Nýtt fótboltatímabil að hefjast

Nú er nýtt tímabil að hefjast hjá yngri flokkum og knattspyrnudeild Fjölnis er að blása til sóknar í yngri flokka starfi. Á síðustu mánuðum hefur verið unnin mjög góð og markviss stefnumótunarvinna innan knattspyrnudeildar með það að markmiði að auka enn frekar gæði starfsins.

Stór skref hafa verið stiginn og starfa nú tveir yfirþjálfarar í fullu starfi hjá félaginu sem hvor um sig ber ábyrgð á faglegu starfi annars vegar stúlknamegin og hinsvegar drengjamegin. Þetta er stórt skref sem að vonandi leiðir til fjölgunar, ekki síst stúlknamegin, sem og enn faglegra starfi sem mun skila sér til félagsins á næstu árum.

Dagana 3. – 25. október býður Fjölnir börnum fædd árið 2015 og 2016 að æfa frítt og eru þjálfarar og starfsfólk spennt að taka á móti sem flestum börnum. 17. október verður svo haldið Októbermót Fjölnis þar sem allir þeir sem æfa geta tekið þátt gegn þátttökugjaldi.

Æfingatöflur knattspyrnudeildar eru komnar inn á heimasíðu félagsins og má nálgast þar. Minni foreldra að muna að skrá börnin inni á https://fjolnir.felog.is/ svo að æfingatöflur birtist í Sideline appinu.

Svo eru yngri flokkar Fjölnis einnig á Facebook og hvet ég ykkur öll að fylgja okkur þar
https://www.facebook.com/Fj%C3%B6lnir-Yngri-flokkar-Knattspyrnudeild-300328627123537

Árangur yngri flokka félagsins hafa verið með ágætum og er tilvalið að minna á að nýkringdir bikarmeistarar í 3. flokki karla spila úrslitaleik Íslandsmótsins sunnudaginn 4. október klukkan 13:00 á Kópavogsvelli og hvetjum við sem flesta til mæta og hvetja

#FélagiðOkkar

 

Fyrir hönd Barna- og unglingaráðs knattpyrnudeildar Fjölnis

Sævar Reykjalín
Formaður BUR


Tilkynning um barnamótið sem á að fara fram 2.-4. október.

Tilkynning frá Skautafélgai Akureyrar um barnamótið sem á að vera helgina 2.-4. október.
"Í kvöld fundaði hokkístjórn SA, stjórn foreldrafélags SA og sóttvarnarnefnd félagsins. Niðurstaða fundarins var sú að þau sjá sér ekki fært að uppfylla allar sóttvarnarreglur sem þarf á svona stóru móti. Búið var að útbúa leikjaplan og við frekari skoðun með tilliti til ramma, (uppsetningar og niðurtöku) starfsfólks, (sótthreinsun milli leikja og eftirlit meðsóttvörnum) aðgengi liða að keppnissvæði og fjölda þeirra sem koma að mótinu, (keppendur og fylgdarlið) þá treysta þau sér ekki í þetta mót eins og staðan er í dag. Við erum að skoða framhaldið ásamt stjórnum hinna félagana og látum vita þegar nýjar upplýsingar berast."
Til athugunar er þó að spilað verði U12 mót fyrir norðan. En að svo stöddu mun U8 og U10 ekki fara norður til keppni um helgina. 
Þessi grein verðu uppfærð jafnt og fréttir berast!
Kveðja, stjórn íshokkídeildar Fjölnis.

Skautamót á Akureyri

Flottur hópur Fjölnisstúlkna hélt norður á Akureyri um helgina til að keppa á Haustmóti ÍSS og Frostmótinu. Langt er síðan síðasta mót var haldið þar sem öll mót féllu niður á vormánuðum vegna Covid. Stúlkurnar mættu því spenntar til Akureyrar.

Frostmót
Sex Fjölnisstúlkur tóku þátt í 4 keppnisflokkum á Frostmótinu sem haldið var á laugardeginum. Perla Gabríela Ægisdóttir keppti í 8 ára og yngri, Arna Dís Gísladóttir, Selma Kristín S. Blandon og Una Lind Otterstedt í 10 ára og yngri, Líva Lapa í 12 ára og yngri, og Kayla Amy Eleanor Harðardóttir í hóp 14 ára og yngri. Ekki voru veitt verðlaun fyrir 8 og 10 ára og yngri. Stelpunum gekk mjög vel og voru ánægðar með sitt framlag eftir daginn. Kayla skautaði gott prógram og sigraði í flokknum 14 ára og yngri.

