Elvar Otri og Þorleifur Rafn framlengja við Fjölni

Elvar Otri og Þorleifur Rafn framlengja við Fjölni

Það er ljóst að mikið mun mæða á ungum og uppöldum Fjölnismönnum í meistaraflokki karla á næsta keppnistímabili. Tveir leikmenn sem munu spila lykilhlutverk í liðinu á næstu árum hafa nú framlengt samninga sína við félagið og fögnum við því.

Elvar Otri Hjálmarsson er öflugur leikstjórnandi með mikinn leikskilning og tækni í sínum leik.

Þorleifur Rafn Aðalsteinsson er rétthentur hornamaður sem er þekktur fyrir sinn ótrúlega hraða, áræðni og sprengikraft.

Báðir hafa þeir, þrátt fyrir ungan aldur, átt fast sæti í meistaraflokksliði Fjölnis undanfarin ár.

#FélagiðOkkar


Tilkynning frá skrifstofu

Kæru forráðamenn og iðkendur Fjölnis,

Tekin hefur verið ákvörðun af stjórnendum félagsins á þessum fordæmalausu tímum að lengja æfingatímabil félagsins í barna- og unglingastarfi til að mæta þeim æfingum sem fallið hafa niður til viðbótar þeirri fjarþjálfun sem farið hefur fram. Unnið verður með hverri deild að útfærslu á viðbótarvikum. Komið verður til móts við iðkendur í júní eða júlí.

Stjórnendur félagsins vilja koma á framfæri miklu þakklæti til þjálfara og stjórnarfólks í félaginu á þessum fordæmalausu tímum.

#FélagiðOkkar


Útdrætti á happdrætti frestað til 15. júní

Embætti Sýslumannsins á Suðurlandi heimilar frestun á útdrætti í happdrætti knattspyrnudeildar Fjölnis sem fara átti fram í dag, fimmtudaginn 30. apríl 2020 til mánudagsins 15. júní 2020 vegna Covid-19.

Ennþá er hægt að tryggja sér miða, en fjöldi glæsilegra vinninga er í boði og er aðeins dregið úr seldum miðum.
Miðaverð er 2.0o0 kr. og eru 3.500 miðar í boði.


NÚ BYRJAR GAMANIÐ! .... AFTUR

Mánudaginn 4.maí hefjum við æfingar aftur í samræmi við leiðbeiningar heilbrigðisráðherra, þó með þeim breytingum sem við útlistum hér að neðan. Í ljósi alls þessa sem gengið hefur á munum við lengja æfingatímabilið frá því sem sem stóð til fram í miðjan júní – en nákvæm lokadagsetning verður auglýst síðar. Markmið okkar er að allir verði áfram með aðstöðu til að taka beltapróf á réttum tíma.

Við byrjum barnastarfið með sama hætti og áður var, samkvæmt sömu stundarskrá. Fyrstu æfingar verða haldnar hjá byrjendum á mánudeginum og svo framhaldshóparnir frá þriðjudeginum. Frístundafylgdin er ekki enn hafin, en við munum tilkynna um hana um leið og hún er i boði og þá hefja Fjörkálfanámskeiðið aftur.

Fullorðinsstarfið (eldri en 16 ára) verður með breyttu sniði. Þar sem ekki er hægt að vera með fleiri en 4 á æfingu innanhúss eða 7 utanhúss, hljóðar núverandi áætlun upp á að þjálfarar boði til æfinga á Facebook hópum félagsins innan dagsins. Þær æfingar verði þá haldnar útivið – á svæðinu við Egilshöll, nema annað sé auglýst sérstaklega. Í ljósi þess að um útiæfingar verður að ræða mun veðurfarið spila einhvern þátt í hversu margar æfingar verður hægt að halda.

Breytingar frá því sem verið hefur:

  • Þeir sem eru að koma í karatesalinn þurfa að ganga um suðurinngang í Egilshöll (aðalinngang). Þannig á að reyna að takmarka samgang eftir því sem hægt er.
  • Enginn kemur inn í sal nema þeir sem eru að fara á æfingu (foreldrar skila iðkendum af sér við innganginn og koma ekki inn í salinn).
  • Við dyrnar í æfingaraðstöðuna verður sótthreinsivarningur, gert er ráð fyrir að iðkendur noti hann bæði fyrir og eftir æfingar. Iðkendur þurfa jafnframt að gæta fyllsta hreinlætis fyrir og eftir æfingar.
  • Á æfingum verður miðað við að gera æfingar þar sem ekki er þörf á miklum líkamlegum snertingum.
  • Þjálfararnir munu aðstoða yngstu iðkendurnar við að virða ofangreint – við óskum jafnframt eftir því að foreldrar ræði þessar breytingar við krakkana.

