Adna Mesetovic kölluð í landsliðsverkefni

Adna Mesetovic, leikmaður meistaraflokks kvenna, hefur verið kölluð inn í A-landsliðshóp Bosníu og Hersegóvínu sem nú undirbýr sig fyrir undankeppni Heimsmeistaramótsins nú í haust.

Hún hefur nú þegar haldið utan til æfinga en þar að auki mun landslið Bosníu og Hersegóvínu leika vináttuleik við Búlgaríu.

Adna er framsækin miðjumaður sem uppalin er hjá Fjarðabyggð en gekk til liðs við okkur í Fjölni fyrir þetta tímabil.

Það verður spennandi að fylgjast með þessum sterka leikmanni á komandi misserum.

 

#FélagiðOkkar


Sara Montoro valin í U19 landslið kvenna

Þórður Þórðarson, landsliðsþjálfari U19 kvenna í knattspyrnu, hefur valið landsliðshóp sem æfir þessa vikuna á Selfossi.

22 leikmenn eru í hópnum og koma frá 12 félögum, þar á meðal Sara Montoro leikmaður okkar í meistaraflokki Fjölnis.

Þetta val er mikil viðurkenning fyrir Söru sem og kvennaknattspyrnuna í Fjölni, en Sara hefur farið vel af stað í sumar og er komin með 9 mörk í 4 leikjum í Íslandsmótinu.

Það verður spennandi að fylgjast með þessari frábæru fyrirmynd í sumar og á komandi tímabilum.

Sjá frétt af heimasíðu KSÍ

#FélagiðOkkar


Söfnun fyrir tjaldi á Kárapall - Vertu með í happdrættinu!

Sumarið fer vel af stað hjá meistaraflokkunum okkar, þar sem bæði lið eru með fullt hús stiga eftir tvo og þrjá leiki. Þar að auki eru strákarnir komnir áfram í 32-liða úrslit Mjólkurbikarsins. Frábær byrjun!
Með hækkandi sól og tilslökun á samkomutakmörkunum á næstu dögum mun stuðningsfólk vonandi flykkjast á völlinn til að styðja við #FélagiðOkkar.
Til að bjóða upp á sem besta umgjörð á heimaleikjum, sem oft hitta á matartíma, höfum við í hyggju að festa kaup á tilkomumiklu veislutjaldi þar sem fólk mun gætt sér á veitingum og mælt sér mót.
Tjaldið sem er 6 metra breitt og 9 metra langt, mun vera staðsett við Kárapall og umbreyta veitingaaðstöðunni við völlinn. Þar mun fólk geta tyllt sér fyrir leiki, í hálfleik og jafnvel eftir leik. Um er að ræða fjárfestingu á reisulegu tjaldi sem mun geta staðið af sér veður og vinda.

Til að fjármagna veislutjaldið hefur Knattspyrnudeildin sett sér markmið um að SELJA 500 AUKAHAPPDRÆTTISMIÐA í Happdrætti Knattspyrnudeildar Fjölnis sem nú stendur yfir og lýkur 31. maí.
Af því tilefni leitum til ykkar, kæra Fjölnisfólk, og óskum eftir ykkur aðstoð við að fjármagna tjaldið með kaupum á happdrættismiðum.
Sláum tvær flugur í einu höggi! Með kaupum á happdrættismiða áttu bæði kost á að vinna veglega vinninga og jafnframt styðja deildina við þessi kaup á veislutjaldi.

 

Miðinn kostar 2.000 kr. og verður happdrættisnúmerum dreift rafrænt á netföng fólks.
Greitt inn á eftirfarandi reikning:
👉Rkn: 0114-05-060968
👉Kt: 631288-7589

Þú setur svo skjáskot með greiðslu og netfang, á þennan þráð hér á facebook og færð happdrættisnúmerið sent.

Þú getur einnig sent okkur skilaboð með kvittuninni hérna.

