Átakið #BreytumLeiknum

Handknattleikssamband Íslands hóf í síðustu viku átakið Breytum leiknum sem miðar að því að breyta gömlum og úreltum viðhorfum innan íþróttahreyfingarinnar gagnvart ungum stúlkum.

Markmiðið með átakinu er að bæta ímynd kvennahandboltans og landsliðsins og fá fleiri ungar stelpur til þess að byrja að æfa handbolta, og stunda íþróttir lengur og skapa þannig heim þar sem stelpur eru sjáanlegar í íþróttasamfélaginu og eigi sér sterkar og mikilvægar fyrirmyndir. Með átakinu vill HSÍ ýta undir iðkun ungra stúlka bæði með meiri umfjöllun og betri umgjörð.

Einungis 4% af allri íþróttaumfjöllun í heiminum er um konur sem vekja óneitanlega upp margar spurningar. Þær einskorðast ekki einungis við íþróttavöllinn, heldur eiga rætur að rekja til stærra samfélagslegs samhengis og rótgróinna venja.

Fjórtán ára stelpur eru tvisvar sinnum líklegri til að hætta í íþróttum en strákar og þegar þær ná sautján ára aldri er helmingur stelpna alveg hættur að æfa, samkvæmt erlendri tölfræði. Um 78% af þeim stelpum sem hættu sáu ekki neina framtíð fyrir sér í íþróttum eða töldu sig ekki nægilega góðar.

Samfélagslegur ávinningur af aukinni þátttöku stelpna í íþróttum er mikill. Rannsóknir sýna að íþróttir ýta undir sterkari sjálfsímynd krakka og eru mikilvæg forvörn gegn neyslu vímuefna. Jákvæð tengsl eru jafnframt á milli íþrótta og góðrar andlegrar heilsu, þær byggja upp aga og félagsfærni en nýlegar kannanir benda til þess að þar séu íslensk börn eftirbátar annarra.

https://www.youtube.com/watch?v=XbCMXq84_FE


Upphitun: Grótta - Fjölnir

Pepsi Max deild karla
16. umferð
Grótta – Fjölnir
Mánudaginn 14. september kl. 19:15 á Vivaldivellinum

Fjölnir fer á Seltjarnarnes í næstu umferð og etur kappi við Gróttu. Fyrri leik liðanna í sumar lauk með 0-3 sigri Gróttu. Fjölnir situr á botni deildarinnar með fjögur stig eftir þrettán leiki. Grótta er í næstneðsta sæti deildarinnar, hefur leikið jafn marga leiki og Fjölnir en fengið tveimur stigum meira en Fjölnir. Með sigri fer Fjölnir úr botnsæti deildarinnar. Fjölnir er sjö stigum á eftir KA sem situr í næsta sæti fyrir ofan fallsætin tvö. Allir aðrir leikir 16. umferðar fara fram á sunnudag og mun staða liða því eitthvað breytast áður en flautað verður til leiks á Seltjarnarnesi.

Nú er að duga eða drepast fyrir Fjölni. Á eftir leiknum við Gróttu kemur KA í Grafarvog. Það er því gott tækifæri til þess að snúa við gengi liðsins í þessum tveimur sex stiga leikjum sem framundan eru.

Guðmundur Karl Guðmundsson verður í leikbanni gegn Gróttu vegna uppsafnaðra gulra spjalda. Búast má við því að Jón Gísli Ström komi aftur inn í leikmannahóp Fjölnis eftir að hafa tekið út leikbann í síðustu umferð í tapinu gegn Breiðabliki. Enginn leikmanna Gróttu verður í leikbanni á mánudag. Grótta lék síðast í deildinni í lok ágúst er liðið tapaði 0-2 fyrir Fylki.

Tveir leikmenn fengu félagaskipti í Fjölni áður en félagaskiptaglugganum lokaði í byrjun september. Reikna má með því að hinn danski Nicklas Halse verði í liðinu gegn Gróttu. Nicklas er 23 ára léttleikandi miðjumaður sem kemur frá Roskilde. Englendingurinn Jeffery Monakana verður ekki með Fjölni gegn Gróttu. Jeffery er nýkominn til lansins og er í sóttkví.

