Grunnskólabörnum boðið á skákmót
TORG skákmót Fjölnis verður haldið á Skákdegi Íslands 26. janúar, afmælisdegi Friðriks Ólafssonar
Ókeypis þátttaka - ókeypis veitingar - 40 verðlaun
TORG skákmót Fjölnis verður haldið í 14. sinn og hefst kl. 11:00 laugardaginn 26. janúar í Rimaskóla Grafarvogi og lýkur kl. 13:15.
Þetta er tilvalið skákmót fyrir alla áhugasama skákkrakka í Grafravogi.
TORG skákmótið er einkar vinsælt og opið öllum grunnskólakrökkum. Tefldar 6 umferðir.
Það eru Hagkaup Spönginni, Emmess ís, Disney, Pizzan, Bókabúð Grafravogs, CoCo´s, RS blóm, fyrirtækin á Torginu Hverafold, sem gefa allt að 40 áhugaverð verðlaun.
Allir þátttakendur fá fríar veitingar frá Hagkaupum og Emmess ís. Foreldrar geta keypt sér kaffi og kexkökur á vægu verði.
Nú er bara að taka tímann frá strax og mæta tímanlega til skráningar annan laugardag, 26. janúar 2019.
Sigurður í úrvalshóp
Sigurður Ari Stefánsson var valinn á dögunum í úrvalshóp drengja U-18 fyrir árið 2019 í áhaldafimleikum. Hann er sá fyrsti til þess að ná þessum árangri í áhaldafimleikum kk í Fjölni enda brautriðjandi í sinni grein hér hjá okkur. Við óskum honum og Zoltáni þjálfara innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur og verður spennandi að fylgast með honum í verkefnum framundan.
Afreksfólk árið 2018
Ásta Kristinsdóttir og Sigurður Ari Stefánsson valin afreksfólk fimleikadeildar árið 2018.
Ásta Kristinsdóttir hefur stundað fimleika frá unga aldri hjá fimleikadeild Fjölnis og er nú í fremstu röð fimleikastúlkna á Íslandi í hópfimleikum. Hún er aldursforseti og frumkvöðull í hópfimleikadeild Fjölnis. Á árinu var hún lykilmaður í meistarflokki Fjölnis þegar liðið keppti á danska meistaramótnu. Þar keppti hún með tvö erfiðustu stökkin bæði í fram og aftur umferð. Ásta keppti fyrir hönd Íslands á Evrópumótinu í hópfimleikum þar sem liðið endaði í 2.sæti. Við óskum Ástu okkar innilega til hamingju með frábært fimleikaár.
Sigurður Ari Stefánsson hefur stundað áhaldafimleika frá 7 ára aldri, hann hefur ávallt verið með þeim bestu og hefur unnið til fjölda verðlauna í gegnum árin og er árið 2018 engin undantekning.
Sigurður var í 2.sæti á Íslandsmóti í 3.þrepi, hann keppti í fyrsta skipti í frjálsum æfingum á GK meistaramótinu og jafnframt sá fyrsti í Fjölni í áhaldafimleikum kk til að keppa á þessu móti og lenti í 2.sæti. Í lok árs var hann svo valinn í úrvalshóp fimleikasambandsins. Við óskum Sigurði okkar einnig til hamingju með frábæran árangur á liðnu ári.
HM-Fjör Fjölnis
Handknattleiksdeild Fjölnis mun standa fyrir HM-Fjöri í kringum leiki Íslands á HM 2019.
* Frítt að prófa æfingar milli 10. - 27. janúar (sjá æfingatöflur á https://www.fjolnir.is/handbolti/aefingatoflur-handbolti/)
* Ef þú kemur með vin/vinkonu þá fá færð þú og vinur/vinkona ísmiða á Gullnesti.
* Allir leikir Íslands í riðlakeppninni sýndir í félagsaðstöðu Fjölnis í Egilshöll (tímarnir eru í viðburðinum fyrir ofan)
Vertu með í HM-Fjöri Fjölnis
Skákæfingar á nýju ári
Hinar vinsælu skákæfingar Fjölnis hefjast á nýju ári fimmtudaginn 10. janúar. Æfingarnar eru í boði alla fimmtudaga í Rimaskóla frá kl. 16:30 - 18:00. Ókeypis þátttaka. Æfingarnar eru ætlaðar grunnskólakrökkum sem hafa náð grunnatriðum skáklistarinnar, þekkja mannganginn og auðveldustu byrjanir. Keppni og kennsla - verðlaun og veitingar .