Haustmót ÍSS
Á Haustmóti ÍSS voru 9 Fjölnisstúlkur í 6 keppnisflokkum. Allar voru þær að skipta um keppnisflokk eða koma nýjar inn á ÍSS mót. Á laugardeginum hófst keppni í Basic Novice sem var stærsti flokkur mótsins. Þar keppti ein Fjölnisstúlka, Elva Ísey Hlynsdóttir. Hún skautaði prógramið sitt af nokkru öryggi, fékk 24,18 í einkun og hreppti hún 4. sætið aðeins 0,42 stigum á eftir næsta keppanda. Því næst hófst keppni í Advanced Novice og Junior þar sem keppendur skautuðu stutta prógramið sitt. Tanja Rut Guðmundsdóttir í Advanced Novice var önnur á ísinn, skautaði fínt prógram og fékk 22,12 stig og var í 2. sæti eftir fyrri daginn. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Lena Rut Ásgeirsdóttir kepptu síðan í flokki Junior. Júlía Sylvía fékk 35,51 stig og var í 3. sæti eftir fyrri daginn en Lena Rut fékk 24,00 stig og var í 5. sæti.

Á sunnudeginum hófst keppni í Chicks þar sem Ermenga Sunna Víkingsdóttir skautaði vel í frumraun sinni á ÍSS móti. Þær Arína Ásta Ingibjargardóttir og Elín Katla Sveinbjörnsdóttir kepptu síðan í Cubs. Ekki voru veitt verðlaun fyrir keppendur í Chicks og Cubs en allir keppendur fengu þátttökuviðurkenningar og voru þær mjög ánægðar með daginn.

Því næst var keppt í flokki Intermediate Novice og þar kepptu Sandra Hlín Björnsdóttir og Andrea Marín Einarsdóttir. Sandra Hlín fór fyrst á ísinn og nældi hún sér í 22,63 stig og hafnaði í 2. sæti. Andreu Marín gekk nokkuð vel með sitt prógram, fékk 17,02 stig og lenti í 4. sæti.

Að lokum var keppt í frjálsa prógraminu í Advanced Novice og Junior. Tanja Rut fékk 36,81 stig fyrir frjálsa prógramið og var samanlagt með 58,93 stig og endaði í 2. sæti í Advanced Novice. Lena Rut fór fyrst á ísinn í flokki Junior, skautaði ágætis prógram sem hún fékk 47,04 stig fyrir, var samanlagt með 71,04 stig og var í 5. sæti. Júlía Sylvía reyndi í fyrsta skipti á móti við þrefalt Salchow sem henni tókst því miður ekki að lenda í þetta sinn, en skautaði svo fínt frjálst prógram sem hún fékk 68,82 stig fyrir, var samanlagt með 104,33 stig og var í 3. sæti í flokki Junior.

Eftir fínt gengi stúlknanna er Fjölnir í 2. sæti í Bikarmótaröðinni eftir fyrsta mót vetrarins.


Hokkí markaður fimmtudaginn 1. október

Við ætlum að hittast í Íssalnum fimmtudaginn 1. október milli 18:30 og 19:30 með gamla íshokkídótið sem við erum hætt að nota og koma því í pening eða bítta því fyrir eitthvað sem passar betur.

Þetta er markaður sem er opinn öllum sem eiga eða langar að kaupa íshokkídót.

Þjálfarar verða á svæðinu og aðstoða fólk við að finna sanngjarnann verðmiða.

Endilega takið til í skápum og geymslum og komið með allt sem þið finnið.
Einnig bendum við á að þjálfarar og stjórn taka alltaf við frjálsum framlögum á notuðu íshokkídóti ef fólk vill styrkja deildina í því formi.


Litríkur og spennandi fyrsti leikur Fjölnis kvenna

26.9 2020

Fyrsti leikur nýskipaðs liðs Bjarnarins hjá meistaraflokks kvenna í Fjölni fór fram í gær þegar þær mættu SA í Egilshöll.

Bæði lið mættu ákveðin til leiks og úr varð spennandi leikur sem hélt áhorfendum á tánum.

SA skoraði fyrsta mark leiksins þegar aðeins 1 mín og 24 sek voru búnar af leiknum. Mikil barátta var inn á svellinu en fyrsti leikhluti endaði  0-2 fyrir SA þar sem annað mark þeirra var skorað þegar 14 min og 29 sek voru búnar af leiknum.

Stelpurnar stilltu strengi sína í fyrsta leikhléi og mættu ákveðnar inn í annann leikhluta. SA náði þó að skora fyrsta mark þess leikhluta þegar 21 min og 16 sek voru búnar af leiknum.