Áhorfendatakmarkanir miðast nú við hámark 200 einstaklinga fædda fyrir árið 2005 og er hólfaskipting heimiluð. Undirrituðum er ekki kunnugt um hversu mörg sótttvarnarhólf Seltirningar bjóða upp á. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

 

Grétar Atli Davíðsson


Fjölnisjaxlinn 2020

Ert þú það öflugur íþróttamaður/öflug íþróttakona að þú getir klárað Fjölnisjaxlinn?

ÞAÐ ER KOMIÐ AÐ ÞVÍ – FJÖLNISJAXLINN 2020

Knattspyrnudeild Fjölnis í samstarfi við Frjálsíþróttadeild og Sunddeild félagsins ætla að halda  „Fjölnisjaxlinn 2020“ og skora á alla íþróttaiðkendur félagsins að skrá sig til leiks!
– Takmarkaður þátttökufjöldi –

Einstaklingsáskorun og Liðaáskorun
(Í liðaáskorun syndir einn, annar hjólar og þriðji hleypur)

Fjölnisjaxlinn – fjölskyldur og iðkendur, einstaklingar og lið, fyrir unglinga og fullorðna, hentar vel 15 ára og eldri – sund 400 metrar, hjól 10 km, hlaup 3 km.
Fjölnisjaxlinn – fjölskyldur og iðkendur, einstaklingar og lið, fyrir krakka og fullorðna, hentar vel 14 ára og yngri og sem skemmtun fyrir fullorðna – sund 200 metrar, hjól 3 km, hlaup 1 km.

Laugardaginn 26. september kl. 10:00. Fjölskyldur og iðkendur 14 ára og yngri verða ræst af stað milli kl. 10:00 og 10:30 (einstaklings og liða) og 15 ára og eldri verður ræst milli kl. 11:00-12:00 (einstaklings og liða). Mæting er 15 mínútur áður, en nákvæmur upphafstími verður gefin út þegar nær dregur.

Skráning á heimasíðu Fjölnis eða meðfylgjandi link: https://fjolnir.felog.is/verslun.

Lokafrestur til að skrá sig er til kl. 23:59 sunnudaginn 20. september n.k.

Skráningargjöld: Einstaklingsþátttaka (3.000 kr. fyrir 14 ára og yngri, 4.500 kr. fyrir 15 ára og eldri) Liðaþátttaka einungis fyrir fjölskyldur og krakka/unglinga 7.500 kr. fyrir liðið í heild.

Þátttakendur fá keppnisbol og hressingu að keppni lokinni. Allir sem klára keppni fá þátttöku-medalíu með viðurkenningunni að hafa klárað „Fjölnisjaxlinn 2020“

(Vegna Covid áskilur félagið sér rétt til að halda eftir hluta af skráningargjaldi ef viðburð þarf að fella niður vegna óvæntra breytinga til að koma móts við kostnað sem til fellur við skipulag).

Vonumst til að sjá sem flesta taka þátt í skemmtuninni!

Smelltu HÉR til að skrá þig í Fjölnisjaxlinn.

#FélagiðOkkar


Æfingahelgi landsliða SSÍ

Fyrsta æfingahelgi landsliða SSÍ verður haldin dagana 26-27. september nk. Æfingahelgin fer fram í Reykjanesbæ og verður hópurinn við æfingar í Vatnaveröld og gistir á Hótel Keflavík.
Hópurinn er valinn út frá þvi hverjir tóku þátt í landsliðsverkefnum á þessu ári, þ.e.a.s Tenerife æfingabúðum og mælingum með Ragnari Guðmundssyni í febrúar auk þeirra sem komin voru með lágmörk á EM, EMU og NÆM á árinu. Þá var það sundfólk valið sem náð hafði lágmörkum í 50m laug í framtíðarhópinn frá 1. janúar 2020.
Eyleifur Jóhannesson, yfirmaður landsliðsmála hjá SSÍ, Steindór Gunnarsson, yfirþjálfari ÍRB og Arna Þórey Sveinbjörnsdótttir, yfirþjálfari Breiðabliks stjórna æfingum.
Sunddeild Fjölnis á tvo frábæra fulltrúa í þessum hópi þá Ingvar Orra Jóhannesson og Kristinn Þórarinsson

 


Áfram Fjölnir!

 

Kæra Fjölnisfólk.

