Sumarstörf Fjölnis 2024

Við höfum opnað fyrir umsóknir í sumarstörf Fjölnis 2024. Öllum umsóknum verður svarað.

Við bjóðum upp á fjölbreytt störf fyrir 15-25 ára. Í boði er að vinna á íþróttasvæðinu í Dalhúsum, á sumarnámskeiðum deilda ásamt fjölgreinanámskeiði félagsins.
Umsækjendur geta hakað við það starf sem þeir óska eftir, það er í boði að velja fleiri en eitt starf, t.d. að starfa á knattspyrnu- og listskautanámskeiðum.

Vinnutímabil fyrir 15-16 ára er samtals 105 tímar. Samið er um vinnutíma þegar ráðning liggur fyrir. Umsækjendur þurfa einnig að sækja um hjá Vinnuskólanum.Vinnutímabil fyrir 17-25 ára fer eftir nánara samkomulagi þegar ráðning liggur fyrir. Umsækjendur þurfa einnig að sækja um hjá Hinu Húsinu.

Laun eru greidd út samkvæmt kjarasamningum Reykjavíkurborgar.

Allar nánari upplýsingar veitir skrifstofa Fjölnis á sumarnamskeid@fjolnir.is.

 

Skráning fer fram hér:

https://forms.office.com/pages/responsepage.aspx?id=tQYbx3SIz0emX0cicrdwf9xPGYOlIM5Fo5kx7iGGC7RUN1pFRlBEM1dJS0NIM1BMTllKTU9JU0NZTS4u

#FélagiðOkkar

 

 


Nýr handhafi Silfurmerkis Fjölnis: Sunna Rut Guðlaugardóttir

Sunna Rut er einn þeirra sem halda alltaf áfram í sportinu. Hún byrjaði sem agnarlítið spons fyrir um 12 árum, rétt 7 ára gömul að mæta á æfingar. Vann ötullega að því að bæta sig. Tók þátt í mótum og dró heim fullt af verðlaunapeningum. Vann sér inn Íslandsmeistaratitla, klifraði upp á verðlaunapall á RIG mótum að ótöldum auðvitað öllum hinum mótunum þar sem hún tók þátt og þurfti að klifra upp á verðlaunapall.

Því má ekki gleyma að hún hefur auðvitað líka verið valin karatekona ársins hjá Fjölni.

Í gegnum tíma sinn hjá Fjölni hefur hún aukið við þekkingu sína jafnt og þétt með því að ljúka hverri beltagráðuninni á fætur annari, nú síðast þegar hún lauk gráðun til 2. dans svartbeltisgráðun (Nidan) með miklum sóma.

Partur af því að æfa Karate er að gefa til baka til íþróttarinnar og félagsins sín. Þar lætur Sunna ekki sitt eftir liggja. Því hún er einnig vinsæll og óþreytandi þjálfari þeirra sem á eftir henni hafa komið. Auk þess að taka að sér liðsstjórastörf á mótum.

Sunnu var afhent Silfurmerki Fjölnis númer 215.

Mynd: Kristján U Kristjánsson


Karatekarl Fjölnis 2023: Gabríel Sigurður Pálmason

Gabríel er einbeittur karatemaður og fyrirmyndariðkandi. Þessvegna var hann tilnefndur núna og hlaut titilinn Karatekarl Fjölnis í fjórða sinn!

Í ár hefur hann dregið heim gullpeninga fyrir frammistöðu sína í kata 15 ára pilta á Íslandsmeistaramóti unglinga í Kata. Það sama á við um Kata 16-17 ára pilta á GrandPrix mótaröð Karatesambands Íslands, en þaðan kom hann með tvenn gullverðlaun og ein silfurverðlaun. Auk þess náði hann sér í bronsverðlaun á Reykjavík International Games í flokki ungmenna. Á Kobe Osaka International mótinu í Skotlandi í haust gerði hann sér lítið fyrir og tók heim gull í kata bæði í aldursflokki 14-15 ára og 16 ára. Auk þess sem hann hlaut gull fyrir keppni í kumite 14-15 ára.

