugasta skipti sem þessi árbók knattspyrnunnar á Íslandi kemur út. KSÍ hefur um langt árabil átt samstarf við útgefendur hennar um að í henni birtist úrslit allra leikja á Íslandsmóti og bikarkeppni á vegum sambandsins ár hvert.
Bókin er væntanleg í búðir á næstu dögum og þegar er hægt að kaupa hana í forsölunni á nýrri heimasíðu bókaflokksins, islenskknattspyrna.is. Hún er á sérstöku tilboðsverði í forsölunni auk þess sem kaupandinn getur um leið og hann gengur frá greiðslu stofnað eigin aðgang að nýrri rafrænni útgáfu á bókaflokknum í heild sinni frá 1981 til 2019.
Bókin er 272 blaðsíður og skreytt 420 myndum af liðum og leikmönnum en fjallað er ýtarlega um Íslandsmótið í öllum deildum og flokkum, landsleiki, Evrópuleiki, bikarleiki, um atvinnumennina erlendis og fjölmargt annað sem tengist íslenskum fótbolta. Talsvert aukaefni er í bókinni í ár, enda árið óvenjulegt og fótboltinn líka.


Jólasýning Listhlaupadeildar
Listhlaupadeildin hefur undanfarið unnið að því að setja upp sína árlegu Jólasýningu. Þegar líða fór á haustið var nokkuð ljóst að hún gæti ekki orðið með hefðbundnu sniði í ár og fóru þjálfarar að huga að öðrum lausnum til að gera sýninguna að veruleika í ár. Á endanum var ákveðið að gera Jólasýningu í formi stuttmyndar og er hún nú tilbúin og verður hægt að kaupa aðgang að sýningunni allan desember!
Miðaverð: 2000 kr. – miðast við fyrir hverja fjölskyldu
Hægt er að horfa á sýninguna eins oft og vilji er fyrir.
Til að kaupa aðgang þarf að leggja 2.000 kr inn á reikning Listhlaupadeildar
Reikningsnúmer: 0114-26-7013
Kennitala: 631288-7589
Senda þarf kvittun á listritari@fjolnir.is (skýring: nafn iðkanda eða netfang)
Þegar búið er að ganga frá greiðslu og senda kvittun, færð þú lykilorð sent í tölvupósti.
Sýninguna er svo hægt að nálgast hér
Sýnishorn af sýningunni má sjá í spilaranum hér að neðan
Íþróttastarf í kórónuveirufaraldri: Sóttvarnir og íþróttastarf eiga samleið
Fyrir helgina birtist áhugaverð grein á Vísi eftir Ingvar Sverrisson, formann Íþróttabandalags Reykjavíkur, þar sem hann tekur fyrir áhrif kórónuveirunnar á íþróttastarfsemi.
„Frá því kórónuveirufaraldurinn skall á hefur íþróttahreyfingin á Íslandi staðið með sóttvörnum og tekið afstöðu með yfirvöldum um að stöðva íþróttastarf þegar á hefur reynt. Þessar stöðvanir á íþróttastarfi eru þó farnar að draga dilk á eftir sér og hefur gert mörgu íþróttafólki erfitt fyrir að halda samfellu í æfingum sínum. Vegna þess hve mikill munur er á milli íþróttagreina hvað varðar nálægð og snertingu iðkenda er órökrétt að sömu reglur gildi fyrir allar greinar. Dæmi um þetta er til dæmis umræðan um golf sem varð hávær um tíma.“
Fjölnir semur við unga leikmenn
Knattspyrnudeild Fjölnis samdi á dögunum við 4 unga og efnilega leikmenn úr 2.fl félagsins. Leikmennirnir hafa allir spilað stórt hlutverk í sínum flokkum upp yngri flokkana og bindum við vonir við að leikmennirnir brjóti sér leið inní meistaraflokkinn og spili stórt hlutverk þar í framtíðinni.
á meðfylgjandi mynd eru leikmennirnir ásamt Gunnari Má yfirþjálfari – frá hægri Aron fannar Hreinsson, Sigurður Agnar Br. Arnþórsson, Arnar Ragnars Guðjohnsen og Sölvi Sigmarsson

