Íþróttaskóli Fjölnis

Nú fer að líða að því að við byrjum aftur í íþróttaskólanum eftir jólafrí og verður fyrsta æfingin okkar laugardaginn 11.janúar.
Við ætlum að færa okkur um set og verða æfingarnar á þessu tímabili í Dalhúsum (íþróttahúsið við sundlaug Grafarvogs) á laugardögum frá kl. 09:00-09:50.
Búið er að opna fyrir skráningar inná fjolnir.felog.is.
Æfingatímabilið er frá 11.janúar til 9.maí (Æfingar falla niður 21.mars og 11.apríl vegna viðburða í húsinu).
Verð fyrir vorönnina er 17.900 kr. og fá allir krakkar sem skrá sig Fjölnisbol 🙂
Við hlökkum til að sjá sem flesta!

Facebook: https://www.facebook.com/groups/155622881806764/

Fjölniskveðja,
Ester Alda og Guðrún Jóna


Góður árangur Fjölnisfólks í Gamlárshlaupinu

Hið árlega Gamlárshlaup ÍR fór fram á gamlársdag kl 12. Hlaupið var ræst við Hörpuna í frekar blautu veðri. Fjölnisfólk fjölmennti í hlaupið og stóð sig frábærlega.

Ingvar Hjartarson varð í öðru sæti í karlaflokki á tímanum 34:45.

Arndís Ýr Hafþórsdóttir varð í þriðja sæti í kvennaflokki á tímanum 37:55.

Helga Guðný Elíasdóttir varð í fjórða sæti í kvennaflokki á tímanum 39:26.

Guðrún Axelsdóttir varð í öðru sæti í aldursflokknum 55-59 ára á tímanum 52:16.

Rósa Friðriksdóttir sigraði aldursflokkinn 60-64 ára á tímanum 52:19.

Signý Einarsdóttir sigraði aldursflokkinn 65-69 ára á tímanum 54:34.

Lilja Björk Ólafsdóttir varð í öðru sæti í aldursflokknum 65-69 ára á tímanum 01:01:06.

Öll úrslit hlaupsins eru hér.

Myndirnar eru fengnar af facebooksíðu Gamlárshlaups ÍR.


Áramót Fjölnis 2019

Frjálsíþróttadeild Fjölnis hélt sitt árlega Áramót í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal mánudaginn 30. desember. Mótið tókst vel í alla staði og ber að þakka fyrir framlag allra þeirra sjálfboðaliða sem lögðu hönd á plóginn.

Fjölnir átti 12 keppendur á mótinu sem stóðu sig mjög vel.

Kjartan Óli Ágústsson sigraði í 800 m hlaupi á tímanum 2:05,15.

Katrín Tinna Pétursdóttir sigraði í hástökki kvenna með stökk yfir 1,68 m sem er persónuleg bæting hjá henni. Hún varð í þriðja sæti í langstökki kvenna þegar hún stökk 4,92 m.

Vilhelmína Þór Óskarsdóttir varð í öðru sæti í 200 m hlaupi kvenna á tímanum 27,04 sek.

Bjarni Anton Theódórsson varð í öðru sæti í 200 m hlaupi á tímanum 23,11 sek.

Helga Þóra Sigurjónsdóttir varð í öðru sæti í hástökki kvenna með stökk yfir 1,60 m.

Hildur Hrönn Sigmarsdóttir varð í öðru sæti í kúluvarpi 15 ára stúlkna (3 kg) með kast uppá 8,69 m sem er persónuleg bæting hjá henni.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir ÍR átti besta afrek mótsins þegar hún hljóp 60 m á tímanum 7,54 sek sem gefur 1039 IAAF stig sem er stórglæsilegur árangur. Fær hún til varðveislu farandbikar mótsins sem er ávallt veittur þeim íþróttamanni sem á besta afrek mótsins skv. stigatöflu IAAF.

Öll úrslit mótsins eru hér.


Minna og Daði íþróttafólk frjálsíþróttadeildarinnar 2019

Íþróttafólk Fjölnis 2019 var heiðrað við hátíðlega athöfn föstudaginn 27. desember. Íþróttafólk frjálsíþróttadeildarinnar voru Vilhelmína Þór Óskarsdóttir og Daði Arnarson.

