Vorhreingerning í Dalhúsum

Kæra Fjölnisfólk,

Núna á laugardaginn ætlum við að láta hendur standa frammúr ermum og gera svæðið okkar í Dalhúsum fínt og klárt fyrir sumarið – við byrjum kl. 10.

1) Gott er að taka með sér þessi helstu verkfæri t.d. skóflur, tuskur, strákústa, arfasköfu og plokkara. Það verða svartir ruslapokar á staðnum.

2) FJÖLNISFLÖSKUR – til að slá tvær flugur í einu höggi þá býðst félagið til að taka við flöskum og dósum frá Grafarvogsbúum og fara með í endurvinnsluna. Við hvetjum fólk til að tæma bílskúrinn og geymsluna hjá sér og koma með flöskurnar í Dalhús á laugardaginn og styrkja þannig félagið.

Fyrir harðduglega sjálfboðaliða verður svo boðið upp á grillaðar pulsur og gos upp úr kl. 12:30 🌭🥤

Munum einnig vitanlega virða 2 metra regluna eins og kostur er.

Vinsamlegast skráið ykkur á viðburðinn svo hægt sé að áætla fjölda:

Vorhreingerning í Dalhúsum

Hlökkum til að sjá ykkur! 😊

#FélagiðOkkar


Nýr yfirþjálfari keppnishópa

Í byrjun ágúst mun Lorelei Murphy taka við stöðu yfirþjálfara keppnisflokkanna okkar. Lorelei kemur frá Kanada. Hún hefur langa og víðtæka reynslu sem þjálfari og hefur þjálfað skautara á öllum aldri og öllum getustigum. Hún hefur þjálfað skautara í Kanada, Svíþjóð, Danmörku, Nýja Sjálandi, Írlandi, Hong Kong og Singapore. Lorelei er nokkrum iðkendum okkar kunn en hún hefur þjálfað hjá listhlaupadeildinni áður, bæði var hún hjá okkur veturinn 2009/2010 en einnig hefur hún komið hingað sem gestaþjálfari, síðast vorið 2018. Við bjóðum Lorelei velkomna til starfa hjá okkur.


Æfingar hefjast að nýju í handboltanum

Handboltaæfingar yngri flokka hefjast aftur í dag eftir langt hlé. Tímataflan fyrir maí-mánuð er örlítið breytt þeirri sem var í vetur.

Við hvetjum alla krakka til að mæta, þjálfararnir taka vel á móti þeim.

Áfram Fjölnir!


Anna Karen Jónsdóttir kemur frá Noregi

Anna Karen Jónsdóttir kemur til félagsins frá Noregi

Meistaraflokksráð kvenna í Fjölni/Fylki heldur áfram að styrkja liðið. Anna Karen Jónsdóttir hefur skrifað undir samning við félagið. Hún kemur frá norska liðinu Fjellhammer IL.

Anna Karen er gríðarlega öflug skytta sem kemur til með að styrkja liðið í vörn og sókn. Hún er er hluti af mjög sterkum 2001 árgangi í Fjellhammer IL sem hefur spilað í Lerøy landskeppninni fyrir U18 ára ásamt því að spila með varaliði meistaraflokks.

Þetta hafði hún að segja við undirskrift: „Ég ákvað að stökkva á tækifærið að koma til Íslands af því að það var spennandi. Fjölnir/Fylkir er áhugavert lið og mér leist strax vel á þjálfarateymið og umgjörðina í kringum liðið“.

Við bjóðum Önnu Karen hjartanlega velkomna í #FélagiðOkkar og hlökkum til að sjá þig á vellinum.


Oddný Björg Stefánsdóttir kemur til félagsins

Oddný Björg Stefánsdóttir skrifar undir samning við félagið

Meistaraflokksráð Fjölnis/Fylkis situr ekki auðum höndum. Oddný Björg Stefánsdóttir hefur skrifað undir samning við félagið. Hún er tvítugur markmaður sem kemur frá ÍR. Oddný er öflugur leikmaður og mikil styrking fyrir liðið. Hún á að baki leiki fyrir ÍR og HK.