Sjö leikmenn framlengja við Knattspyrnudeild Fjölnis
Nýverið framlengdu sjö ungir leikmenn samninga sína við meistaraflokk kvenna í knattspyrnu. Þetta eru þær Aníta Björg Sölvadóttir, Ásdís Birna Þórarinsdóttir, Hjördís Erla Björnsdóttir, Hrafnhildur Árnadóttir, Lilja Hanat, Lilja Nótt Lárusdóttir og María Eir Magnúsdóttir. Allar eiga þær sameiginlegt að vera uppaldar hjá Fjölni og munu vera mikilvægur partur af liðinu sem mun leika í 2. deild á komandi sumri. Samningar leikmannanna gilda til loka árs 2022.
Aníta Björg Sölvadóttir: 18 ára sóknarmaður / 25 KSÍ leikir í meistaraflokki
Ásdís Birna Þórarinsdóttir: 18 ára miðjumaður / 26 KSÍ leikir í meistaraflokki
Hjördís Erla Björnsdóttir: 18 ára miðjumaður / 29 KSÍ leikir í meistaraflokki / 4 leikir fyrir U17 landslið Íslands
Hrafnhildur Árnadóttir: 17 ára varnar- og miðjumaður / 39 KSÍ leikir í meistaraflokki
Lilja Hanat: 18 ára varnarmaður / 3 KSÍ leikir í meistaraflokki
Lilja Nótt Lárusdóttir 19 ára sóknarmaður / 41 KSÍ leikir í meistaraflokki
María Eir Magnúsdóttir 19 ára miðju- og sóknarmaður / 17 KSÍ leikir í meistaraflokki
Það er mikið fagnaðarefni fyrir Fjölni að semja við þessa uppöldu leikmenn. Knattspyrnudeildin hlakkar til komandi tímabila saman og væntir jafnframt mikils af þessum góðu og efnilegu leikmönnum sem eiga svo sannarlega bjarta framtíð hjá félaginu.
#FélagiðOkkar

Vinavikur handboltans
Næstu tvær vikurnar býður Handknattleiksdeild Fjölnis upp á "Vinavikur Fjölnis". Þá eru iðkendur hvattir til að bjóða vinum sínum eða vinkonum frítt að prófa æfingar.
Við viljum að sem flestir njóti þeirra frábæru þjálfara og þjálfunar sem við bjóðum upp á. Þess vegna hvetjum við sem flesta til að koma og prófa æfingar hjá okkur. Þjálfararnir taka vel á móti krökkunum.
Æfingatöflu 8. - 5.flokks karla og kvenna (f. 2014-2007) má sjá á meðfylgjandi mynd.
Áfram Fjölnir !

Tillaga borgarstjóra um bætta aðstöðu knattspyrnumála í Grafarvogi
16. nóvember lagði borgarstjóri fram tillögu varðandi bætta aðstöðu vegna knattspyrnumála í Grafarvogi. Tillagan var samþykkt en hana má sjá hér:
„Lagt er til að skoðaðir verði, með Fjölni o.fl., valkostir varðandi bætta aðstöðu vegna knattspyrnumála í Grafarvogi.“
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
„Knattspyrnuaðstaða í Grafarvogi er eitt þeirra verkefna sem raðaðist hæst í forgangsröðun íþróttamannvirkja. Í þessari tillögu er samþykkt að skoðaðir verði, með Fjölni og fleiri aðilum valkostir varðandi bætta aðstöðu vegna knattspyrnumála í Grafarvogi. Fyrir liggja hugmyndir félagsins um bætta aðstöðu við Dalhús eða Egilshöll sem nauðsynlegt er að rýna áður en ákvörðun um framhald verður tekin.“

Jóladagatal KND Fjölnis 2020
Jóladagatal KND Fjölnis 2020
Knattspyrnudeild Fjölnis er komin í jólaskap og hefur sölu á „rafrænum“ jóladagatölum í dag til að telja saman niður í jólin!
Jóladagatalið virkar einfaldlega eins og happdrætti en fólk fær úthlutað númeri fyrir 1. des í tölvupósti við kaup. Það eru 24 flottir vinningar í boði að heildarverðmæti 326.860 kr. Vinningar eru dregnir út sunnudagana 6., 13. og 20. desember og keyrðir heim að dyrum til vinningshafa.
Hægt er að styrkja deildina með kaupum á rafrænu jóladagatali með því að smella hér
Greiðsluupplýsingar eru eftirfarandi: (Þessar upplýsingar koma einnig fram í sölulinknum)
Rkn: 0114-05-060968
Kt: 631288-7589
Senda kvittun á 1×2@fjolnir.is
Við hvetjum alla til að styðja við öflugt starf deildarinnar með kaupum á jóladagatali. Þinn stuðningur skiptir máli.
Áfram Fjölnir! #FélagiðOkkar

Minna og Bjarni valin í landsliðið
Íþrótta- og afreksnefnd, afreksstjóri og verkefnisstjóri A-landsliðsmála hafa valið landsliðshóp Íslands í frjálsum fyrir komandi ár 2021 með hliðsjón af árangri keppenda á árinu 2020. Að þessu sinni á Fjölnir tvo einstaklinga í landsliðinu. Það eru þau Vilhelmína Þór Óskarsdóttir og Bjarni Anton Theódórsson. Þau hafa bæði staðið sig mjög vel í styttri vegalengdum og í boðhlaupum.
Árið 2021 verður mjög spennandi og dagskráin þétt en stærsta verkefni landsliðsins er án efa Evrópubikarkeppni landsliða. Ísland keppir að þessu sinni í 2. deild eftir glæsilegan sigur liðsins í 3. deild í Skopje 2019.