Vilhelmína er 21 árs gömul frjálsíþróttakona sem hefur æft frjálsar íþróttir frá unga aldri og hefur síðustu ár einbeitt sér að keppni í hlaupum. Hefur hún náð mjög góðum árangri í 60, 100, 200 og 400m hlaupum. Á árinu 2019 hljóp hún 400m á 57,29sek sem gefur 965 IAAF stig sem er frábær árangur. Þessi árangur setur hana í 4. sæti á listanum yfir bestu tíma í 400m hlaupi innanhúss árið 2019. Vilhelmína eða Minna eins og hún er alltaf kölluð er í landsliði Íslands í hópi 4x400m boðhlaupskvenna. Hún var líka kjörin íþróttakona deildarinnar í fyrra.

Daði er tvítugur og hefur æft frjálsar íþróttir frá unga aldri. Hann hefur aðallega einbeitt sér að 800m hlaupi undanfarin ár en líka náð góðum árangri í 600m og 1500m hlaupum. Á þessu ári hljóp hann 600m á tímanum 1:22,18 sem gefur 929 IAAF stig sem er frábær árangur. Þessi árangur setur hann í annað sæti á listann yfir bestu afrek í 600m hlaupi innanhúss á þessu ári. Þess má geta að Daði tekur þátt í þjálfun yngri iðkenda deildarinnar og nýtur mikilla vinsælda hjá þeim og er góð fyrirmynd.

Fjölnismaður ársins var að þessu sinni hjónin Lilja Björk Ólafsdóttir og Guðmundur Magni Þorsteinsson sem eru öflugir hlauparar í hlaupahópi Fjölnis. Þessi dugnaðarhjón tilheyra hópi fárra í heiminum sem klárað hafa sex stærstu marþon í heimi. Þau eru elst íslenskra hjóna sem það hafa afrekað. Hjónin, sem eru á sjötugsaldri, byrjuðu að hlaupa um fertugt og eru hvergi nærri hætt. Í Grafarvogi ólu þau upp börn sín fjögur og þegar þau voru að nálgast fertugt gafst loks tími fyrir áhugamál. Um leið og ungarnir voru flognir úr hreiðrinu reimuðu þau á sig hlaupaskóna og héldu af stað. Þau höfðu þá aldrei stundað hlaup en byrjuðu strax í hlaupahópi Grafarvogs, sem heitir nú hlaupahópur Fjölnis. Það var árið 1995 og hafa þau hlaupið meira og minna síðan.

Þau fundu sig vel í hlaupunum og áður en varði lá leiðin í maraþon. Það átti eftir að vinda upp á sig svo um munar. Sex stærstu hlaup heims eru í London, New York, Boston, Berlín, Tokýó og Chicago og hafa þau hjón klárað þau öll. Þessi hlaup eru fjöl­menn­ustu maraþonin og það var búinn til klúbbur fyr­ir fólk sem hef­ur klárað öll þessi hlaup, en klúbburinn heitir Abbott World Marathon Majors og má finna þar rúmlega þrjátíu Íslendinga. Aðeins sex þúsund manns í heiminum geta státað af að hafa klárað öll þessi stærstu hlaup heims. Líklega eru fá hjón á sjötugsaldri í þeim hópi og eru þau Lilja og Guðmundur elst íslenskra hjóna sem það hafa afrekað.

Frjálsíþróttadeildin óskar þeim til hamingju með valið.


Hópalistar - vorönn 2020

Á meðfylgjandi slóð má sjá hópalista fyrir vorönn 2020

Skráning hefst 1.janúar í alla hópa á  skráningarsíðunni, https://fjolnir.felog.is/
Allir iðkendur þurfa að vera skráðir í réttan hóp áður en æfingar hefjast.  Þjálfurum er óheimilt að taka á móti óskráðum iðkendum.

Athugið að foreldrar eiga aðeins að skrá í úthlutaðann hóp.
Það er mikilvægt að foreldrar skrái iðkendur í rétta hópa í réttri fimleikagrein. Tilfærslur geta haft auka kostnað í för með sér og því mikilvægt að vanda skráninguna.
Foreldrar iðkenda í þeim hópum sem falla undir fimleika fyrir alla verða að athuga að hópalistinn er ætlaður til þess að leiðbeina með skráningar,  birtur nafnalisti þýðir ekki að það sé frátekið pláss í hópnum fyrir iðkandann því skráning í þessa hópa er opin fyrir alla.