Beltapróf eru svo fyrirhuguð sem hér segir.

  • Beltapróf – fara fram 2. vikuna í maí. 11.-16. maí
  • Brúnbeltaprófin sem fara áttu fram í apríl, fara fram laugardaginn 30. maí.

Hlökkum ósegjanlega til að sjá ykkur öll aftur.

Hvetjum ykkur til að fylgjast með heimasíðu Fjölnis til að sjá nánari útlistun á hvernig aðgengi að húsinu verður stýrt.

#FélagiðOkkar

Æfingaáætlun Karatedeildar vorið 2020


Gísli og Gunnar taka við meistaraflokki kvenna

Fréttatilkynning frá hkd. Fjölnis og Fylkis

28.apríl 2020

Gísli Steinar Jónsson og Gunnar Valur Arason taka við þjálfun Fjölnis/Fylkis í meistaraflokki kvenna. Félögin kynntu samstarfið á fundi fyrr í dag. Þeir taka við góðu búi af þeim Sigurjóni Friðbirni hjá Fjölni og Ómari Erni hjá Fylki. Markmið samstarfsins er að bæta umgjörð meistaraflokks og styðja enn frekar við uppbyggingu kvennastarfs í félögunum. Félögin vilja byggja upp samkeppnishæfan meistaraflokk sem mun með tímanum festa sig í sessi í efstu deild. Samningur félaganna nær til næstu þriggja ára.

Gísli Steinar Jónsson er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum. Hann hefur undanfarin tvö ár þjálfað yngri flokka kvenna hjá Fjölni ásamt því að sinna hlutverki aðstoðarþjálfara meistaraflokks kvenna á liðnu tímabili. Fyrir þann tíma bjó hann í Noregi og þjálfaði yngri flokka hjá Fet IL í sex ár. Gísli hlakkar til að takast á við krefjandi og skemmtileg verkefni sem tengjast samstarfi félaganna og að fylgja áfram öllum þeim efnilegu stelpum sem hann hefur þjálfað síðustu tvö ár og auk þess kynnast nýjum leikmönnum sem eru að bætast í hópinn fyrir næsta tímabil.

Gunnar Valur Arason er uppalinn ÍR-ingur þar sem hann spilaði í yngri flokkunum og loks í meistaraflokki. Hann á einnig að baki leiki í meistaraflokki fyrir lið Víkings, Fylkis og Kríu. Gunnar byrjaði ungur að þjálfa hjá ÍR og þjálfaði yngri flokka hjá félaginu í fjölmörg ár. Hann var einnig þjálfari yngri flokka Víkings í rúm tvö ár. Það var svo á tímabilinu 2014-2015 sem hann snéri aftur til ÍR, þá hjá 3. flokki, 4. flokki og sem aðstoðarþjálfari í meistaraflokki kvenna. Vorið 2015 tók Gunnar svo tímabundið við sem aðalþjálfari meistaraflokks kvenna hjá ÍR og svo aftur sem aðstoðarþjálfari meistaraflokksins árið 2017. Gunnar hefur þjálfað 3. og 4. flokk kvenna hjá ÍR frá 2014-2020. Loks má nefna að Gunnar hefur einnig komið að þjálfun afrekshóps hjá HSÍ.

 

Virðingafyllst,

Stjórn hkd. Fjölnis og Fylkis

Meistaraflokksráð Fjölnis/Fylkis

 

Myndir: Þorgils G.


Nýr rekstrarstjóri fimleikadeildar

Íris Svavarsdóttir hefur verið ráðinn rekstrarstjóri fimleikadeildar Fjölnis.

Íris er fimleikum vel kunn en hún hefur verið iðkandi og þjálfari, auk þess að vera með alþjóðleg dómararéttindi í hópfimleikum. Íris starfaði áður hjá Fimleikasambandi Íslands en þar starfaði hún í hátt í 7  ár.

Íris er íþróttafræðingur að mennt og með meistaragráðu í verkefnastjórnun.

Nýr rekstrarstjóri tekur formlega til starfa 1.maí og bjóðum við nýjan rekstrarstjóra hjartanlega velkominn til starfa hjá Fjölni.