Frábær árangur hjá Degi Ragnarssyni
Dagur Ragnarsson (2327) náði sínum öðrum áfanga að alþjóðlegum skákmeistaratitli með frábærri frammistöðu á alþjóðlegu skákmóti í Montreal í Kanada sem lauk í gær. Dagur hlaut 6½ vinning í 9 skákum. Dagur byrjaði afar vel og hafði 3½ vinning eftir 4 umferðir. Jafntefli gerði hann í 5.-8. umferð þar sem hann var oft á tíðum afar nærri því að vinna skákirnar. Sigur í lokaumferðinni á móti kanadíska FIDE-meistaranum Mike Ivanov (2251) tryggði honum áfangann. Frammistaða Dags samsvaraði 2467 skákstigum og hækkar hann um 34 ELÓ stig sem er óvenju mikið miðað við aðra stigaháa skákmenn. Eins og Grafravogsbúum ætti að vera kunnugt um þá var Dagur valinn afreksmaður skákdeildar fyrir árið 2018. Þetta er annar áfangi Dags en til þess að verða útnefndur alþjóðlegur meistari þarf hann þrjá áfanga og komast í 2400 skákstig. Þeim fyrsta náði hann í á Íslandsmótinu í skák 2017 í Hafnarfirði. Skákdeild Fjölnis óskar Degi hjartanlega til hamingju með frábæran árangur og meistaraáfangann!
Fjölmennt á jólaæfingu
Jólaskákæfing Fjölnis var fjölmenn enda margt í boði fyrir utan taflmennskuna. Fjörutíu Grafravogskrakkar mættu til leiks og tefldu fimm umferða skákmót. Í skákhléi var boðið upp á góðar veitingar og ávaxtadjús. Einbeiting og virðing eru þau tvö orð sem við höfum valið skákæfingunum að undanförnu og þessi tvö orð svínvirka. Eftir jafnt og spennandi skákmót voru allir krakkarnir leystir út með jóla-nammipoka. Þau hjónin og Grafarvogsbúarnir Steini og Vala borgarfulltrúi hafa undanfarin ár séð um jólaglaðning á jólaskákæfingum og hafa sendingar þeirra fallið í kramið hjá okkar áhugasömu skákkrökkum. Glæsilegt skákár er að baki hjá Skákdeild Fjölnis, fjölmennar æfingar og fyrsta sætið á Íslandsmóti félagsliða að loknum fyrri hluta mótsins. Fyrsta skákæfingin á nýju ári verður fimmtudaginn 10. janúar kl. 16:30 í Rimaskóla.
Íslandsmót unglingasveita
Á Íslandsmóti unglingasveita í skák 2018 sem nýverið var haldið í Garðaskóla í Garðabæ kom C sveit Fjölnis skemmtilega á óvart með því að ná bestum árangri allra C sveita á mótinu. Í skáksveitinni eru mjög ungir krakkar sem eiga það sameiginlegt að mæta nær undantekningarlaust á allar skákæfingar Fjölnis á fimmtudögum. Sú yngsta í skáksveitinni heitir Emilía Embla og er aðeins 6 ára gömul. Hún hlaut 5 vinninga í 7 skákum. Í skáksveitinni eru þau Sindri Snær Rimaskóla, Eiríkur Emil Húsaskóla, Emilía Embla Rimaskóla og Jón Emil Vættaskóla.
Ókeypis jólanámskeið
Hin árlega jólagjöf handboltadeildarinnar er klár!
Jólanámskeið deildarinnar hefur slegið í gegn undanfarin ár, enda virkilega vel heppnað í alla staði. Handboltadeildin ætlar því að endurtaka leikinn og standa fyrir glæsilegu námskeiði fyrir iðkendur og byrjendur í handboltaíþróttinni milli jóla og nýárs. Námskeiðið verður alveg ÓKEYPIS og verður það haldið dagana 27. - 28. desember.
