Nýr yfirþjálfari listhlaupadeildar
Benjamin Naggiar hefur verið ráðinn nýr yfirþjálfari framhaldshópa listhlaupadeildar Fjölnis. Benjamin er 27 ára og kemur frá Ítalíu. Hann hefur þjálfað skautara á öllum getustigum, allt frá byrjendum að þeim sem eru að keppa á alþjóðlegum mótum. Sjálfur æfði hann og keppti í parakeppni í listhlaupi á skautum og náði á verðlaunapall á alþjóðlegum mótum. Síðar æfði hann og keppti í ísdansi. Benjamin hefur þjálfað skautara í Kína, Svíþjóð, Ítalíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og á Íslandi. Við bjóðum Benjamin velkominn til starfa hjá okkur.
Elvý Rut framlengir til 2024
Elvý Rut framlengir til 2024
Elvý Rut Búadóttir leikmaður meistaraflokks kvenna hefur framlengt samningi sínum við Knattspyrnudeild Fjölnis. Elvý, sem er fædd árið 1997, mun hefja sitt tíunda tímabil í meistaraflokki á komandi tímabili. Hún hefur samtals leikið 125 KSÍ leiki fyrir meistaraflokk Fjölnis. Elvý er sterkur varnarmaður sem býr yfir mikilli yfirvegun og getur leyst allar stöður í vörninni. Hún fer vel af stað á undirbúningstímabilinu þar sem hún hefur leikið í hjarta varnarinnar í sigrum á bæði Fram og Gróttu. Árið 2020 var Elvý valin Knattspyrnukona ársins hjá Fjölni.
Það er mikið fagnaðarefni að semja við þennan öfluga og uppaldna leikmann sem gegnt hefur lykilhlutverki í meistaraflokki kvenna síðustu ár. Knattspyrnudeildin hlakkar til komandi tímabila saman og væntir mikils af samstarfinu.
#FélagiðOkkar

Hlín framlengir til 2024
Hlín Heiðarsdóttir leikmaður meistaraflokks kvenna hefur framlengt samningi sínum við Knattspyrnudeild Fjölnis. Hlín, sem er fædd árið 1999, er fyrirliði meistaraflokks kvenna en þrátt fyrir ungan aldur náði hún þeim merka áfanga 3. júlí síðastliðinni að spila sinn hundraðasta leik fyrir meistaraflokk Fjölnis. Hún hefur samtals leikið 107 KSÍ leiki og skorað í þeim 20 mörk. Hlín býr yfir miklum hraða og getur leyst margar stöður á vellinum en hún fer vel af stað núna á undirbúningstímabilinu og á dögunum skoraði hún tvö mörk í sitthvorum æfingaleiknum. Hún var valin Knattspyrnukona ársins hjá Fjölni árið 2019.
Það er mikið fagnaðarefni að semja við þennan öfluga og uppaldna leikmann sem gegnt hefur lykilhlutverki í meistaraflokki kvenna síðustu ár. Knattspyrnudeildin hlakkar til komandi tímabila saman og væntir mikils af samstarfinu.
#FélagiðOkkar
Mynd: Baldvin Örn Berndsen

Þrjár Fjölnisstúlkur valdar í U18 hóp Íslands á HM í íshokkí
U18 ára landslið stúlkna mun taka þátt á heimsmeistaramóti Alþjóðaíshokkísambandsins (IIHF) sem fer fram dagana 21.-27. janúar 2022 í Istanbul í Tyrklandi.
Á dögunum fóru fram landsliðsúrtökuæfingar og átti Fjölnir fimm stúlkur í þeim hópi. Þær Maríu Sól Kristjánsdóttur, Elísu Dís Sigfinnsdóttur, Kolbrúnu Maríu Garðarsdóttur, Elínu Darko og Evu Hlynsdóttur. Þær María Sól, Elísa Dís og Eva voru valdar í landsliðshópinn sem mun halda til Istanbul í janúar. Hópinn í heild sinni má sjá hér. Þær Kolbrún og Elín verða orðnar of gamlar fyrir U18 ára landsliðið þegar að mótinu kemur og geta þær því ekki tekið þátt á mótinu.
Landslið Íslands er í Division II b á mótinu þar sem átta þjóðir taka þátt. Spilað verður í tveimur riðlum á fimm keppnisdögum. Aðrar þjóðir á mótinu eru: Bretland, Holland, Spánn, Kasakstan, Tyrkland, Mexíkó og Lettland.