Hópalista má finna HÉR
Athuga að það er hægt að fletta flipunum neðst á síðunni


Karatefólk ársins 2019

Karatekona ársins:
Eydís Magnea Friðriksdóttir

Eydís Magnea Friðriksdóttir

Eydís hefur, þrátt fyrir ungan aldur sýnt mikið keppnisvilja. Árið í ár var henni gott, og hún sýndi sig fremsta meðal jafningja þegar hún varð íslandsmeistari í sínum flokki í kata og náði svo skömmu síðar silfurverðlaunum á Íslandsmeistaramóti unglinga í kumite. Auk þessa, vann Eydís til bronsverðlauna á Norðurlandameistaramótinu í kata.

Eydís starfar sem aðstoðarþjálfari hjá karatedeildinni og er meðlimur í Afrekshópi hennar. Hún er jafnframt fastur meðlimur karatelandsliðsins og var valin til að taka þátt fyrir hönd Íslands á fjölda móta erlendis þetta árið.

Metnaður og Virðing eru þau gildi Fjölnis sem Eydís hefur lifað í starfi sínu innan deildarinnar.

Karatemaður ársins:
Gabríel Sigurður Pálmason

Karatemaður ársins 2019

Þetta árið var mjög hörð samkeppni innan deildarinnar um titilinn Karatemaður ársins. Á árinu náði Gabríel bronsi á Íslandsmeistaramóti bæði í kata og hópkata. Auk tveggja silfurverðlauna og einna bronsverðlauna á GrandPrix mótum ársins. Hann vann jafnframt til fjölda verðlauna á Kobe Osaka mótinu í Skotlandi á seinni hluta ársins. Gabríel er upprennandi afreksíþróttamaður sem sannar að sjálfsagi og einbeiting skilar árangri.

Metnaður og Heilbrigði eru þau Fjölnisgildi sem Gabríel hefur staðið fyrir í starfi sínu innan karatedeildarinnar.


Íþróttafólk ársins

Íþróttafólk Fjölnis árið 2019 var heiðrað í gærkvöldi við hátíðlega athöfn í fimleikasalnum.

Íþróttakarl Fjölnis 2019

Úlfar Jón Andrésson (íshokkídeild) er leikmaður meistaraflokks karla. Hann skilar alltaf gríðarlega góðum árangri í leikjum og hefur átt stóran þátt í því að koma íshokkíliði meistaraflokks karla efst í sinni deild á þessum vetri. Hann hefur í mörg ár verið valinn í landslið karla í íshokkí þar sem hann hefur ávallt átt stórt hlutverk í árangri liðsins. Úlfar hefur ekki látið sitt eftir liggja við að miðla af reynslu sinni til yngri kynslóðarinnar. Hann hefur í gegnum tíðina þjálfað yngri leikmenn og unnið á leikjum þeirra í sjálfboðavinu. Úlfar Jón er góð fyrirmynd allra íþróttamanna og okkar hinna í daglegu lífi. Liðsfélagi Úlfars tók á móti verðlaununum í fjarveru hans.

Íþróttakona Fjölnis 2019

Eygló Ósk Gústafsdóttir (sunddeild) hefur verið afrekskona í sundi frá 13 ára aldri og hefur meðal annars keppt á tveimur Ólympíuleikum og verið valin Íþróttakona ársins árið 2015. Hún hefur náð stórkostlegum árangri í baksundum á heimsvísu, hún stefnir á að verða aftur í topp 8 í Evrópu og ná lágmörkum fyrir Ólympíuleikana í Japan á næsta ári. Nýlega var Eygló Ósk valin Sundkona Íslands árið 2019.

Fjölnismaður ársins 2019

Hjónin Lilja Björk Ólafsdóttir og Guðmundur Magni Þorsteinsson hlauparar í hlaupahóp Fjölnis. Þessi dugnaðarhjón tilheyra hópi fárra í heiminum sem klárað hafa sex stærstu marþon í heimi. Þau eru elst íslenskra hjóna sem það hafa afrekað. Hjónin, sem eru á sjötugsaldri, byrjuðu að hlaupa um fertugt og eru hvergi nærri hætt. Í Grafarvogi ólu þau upp börn sín fjögur og þegar þau voru að nálgast fertugt gafst loks tími fyrir áhugamál. Um leið og ungarnir voru flognir úr hreiðrinu reimuðu þau á sig hlaupaskóna og héldu af stað. Þau höfðu þá aldrei stundað hlaup en byrjuðu strax í hlaupahópi Grafarvogs, sem heitir nú hlaupahópur Fjölnis. Það var árið 1995 og hafa þau hlaupið meira og minna síðan.