 


Tveir frá Fjölni í U19 hópnum

Ólafur Ingi Skúlason landsliðsþjálfari u-19 ára liðs karla hefur valið hóp fyrir æfingaleiki við Færeyja. Liðið mætir U21 ára liði Færeyja 3. júní og hefst sá leikur kl. 16:30 að íslenskum tíma. U19 ára lið þjóðanna mætast svo 6. júní og hefst sá leikur kl. 14:00 að íslenskum tíma. Báðir leikirnir fara fram í Svangaskarði. Leikirnir verða fyrstu leikir liðsins undir stjórn Ólafs Inga.
Í hópnum á Fjölnir tvo fulltrúa, þá Hilmi Rafn Mikaelsson (2004) og Lúkas Loga Heimisson (2003).
Hilmir hefur tekið þátt í öllum þremur leikjum meistaraflokks á tímabilinu en hann skoraði annað af mörkum liðsins í 2-0 sigri á Grindavík síðastliðin föstudag.
Lúkas hefur komið við sögu í tveimur af þremur leikjum meitaraflokks á tímabilinu, þá er Lúkas með 6 mörk í 4 leikjum með 2. flokki félagsins í sumar.

Fjölnisblaðið er komið út

Fjölnisblaðið 2021 - kynningarrit knattspyrnudeildar er komið út
Rafræna útgáfu þess má nálgast hér:
Blaðið er hið veglegasta og var prentað í 6.500 eintökum og dreift í öll hús í Grafarvogi (þ.m.t. Bryggjuhverfi). En útgáfa þess markar upphaf keppnistímabils knattspyrnudeildarinnar.
Við þökkum kærlega þeim fjölmörgu fyrirtækjum og aðilum sem gerðu þessa útgáfu mögulega. Við hvetjum lesendur jafnframt sérstaklega til þess að virða fyrir sér auglýsingarnar og öll lógó-in inni á milli allra flottu Fjölnismyndanna þegar flett er í gegnum það.
Það er tvennt í prentuðu útgáfu blaðsins sem rétt er að benda á og leiðrétta hér með.
Hið fyrra er að fyrir slysni voru æfingatímar vetrarins birtir í stað sumarsins hjá yngri flokkunum.
Hið síðara er að liðsmynd af 2. flokki karla var ekki inni í blaðinu.
Beðist er velvirðingar á þessu. Bæði hefur verið lagað og uppfært í rafrænu útgáfu blaðsins.
Forsíðumyndina prýða þrír leikmenn meistaraflokks kvenna. Þetta eru þær Hlín Heiðarsdóttir, Sara Montoro og Elvý Rut Búadóttir (frá vinstri til hægri).
Gleðilegt sumar

Knattspyrnudeildin er mætt á Facebook

Knattspyrnudeild Fjölnis er nú loksins mætt á Facebook. Þar munum við sýna frá starfi deildarinnar, allt frá yngstu iðkendunum yfir í meistaraflokka félagsins.

Á síðunni má einnig koma til með að sjá tilkynningar og auglýsingar er varða leiki, viðburði og fleira.

Við hvetjum alla til að setja like á síðuna og fylgjast með Fjölni en það má með sanni segja að það sé spennandi knattspyrnusumar fram undan.

 

Samfélagsmiðlar knattspyrnudeildar

Facebookfacebook.com/fjolnirfc
Instagraminstagram.com/fjolnir_fc
Twittertwitter.com/Fjolnir_FC
Snapchat - umf.fjolnir


Tveir leikmenn framlengja við Fjölni

Það er okkur mikil ánægja að tilkynna það að Guðrún Helga Guðfinnsdóttir og Laila Þóroddsdóttir hafa framlengt samningum sínum við Knattspyrnudeild Fjölnis.

 

Guðrún Helga Guðfinnsdóttir er 19 ára varnarmaður sem leikið hefur 25 leiki fyrir meistaraflokk kvenna. Guðrún sem gegndi lykilhlutverki á síðasta tímabili, er uppalin hjá okkur í Grafarvoginum og sinnir einnig þjálfun yngri flokka hjá félaginu. Hér er mikil Fjölniskona á ferðinni sem verður spennandi að fylgjast með í framtíðinni.

 

Laila Þóroddsdóttir er tvítugur varnarmaður sem leikið hefur 23 leiki í meistaraflokki kvenna, þar af 12 fyrir Fjölni og skorað í þeim eitt mark. Laila er öflug viðbót við hópinn en hún kom til okkar fyrir síðasta tímabil. Áður hafði hún leikið með Álftanesi í meistaraflokki og upp alla yngri flokka hjá Stjörnunni.

