Íþróttafólk Fjölnis árið 2019 var heiðrað í gærkvöldi við hátíðlega athöfn í fimleikasalnum.

Íþróttakarl Fjölnis 2019

Úlfar Jón Andrésson (íshokkídeild) er leikmaður meistaraflokks karla. Hann skilar alltaf gríðarlega góðum árangri í leikjum og hefur átt stóran þátt í því að koma íshokkíliði meistaraflokks karla efst í sinni deild á þessum vetri. Hann hefur í mörg ár verið valinn í landslið karla í íshokkí þar sem hann hefur ávallt átt stórt hlutverk í árangri liðsins. Úlfar hefur ekki látið sitt eftir liggja við að miðla af reynslu sinni til yngri kynslóðarinnar. Hann hefur í gegnum tíðina þjálfað yngri leikmenn og unnið á leikjum þeirra í sjálfboðavinu. Úlfar Jón er góð fyrirmynd allra íþróttamanna og okkar hinna í daglegu lífi. Liðsfélagi Úlfars tók á móti verðlaununum í fjarveru hans.

Íþróttakona Fjölnis 2019

Eygló Ósk Gústafsdóttir (sunddeild) hefur verið afrekskona í sundi frá 13 ára aldri og hefur meðal annars keppt á tveimur Ólympíuleikum og verið valin Íþróttakona ársins árið 2015. Hún hefur náð stórkostlegum árangri í baksundum á heimsvísu, hún stefnir á að verða aftur í topp 8 í Evrópu og ná lágmörkum fyrir Ólympíuleikana í Japan á næsta ári. Nýlega var Eygló Ósk valin Sundkona Íslands árið 2019.

Fjölnismaður ársins 2019

Hjónin Lilja Björk Ólafsdóttir og Guðmundur Magni Þorsteinsson hlauparar í hlaupahóp Fjölnis. Þessi dugnaðarhjón tilheyra hópi fárra í heiminum sem klárað hafa sex stærstu marþon í heimi. Þau eru elst íslenskra hjóna sem það hafa afrekað. Hjónin, sem eru á sjötugsaldri, byrjuðu að hlaupa um fertugt og eru hvergi nærri hætt. Í Grafarvogi ólu þau upp börn sín fjögur og þegar þau voru að nálgast fertugt gafst loks tími fyrir áhugamál. Um leið og ungarnir voru flognir úr hreiðrinu reimuðu þau á sig hlaupaskóna og héldu af stað. Þau höfðu þá aldrei stundað hlaup en byrjuðu strax í hlaupahópi Grafarvogs, sem heitir nú hlaupahópur Fjölnis. Það var árið 1995 og hafa þau hlaupið meira og minna síðan.

Þau fundu sig vel í hlaupinu og áður en varði lá leiðin í maraþon. Það átti eftir að vinda upp á sig svo um munar. Sex stærstu hlaup heims eru í London, New York, Boston, Berlín, Tokýó og Chicago og hafa þau hjón klárað þau öll. „Þessi hlaup eru fjöl­menn­ust og það var ein­hver sem bjó til klúbb fyr­ir fólk sem hef­ur klárað öll þessi hlaup,“ segir hann en klúbburinn heitir Abbott World Marathon Majors og má finna þar rúmlega þrjátíu Íslendinga. Aðeins sex þúsund manns í heiminum geta státað af að hafa klárað öll þessi stærstu hlaup heims. Líklega eru fá hjón á sjötugsaldri í þeim hópi og eru þau Lilja og Guðmundur elst íslenskra hjóna sem það hafa afrekað.

Þau hjón eru líka óþreytandi við að hjálpa til á mótum eða annað sem frjálsíþróttadeildin leitar til þeirra eftir aðstoð með.

Íþróttafólk ársins (íþróttakarl- og kona) verður heiðrað við hátíðlega athöfn föstudaginn 27.desember kl. 17:30 í fimleikasal Fjölnis í Egilshöll. Eins og undanfarin tvö ár eru íþróttakarl og kona valin af aðalstjórn.

Við munum einnig heiðra Fjölnismann ársins sem valinn er af aðalstjórn, ásamt því að kynna val á íþróttafólki deilda.

Tilnefningar deildanna:

Knattspyrnudeild: Hans Viktor Guðmundsson og Hlín Heiðarsdóttir.

Listskautadeild: Júlía Sylvía Gunnardóttir.

Sunddeild: Eygló Ósk Gústafsdóttir og Kristinn Þórarinsson.

Frjálsíþróttadeild: Vilhelmína Þór Óskarsdóttir og Daði Arnarson.

Karatedeild: Eydís Magnea Friðriksdóttir og Gabríel Sigurður Pálmason.

Körfuknattleiksdeild: Róbert Sigurðsson og Fanney Ragnarsdóttir.

Tennisdeild: Eygló Dís Ármannsdóttir og Teitur Ólafur Marshall.

Fimleikadeild: Sigurður Ari Stefánsson og Kristín Sara Stefánsdóttir.

Handknattleiksdeild: Breki Dagsson og Karen Birna Aradóttir.

Íshokkídeild: Úlfar Jón Andrésson og Unnur María Helgadóttir.

Skákdeild: Dagur Ragnarsson og Hrund Hauksdóttir.

Deildir eru beðnar að sjá til þess að einstaklingar innan þeirra raða mæti.

Við hvetjum alla Fjölnismenn og Grafarvogsbúa að fjölmenna og heiðra íþróttafólkið okkar fyrir frábæran árangur á árinu. Hófið er opið öllum.

Léttar kaffiveitingar í boði.

Þetta er í 30. sinn sem valið fer fram. Í fyrra voru þau Hera Björk Brynjarsdóttir tennisdeild og Kristinn Þórarinsson sunddeild valin íþróttafólk ársins og hópurinn í kringum getraunakaffið var valinn Fjölnismaður ársins.

#FélagiðOkkar

Kíktu á viðburðinn okkar á Facebook.