Pepsi Max deild karla
16. umferð
Grótta – Fjölnir
Mánudaginn 14. september kl. 19:15 á Vivaldivellinum

Fjölnir fer á Seltjarnarnes í næstu umferð og etur kappi við Gróttu. Fyrri leik liðanna í sumar lauk með 0-3 sigri Gróttu. Fjölnir situr á botni deildarinnar með fjögur stig eftir þrettán leiki. Grótta er í næstneðsta sæti deildarinnar, hefur leikið jafn marga leiki og Fjölnir en fengið tveimur stigum meira en Fjölnir. Með sigri fer Fjölnir úr botnsæti deildarinnar. Fjölnir er sjö stigum á eftir KA sem situr í næsta sæti fyrir ofan fallsætin tvö. Allir aðrir leikir 16. umferðar fara fram á sunnudag og mun staða liða því eitthvað breytast áður en flautað verður til leiks á Seltjarnarnesi.

Nú er að duga eða drepast fyrir Fjölni. Á eftir leiknum við Gróttu kemur KA í Grafarvog. Það er því gott tækifæri til þess að snúa við gengi liðsins í þessum tveimur sex stiga leikjum sem framundan eru.

Guðmundur Karl Guðmundsson verður í leikbanni gegn Gróttu vegna uppsafnaðra gulra spjalda. Búast má við því að Jón Gísli Ström komi aftur inn í leikmannahóp Fjölnis eftir að hafa tekið út leikbann í síðustu umferð í tapinu gegn Breiðabliki. Enginn leikmanna Gróttu verður í leikbanni á mánudag. Grótta lék síðast í deildinni í lok ágúst er liðið tapaði 0-2 fyrir Fylki.

Tveir leikmenn fengu félagaskipti í Fjölni áður en félagaskiptaglugganum lokaði í byrjun september. Reikna má með því að hinn danski Nicklas Halse verði í liðinu gegn Gróttu. Nicklas er 23 ára léttleikandi miðjumaður sem kemur frá Roskilde. Englendingurinn Jeffery Monakana verður ekki með Fjölni gegn Gróttu. Jeffery er nýkominn til lansins og er í sóttkví.

Áhorfendatakmarkanir miðast nú við hámark 200 einstaklinga fædda fyrir árið 2005 og er hólfaskipting heimiluð. Undirrituðum er ekki kunnugt um hversu mörg sótttvarnarhólf Seltirningar bjóða upp á. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

 

Grétar Atli Davíðsson