Það eru bjartir tímar framundan hjá meistaraflokki kvenna í handbolta. Á dögunum skrifaði deildin undir samstarfssamning við Fylki um sameiginlegan meistaraflokk kvenna. Þar segir meðal annars að „markmið samstarfsins er að bæta umgjörð meistaraflokks og styðja enn frekar við uppbyggingu kvennastarfs í félögunum“.

Frekari frétta af leikmannamálum er að vænta á næstunni.

#FélagiðOkkar


Upplýsingar til forráðamanna og iðkenda

Kæru forráðamenn og iðkendur,

Við gleðjumst yfir því að á morgun geta börnin okkar hafið hefðbundið íþróttastarf. Seinustu daga hafa stjórnendur félagsins í samvinnu við fulltrúa allra deilda unnið hörðum höndum að góðu skipulagi fyrir forráðamenn, iðkendur og þjálfara félagsins. Egilshöllin er sem fyrr hjarta Fjölnis og þar er langstærsti hluti starfsemi okkar. Við bendum á að íþróttasalurinn í Dalhúsum er lokaður vegna viðgerða á gólfi, þá er styrktarsalurinn einnig lokaður. Fundabókanir fara fram á vefnum okkar https://fjolnir.is/felagid-okkar/fundabokanir/.

Hér eru nokkrir mikilvægir punktar:

  • Vegna tilslakana á samkomubanni má barnastarf íþróttafélaga hefjast aftur með hefðbundnum hætti mánudaginn 4.maí.
  • Vegna fjöldatakmarkana hjá fullorðnum er mikilvægt að ef það þarf að fylgja barni á æfingar að aðeins eitt foreldri mæti með barnið á æfingasvæðið. Óheimilt er að vera inn á æfingasvæði meðan á æfingu stendur. Athugið að foreldrum iðkenda sunddeildar er óheimilt að fylgja börnunum í klefana og ofan í laugina. Sundsambandið er í viðræðum við Reykjavíkurborg um þetta mál.
  • Það er mikilvægt að huga að almennu hreinlæti, iðkendur skulu þvo hendur með sápu og spritta áður en æfing hefst.
  • Við sem erum 16 ára og eldri þurfum ennþá að halda tveggja metra fjarlægð og huga að almennu hreinlæti.
  • Við reynum að koma sem minnst við öll áhöld (bæði þjálfarar og foreldrar).
  • Klefar eru lokaðir fyrst um sinn. Við brýnum fyrir iðkendum að vera klædd í æfingafatnað undir öðrum fatnað. Við brýnum fyrir þjálfurum að skipuleggja svæði á æfingasvæði fyrir útifatnað og skó.
  • Frístundafylgdin fer ekki af stað. Við bíðum eftir frekari upplýsingum frá Strætó. Við vonumst eftir því að geta hafið fylgdina á ný sem allra fyrst.
  • Upplýsingar um inn- og útgang í Egilshöll er að finna á meðfylgjandi skýringarmynd.
  • Við bendum forráðamönnum og iðkendum á að hafa samband við þjálfara og yfirþjálfara fyrir nánari upplýsingar varðandi æfingar og keppni.

Ef það eru einhverjar spurningar þá hikið þið ekki við að hafa samband við okkur. Þetta er allt mjög nýtt fyrir okkur öllum. Við erum #FélagiðOkkar! Stöndum þétt saman.


Elvar Otri og Þorleifur Rafn framlengja við Fjölni

Elvar Otri og Þorleifur Rafn framlengja við Fjölni

Það er ljóst að mikið mun mæða á ungum og uppöldum Fjölnismönnum í meistaraflokki karla á næsta keppnistímabili. Tveir leikmenn sem munu spila lykilhlutverk í liðinu á næstu árum hafa nú framlengt samninga sína við félagið og fögnum við því.

Elvar Otri Hjálmarsson er öflugur leikstjórnandi með mikinn leikskilning og tækni í sínum leik.

Þorleifur Rafn Aðalsteinsson er rétthentur hornamaður sem er þekktur fyrir sinn ótrúlega hraða, áræðni og sprengikraft.

Báðir hafa þeir, þrátt fyrir ungan aldur, átt fast sæti í meistaraflokksliði Fjölnis undanfarin ár.

