Jólamót Fjölnis

Frjálsíþróttadeild Fjölnis hélt sitt árlega jólamót fyrir yngstu iðkendurna sunnudaginn 8. desember. Mótið var haldið í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Keppt var í 60 m spretthlaupi, langstökki, skutlukasti og 200m hlaupi. Mótið gekk mjög vel og virtust keppendur vera mjög ánægðir. Mótið var styrkt af Krumma leikföngum og Íslandsbanka.  Að móti loknu fengu allir glaðning frá Krumma leikföngum og viðurkenningarskjal.


Allar æfingar fara fram í dag

Fréttin var uppfærð kl. 11:30 þann 11.desember

ALLAR æfingar fara fram í dag, miðvikudag.

Kær kveðja,

Skrifstofa Fjölnis


Frítt að æfa íshokkí í desember fyrir byrjendur

Íshokkídeildin býður byrjendum að prófa að æfa, þeim að kostnaðarlausu út desember. Íshokkí er fjölbreytt og skemmtileg íþrótt sem hentar öllum aldri, ekki skiptir máli að kunna á skauta því þjálfararnir okkar kenna skautatækni ásamt öðru sem tilheyrir íþróttinni á skemmtilegan hátt á æfingum.

Við hlökkum til að sjá sem flesta næst komandi þriðjudag til að prófa. Mæting kl. 17 til að finna búnað.


Gesta þjálfari frá Tychy í heimsókn hjá íshokkídeildinni

Helgina 30. nóvember til 1. desember fengum við til okkar gestaþjálfara sem heitir Tomasz Kurzawa og kemur hann frá Tychy í Póllandi. Tomasz var með æfingu á laugardagskvöldið fyrir 4.flokk og upp í mfl karla þar sem þáttakendur voru hátt í 30 talsins. Svo á sunnudagsmorgninum var hann með tvær æfingar, fyrri æfingin var fyrir 5.flokk og niður í kríli og seinni æfingin var fyrir 4.flokk og upp í 2.flokk og það var vel mætt á þær báðar. Það var mjög gaman að fylgjast með Tomasz við störf og við stefnum á fá þennan þjálfara aftur í heimsókn til okkar seinna.
Tomasz er rétt rúmlega fertugar og á að baki yfir 20 ára reynslu í íshokkí. Hann er fyrrum leikmaður GKS Tychy og er nú að þjálfa fyrir GKS en hann rekur einnig íshokkí akademiu Pionier Tychy sem hann opnaði árið 2015. Hann er með þjálfararéttindi frá University of Physical Education, Katowice og power skating þjálfari frá SK8ON Hockey School í Toronto þar sem hann vann með Jarek Byrski sem vinnur mikið með leikmönnum í NHL deildinni. Tomasz hefur meðal annars þjálfað NHL leikmenn á borð við Jeff Skinner leikmanni Buffalo Sabres, Jason Spezza leikmanni Toronto Maple Leafs og Brent Burns leikmanni San Jose Sharks.
Það er gaman að segja frá því að þessi þjálfari kom upphaflega til Íslands til að heimsækja vin sinn Marcin og þökkum við honum kærlega fyrir að hafa lánað okkur Tomasz um helgina. Einnig viljum við þakka Tomasz kærlega fyrir komuna og hjálpina um helgina.


Risa ball í Grafarvogi

Við bjóðum þorrann velkomin með RISA BALLI!

Ingó – Ragga Gísla – Sigga Beinteins og Regína Ósk.

Húsið opnar kl. 23:00, beint á eftir borðhaldi á Þorrablót Grafarvogs 2020.

Verð í forsölu: 3.900 kr.

Miðasala fer fram á skrifstofu Fjölnis í Egilshöll.

Allar nánari upplýsingar á thorrablot@fjolnir.is.

#FélagiðOkkar


Íslandsmót ÍSS á listskautum

Íslandsmótið var haldið í Laugardal helgina 29.nóvember-1.desember. Fjölnir átti 13 af 39 keppendum á þessu móti. Það er ekki hægt að segja annað en að stelpurnar okkar hafi lagt mikið í undirbúning fyrir mótið því margar þeirra voru að bæta sín persónulegu stigamet bæði í yngri og eldri flokkunum. Í flokki Intermediate Novice voru Fjölnisstúlkurnar Lena Rut Ásgeirsdóttir í fyrsta sæti og Tanja Rut Guðmundsdóttir í öðru sæti.