Í Grafarvogi fer fram mjög öflugt íþróttastarf svo eftir er tekið víða um land. Knattspyrnudeildin fer þar einna fremst á meðal. Mikil áhersla er lögð á að allt barna- og unglingastarf Fjölnis skili sér í frambærilegum ungmennum og því til staðfestingar má benda á þær metnaðarfullu ráðningar á yfirþjálfurum knattspyrnudeildar sem ráðist var í nýverið í þeim Gunnari Má og Arngrími Jóhanni (Addi). Gunnar Már mun leiða karlastarfið á meðan Addi verður yfir kvennastarfinu. Báðir eru þeir hámenntaðir í knattspyrnufræðunum og margra ára þjálfarareynslu. Ég er sannfærður um að þessi samvinna mun leiða gott af sér og við munum sjá þess merki fljótlega. Þetta er þó í grunninn langtímaplan í því að styrkja enn frekar þjálfun okkar iðkenda á öllum sviðum, allt frá þeim yngstu og upp úr bæði hjá stelpum og strákum, sem við hlökkum til að kynna fyrir ykkur betur á næstu misserum.

Stór hluti í starfsemi íþróttafélaga er að eiga lið í fremstu röð. Við Fjölnisfólk höfum átt lið meðal þeirra bestu, í efstu deild karla, í samtals átta tímabil, fyrst árið 2008, og nú í sex af síðastliðnum sjö tímabilum. Það síðastnefnda er meira en mörg félög geta sagt þrátt fyrir að sum hver þeirra hafa verið til í meira en 100 ár!

Þetta tímabil, þrátt fyrir að því sé hvergi nærri lokið, fer í sögubækurnar fyrir margar sakir; sem dæmi þá er ólíklegt að það verði einhvern tímann aftur svona miklar raskanir á mótahaldi. Það eitt og sér gæti þó, til lengri tíma litið, gefið knattspyrnuhreyfingunni ákveðin svör um hvort og með hvaða hætti er hægt að lengja Íslandsmót framtíðarinnar - eins og rætt hefur verið um í mörg ár. Þess fyrir utan höfum við líklega öll heyrt orð eins og frestun, áhorfendabann og sóttkví oftar en við kærum okkur um. Hinn virti íþróttablaðamaður Víðir Sigurðsson gefur út bók á hverju ári um íslenska knattspyrnusumarið. Hver veit, kannski mun bókin í ár, Íslensk knattspyrna 2020, vera líkari skáldsögu en sagnariti þegar litið verður til baka eftir einn áratug eða svo. En hvað um það.

Það hefur verið á brattann að sækja á þessu keppnistímabili hjá báðum okkar meistaraflokksliðum og óþarfi að fara í einhverjar grafgötur með það. Það er hins vegar mikilvægt að það komi skýrt fram að það er engan bilbug á okkur sem stöndum að félaginu að finna. Ég segi það alveg óhikað og kokhraustur; Fjölnir er demantur í íslensku íþróttalífi. Önnur félög óttast það sem við getum orðið. Ég er vitanlega langt frá því að vera hlutlaus en það er engu að síður mín persónulega skoðun að það sé hagur íslenskrar knattspyrnu að Fjölnir sé með lið í efstu deild. Þar eigum við heima og þar ætlum við að vera um ókomin ár. Við erum stolt af báðum okkar meistaraflokksliðum. Í þeim erum við með hæfileikaríka og öfluga leikmenn sem eru fullfærir um að leggja á sig þá vinnu sem til þarf og sækja hagstæð úrslit. Tveir sigrar í næstu leikjum t.a.m. setur mótin í háaloft og allt getur gerst!

Til þess þurfum við þó allar hendur upp á dekk. Það er nauðsynlegt að leikmenn, forráðamenn liðsins, stuðningsmenn og Grafarvogsbúar taki höndum saman og hjálpist við að tryggja sú verði raunin. Það er hægt að gera með því að leggja sitt af mörkum, t.d. með því að styrkja félagið með beinum fjárframlögum, gerast meðlimur í Baklandinu (sjá nánar hér https://fjolnir.is/knattspyrna/baklandid/), tala félagið upp á samfélagsmiðlum og/eða mæta á viðburði félagsins (þegar Covid og Þórólfur leyfa að sjálfsögðu).