Þau fundu sig vel í hlaupinu og áður en varði lá leiðin í maraþon. Það átti eftir að vinda upp á sig svo um munar. Sex stærstu hlaup heims eru í London, New York, Boston, Berlín, Tokýó og Chicago og hafa þau hjón klárað þau öll. „Þessi hlaup eru fjöl­menn­ust og það var ein­hver sem bjó til klúbb fyr­ir fólk sem hef­ur klárað öll þessi hlaup,“ segir hann en klúbburinn heitir Abbott World Marathon Majors og má finna þar rúmlega þrjátíu Íslendinga. Aðeins sex þúsund manns í heiminum geta státað af að hafa klárað öll þessi stærstu hlaup heims. Líklega eru fá hjón á sjötugsaldri í þeim hópi og eru þau Lilja og Guðmundur elst íslenskra hjóna sem það hafa afrekað.

Þau hjón eru líka óþreytandi við að hjálpa til á mótum eða annað sem frjálsíþróttadeildin leitar til þeirra eftir aðstoð með.

Íþróttafólk ársins (íþróttakarl- og kona) verður heiðrað við hátíðlega athöfn föstudaginn 27.desember kl. 17:30 í fimleikasal Fjölnis í Egilshöll. Eins og undanfarin tvö ár eru íþróttakarl og kona valin af aðalstjórn.

Við munum einnig heiðra Fjölnismann ársins sem valinn er af aðalstjórn, ásamt því að kynna val á íþróttafólki deilda.

Tilnefningar deildanna:

Knattspyrnudeild: Hans Viktor Guðmundsson og Hlín Heiðarsdóttir.

Listskautadeild: Júlía Sylvía Gunnardóttir.

Sunddeild: Eygló Ósk Gústafsdóttir og Kristinn Þórarinsson.

Frjálsíþróttadeild: Vilhelmína Þór Óskarsdóttir og Daði Arnarson.

Karatedeild: Eydís Magnea Friðriksdóttir og Gabríel Sigurður Pálmason.

Körfuknattleiksdeild: Róbert Sigurðsson og Fanney Ragnarsdóttir.

Tennisdeild: Eygló Dís Ármannsdóttir og Teitur Ólafur Marshall.

Fimleikadeild: Sigurður Ari Stefánsson og Kristín Sara Stefánsdóttir.

Handknattleiksdeild: Breki Dagsson og Karen Birna Aradóttir.

Íshokkídeild: Úlfar Jón Andrésson og Unnur María Helgadóttir.

Skákdeild: Dagur Ragnarsson og Hrund Hauksdóttir.

Deildir eru beðnar að sjá til þess að einstaklingar innan þeirra raða mæti.

Við hvetjum alla Fjölnismenn og Grafarvogsbúa að fjölmenna og heiðra íþróttafólkið okkar fyrir frábæran árangur á árinu. Hófið er opið öllum.

Léttar kaffiveitingar í boði.

Þetta er í 30. sinn sem valið fer fram. Í fyrra voru þau Hera Björk Brynjarsdóttir tennisdeild og Kristinn Þórarinsson sunddeild valin íþróttafólk ársins og hópurinn í kringum getraunakaffið var valinn Fjölnismaður ársins.

#FélagiðOkkar

Kíktu á viðburðinn okkar á Facebook.


Íþróttakona listhlaupadeildar Fjölnis árið 2019

Íþróttakona listhlaupadeildar Fjölnis árið 2019 er Júlía Sylvía Gunnarsdóttir. Hún hefur tekið virkan þátt á mótum á árinu. Júlía Sylvía keppti á Reykjavíkurleikunum í janúar þar sem hún lenti í 6. sæti með 64,53 stig. Hún fór á sitt fyrsta Norðurlandamót í febrúar en þar hafnaði hún í 18. sæti með 66,50 stig. Nú í haust tók hún þátt á Haustmóti ÍSS, Vetrarmóti ÍSS og Íslandsmótinu. Hún hafnaði í 3. sæti á bæði Haustmótinu og Vetrarmótinu en á því síðara fékk hún 70,13 stig. Hún hefur því sýnt stöðugar framfarir á árinu.  