Í salnum er hann óþreytandi, mætir hann á allar æfingar og afreksæfingar auk styrktaræfinga og hann gefur sig allan á hverri æfingu.

Gabríel er fyrirmyndar afreksíþróttamaður sem sannar að sjálfsagi og einbeiting skilar árangri.

Metnaður og Heilbrigði eru þau Fjölnisgildi sem Gabríel hefur staðið fyrir í starfi sínu innan karatedeildarinnar.

Ungmennafélagið Fjölnir sá líka ástæðu til að verðlauna Gabríel sérstaklega með því að útnefna hann Íþróttakarl Fjölnis 2023!

 

Mynd: Kristján U. Kristjánsson


Karatekona Fjölnis 2023: Klara Ólöf Kristjánsdóttir

Klara Ólöf hóf nýverið að keppa fyrir alvöru og hefur fyrst og fremst einbeitt sér að keppni í kumite hluta karate. Í ár náði hún tvisvar á verðlaunapall á Íslandi. Fékk brons á Íslandsmeistaramóti unglinga í kumite í flokki 14-15 ára stúlkna og fékk einnig bronsverðlaun á 3. GrandPrix móti Karatesambands Íslands í sama flokki.

Klara keppti jafnframt á Kobe Osaka International í Skotlandi í haust og hlaut þar 3. sæti í kata 14-15 ára, 2. sæti í kumite 12-13 ára og sigraði Gladiator 14-15 ára!

Klara er meðlimur í Afrekshópi karatedeildarinnar. Metnaður er það gildi Fjölnis sem Klara  hefur lifað í starfi sínu innan deildarinnar.

 

Mynd: Kristján U Kristjánsson


Íþróttakarl Fjölnis 2023 - Gabríel Sigurður Pálmason

Uppskeruhátið Fjölnis fór fram þann 13. desember að viðstöddum stórum hópi íþrótta- og stuðningfólks. Stóru fréttirnar voru þar að okkar maður, Gabríel Sigurður Pálmason afreksmaður hjá Karatedeild Fjölnis var valinn íþróttakarl ársins. Það var sérlega ánægjulegt að sjá Gabríel hljóta þessa viðurkenningu fyrir þá miklu vinnu sem hann hefur lagt í undanfarin ár. En á meðal sigra hans árið 2023 voru Íslandsmeistaratitill í kata, ásamt fjölda verðlauna sem hann hlaut á hinum ýmsu mótum innanlands og utan.

Við óskum Gabríel innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.

 

Mynd: Kristján U Kristjánsson.


Sumarstörf 2023 fyrir 15-25 ára

Líkt og fyrri ár munum við hjá Fjölni bjóða upp á fjölbreytt sumarstörf í tengslum við vinæslu sumarnámskeiðin okkar.

HÉR er umsóknareyðublað sem allir þurfa að fylla út til þess að sækja um starf.

ATH! 17-25 ára þurfa líka að fylla út umsókn í gegnum Hitt húsið. HÉR er hlekkur á þá slóð.

Umsóknarfrestur hjá Hinu húsinu er til 15. apríl.

Við hvetjum öll áhugasöm til þess að sækja um!


Æfingatafla Karatedeildar

Opnað hefur verið fyrir skráningar fyrir vorönn 2023.

Æfingar byrjenda hefjast 4. janúar og býðst áhugasömum að sækja 2-3 tíma sér að kostnaðarlausu til að fá tilfinningu fyrir íþróttinni. Æfingar framhaldsiðkenda hefjast svo fimmtudaginn 5. janúar.

Meðfylgjandi er æfingatafla okkar fyrir vorið 2023.

