Fullt hús á TORG skákmóti Fjölnis

Það mættu 80 efnilegir skákkrakkar á öllum grunnskólaaldri á TORG skákmót Fjölnis í Rimaskóla á Skákdegi Íslands 2019. Tefldar voru sex umferðir og keppnin jöfn og spennandi frá upphafi til enda. Verðlaunað var í þremur flokkum; eldri flokki, yngri flokki og stúlknaflokki. Sigurvegarinn reyndist vera Kristján Dagur Jónsson TR sem hlaut 5,5 vinninga af 6 mögulegum. Sara Sólveig Lis skákdeild Fjölnis sigraði í stúlknaflokki. Meðal efstu manna á mótinu voru Fjölnis strákarnir Joshua Davíðsson, Arnór Gunnlaugsson og Anton Breki Óskarsson, bekkjarbræður í Rimaskóla, allir með 5 vinninga.

Í upphafi mótsins ávarpaði borgarfulltrúinn og Grafravogsbúinn Valgerður Sigurðardóttir keppendur og lýsti ánægju sinni með hið öfluga skákstarf Fjölnis og sagðist stolt af því að fá að leika fyrsta leikinn á þessu glæsilega skákmóti. Valgerður lék síðan fyrsta leikinn fyrir hina bráðefnilegu Emilíu Emblu Baldvins-og Berglindardóttur sem er aðeins 6 ára gömul, nemandi í Rimaskóla, og var í afrekshópi Omar Salama á Laufásborg sl. vetur.

Í skákhléi var boðið upp á góðar veitingar frá Hagkaup og Emmess ís. Gífurlegt verðlaunaflóð skall á að loknu móti, alls 43 talsins. Hagkaup, Pizzan, Emmess, Disney-klúbburinn og fyrirtækin Bókabúðin, Blómabúðin,CoCo´s og Smíðabær við Hverafold gáfu vinningana sem voru flottir og fjölbreyttir. Fjölmargir foreldrar fylgdust með af áhuga, fengu sér kaffi og kökur og gátu haft það huggulegt í félagsmiðstöðinni.


Byrjendanámskeið í Tennis

Byrjendanámskeið í Tennis fyrir börn 10-13 ára. Skráning er hafin á heimasíðu félagsins https://fjolnir.felog.is

Laugardagar, klukkan 16:30 – 17:30 – frá 26. jan til 25.


Pepsi-deildar könnun

Kæri félagsmaður Fjölnis,

 

Knattspyrnusamband Íslands hefur ákveðið að ráðast í rannsókn á upplifun áhorfenda Pepsi-deildar karla og kvenna. Kannað verður hvað gengur vel og hvað megi betur fara til að komast að því hvernig megi bæta upplifun áhorfenda.

Könnunin er nafnlaus og svör verða ekki rakin til einstaklinga. Þátttaka tekur um 5-7 mínútur.

Í könnuninni er farið með öll svör sem trúnaðarmál. Zenter rannsóknir sér um alla gagnavinnslu og tryggir að aldrei sé hægt að rekja svör niður á einstaklinga.

Til að taka þátt, vinsamlega afritaðu og límdu eftirfarandi hlekk í þinn  netvafra: https://www.snapsurveys.com/wh/s.asp?k=154686693260  

Ef þú hefur einhverjar spurningar um könnunina er þér velkomið að hafa samband við  Atla hjá Zenter með því að senda tölvupóst á atli@zenter.is eða í síma 511-3900.


Grunnskólabörnum boðið á skákmót

TORG skákmót Fjölnis verður haldið á Skákdegi Íslands 26. janúar, afmælisdegi Friðriks Ólafssonar
Ókeypis þátttaka - ókeypis veitingar - 40 verðlaun

TORG skákmót Fjölnis verður haldið í 14. sinn og hefst kl. 11:00 laugardaginn 26. janúar í Rimaskóla Grafarvogi og lýkur kl. 13:15.

Þetta er tilvalið skákmót fyrir alla áhugasama skákkrakka í Grafravogi.
TORG skákmótið er einkar vinsælt og opið öllum grunnskólakrökkum. Tefldar 6 umferðir.
Það eru Hagkaup Spönginni, Emmess ís, Disney, Pizzan, Bókabúð Grafravogs, CoCo´s, RS blóm, fyrirtækin á Torginu Hverafold, sem gefa allt að 40 áhugaverð verðlaun.
Allir þátttakendur fá fríar veitingar frá Hagkaupum og Emmess ís. Foreldrar geta keypt sér kaffi og kexkökur á vægu verði.

Nú er bara að taka tímann frá strax og mæta tímanlega til skráningar annan laugardag, 26. janúar 2019.


Sigurður í úrvalshóp

Sigurður Ari Stefánsson var valinn á dögunum í úrvalshóp drengja U-18 fyrir árið 2019 í áhaldafimleikum. Hann er sá fyrsti til þess að ná þessum árangri í áhaldafimleikum kk í Fjölni enda brautriðjandi í sinni grein hér hjá okkur. Við óskum honum og Zoltáni þjálfara innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur og verður spennandi að fylgast með honum í verkefnum framundan.


Afreksfólk árið 2018

Ásta Kristinsdóttir og Sigurður Ari Stefánsson valin afreksfólk fimleikadeildar árið 2018.