Að lokum vil ég ítreka að með samvinnu og samstilltu átaki ætlum við að halda áfram að sækja markvisst fram og bæta í alla umgjörð og aðstöðu deildarinnar. Á þeim nótum má t.d. benda á alla þá flottu og góðu vinnu sem þegar hefur verið unnin á umgjörð meistaraflokkana á undanförum 6-12 mánuðum með tilkomu splunkunýrra búningsklefa í Egilshöll, nýtt sjúkraherbergi í Dalhúsum, fjárfesting í myndavélum, GPS vestum og öðrum búnaði. Allt þetta og meira til; við ætlum hvergi að slaka á. Auðvitað er það svo að við getum bætt okkur á ýmsum sviðum en jafnframt megum við vera mjög stolt af okkar starfi og því sem hefur verið áorkað hingað til og vera óhrædd að tala út á við um það sem vel er gert. Fólkið (sjálfboðaliðinn) er hjartað í félaginu og eru þeir eitt af því mikilvægasta sem við eigum og auðvitað styrktaraðilarnir okkar, án þeirra kæmust við ekki langt.

Ég hvet okkur öll til að standa saman, nú sem fyrr. Látum ekki blekkjast af tímabundinni blindhæð. Hún er ekki áfangastaðurinn.

Áfram Fjölnir!

Kolbeinn Kristinsson,
Formaður knattspyrnudeildar Fjölnis

 


Haustönn hefst

Tímasetningu æfinga má finna á heimasíðu deildarinnar undir valmyndinni Hópar.

  • Þau sem eru að byrja núna velja sér Byrjendahóp 5-8 ára, 9-16 ára eða 16+ ára.
  • Þau sem hafa áður lokið önn og gráðun velja sér  Framhaldshóp miðað við aldur.

Fyrstu æfingar byrja 3. september.

Fullkomið tækifæri til að efla styrk, snerpu og sjálfstraust í góðum hópi.

Hvernig skrái ég mig?

Við skráum iðkendur í einn af þremur flokkum; Byrjendur, Framhald og Fjörkálfa.
  •  Byrjendur er einungis fyrir þá sem eru að hefja iðkun.
  •  Framhald er fyrir þá sem lokið hafa einhverri gráðun (beltaprófi) hjá Fjölni.

Muna að skrá frístundastyrk hjá þeim sem geta nýtt hann. https://fjolnir.felog.is/

Drífum skráninguna af núna!


Upphitun. Fjölnir - Breiðablik

Pepsi Max deild karla
15. umferð
Fjölnir – Breiðablik
Laugardaginn 5. september kl. 13:00 á Extra vellinum

Aðeins fer einn leikur fram í Pepsi Max deild karla um helgina. Fjórir af sex leikjum 15. umferðar fóru fram síðustu helgi. Leik Fjölnis og Breiðabliks var frestað vegna sóttkvíar sem lið Breiðbliks fór í eftir leik gegn Rosenborg í Evrópudeildinni. Raunar hefðu Blikar geta farið fram á að leikurinn við Fjölni færi fram á öðrum tíma vegna þátttöku tveggja leikmanna liðsins í U-21 árs landsliðsverkefni. Leikmennirnir sem um ræðir eru Róbert Orri Þorkelsson og Brynjólfur Andersen Willumsson. Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, hefur lýst því yfir að hann telji Brynjólf besta leikmann deildarinnar. Blikar mæta því ekki með sitt sterkasta lið í Grafarvog á laugardag.

Fyrri leik liðanna í sumar lauk með 3-1 sigri Blika. Fjölnir tapaði síðasta leik sínum í deildinni 2-0 gegn Fylki. Síðasta leik Breiðabliks í deildarkeppni lauk með 0-1 sigri á Gróttu. Fjölnir situr áfram á botni deildarinnar með fjögur stig, sjö stigum frá KA sem situr í næsta örugga sæti. Með sigri á laugardag kemst Fjölnir úr botnsæti deildarinnar. Breiðablik situr í fjórða sæti deildarinnar með tuttugu stig en hefur leikið leik færra en mörg lið deildarinnar.