 

Það er mikið fagnaðarefni fyrir Fjölni að semja við þessa ungu leikmenn en Knattspyrnudeildin væntir mikils af þeim á komandi tímabilum. #FélagiðOkkar


Margrét Ingþórsdóttir snýr aftur

Það er okkur mikil ánægja að tilkynna það að Margrét Ingþórsdóttir, hinn reynslumikli markvörður, hefur snúið aftur til okkar frá Grindavík en hún skrifaði nýlega undir samning við Fjölni.

Margrét er Fjölnisfólki vel kunn og hefur átt góð tímabil með Grafarvoginum en árið 2018 var hún valin Knattspyrnukona ársins hjá félaginu, hún á glæstan feril að baki þar sem hún hefur leikið alls 133 meistaraflokksleiki og telst því í hópi reynslumeiri markmanna landsins.
Margrét er mikilvægur hlekkur í liði Fjölnis, hennar mikla reynsla mun nýtast yngri leikmönnum vel og er hún mikil fyrirmynd yngri iðkenda og þá sérstaklega yngri markmanna.

Knattspyrnudeildin væntir mikils af Margréti og hlakkar til að sjá hana á milli stanganna í sumar. #FélagiðOkkar


Áfram Fjölnir!

 

Kæra Fjölnisfólk.

Í Grafarvogi fer fram mjög öflugt íþróttastarf svo eftir er tekið víða um land. Knattspyrnudeildin fer þar einna fremst á meðal. Mikil áhersla er lögð á að allt barna- og unglingastarf Fjölnis skili sér í frambærilegum ungmennum og því til staðfestingar má benda á þær metnaðarfullu ráðningar á yfirþjálfurum knattspyrnudeildar sem ráðist var í nýverið í þeim Gunnari Má og Arngrími Jóhanni (Addi). Gunnar Már mun leiða karlastarfið á meðan Addi verður yfir kvennastarfinu. Báðir eru þeir hámenntaðir í knattspyrnufræðunum og margra ára þjálfarareynslu. Ég er sannfærður um að þessi samvinna mun leiða gott af sér og við munum sjá þess merki fljótlega. Þetta er þó í grunninn langtímaplan í því að styrkja enn frekar þjálfun okkar iðkenda á öllum sviðum, allt frá þeim yngstu og upp úr bæði hjá stelpum og strákum, sem við hlökkum til að kynna fyrir ykkur betur á næstu misserum.

Stór hluti í starfsemi íþróttafélaga er að eiga lið í fremstu röð. Við Fjölnisfólk höfum átt lið meðal þeirra bestu, í efstu deild karla, í samtals átta tímabil, fyrst árið 2008, og nú í sex af síðastliðnum sjö tímabilum. Það síðastnefnda er meira en mörg félög geta sagt þrátt fyrir að sum hver þeirra hafa verið til í meira en 100 ár!

Þetta tímabil, þrátt fyrir að því sé hvergi nærri lokið, fer í sögubækurnar fyrir margar sakir; sem dæmi þá er ólíklegt að það verði einhvern tímann aftur svona miklar raskanir á mótahaldi. Það eitt og sér gæti þó, til lengri tíma litið, gefið knattspyrnuhreyfingunni ákveðin svör um hvort og með hvaða hætti er hægt að lengja Íslandsmót framtíðarinnar - eins og rætt hefur verið um í mörg ár. Þess fyrir utan höfum við líklega öll heyrt orð eins og frestun, áhorfendabann og sóttkví oftar en við kærum okkur um. Hinn virti íþróttablaðamaður Víðir Sigurðsson gefur út bók á hverju ári um íslenska knattspyrnusumarið. Hver veit, kannski mun bókin í ár, Íslensk knattspyrna 2020, vera líkari skáldsögu en sagnariti þegar litið verður til baka eftir einn áratug eða svo. En hvað um það.