Námskeiðið fer fram í Fjölnishöllinni okkar í Egilshöll (nýja íþróttahúsið okkar) á eftirfarandi tímum:
1. og 2. bekkur
27. og 28. desember kl. 09:00-10:15
3. og 4. bekkur
27. og 28. desember kl. 10:30-11:45
Farið verður í grunnþætti íþróttarinnar og leikir og skemmtun höfð að leiðarljósi. Jólatónlist verður spiluð og þjálfarar deildarinnar munu leiðbeina og aðstoða unga iðkendur. Við hlökkum til að sjá ykkur í jólaskapi á þessum tíma!
*Mælst er til þess að iðkendur mæti í íþróttafötum, í íþróttaskóm og með vatnsbrúsa.
Eina sem þarf að gera er að skrá barnið hér á listann og mæta á staðinn! https://goo.gl/forms/UTmCAkSzJng451g12 eða í gegnum NÓRA
Tenging við deildina er hér:
Heimasíða: https://fjolnir.is/handbolti
Facebook: https://www.facebook.com/fjolnirhkd/
Instagram: https://www.instagram.com/fjolnirhkd/
með Fjölniskveðju,
Barna- og unglingaráð hkd. Fjölnis
Íslandsmót 2018
Um helgina var haldið Íslandsmót barna og unglinga ásamt Íslandsmeistaramóti í Egilshöllinni. Mótið var allt hið glæsilegasta. Á laugardeginum hófst keppni hjá keppnisflokkum Chicks og Cubs. Þessir ungu og efnilegu skautarar stóðu sig mjög vel og var öllum keppendum veitt viðurkenning að keppni lokinni. Næst var keppt í flokki Basic Novice.
Mjótt var á milli tveggja efstu þar sem Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir úr SA vann með 26.71 stig, í öðru sæti var Kristín Jökulsdóttir frá SR með 26.43 stig og í þriðja sæti var Rakel Sara Kristinsdóttir úr Fjölni með 20.43 stig. Í Keppnisflokki Intermediate Novice voru það tvær Fjölnisstúlkur sem voru í efstu sætunum þar sem Valdís María Sigurðardóttir var í fyrsta sæti með 24.33 stig, í öðru sæti var Harpa Karin Hermannsdóttir með 24.18 stig og í þriðja sæti var Ólöf Thelma Arnþórsdóttir úr SR með 23.41 stig.
Á laugardeginum lauk einnig keppni í flokknum Intermediate Ladies. Þar stóð Berglind Óðinsdóttir úr Fjölni sem sigurvegari með 36.66 stig, Elísabet Ingibjörg Sævarsdóttir úr SA var í öðru sæti með 34.41 stig og Sólbrún Víkingsdóttir úr Fjölni var í þriðja sæti með 32.19 stig.
Keppendur í flokkum Advanced Novice, Junior og Senior skautuðu stutta prógramið sitt í lok laugardagsins. Þessir keppendur komu svo aftur og kepptu í frjálsa prógraminu á sunnudeginum. Að keppni lokinni var það Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir úr SA sem stóð uppi sem Íslandsmeistari í keppnisflokki Advanced Novice með hvorki meira né minna en 106.07 stig samanlagt úr báðum prógrömum, aldeilis frábær árangur hjá henni. Í öðru sæti var Rebekka Rós Ómarsdóttir úr SR með 74.64 stig og Herdís Heiða Jing Guðjohnsen úr SR í þriðja sæti með 74.21 stig. Íslandsmeistari í keppnisflokki Junior var Marta María Jóhannsdóttir úr SA með samanlagt 103.10 stig, í öðru sæti var Aldís Kara Bergsdóttir úr SA með 100.51 stig og í þriðja sæti var Viktoría Lind Björnsdóttir með 91.71 stig.
Íslandsmeistari í keppnisflokki Senior var Margrét Sól Torfadóttir úr SR með samanlagt 102.25 stig og í öðru sæti var Eva Dögg Sæmundsdóttir úr Fjölni með 86.97 stig. Óskum við þeim ásamt öllum keppendum mótsins til hamingju með frammistöðu sína um helgina.