#FélagiðOkkar


Tilkynning frá skrifstofu

Kæru forráðamenn og iðkendur Fjölnis,

Tekin hefur verið ákvörðun af stjórnendum félagsins á þessum fordæmalausu tímum að lengja æfingatímabil félagsins í barna- og unglingastarfi til að mæta þeim æfingum sem fallið hafa niður til viðbótar þeirri fjarþjálfun sem farið hefur fram. Unnið verður með hverri deild að útfærslu á viðbótarvikum. Komið verður til móts við iðkendur í júní eða júlí.

Stjórnendur félagsins vilja koma á framfæri miklu þakklæti til þjálfara og stjórnarfólks í félaginu á þessum fordæmalausu tímum.

#FélagiðOkkar


Útdrætti á happdrætti frestað til 15. júní

Embætti Sýslumannsins á Suðurlandi heimilar frestun á útdrætti í happdrætti knattspyrnudeildar Fjölnis sem fara átti fram í dag, fimmtudaginn 30. apríl 2020 til mánudagsins 15. júní 2020 vegna Covid-19.

Ennþá er hægt að tryggja sér miða, en fjöldi glæsilegra vinninga er í boði og er aðeins dregið úr seldum miðum.
Miðaverð er 2.0o0 kr. og eru 3.500 miðar í boði.


NÚ BYRJAR GAMANIÐ! .... AFTUR

Mánudaginn 4.maí hefjum við æfingar aftur í samræmi við leiðbeiningar heilbrigðisráðherra, þó með þeim breytingum sem við útlistum hér að neðan. Í ljósi alls þessa sem gengið hefur á munum við lengja æfingatímabilið frá því sem sem stóð til fram í miðjan júní – en nákvæm lokadagsetning verður auglýst síðar. Markmið okkar er að allir verði áfram með aðstöðu til að taka beltapróf á réttum tíma.

Við byrjum barnastarfið með sama hætti og áður var, samkvæmt sömu stundarskrá. Fyrstu æfingar verða haldnar hjá byrjendum á mánudeginum og svo framhaldshóparnir frá þriðjudeginum. Frístundafylgdin er ekki enn hafin, en við munum tilkynna um hana um leið og hún er i boði og þá hefja Fjörkálfanámskeiðið aftur.

Fullorðinsstarfið (eldri en 16 ára) verður með breyttu sniði. Þar sem ekki er hægt að vera með fleiri en 4 á æfingu innanhúss eða 7 utanhúss, hljóðar núverandi áætlun upp á að þjálfarar boði til æfinga á Facebook hópum félagsins innan dagsins. Þær æfingar verði þá haldnar útivið – á svæðinu við Egilshöll, nema annað sé auglýst sérstaklega. Í ljósi þess að um útiæfingar verður að ræða mun veðurfarið spila einhvern þátt í hversu margar æfingar verður hægt að halda.

Breytingar frá því sem verið hefur:

  • Þeir sem eru að koma í karatesalinn þurfa að ganga um suðurinngang í Egilshöll (aðalinngang). Þannig á að reyna að takmarka samgang eftir því sem hægt er.
  • Enginn kemur inn í sal nema þeir sem eru að fara á æfingu (foreldrar skila iðkendum af sér við innganginn og koma ekki inn í salinn).
  • Við dyrnar í æfingaraðstöðuna verður sótthreinsivarningur, gert er ráð fyrir að iðkendur noti hann bæði fyrir og eftir æfingar. Iðkendur þurfa jafnframt að gæta fyllsta hreinlætis fyrir og eftir æfingar.
  • Á æfingum verður miðað við að gera æfingar þar sem ekki er þörf á miklum líkamlegum snertingum.
  • Þjálfararnir munu aðstoða yngstu iðkendurnar við að virða ofangreint – við óskum jafnframt eftir því að foreldrar ræði þessar breytingar við krakkana.

Beltapróf eru svo fyrirhuguð sem hér segir.

  • Beltapróf – fara fram 2. vikuna í maí. 11.-16. maí
  • Brúnbeltaprófin sem fara áttu fram í apríl, fara fram laugardaginn 30. maí.

Hlökkum ósegjanlega til að sjá ykkur öll aftur.

Hvetjum ykkur til að fylgjast með heimasíðu Fjölnis til að sjá nánari útlistun á hvernig aðgengi að húsinu verður stýrt.

#FélagiðOkkar

Æfingaáætlun Karatedeildar vorið 2020