Það hefur verið á brattann að sækja á þessu keppnistímabili hjá báðum okkar meistaraflokksliðum og óþarfi að fara í einhverjar grafgötur með það. Það er hins vegar mikilvægt að það komi skýrt fram að það er engan bilbug á okkur sem stöndum að félaginu að finna. Ég segi það alveg óhikað og kokhraustur; Fjölnir er demantur í íslensku íþróttalífi. Önnur félög óttast það sem við getum orðið. Ég er vitanlega langt frá því að vera hlutlaus en það er engu að síður mín persónulega skoðun að það sé hagur íslenskrar knattspyrnu að Fjölnir sé með lið í efstu deild. Þar eigum við heima og þar ætlum við að vera um ókomin ár. Við erum stolt af báðum okkar meistaraflokksliðum. Í þeim erum við með hæfileikaríka og öfluga leikmenn sem eru fullfærir um að leggja á sig þá vinnu sem til þarf og sækja hagstæð úrslit. Tveir sigrar í næstu leikjum t.a.m. setur mótin í háaloft og allt getur gerst!

Til þess þurfum við þó allar hendur upp á dekk. Það er nauðsynlegt að leikmenn, forráðamenn liðsins, stuðningsmenn og Grafarvogsbúar taki höndum saman og hjálpist við að tryggja sú verði raunin. Það er hægt að gera með því að leggja sitt af mörkum, t.d. með því að styrkja félagið með beinum fjárframlögum, gerast meðlimur í Baklandinu (sjá nánar hér https://fjolnir.is/knattspyrna/baklandid/), tala félagið upp á samfélagsmiðlum og/eða mæta á viðburði félagsins (þegar Covid og Þórólfur leyfa að sjálfsögðu).

Að lokum vil ég ítreka að með samvinnu og samstilltu átaki ætlum við að halda áfram að sækja markvisst fram og bæta í alla umgjörð og aðstöðu deildarinnar. Á þeim nótum má t.d. benda á alla þá flottu og góðu vinnu sem þegar hefur verið unnin á umgjörð meistaraflokkana á undanförum 6-12 mánuðum með tilkomu splunkunýrra búningsklefa í Egilshöll, nýtt sjúkraherbergi í Dalhúsum, fjárfesting í myndavélum, GPS vestum og öðrum búnaði. Allt þetta og meira til; við ætlum hvergi að slaka á. Auðvitað er það svo að við getum bætt okkur á ýmsum sviðum en jafnframt megum við vera mjög stolt af okkar starfi og því sem hefur verið áorkað hingað til og vera óhrædd að tala út á við um það sem vel er gert. Fólkið (sjálfboðaliðinn) er hjartað í félaginu og eru þeir eitt af því mikilvægasta sem við eigum og auðvitað styrktaraðilarnir okkar, án þeirra kæmust við ekki langt.

Ég hvet okkur öll til að standa saman, nú sem fyrr. Látum ekki blekkjast af tímabundinni blindhæð. Hún er ekki áfangastaðurinn.

Áfram Fjölnir!

Kolbeinn Kristinsson,
Formaður knattspyrnudeildar Fjölnis

 


Fjölnir framlengir við þrjá leikmenn

Orri Þórhallsson (2001), Valdimar Ingi Jónsson (1998) og Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson (2002) hafa allir framlengt samninga sína við Fjölni fyrr á þessu tímabili.

 

Orri er kraftmikill miðjumaður sem hefur leikið stórt hlutverk á yfirstandandi leiktíð og hefur samtals spilað 29 leiki og skorað 5 mörk fyrir Fjölni.

Vilhjálmur er einn okkar allra efnilegasti varnarmaður sem hefur verið að koma virkilega sterkur inn í liðið undanfarið en hann hefur spilað 6 leiki fyrir Fjölni sem og 15 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Valdimar Ingi er framsækinn bakvörður með mikið þol og afburða hlaupagetu sem hefur spilað næstum 100 leiki í meistaraflokki þrátt fyrir ungan aldur.

 

Þetta eru góðar fréttir fyrir félagið en þeir eru allir uppaldnir Fjölnismenn. Við óskum þeim til hamingju og hlökkum til að fylgjast með þeim á vellinum!

 

Áfram Fjölnir

 

#FélagiðOkkar