Íþróttakona listhlaupadeildar Fjölnis árið 2019
Íþróttakona listhlaupadeildar Fjölnis árið 2019 er Júlía Sylvía Gunnarsdóttir. Hún hefur tekið virkan þátt á mótum á árinu. Júlía Sylvía keppti á Reykjavíkurleikunum í janúar þar sem hún lenti í 6. sæti með 64,53 stig. Hún fór á sitt fyrsta Norðurlandamót í febrúar en þar hafnaði hún í 18. sæti með 66,50 stig. Nú í haust tók hún þátt á Haustmóti ÍSS, Vetrarmóti ÍSS og Íslandsmótinu. Hún hafnaði í 3. sæti á bæði Haustmótinu og Vetrarmótinu en á því síðara fékk hún 70,13 stig. Hún hefur því sýnt stöðugar framfarir á árinu.
Júlía Sylvía byrjaði að æfa skauta í Skautaskóla skautafélags Bjarnarins þegar hún var 6 ára. Hún var fljótlega færð yfir í framhaldshópana. Árið 2016 flutti hún með foreldrum sínum til Kanada og þar komst hún að í góðum skautaskóla þar sem Annie Barabé var yfirþjálfari. Júlía Sylvía flutti aftur til Íslands árið 2018 og byrjaði að æfa hjá Fjölni undir stjórn Gennady Kaskov og nú Svetlönu Akhmerovu.
Þegar hún var yngri stundaði hún fleiri áhugamál, æfði sund, leiklist, ballet og Tai Kwon Do en á síðustu árum hefur sífellt meiri tími farið í skautaiðkunina sem hún stundar af kappi. Önnur áhugamál hennar eru tónlist og Manga sögur og þættir.
Júlía Sylvía er metnaðargjarn iðkandi, leggur hart að sér og hefur sýnt framúrskarandi ástundun. Hún er yngri iðkendum góð fyrirmynd og deildinni til mikilla sóma. Við óskum henni innilega til hamingju með þennan verðskuldaða titil.
Ókeypis jólanámskeið í handbolta
Hin árlega jólagjöf handboltadeildarinnar er klár!
Jólanámskeið deildarinnar hefur slegið í gegn undanfarin ár, enda virkilega vel heppnað í alla staði. Handboltadeildin ætlar því að endurtaka leikinn og standa fyrir glæsilegu námskeiði fyrir iðkendur og byrjendur í handboltaíþróttinni milli jóla og nýárs. Námskeiðið verður alveg ÓKEYPIS og verður það haldið dagana 27. og 30. desember.
Námskeiðið fer fram í Fjölnishöllinni okkar í Egilshöll (nýja íþróttahúsið okkar) á eftirfarandi tímum:
1. og 2. bekkur
27. og 30. desember kl. 09:00-10:15
3. og 4. bekkur
27. og 30. desember kl. 10:30-11:45
Farið verður í grunnþætti íþróttarinnar og leikir og skemmtun höfð að leiðarljósi. Jólatónlist verður spiluð og þjálfarar deildarinnar munu leiðbeina og aðstoða unga iðkendur. Við hlökkum til að sjá ykkur í jólaskapi á þessum tíma!
*Mælst er til þess að iðkendur mæti í íþróttafötum, í íþróttaskóm og með vatnsbrúsa.
Eina sem þarf að gera er að skrá barnið hér á listann og mæta á staðinn!
Skráning hér:
https://forms.gle/mHoAQ8qPWyf1ie697
Fjölnir stofnar þríþrautarhóp
19/12/2019Sund,Frjálsar,Félagið okkar
Hjólreiðafélag Reykjavíkur, sunddeild Fjölnis og frjálsíþróttadeild Fjölnis hafa tekið höndum saman og sett upp æfingaplan fyrir þá sem hafa áhuga á því að stunda þessar þrjár íþróttir samhliða.
Hvort heldur sem þig langar að koma þér í gott form, vera hluti af skemmtilegum æfingahópi, taka þátt í Landvættum eða einhvers konar þríþraut þá er þetta eitthvað fyrir þig!
Þaulreyndir þjálfarar taka á móti þér í hverri grein fyrir sig og við setjum okkur markmið saman. Skref fyrir skref náum við svo markmiðunum. Sendu okkur línu á trihfrogfjolnis@gmail.com eða skráðu þig bara og mættu!