Grétar Snær Gunnarsson mun snúa til baka úr leikbanni á laugardag. Jón Gísli Ström er aftur á móti kominn í leikbann vegna uppsafnaðra gulra spjalda. Hinn danski Nicklas Halse sem samdi við Fjölni á dögunum verður ekki með Fjölni á laugardag vegna sóttkvíar.

Áhorfendabanni hefur verið aflétt en fjöldatakmörkun áhorfenda miðast við 100 einstaklinga fædda fyrir árið 2005.  Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson

 

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson


Frábær árangur hjá frjálsíþróttakrökkunum í Fjölni

Frjálsíþróttastarfið í sumar hefur verið með nokkuð öðru sniði vegna Covid-19. Þó hafa verið haldin ýmis mót og iðkendur frá Fjölni staðið sig mjög vel. Einn Íslandsmeistaratitill er í höfn, en boðhlaupssveit Fjölnis sigraði í 4x400 m boðhlaupi á MÍ á tímanum 3:28,95. Í sveitinni voru Bjarni Anton Theódórsson, Einar Már Óskarsson, Daði Arnarson og Kjartan Óli Ágústsson. Á Íslandsmeistaramótinu unnust einnig 4 silfur og 2 brons.

Á unglingameistaramótinu náðist frábær árangur en þar uppskáru unglingarnir 5 gull, 8 silfur og 7 brons. Þau sem sigruðu sínar greinar voru Daði Arnarson í 800m hlaupi 20-22 ára, Kjartan Óli Ágústsson í 800m hlaupi 18-19 ára, Sara Gunnlaugsdóttir 600m hlaup og 80m grind í flokki 15 ára og Helga Þóra Sigurjónsdóttir í hástökki 20-22 ára.

Íslandsmeistaramót í fjölþrautum var haldið í Kaplakrika í ágúst og þar sigraði Katrín Tinna Pétursdóttir í  sjöþraut stúlkna í 16-17 ára flokki með 2960 stig.

Nú er vetrarstarfið að fara í gang og æfingar í öllum flokkum hefjast 1. september. Æfingatöflur deildarinnar eru á heimasíðu Fjölnis. Vegna mikillar aðsóknar er búið að skipta upp yngsta hópnum þ.a. 1.-2. bekkur æfir saman og 3.-4. bekkur æfir saman. Rétt er að vekja athygli á að einnig býður deildin uppá æfingar fyrir fullorðna þrisvar í viku. Æfingar deildarinnar fara ýmist fram í nýja frjálsíþróttasalnum í Egilshöll eða í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Þjálfarar deildarinnar er þaulvant frjálsíþróttafólk og sumir að auki í íþróttafræðinámi. Skráning í flokkana er á heimasíðu Fjölnis. Öllum er velkomið að prófa að mæta á æfingar.

Hlaupahópur deildarinnar hleypur saman 4 sinnum í viku og eru meðlimir á ýmsum getustigum. Í september hefst nýtt byrjendanámskeið hjá hópnum sem stendur yfir í 6 vikur og þátttakendur hlaupa svo með hópnum frítt fram að áramótum. Skráning á námskeiðið og í hlaupahópinn er á heimasíðu Fjölnis.

Æfingatöflur eru eftirfarandi:

6-7 ára (árg. 2013-2014) 1.-2. bekkur
Þriðjudagar í Egilshöll kl 16:15-17:15
Fimmtudagar í Egilshöll kl 16:15-17:15
Laugardagar í Egilshöll kl 10:00-11:00

Æfingagjöld haust 2020(sept. – des.): 1-2 æfingar á viku: 22.000 kr 3 æfingar á viku: 29.000 kr

8-9 ára (árg. 2011-2012) 3.-4. bekkur
Mánudaga í Egilshöll kl 16:15-17:15
Miðvikudaga í Egilshöll kl 16:15-17:15
Föstudaga í Egilshöll kl 16:15-17:15
Æfingagjöld haust 2020 (sept. – des.):1-2 æfingar á viku: 22.000 kr 3 æfingar á viku: 29.000 kr

10-14 ára (árg. 2007-2010) 5.-8. bekkur
Mánudaga í Egilshöll kl 15:15-16:15
Miðvikudaga í Egilshöll Kl 15:15-16:15
Föstudaga í Egilshöll kl 15:15-16:15
Laugardagar í Laugardalshöll kl 10:00-11:30

Æfingagjöld haust (sept.- des.): 1-2 æfingar á viku: 25.000 kr 3-4 æfingar á viku: 39.000 kr

15 ára og eldri (2006 og fyrr)
Mánudaga í Laugardalshöll kl 17-19
Þriðjudaga í Laugardalshöll kl 17:30-10:30
Miðvikudaga í Laugardalshöll kl 17-19
Fimmtudaga í Laugardalshöll kl 17:30-19:30
Föstudaga í Laugardalshöll kl 17-19
Laugardaga í Laugardalshöll kl 11-13
Æfingastaðsetningar geta verið öðruvísi í september.