Bjarnarstelpurnar skoruðu þó næstu tvö mörk .

Fyrra markið var skorað eftir 32 min og 30 sek, markið skoraði leikmaður nr 10, Steinunn Sigurgeirsdóttir eftir stoðsendingu frá leikmanni nr 12 Hörpu Kjartansdóttur.  

Seinna markið kom eftir 34 min og 57 sek, markið skoraði leikmaður nr 7 Sigrún Árnadóttir eftir stoðsendingu frá leikmanni nr 13 Laura Murphy.

Staðan því orðin 2-3 fyrir SA eftir æsispennandi leikhluta.

Ljóst var að í þriðja leikhluta gæti allt gerst.

Liðin tvö mættu í síðasta leikhluta og augljóst var að bæði lið ætluðu að gefa allt í þennann leik.

Fyrstu tvö mörk leikhlutans skoruðu SA, fyrra eftir 41 min og 03 sek og seinna eftir 47 min og 54 sek.

Staðan því orðin 5-2 SA í vil.

Bjarnarstelpurnar héldu baráttu sinni áfram og skoruðu þriðja mark sitt eftir 55 min og 29 sek, markið skoraði leikmaður nr 99 Maríana Birgisdóttir eftir stoðsendingu frá leikmanni nr 10 Steinunni Sigurgeirsdóttur.

Að leikslokum var staðan Björninn 3 – SA 5.

Leikurinn var litríkur og skemmtilegur og fengu áhorfendur að sjá frábæra takta inn á svellinu.

Ljóst er að framundan er spennandi leiktíð í Hertz deild kvenna þar sem gaman verður að fylgjast með þessu nýskipaða Bjarnarliði frá Fjölni.

 

hægt er að horfa á leikinn hér:
https://www.youtube.com/watch?v=K7sFNR2SRLk


Upphitun: FH - Fjölnir

Pepsi Max deild karla
18. umferð
FH - Fjölnir
Sunnudaginn 27. september kl. 14:00 í Kaplakrika

Næst liggur leið okkar Fjölnismanna í Kaplakrika. Fjölnir situr á botni deildarinnar með sex stig, níu stigum frá Víkingi sem er í næsta örugga sæti. Sex leikir eru eftir af mótinu. Vonin um að Fjölnir haldi sæti sínu í deild þeirra bestu veikist með hverjum leik sem ekki vinnst. Veika vonin lifir á meðan enn er tölfræðilegur möguleiki á að lifa af. Fyrst og síðast þarf Fjölnir að spila upp á stoltið í þeim leikjum sem eftir eru. Aðeins einu sinni áður hefur lið lokið tímabili með innan við tíu stig í tólf liða A-deild, það var lið Keflavíkur sem féll fyrir tveimur árum síðan með fjögur stig.

FH er í öðru sæti deildarinnar. Bæði lið töpuðu á heimavelli í síðustu umferð, Fjölnir fyrir ÍA, 1-3, og FH fyrir Val, 1-4. Fyrri leik FH og Fjölnis í sumar lauk með 0-3 sigri Hafnfirðinga. Nánar er vikið að fyrri viðureignum liðanna í upphitunarpislti fyrir leik liðanna í ár. Enginn leikmanna Fjölnis verður í leikbanni á sunnudag. FH-ingurinn Guðmann Þórisson verður hins vegar í leikbanni eftir að hafa fengið rautt spjald í síðasta leik.

Sjáumst á vellinum. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson


Sunddeild Fjölnis hefur gert samning við Aquasport

Sunddeild Fjölnis hefur skrifað undir styrktarsamning við Aquasport sem gefur iðkenndum sund íþróttar góð kjör og styrki hjá Aquasport en þeir eru innflutnings aðili að sundfatnaði frá TYR sem er eitt af leiðandi merkjum sundfatnaðar í heiminum.


Upphitun: Fjölnir - ÍA

Pepsi Max deild karla
10. umferð
Fjölnir - ÍA
Fimmtudaginn 24. september kl. 16:15 Extra vellinum

Á fimmtudag Fjölnir og ÍA í Pepsi Max deild karla. Enn leita Fjölnismenn að fyrsta sigrinum í ár. Fjölnir situr á botni deildarinnar með sex stig, níu stigum frá öruggu sæti í deildinni. Skagamenn sitja í áttunda sæti með sautján stig. Um er að ræða frestaðan leik. Leikurinn átti að fara fram í 10. umferð. Bæði lið hafa leikið fimmtán leiki. Fjölnir gerði 1-1- jaftefli við KA um helgina og ÍA lagði Gróttu 3-0 á mánudag.