Glæsilegur hópur sem tók þátt á landsliðsæfingum

Fjölnisstelpurnar: Lily Donnini, María Sól, Elísa Dís, Kolbrún María, Elín Darko og Eva Hlynsdóttir.
FJÓRAR Í SÍNUM FYRSTA MEISTARAFLOKKSLEIK

Jóhann Árni á reynslu hjá Viborg í Danmörku
Jóhann Árni, sem er fæddur árið 2001, er þessa dagana staddur í Danmörku og mun dvelja þar í viku við æfingar hjá danska efstu deildar liðinu Viborg sem leikur í hinni sterku Superliga.
Jóhann Árni hefur leikið tæplega 20 leiki fyrir yngri landslið Íslands. Hann var lykilmaður í liði Fjölnis í sumar og var jafnframt valinn efnilegasti leikmaður Lengjudeildarinnar.
Þetta er enn eitt spennandi tækifærið sem býðst erlendis fyrir leikmann félagsins og við óskum honum að sjálfsögðu góðs gengis.
#FélagiðOkkar

Helgi Sigurðsson þjálfar 2. flokk karla
Helgi Sig hefur verið ráðinn sem þjálfari 2. flokks karla hjá félaginu. Félagið lýsir yfir mikilli ánægju með þessari ráðningu og býður hann velkominn til starfa.
Helgi hefur eins og allir þekkja náð góðum árangri bæði sem leikmaður á sínum ferli og sem þjálfari ÍBV og Fylkis. Miklar vonir er um að hans reynsla muni hjálpa leikmönnum okkar að stíga en stærri skref í þróun sinni sem framtíðarleikmenn Fjölnis.
Annar flokkur er fjölmennur flokkur sem býr yfir miklum hæfileikum og verður spennandi að fylgjast með þeim leikmönnum næstu árin.
Ásamt Helga í þjálfarateyminu hjá 2. flokki verður Þórir Karlsson sem var í þjálfarateymi 2. flokks í fyrra og hefur þjálfað hér hjá Fjölni undanfarin ár.


Sara Montoro valin í landsliðsúrtakshóp U19
Sara Montoro leikmaður meistaraflokks Fjölnis í knattspyrnu hefur verið valin til að taka þátt í landsliðsúrtaksæfingum U19 kvenna sem koma saman til æfinga 27-29. Nóvember í Skessunni í Hafnarfirði. Í hópnum eru 25 leikmenn. Leikmenn úr þessum æfingahópi verða svo valdir til að taka þátt í tveimur æfingaleikjum gegn Svíþjóð seinna í þessum mánuði. Sara er uppalin Fjölniskona sem hefur spilað 67 KSÍ leiki og skorað 43 mörk. Við óskum henni góðs gengis í komandi verkefni.
ÁFRAM FJÖLNIR!
#FélagiðOkkar

Landsátak í sundi
Syndum – landsátak í sundi er hafið
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. – 28. nóvember 2021. Syndum er heilsu- og hvatningarátak sem höfðar til allra landsmanna. Sund er fyrir alla óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Sund er tilvalin þjálfunaraðferð þar sem sund styrkir hjarta- og æðakerfið, lungu og vöðva líkamans. Sund er frábær hreyfing bæði til þess að hlúa að heilsunni og sem skemmtileg tómstundaiðja. Þetta átak er framhald af Íþróttaviku Evrópu sem tókst einkar vel í ár. Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna þannig við auknu hreyfingarleysi meðal almennings.
Markmiðið með Syndum er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi og nota meðal annars sund til þess. Munum eftir því hvað sund er frábært!
Til þess að taka þátt þarf að skrá sig inn á www.syndum.is og fara í Mínar skráningar. Einfalt er að velja sér notendanafn og lykilorð og skrá síðan sínar sundvegalengdir. Þeir sem eiga notendanafn í Lífshlaupinu eða Hjólað í vinnuna geta notað það til að skrá sig inn.
Syndum saman hringinn í kringum Ísland. Þeir metrar sem þú syndir safnast saman og á forsíðu www.syndum.is verður hægt að sjá hversu marga hringi landsmenn hafa synt.
Á heimasíðu Syndum www.syndum.is eru allar nánari upplýsingar um verkefnið auk ýmiss annars fróðleiks og upplýsingum um sundlaugar landsins.
Þeir sem skrá sig og taka þátt geta átt von á að verða dregnir út og vinna veglega vinninga.