Við byrjum á 4 vikna sundnámskeiði mánudaginn 6.janúar 2020. Námskeiðið kostar 15.000 kr, en ef þú heldur áfram í þríþrautarhópnum, þá ganga 10.000 kr upp í félagsgjaldið. Námskeiðið fer fram á ensku.
Athugið að sundnámskeiðið er kennt á mánudögum og föstudögum kl. 19-20 í Grafarvogslaug.
Verð fyrir janúar til júní 2020 er 30.000 kr. Skráningar opna 1.janúar á https://fjolnir.felog.is/ og mættu í fyrsta tímann mánudaginn 6.janúar.
Hlökkum til að sjá þig!
Nýlega tók knattspyrnudeild í notkun VEO - myndavél
Nú á haustmánuðum tók knattspyrnudeild í notkun VEO myndavél fyrir yngriflokkastarfið.
Myndavélin gerir þjálfurum kleift að taka upp leiki auðveldlega án myndatökumanns.
Foreldrar og iðkendur geta því horft á upptökur af leikjum inná: https://app.veo.co/clubs/ungmennafelagi-fjolnir/

Jólaball Fjölnis
Jólaball Fjölnis verður haldið föstudaginn 27.desember frá kl. 16:00-17:00 í Íssalnum í Egilshöll (3.hæð).
Jólasveinar kíkja í heimsókn og gefa öllum börnum glaðning.
Jólaband Fjölnis spilar falleg lög í tilefni jólanna.
Aðgangseyrir kr. 500 fyrir börn, frítt fyrir fullorðna.
Miðasala HÉR.
Kíktu á viðburðinn okkar á Facebook
Fjölmennt á jólaskákæfingunni
Það má eiginlega segja að uppselt hafi verið á jólaskákæfingu skákdeildar Fjölnis fimmtudaginn 12. des. Tæplega 50 þátttakendur mættu í Rimaskóla þar sem Fjölnisæfingar fara fram. Keppt var í tveimur flokkum og tefldar voru 5 umferðir. Í skákhléi var boðið upp á myndarlega skúffuköku og börnin leyst út með veglegum jólaglaðningi í lok æfingar. Það eru hjónin Vala borgarfulltrúi og Steini, góðir Grafarvogsbúar, sem mæta til okkar hvert ár á jólaskákæfingu og skilja eftir eitthvað spennandi til að njóta og leika sér með. Skákæfingar Fjölnis eru alltaf fjölmennar og líka mjög skemmtilegar. Fyrsta æfing á nýju ári verður fimmtudaginn 9. janúar.
Opnunartími Fjölnis í kringum jól og áramót
Dalhús
Dalhús verða lokuð frá og með lau 21.des til og með mán 1.jan.
Egilshöll
Fjölnishöll, fimleikasalur, knatthöll og karatesalur verða lokuð dagana 24, 25, 26 og 31.des ásamt 1.jan.
Kær kveðja,
Starfsfólk Fjölnis
Jólamót Fjölnis
Frjálsíþróttadeild Fjölnis hélt sitt árlega jólamót fyrir yngstu iðkendurna sunnudaginn 8. desember. Mótið var haldið í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Keppt var í 60 m spretthlaupi, langstökki, skutlukasti og 200m hlaupi. Mótið gekk mjög vel og virtust keppendur vera mjög ánægðir. Mótið var styrkt af Krumma leikföngum og Íslandsbanka. Að móti loknu fengu allir glaðning frá Krumma leikföngum og viðurkenningarskjal.
Allar æfingar fara fram í dag
Fréttin var uppfærð kl. 11:30 þann 11.desember
ALLAR æfingar fara fram í dag, miðvikudag.
Kær kveðja,
Skrifstofa Fjölnis
Frítt að æfa íshokkí í desember fyrir byrjendur

Íshokkídeildin býður byrjendum að prófa að æfa, þeim að kostnaðarlausu út desember. Íshokkí er fjölbreytt og skemmtileg íþrótt sem hentar öllum aldri, ekki skiptir máli að kunna á skauta því þjálfararnir okkar kenna skautatækni ásamt öðru sem tilheyrir íþróttinni á skemmtilegan hátt á æfingum.
Við hlökkum til að sjá sem flesta næst komandi þriðjudag til að prófa. Mæting kl. 17 til að finna búnað.