Félögin hafa mæst átta sinnum í A-deild. Fjölnir hefur unnið helming viðureignanna. Skagamenn hafa unnið tvo leiki og tveir hafa endað með jafntefli. Búast má við markaleik. Í viðureignum Fjölnis og ÍA í efstu deild hafa verið skoruð 3,5 mörk að meðaltali í leik.

Engin lið hafa fengið á sig fleiri mörk í sumar en Fjölnir og ÍA. Skagamenn hafa skorað næst flest mörk í deildinni í ár. Því miður hafa aðeins tvö lið skorað færri mörk en Fjölnir í sumar. Viktor Jónsson, Tryggvi Hrafn Haraldsson og Stefán Teitur Þórðarson hafa að mestu séð um markaskorun Skagamanna. Markahæsti leikmaður Fjölnis í sumar er Jóhann Árni Gunnarsson með fjögur mörk. Þjálfari Skagamanna er Jóhannes Karl Guðjónsson.

Leikið er á einkennilegum tíma vegna birtuskilyrða. Stuðnignsmönnum er heimilt að mæta a völlinn. Fjöldatakmarkanir miðast við 200 einstaklinga í hverju sóttvarnarhólfi. Fjölnir býður upp á tvo hólf. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

21 – Jeffery Monakana

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

80 - Nicklas Halse

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson


Upphitun: Fjölnir - KA

Pepsi Max deild karla
17. umferð
Fjölnir – KA
Laugardaginn 19. september kl. 14:00 á Extra vellinum

Leiðin var löng frá Seltjarnarnesi í Grafarvog eftir 2-2 jafntefli Fjölnis og Gróttu síðastliðið mánudagskvöld. Fjölnir er með fimm stig á botni deildairnnar, níu stigum frá þeim þremur liðum sem eru í næstu sætum fyrir ofan fallsvæðið. KA situr í níunda sæti deildarinnar, með betri markatölu en ÍA en lakari en Víkingur. Leik Fjölnis og KA í fyrri umferðinni lauk með 1-1 jafntefli. Báðar fyrri viðureignir liðanna í efstu deild í Grafarvogi hafa endað með jafntefli. Nánar er vikið að fyrri viðureignum liðanna og tengingum á milli félaganna í upphitunarpistli fyrir leik liðanna í sumar.

KA er það lið í deildinni sem hefur náð í fæst stig á útivelli í sumar. Aftur á móti er Fjölnir með lakasta heimavallarárangur A-deildarliða það sem af er móti. Ekkert lið hefur skorað færri mörk í sumar en KA og ekkert fengið lið fengið á sig fleiri mörk en Fjölnir. Ekkert annað lið en FH og Stjarnan hefur fengið á sig færri mörk en KA í sumar. Af fjórtán stigum KA í sumar hafa átta þeirra komið með jafnteflum. Öll fimm stig Fjölnis í sumar hafa fengist með jafnteflum.

Guðmundur Karl Guðmundsson afplánaði leikbann í síðasta leik og reikna má með því að hann komi aftur inn í liðið. Nicklas Halse lék sinn fyrsta leik fyrir Fjölni gegn Gróttu. Jeffery Monakana gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Fjölni á laugardag.

Útlitið er ekki bjart sem stendur en á meðan möguleiki er fyrri hendi á að halda sætinu í deildinni má ekki leggja árar í bát.

Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

 

Grétar Atli Davíðsson


Breyttur símatími skrifstofu

Þriðjudaginn 7. september fór símatími skrifstofu úr fjórum dögum í einn. Eftir miklar vangaveltur síðustu mánuði var sú ákvörðun tekin að fækka dögum og er það okkar markmið að veita betri þjónustu þann tíma sem síminn er opinn. Við vonum að þessi breyting muni skila sér í betri og hraðari svörun.

Símatími skrifstofu er opinn þriðjudaga milli kl. 09:00 og 12:00.

  • Beinn sími skrifstofu er 578 2700 og þegar hringt er inn bjóðum við upp á tvo valmöguleika:
    • Velja 1 fyrir almennar fyrirspurnir og skráningar (Nóri og XPS/Sideline) og fá þá samband við Arnór eða Fríðu.
    • Velja 2 fyrir fimleikadeild og fá þá samband við Berglindi, Írisi eða Steinunni.

Skrifstofa félagsins er áfram opin mánudaga til fimmtudaga milli kl. 09:00 og 12:00 og kl. 13:000 og 16:00.

Við bendum einnig á póstinn okkar, skrifstofa@fjolnir.is.

#FélagiðOkkar