Aldís Kara Bergsveinsdóttir úr SA var Íslandsmeistari í flokki Junior og Júlía Rós Viðarsdóttir  úr SA í flokki Advanced Novice. Úr Fjölni var Herdís Birna Hjaltalín í 3. sæti í flokki Junior.

 


Skákkrakkar Fjölnis heimsóttu Korpúlfa

Höfðinglegar móttökur Korpúlfa í Grafarvogi

 

Að frumkvæði Korpúlfa, félags eldri borgara í Grafarvogi, bauð skákdeild félagsins skákkrökkum Fjölnis til móttöku í Borgir í Grafarvogi. Að sjálfsögðu var slegið upp skákmóti, „Æskan og ellin“ í Grafarvogi. Áhugasamir skákkrakkar Fjölnis tóku vel við sér og fjölmenntu í Borgir og fengu þar höfðinglegar móttökur. Alls tóku 43 skákmeistarar þátt í skákmótinu, 30 frá Skákdeild Fjölnis og 13 frá Korpúlfum. Úr hópi heldri borgara voru mættir grjótharðir skákkarlar á við Einar S., Magga Pé. dómara sem verður 87 ára í lok ársins og Fjölnismennina Sveinbjörn Jónsson og Finn Kr. Finnsson. Tefldar voru 5 umferðir og ríkti afar jákvæður keppnisandi yfir salnum og gagnkvæm virðing. Í lok mótsins var sigurvegara úr hvorum aldursflokki veittur glæsileur eignarbikar og voru það Fjölnisfélagarnir Sveinbjörn Jónsson og Joshua Davíðsson sem hlutu þennan heiður í jafnri keppni. Allir yngri þátttakendur fengu verðlaunapening fyrir góða frammistöðu. Rúsínan í pylsuendanum var svo þegar Maggi Pé., eigandi Jóa útherja, skákunnandi og fv. knattspyrnudómar,i dreifði fótboltamyndum til krakkanna sem tóku vel við sér og tóku strax við að bítta eða gefa góðum félögum. Þeir Jóhann Helgason formaður Korpúlfa og Helgi Árnason formaður Skákdeildar Fjölnis fluttu ávörp í byrjun og lok þessarar skákhátíðar og lýstu ánægju sinni með glæsilegt framtak og byrjun samstarfs, Stefnt er að þremur heimsóknum í Borgir á hverju ári og verður sú næsta í febrúar 2020.

 

Myndatextar:

 

5211:  Þéttskipaður salur á skákmótinu „Æskan og ellin í Grafarvogi“

 

5215:  80 ára aldursmunur. Heiðursmaðurinn Maggi Pé teflir við Emilíu Sigurðardóttur sem er að byrja skákferilinn. Heiðursmannajafntefli

 

5230: Korpúlfar heiðra skákæsku Grafarvogs með verðlaunapening og fótboltamyndum


Hrund Hauksdóttir sigraði á U2000 skákmóti TR

Hrund Hauksdóttir (1759), ung og efnileg landsliðskona úr Skákdeild Fjölnis sigraði á fjölmennu U2000 skákmóti Taflfélags Reykjavíkur en mótinu lauk 26. nóvember sl. Hrund fylgdi þar með eftir frábærri frammistöðu sinni á alþjóðlega helgarskákmótinu í Hasselbacken um sl. mánaðarmót en þar náði hún 3. sæti kvenna og vann til "ratings" verðlauna. Með frammistöðu sinni hefur Hrund hækkað um 100 skákstig á tæpum mánuði. Hrund er fyrrverandi nemandi í Rimaskóla og varð Norðurlandameistari með skáksveit skólans árið 2012. Hrund hefur teflt með íslenska kvennalandsliðinu á Ólympíumóti landsliða og virðist til alls líkleg í framtíðinni.


Metþátttaka var á haustmóti sunddeildarinnar sem haldið var í Laugardalslaug, laugardaginn 25.nóvember.

Skákæfingar fram að jólaleyfi

Síðustu skákæfingar ársins

Skákæfingar Fjölnis alla fimmtudaga kl. 16:30 - 18.00 hafa verið vel sóttar í vetur og í hópnum leynast skákmeistarar framtíðarinnar, drengir og stúlkur.
Fram að jólum verða eftirtaldar æfingar í boði:

Fimmtudagur 28. nóv. kl. 14:00 - 16:00 Borgir Spönginni
Fimmtudagur 5. des. kl. 16:30 - 18:00 Rimaskóli - gengið inn um íþróttahús
Fimmtudagur 12. des. kl. 16:30 - 18:00 Rimaskóli - Jólaskákæfing

Gleðilegt skákár 2020.