Aldursskipting í byrjendahópa er gróflega eftirfarandi:
  • Byrjendur yngri: 5-9 ára (á 6. ári)
  • Byrendur eldri:  9 ára og upp
Þau sem æfðu í byrjendahópum í haust halda áfarm á sama tíma (sem byrjendur) á mánudögum og miðvikudögum.
Aldursskipting í framhaldshópa verður gróflega eftirfarandi :
  • Hópur 1 -börn yngri: 5 – 7 ára
  • Hópur 2 – börn eldri: 8 – 11 ára
  • Hópur 3 – unglinga: 12 – 15 ára
  • Hópur 4 – fullorðnir: 16 ára+
Hjá þeim sem eru búnir að vera í framhaldi í meira en eina önn fer skipting líka eftir þroska, líkamlegri og tæknilegri getu.
Æfingatímar karatedeildar vorið 2023

 


Silfurmerkjahafar Karatedeildar

Það var sérlega ánægjulegt að veita þeim sem láta starf deildarinnar ganga Silfurmerki Fjölnis. Þetta eru einstaklingarnir sem vinna óeigingjarnt starf svo að iðkendur og aðstandendur þeirra geti notið íþróttarinnar.

 

Sif Ólafsdóttir

Sif Ólafsdóttir,  það eru ekki margir sem hafa unnið jafn ósérhlífið starf fyrir hönd karatedeildarinnar. Sif hefur tekist á við sum af erfiðari verkefnum deildarinnar frá því hún kom til starfa.  Hún er til dæmis burðarstoð í starfi deildarinnar innan Karatesambands Íslands. Þar sem varla er haldin keppni hjá Karatesambandinu öðruvísi en að Sif leggi þar hönd á plóg.

En hún hefur svo sem ekki látið þar við sitja heldur hefur hún einnig lagt deildinni til iðkendur úr fjölskyldunni. Sif er nefnilega þessi dæmigerða karatemamma sem tók deildina upp á arma sér og hefur svo haldið áfram að hjálpa deildinni sem stjórnarkona löngu eftir að börnin hennar hættu æfingum. Félög og deildir eins og okkar ganga ekki án fólks eins og Sifjar sem leggja sitt af mörkum langt umfram það gera má ráð fyrir.

 

 

 

 

 

Ester Hlíðar Jensen

Esther Hlíðar Jensen - það eru kannski ekki margar íþróttir þar sem foreldrar elta börnin inn í íþróttina og fara að æfa samhliða þeim. En það gerði Esther með sanni og svo þegar sonurinn heltust úr lestinni hélt hún áfram að æfa og hefur nú auk þess um fimm ára skeið lagt félaginu lið sem gjaldkeri deildarinnar og stjórnarmanneskja.

Á þeim tíma hefur deildin verið með fyrirmyndarrekstur og náð þeim fjárhagslegu markmiðum sem sett hafa verið þrátt fyrir að á ýmsu hafi gengið á þeim tíma.

Hún hefur jafnframt náð að verða sér úti um 2. dan í svartbeltisgráðun og dómararéttindi í karate. Esther er ómissandi fyrir starfsemi karatedeildarinnar.

 

 

 

 

 

 

Fyrir hönd Sigríðar Þórdísar Pétursdóttur

SIgríður Þórdís Pétursdóttir hefur starfað við karatedeildina síðan 2014 og þjálfar nú unglinga og fullorðna í framhaldshópum.

Sigríður hefur æft karate hjá Fjölni síðan hún var örlítil písl árið 2006 en er nú með 2. dan svart belti auk dómararéttinda.

Hún átti langan og farsælan keppnisferil og varð m.a. Íslandsmeistari í kata. Hún hefur lokið 1. og 2. stigi þjálfararéttinda frá ÍSÍ og stundar nú nám við Háskóla Íslands í sjúkraþjálfunarfræðum.

Það leynist engum að hjarta Siggu slær fyrir velgengni og vellíðan iðkenda karatedeildarinnar, við hin finnum það glögglega.

Á myndinni tekur yfirþjálfari deildarinnar Willem Verheul við silfurmerkinu fyrir hönd Sigríðar sem ekki átti heimangengt.