#FélagiðOkkar


Páskaopnun

Opnunartími skrifstofu:

*LOKAÐ frá og með mánudeginum 6.apríl til og með mánudagsins 13.apríl sem og á sumardaginn fyrsta

*Hægt að senda fyrirspurn á netfangið skrifstofa@fjolnir.is 

Kær kveðja,

Starfsfólk skrifstofu


Heimaleikjakortin komin í sölu

Heimaleikjakortin þetta árið eru komin í sölu og er hægt að ganga frá kaupunum með einföldum hætti á fjolnir.is/arskort

Í boði eru þrjár tegundir:

  • Ungmennakort
    -Verð: 4.900 kr.
    -Gildir fyrir einn inn á völlinn. Aldur 16-25 ára
  • Árskort
    -Verð: 15.000 kr.
    -Gildir fyrir einn inn á völlinn
  • Gullkort
    -Verð: 25.000 kr.
    -Gildir fyrir einn inn á völlinn
    -Veitir aðgang að veitingum fyrir leik og í hálfleik

 

Vekjum sérstaka athygli á ungmennakortinu sem er ætlað ungu fólki á aldrinum 16-25 ára og er einstaklega góðu verði.

Kortin gilda á alla heimaleiki meistaraflokks karla og kvenna Fjölnis og verða afhent á fyrsta heimaleik eða á skrifstofu Fjölnis á opnunartíma.

Samstaða er lykilatriði.

Eins og allir vita þá eru uppi sérstakar aðstæður í þjóðfélaginu um þessar mundir. Íþróttafélög eiga undir mikið högg að sækja og stór skörð eru höggin í tekjustofna þeirra. Fjölnir er þar engin undantekning. Til að mynda þá reiðir knattspyrnudeildin sig nær eingöngu á styrki og velvild fyrirtækja, einstaklinga, tekjur af ársmiðasölu og öðrum viðburðum.

Við vitum að Íslandsmótinu muni seinka um einhverjar (vonandi bara örfáar) vikur. En við vitum líka að öll él birta upp um síðir. Það mun verða spilað í sumar og það verður grillað og það verður væntanlega sól og mikil stemmning allan tímann. Karlaliðið spilar aftur á meðal þeirra bestu í Pepsi Max deildinni eftir stutta fjarveru og þá leikur kvennaliðið í 1. deildinni í sumar.

Það er mikilvægt að Fjölnissamfélagið standi saman nú sem aldrei fyrr. Þau ykkar sem hafið tök á biðjum við vinsamlegast um að ganga frá kaupum á heimaleikjakorti við fyrsta tækifæri jafnvel þótt þið komist ekki á alla leikina.

Takk fyrir þinn stuðning – hann skiptir máli!


Tilkynning frá skrifstofu

Skrifstofa Fjölnis vill koma eftirfarandi atriðum á framfæri til allra félagsmanna:

  1. Allar hugsanlegar útfærslur í tengslum við æfingagjöld verða teknar þegar að skýrari mynd kemur á hvernig staðan verður ásamt mögulegri aðstoð frá hinu opinbera. Við kappkostum að halda æfingum og þjónustu gangandi í gegnum fjarþjálfun og okkur sýnist það hafa gengið vel.
  2. Við hvetjum iðkendur til að viðhalda hreyfingu og æfingum eins vel og hægt er, með fjarþjálfun frá þjálfara eða annars konar hreyfingu með fjölskyldunni. Ef einhver telur sig ekki hafa fengið leiðbeiningar eða æfingar til að gera heima þá er honum velkomið að hafa samband við Arnór markaðsfulltrúa á netfangið arnor@fjolnir.is. Við bendum til dæmis á hreyfibingó Fjölnis.
  3. Við viljum koma á framfæri þakklæti til þjálfara, stjórnarmanna og annarra sem tengjast félaginu fyrir góð viðbrögð og hjálpsemi á erfiðum tímum. Við stöndum saman, öll sem eitt, fyrir #FélagiðOkkar.


Fjölnir efnir til nafnasamkeppni

Ungmennafélagið Fjölnir hefur tekið í notkun glæsilega aðstöðu í austurenda Egilshallar, til að mynda fyrir frjálsar íþróttir og þrekæfingar. Þessi aðstaða mun sérstaklega auka gæði og bæta starfsemi frjálsíþróttadeildarinnar. Aðrar deildir munu njóta góðs af flottri aðstöðu fyrir styrktar- og þrekæfingar.

Við óskum eftir tillögum að nafni á þessari glæsilegu nýju aðstöðu í austurenda Egilshallar.

Aðalstjórn félagsins ásamt formönnum velur 2-4 tillögur úr þeim sem berast og efnir til kosninga í framhaldi.

Allir félagsmenn fá þá tækifæri til að kjósa um nýtt nafn á aðstöðunni í austurendanum.

Ath! Tillögur þurfa að berast fyrir fimmtudaginn 9.apríl.

Hægt er að senda inn tillögur í keppnina hér: https://tinyurl.com/r7ughfe.

#FélagiðOkkar