Ásta Kristinsdóttir hefur stundað fimleika frá unga aldri hjá fimleikadeild Fjölnis og er nú í fremstu röð fimleikastúlkna á Íslandi í hópfimleikum. Hún er aldursforseti og frumkvöðull í hópfimleikadeild Fjölnis. Á árinu var hún lykilmaður í meistarflokki Fjölnis þegar liðið keppti á danska meistaramótnu. Þar keppti hún með tvö erfiðustu stökkin bæði í fram og aftur umferð. Ásta keppti fyrir hönd Íslands á Evrópumótinu í hópfimleikum þar sem liðið endaði í 2.sæti. Við óskum Ástu okkar innilega til hamingju með frábært fimleikaár.

Sigurður Ari Stefánsson hefur stundað áhaldafimleika frá 7 ára aldri, hann hefur ávallt verið með þeim bestu og hefur unnið til fjölda verðlauna í gegnum árin og er árið 2018 engin undantekning.

Sigurður var í 2.sæti á Íslandsmóti í 3.þrepi, hann keppti í fyrsta skipti í frjálsum æfingum á GK meistaramótinu og jafnframt sá fyrsti í Fjölni í áhaldafimleikum kk til að keppa á þessu móti og lenti í 2.sæti. Í lok árs var hann svo valinn í úrvalshóp fimleikasambandsins. Við óskum Sigurði okkar einnig til hamingju með frábæran árangur á liðnu ári.

 


HM-Fjör Fjölnis

Handknattleiksdeild Fjölnis mun standa fyrir HM-Fjöri í kringum leiki Íslands á HM 2019.

* Frítt að prófa æfingar milli 10. - 27. janúar (sjá æfingatöflur á https://www.fjolnir.is/handbolti/aefingatoflur-handbolti/)
* Ef þú kemur með vin/vinkonu þá fá færð þú og vinur/vinkona ísmiða á Gullnesti.
* Allir leikir Íslands í riðlakeppninni sýndir í félagsaðstöðu Fjölnis í Egilshöll (tímarnir eru í viðburðinum fyrir ofan)

Vertu með í HM-Fjöri Fjölnis

 


Skákæfingar á nýju ári

Hinar vinsælu skákæfingar Fjölnis hefjast á nýju ári fimmtudaginn 10. janúar. Æfingarnar eru í boði alla fimmtudaga í Rimaskóla frá kl. 16:30 - 18:00. Ókeypis þátttaka. Æfingarnar eru ætlaðar grunnskólakrökkum sem hafa náð grunnatriðum skáklistarinnar, þekkja mannganginn og auðveldustu byrjanir. Keppni og kennsla - verðlaun og veitingar .


Frábær árangur hjá Degi Ragnarssyni

Dagur Ragnarsson (2327) náði sínum öðrum áfanga að alþjóðlegum skákmeistaratitli með frábærri frammistöðu á alþjóðlegu skákmóti í Montreal í Kanada sem lauk í gær.  Dagur hlaut 6½ vinning í 9 skákum. Dagur byrjaði afar vel og hafði 3½ vinning eftir 4 umferðir. Jafntefli gerði hann í 5.-8. umferð þar sem hann var oft á tíðum afar nærri því að vinna skákirnar. Sigur í lokaumferðinni á móti kanadíska FIDE-meistaranum Mike Ivanov (2251) tryggði honum áfangann. Frammistaða Dags samsvaraði 2467 skákstigum og hækkar hann um 34 ELÓ stig sem er óvenju mikið miðað við aðra stigaháa skákmenn. Eins og Grafravogsbúum ætti að vera kunnugt um þá var Dagur valinn afreksmaður skákdeildar fyrir árið 2018. Þetta er annar áfangi Dags en til þess að verða útnefndur alþjóðlegur meistari þarf hann þrjá áfanga og komast í 2400 skákstig. Þeim fyrsta náði hann í á Íslandsmótinu í skák 2017 í Hafnarfirði. Skákdeild Fjölnis óskar Degi hjartanlega til hamingju með frábæran árangur og meistaraáfangann!


Fjölmennt á jólaæfingu

Jólaskákæfing Fjölnis var fjölmenn enda margt í boði fyrir utan taflmennskuna. Fjörutíu Grafravogskrakkar mættu til leiks og tefldu fimm umferða skákmót. Í skákhléi var boðið upp á góðar veitingar og ávaxtadjús. Einbeiting og virðing eru þau tvö orð sem við höfum valið skákæfingunum að undanförnu og þessi tvö orð svínvirka. Eftir jafnt og spennandi skákmót voru allir krakkarnir leystir út með jóla-nammipoka. Þau hjónin og Grafarvogsbúarnir Steini og Vala borgarfulltrúi hafa undanfarin ár séð um jólaglaðning á jólaskákæfingum og hafa sendingar þeirra fallið í kramið hjá okkar áhugasömu skákkrökkum. Glæsilegt skákár er að baki hjá Skákdeild Fjölnis, fjölmennar æfingar og fyrsta sætið á Íslandsmóti félagsliða að loknum fyrri hluta mótsins. Fyrsta skákæfingin á nýju ári verður fimmtudaginn 10. janúar kl. 16:30 í Rimaskóla.