 

 

 

 

Páll Haraldsson

Páll Haraldsson, er einn af þeim sem hefur lengi verið til fyrirmyndar innan félagsins sem og innan karateíþróttarinnar. Hann hóf æfingar hjá Fjölni árið 2007 og hefur síðan verið óslitið að æfingum og störfum hjá félaginu.

Hann komst í afrekshóp þegar hann hafði aldur til og keppti með góðum árangri fyrir hönd Fjölnis á fjölda móta. Eftir að keppnisferli lauk hefur Páll margsinnis tekið að sér starf liðsstjóra Fjölnis á mótum.  Hann tók jafnframt að sér þjálfun árið 2016 og er nú vinsæll þjálfari og stuðningsmaður keppenda á mótum.

Heimspeki karateíþróttarinnar kveður á um að iðkendum beri að gefa til baka til félagsins og Páll er þar til fyrirmyndar. Hann hefur lokið 2. Dan gráðun fyrir svart belti og eftir 15 ára starf með Fjölni sér engan bilbug á honum.


Karatekona ársins: Eydís Magnea Friðriksdóttir

Það hefur komið fyrir að Eydís vinni ekki þær keppnir sem hún tekur þátt í. En það er ekki ýkja algengt - og henni líkar það ekkert sérlega vel.  Sem afrekskona átti Eydís frábært ár. Oftar en ekki kom hún heim með ekki einn, heldur tvo verðlaunapeninga eftir mót.

Eftir að sigra sína flokka í bæði kumite og kata á tveimur af þremur GrandPrix mótum varð hún GrandPrix meistari í kata og svo bikarmeistari á Bikarmótaröð Karatesambands Íslands eftir að leggja hvern mótaðilann á fætur öðrum.

Þess utan sankaði hún að sér eftirfarandi verðlaunum á Íslandsmeistaramótum fullorðinna: þriðja sæti í flokki í kumite, öðru sæti í kata.  Á Íslandsmeistaramótum unglinga varð hún svo í fyrsta sæti í kata og öðru sæti í kata.  Hún varð líka í fyrsta sæti á alþjólega RIG mótinu í flokki fullorðinna í kata. Að því ógleymdu að hún náði meðal annars bronsverðlaunum fyrir Kata í flokki ungkvenna á Norðurlandamótinu nú í nóvember.

Eydís hefur verið aðstoðarþjálfari hjá karatedeildinni og er meðlimur í Afrekshópi hennar um margra ára skeið. Metnaður er það gildi Fjölnis sem Eydís hefur lifað í starfi sínu innan deildarinnar.

Það er sérstaklega ánægjulegt að veita Eydísi þessi verðlaun núna á síðasta ári hennar hjá deildinni í bili en hún flytur sig um set til annars félags á næsta ári.  Karatedeildin vill þakka Eydísi fyrir samstarfið gegnum árin og fyrir að hafa verið yngri iðkendum góð fyrirmynd til langs tíma. 


Karatekarl ársins: Gabríel Sigurður Pálmason

Gabríel er fyrirmyndar iðkandi. Einbeittur og duglegur karatemaður. Í ár hefur hann dregið heim silfurpeninga fyrir frammistöðu sína í kata á Grand Prix mótaröðinni, á Íslandsmeistaramóti ungling og brons fyrir frammistöðu sína á RIG. Það sem er skemmtilegt er að þetta er annað árið í röð sem hægt er að segja nákvæmlega það sama um keppnisniðurstöður hans.

Í salnum mætir hann á allar æfingar og afreksæfingar auk styrktaræfinga og hann gefur sig allan á öllum æfingum

Gabríel er fyrirmyndar íþróttamaður sem sannar að sjálfsagi og einbeiting skilar árangri.

Metnaður og Heilbrigði eru þau Fjölnisgildi sem Gabríel hefur staðið fyrir í starfi sínu innan karatedeildarinnar.