Skákdeild Fjölnis leiðir Íslandsmótið

Skákdeild Fjölnis er í forystu á Íslandsmóti skákfélaga eftir fimm umferðir af níu. Framúrskarandi frammistaða Fjölnismanna kom mjög á á óvart enda skáksveitin í 4. sæti eftir styrkleikalista. Enginn gat séð þetta fyrir enda þótt Fjölnir hafi unnið til bronsverðlauna sl. tvö ár. Sjö af átta liðsmönnum Fjölnis hækka á stigum fyrir frammistöðuna. Sveitin er yngsta skáksveitin á mótinu með helming liðsmanna um tvítugt. Síðari hluti Íslandsmótsins fer fram helgina 28. feb - 2. mars 2019. Í þessari fræknu skáksveit eru Jesper Thybo Evrópumeistari U18, Rimaskólameistararnir Dagur Ragnarsson, Oliver Aron Jóhannesson og Jón Trausti Harðarson, sænski alþjóðlegi meistarinn Pontus Carlson, Davíð Kjartansson fv. liðsstjóri Rimaskóla í skák, Tómas Björnsson og Sigurbjörn J. Björnsson. Fjölnir vann stórsigur á Skákdeild KR 7½-½. í 5. umferð Íslandsmótsins og tyllti sér á toppinn.


Flottur sigur hjá okkar mönnum

Á þriðjudagskvöldið var hörku leikur í Hertz deild karla í íshokkí þegar Íslandsmeistarar SA kom í heimsókn í Grafarvoginn.  Leikurinn byrjaði með þreifingum í fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta fór að draga til tíðinda þegar okkar menn skoruðu tvö mörk gegn engu.  Í þriðja leikhluta héldum við áfram af sama krafti og bættum við þriðja marki og vorum komin með þægilega forystu.  SA er lið sem gefst aldrei upp og settu spennu í leikinn með að lumma inn tveimur mörkum í lokin, það dugði ekki til í þetta skiptið og fyrsti sigur Bjarnarins kominn í hús í vetur.  Frábær sigur að baki en það sem mestu máli skiptir að þetta var mjög flottur leikur tveggja góðra liða og flott auglýsing fyrir íþróttina.  Þökkum við liði SA fyrir mjög flottan leik.

Það er óhætt að segja að Bjarnarliðið sé talsvert breytt frá síðasta vetri, ekki einungis eru það máttarstólpar liðsins síðustu ár sem eru á sínum stað, ungu strákarnir okkar eru að bæta sig gríðarlega mikið og greinilegt að við eigum mikinn efnivið í Grafarvoginum.  Undanfarið höfum við líka fengið til baka gamla Bjarnarmenn sem eru frábærir leikmenn og fengum við t.a.m. tvö mörk frá einum slíkum í þessum leik.  Þess fyrir utan erum við búnir að fá í hópinn okkar flotta drengi upprunna úr liði SA ásamt öflugum útlendingum.  Hópurinn er orðinn gríðarsterkur og er að smella saman hjá okkur eins og hefur sést á síðustu leikjum liðsins, ekki bara hefur verið gaman að fylgjast með þeim inn á svellinu heldur er einnig áberandi að stemmning innan liðsins er öflug.

Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur í vetur með þennan flotta hóp og hvetjum við alla til að koma á leiki liðsins og fylgjast með.  Næsti heimaleikur okkar er nk. Þriðjudag kl: 19:45 er við tökum á móti öflugu liði SR sem hefur unnið okkur í tvígang á tímabilinu.

Áfram Fjölnir – Björninn !!


Haustmót í stökkfimi

Haustmót í Stökkfimi fór fram í Stjörnunni um síðustu helgi. Góð skráning var á mótið sem gerði mótið líflegt og skemmtilegt.
Nýlega var reglum í stökkfimi breytt, nú er alltaf keppt í liðum. Liðin samanstanda af 4-7 iðkendum og liðin skrá sig beint í A, B eða C deild eftir því hvaða stökk þau ætla að framkvæma.