Júlía Sylvía byrjaði að æfa skauta í Skautaskóla skautafélags Bjarnarins þegar hún var 6 ára. Hún var fljótlega færð yfir í framhaldshópana. Árið 2016 flutti hún með foreldrum sínum til Kanada og þar komst hún að í góðum skautaskóla þar sem Annie Barabé var yfirþjálfari. Júlía Sylvía flutti aftur til Íslands árið 2018 og byrjaði að æfa hjá Fjölni undir stjórn Gennady Kaskov og nú Svetlönu Akhmerovu.  

Þegar hún var yngri stundaði hún fleiri áhugamál, æfði sund, leiklist, ballet og Tai Kwon Do en á síðustu árum hefur sífellt meiri tími farið í skautaiðkunina sem hún stundar af kappi. Önnur áhugamál hennar eru tónlist og Manga sögur og þættir.  

Júlía Sylvía er metnaðargjarn iðkandi, leggur hart að sér og hefur sýnt framúrskarandi ástundun. Hún er yngri iðkendum góð fyrirmynd og deildinni til mikilla sóma. Við óskum henni innilega til hamingju með þennan verðskuldaða titil. 


Ókeypis jólanámskeið í handbolta

Hin árlega jólagjöf handboltadeildarinnar er klár!

Jólanámskeið deildarinnar hefur slegið í gegn undanfarin ár, enda virkilega vel heppnað í alla staði. Handboltadeildin ætlar því að endurtaka leikinn og standa fyrir glæsilegu námskeiði fyrir iðkendur og byrjendur í handboltaíþróttinni milli jóla og nýárs. Námskeiðið verður alveg ÓKEYPIS og verður það haldið dagana 27. og 30. desember.

Námskeiðið fer fram í Fjölnishöllinni okkar í Egilshöll (nýja íþróttahúsið okkar) á eftirfarandi tímum:

1. og 2. bekkur
27. og 30. desember kl. 09:00-10:15

3. og 4. bekkur
27. og 30. desember kl. 10:30-11:45

Farið verður í grunnþætti íþróttarinnar og leikir og skemmtun höfð að leiðarljósi. Jólatónlist verður spiluð og þjálfarar deildarinnar munu leiðbeina og aðstoða unga iðkendur. Við hlökkum til að sjá ykkur í jólaskapi á þessum tíma!

*Mælst er til þess að iðkendur mæti í íþróttafötum, í íþróttaskóm og með vatnsbrúsa.

Eina sem þarf að gera er að skrá barnið hér á listann og mæta á staðinn!

Skráning hér:
https://forms.gle/mHoAQ8qPWyf1ie697


Fjölnir stofnar þríþrautarhóp

Hjólreiðafélag Reykjavíkur, sunddeild Fjölnis og frjálsíþróttadeild Fjölnis hafa tekið höndum saman og sett upp æfingaplan fyrir þá sem hafa áhuga á því að stunda þessar þrjár íþróttir samhliða.

Hvort heldur sem þig langar að koma þér í gott form, vera hluti af skemmtilegum æfingahópi, taka þátt í Landvættum eða einhvers konar þríþraut þá er þetta eitthvað fyrir þig!

Þaulreyndir þjálfarar taka á móti þér í hverri grein fyrir sig og við setjum okkur markmið saman. Skref fyrir skref náum við svo markmiðunum. Sendu okkur línu á trihfrogfjolnis@gmail.com eða skráðu þig bara og mættu!

Við byrjum á 4 vikna sundnámskeiði mánudaginn 6.janúar 2020. Námskeiðið kostar 15.000 kr, en ef þú heldur áfram í þríþrautarhópnum, þá ganga 10.000 kr upp í félagsgjaldið. Námskeiðið fer fram á ensku.
Athugið að sundnámskeiðið er kennt á mánudögum og föstudögum kl. 19-20 í Grafarvogslaug.

Verð fyrir janúar til júní 2020 er 30.000 kr. Skráningar opna 1.janúar á https://fjolnir.felog.is/ og mættu í fyrsta tímann mánudaginn 6.janúar.

Hlökkum til að sjá þig!