Fullorðnir:
Þriðjudaga í Laugardalshöll kl 18:30-20
Fimmtudaga í Laugardalshöll kl 18:30-20
Laugardaga í Laugardalshöll kl 10-12

Hlaupahópurinn hleypur saman 4 sinnum í viku.

Upplýsingar um æfingatíma, æfingagjöld og skráning er á fjolnir.is.

Eitthvað fyrir alla!


Skákæfingar Fjölnis alla fimmtudaga kl. 16:30 í Rimaskóla

Skákæfingar Fjölnis hefjast að nýju fimmtudaginn 10. september í Rimaskóla kl. 16.30 – 18.00. Gengið inn um íþróttahús. Skákæfingar Fjölnis eru ókeypis fyrir alla áhugasama grunnskólakrakka í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal. Ætlast er til að þátttakendur kunni að tefla, þ.e. undirstöðuatriðin í skák. Á hverri skákæfingu er efnt til skákmóts og boðið upp á veitingar í skákhléi. Í lok hverrar æfingar fer fram verðlaunaathöfn og dregið er í happadrætti. Á skákæfingum Fjölnis er krökkunum skipt upp í 2 – 3 hópa eftir getu, aldri eða jafnvel kyni. Umsjón með skákæfingum Fjölnis á fimmtudögum hefur Helgi Árnason formaður Skákdeildar Fjölni og honum til aðstoðar eru efnilegir skákmenn úr hópi skákdeildarinnar. Séð verður til þess að nóg af spritti sé til staðar og skákkrakkarnir minntir á að spritta sig og eða þvo sér um hendur. skak@fjolnir.is. Skráið ykkur á Facebook síðu Skákdeildar Fjölnis og missið ekki af neinu.

Skák er skemmtileg.

Í vetur stendur til að bjóða skákkrökkunum upp á skákbúðir yfir tvo daga og eina nótt og miðað við fyrri reynslu eru skákbúðir Fjölnis mikið og skemmtilegt ævintýri auk þess sem hæfustu skákkennarar landsins sjá um skákkennslu. Skellum okkur í skákbúðir þegar tækifæri gefst og losnar um COVID takmarkanir.


Fjölnir semur við Egil og Elvar

Handknattleiksdeild Fjölnis hefur skrifað undir tveggja ára samninga við tvo unga og efnilega leikmenn; Egil Val R. Michelsen og Elvar Þór Ólafsson. Báðir leikmennirnir voru hluti af frábærum árangri 3.flokks karla árið 2019 þegar liðið varð Íslands- og bikarmeistari.
Egill Valur er fæddur árið 2000 og er markvörður. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Egill leikið þrjú tímabil í meistaraflokki. Hann staldraði stutt við í Gróttu tímabilin 2016-2018 þar sem hlaut eldskírn sína með meistaraflokki, bæði í 2.deildinni og í Olísdeildinni. Undanfarin tvö árin hefur hann verið mikilvægur hlekkur í Fjölni U ásamt að hafa leikið þrjá leiki í Olísdeildinni með Fjölni í fyrra.
Elvar Þór er fæddur árið 2001 og getur spilað báðar skyttustöðurnar. Elvar hóf sinn meistaraflokkferil með Fjölni U í Grill 66-deildinni í fyrra. Þar skoraði hann þrjú mörk í fimm leikjum.
Guðmundur Rúnar Guðmundsson er ánægður með leikmennina og undirritun samninga við þá: "Egill og Elvar eru bráðefnilegir leikmenn sem eiga framtíðina fyrir sér. Þeir eru harðduglegir og munu uppskera samkvæmt því í vetur. Ég er ánægður með að þeir verði hjá okkur næstu tvö árin".