Hópar KH-3 og KH-2 úr Fjölni skráðu sig á mótið og mynduðu fimm lið og enduðu fjögur þeirra á palli. Stelpurnar skemmtu mér stórkostlega og áttu góðan dag í Stjörnuheimilinu og eru spenntar fyrir að bæta sig fyrir næstu mót.

 

Öll úrslit mótsins má sjá HÉR


Haustmót á Akureyri

Haustmót í 4. og 5. þrepi fór fram á Akureyri um síðustu helgi. Það voru þær Hermína Mist, Laufey Birta, Sigríður Fen og Svandís Eva sem kepptu í 5. þrepi og hjá strákunum voru það þeir Arnþór, Bjarni Hans, Grétar Björn, Sigurjón Daði og Viktor Páll sem kepptu í 5. þrepi og Bjartþór Steinn, Brynjar Sveinn og Wilhelm Mar kepptu í 4. þrepi. Þetta var liðakeppni og þegar það eru fáir keppendur frá félögunum þá blandast þau saman í lið þannig að allir geti verið með, gefin voru verðlaun fyrir efstu sætin. Keppendur skemmtu sér vel á mótinu og var þetta góð reynsla í reynslubankann. Það verður gaman að fylgjast með þeim áfram á mótum vetrarins og óskum við þeim innilega til hamingju með árangurinn.

Verðlaunasæti:

5.þrep kk
1.sæti Fjölnir/FIMAK

4.þrep kk 10 ára og yngri
2.sæti ÁRM/Fjölnir

4.þrep kk 11 ára og eldri
1.sæti Fjölnir/FIMAK/Björk/ÁRM


Frábær árangur á haustmóti

Haustmót í 3.-1. þrepi og frálsum æfingum fór fram síðastliðna helgi í Björkunum. 19 keppendur kepptu á mótinu frá Fjölni, 17 stúlkur og 2 drengir. Árangur helgarinnar var glæsilegur og  unnu Fjölniskrakkar alls  24 verðlaun á mótinu. Keppt var á einstökum áhöldum og í fjölþraut. Við erum gríðarlega stolt af þessum myndarhóp og þjálfurum þeirra enda stöðu þau sig frábærlega. Við óskum ykkur öllum til hamingju með árangurinn og hlökkum til þess að fylgjast með ykkur áfram á mótum vetrarins.

Verðlaunasæti:

1. þrep kvk 13 ára og yngri
3. sæti  stökk - Leóna Sara Pálsdóttir

1. þrep kvk 14 ára og eldri
1. sæti í fjölþraut – Venus Sara Hróarsdóttir
3.sæti á stökki - Katrín S. Vilhjálmsdóttir
1. sæti á tvíslá – Venus Sara Hróarsdóttir
2. sæti á tvíslá – Katrín S. Vilhjálmsdóttir
3. sæti á tvíslá – Agla Bríet Gísladóttir
3. sæti á slá – Venus Sara Hróarsdóttir

2. þrep kk
1. sæti á öllum áhöldum  - Sigurður Ari Stefánsson
1. sæti í fjölþraut – Sigurður Ari Stefánsson

3. þrep 11 ára og yngri
1. sæti á stökki - Júlía Mekkín Guðjónsdódttir
3. sæti á stökki – Sigríður Dís Bjarnadóttir
4. sæti í fjölþraut – Lilja Katrín Gunnarsdóttir

3. þrep kvk 12 ára
2. sæti á gólfi - Eva Sóley Kristjánsdóttir

3. þrep kvk 13 ára og eldri
3. sæti á slá – Tinna Líf Óladóttir

3. þrep kk 12 ára og eldri
2. sæti á gólfi – Davíð Goði Jóhannsson
1. sæti í hringjum  - Davíð Goði Jóhannsson
1. sæti á tvíslá – Davíð Goði Jóhannsson
1. sæti á svifrá – Davíð Goði Jóhannsson
2. sæti í fjölþraut  - Davíð Goði Jóhannsson


Fréttir frá Kristalsmóti

Um helgina var Kristalsmótið haldið í Egilshöllinni. Alls voru 79 keppendur skráðir til leiks. Allir keppendur stóru sig mjög vel og mega þeir vera stoltir af sinni frammistöðu um helgina en þess ber að geta að sumir keppendanna voru að taka þátt á sínu fyrsta móti.

Á laugardeginum var keppni í flokkum 6 ára og yngri, 8 ára og yngri, 8 ára og yngri drengir og 10 ára og yngri. Allir keppendur fengu verðlaunapening og viðurkenningu fyrir þátttöku á mótinu.

Á sunnudeginum var svo keppt í flokkum 12 ára og yngri, stúlknaflokki og unglingaflokki.

Úrslit 12 ára og yngri:

1. Sandra Hlín Björnsdóttir Listskautadeild Fjölnis

2. Andrea Marín Einarsdóttir Listskautadeild Fjölnis

3. Þórunn Gabríella Rodriguez Skautafélag Reykjavíkur

Úrslit í stúlknaflokki:

1. Amanda Sigurðardóttir Skautafélag Reykjavíkur

2. Emilía Dögg Stefánsdóttir Skautafélag Reykjavíkur

3. Bryndís Bjarkardóttir Skautafélag Reykjavíkur

Úrslit í unglingaflokki:

1. Helga Xialan Haraldsdóttir Skautafélag Reykjavíkur


Evrópumót í hópfimleikum

Í síðustu viku heiðruðum við þá iðkendur og þjálfara Fjölnis sem fóru út fyrir hönd Íslands að keppa á Evrópumóti í hópfimleikum. Sett var upp EM stofa í félagsrými Fjölnis og fylgst var vel með frá fyrsta degi. Öll lið Íslands stóðu sig sig frábærlega og erum við í Fjölni ótrúlega stolt af því að eiga svona efnilegt fólk í okkar röðum.

Á myndinni frá vinstri
Jónas Valgeirsson, landsliðsþjálfari stúlkna
Katrín Pétursdóttir, landsliðsþjálfari stúlkna
Bjarni Gíslason, landsliðsþjálfari kvenna
Kristín Sara Stefánsdóttir, stúlknalandslið
Ásta Kristinsdóttir, kvennalandslið
Aníta Liv Þórisdóttir, blandað lið unglinga


Eygló Dís Ármannsdóttir sigrar á stórmóti í tennis

Um helgina fór fram stórmót Tennissambands Íslands.  Þar náði Eygló Dís Ármannsdóttir þeim frábæra árangri að sigra í flokki U12 með glæsibrag.

Við óskum henni til hamingju.

#FélagiðOkkar


Komdu í handbolta

Dagana 29. október - 9. nóvember næstkomandi býðst börnum í 1. - 6. bekk að prófa handbolta í VINAVIKUM.

- Handknattleiksdeild Fjölnis er í sífeldum vexti bæði hvað umgjörð og þjálfun varðar.

- FRÁBÆR árangur hefur náðst síðustu ár hjá yngri flokkum félagsins og má helst nefna góður árangur 3. flokk karla í Íslandsmóti.

- Ár hver eru mörg ungmenni valin til æfinga í yngri landsliðum HSÍ.

- Vel menntaðir og reynslumiklir þjálfarar í bland við unga og efnilega eru eitt af áherslum deildarinnar.

Í VINAVIKUM býðst iðkendum deildarinnar að koma með vin eða vinkonu á æfingu. Fyrir það fær iðkandinn og vinurinn eða vinkonan ísmiða á Gullnesti. Ef vinurinn eða vinkonan byrjar að æfa þá fá bæði bíómiða í Sambíóin.

Upplýsingar um æfingatíma má nálgast hér: https://www.fjolnir.is/handbolti/aefingatoflur-handbolti/

Upplýsingar um flokkana má nálgast hér: https://www.fjolnir.is/handbolti/flokkar-handbolti/

Það er gaman í handbolta :)

#FélagiðOkkar

/assets/2018_Komdu-í-handbolta.pdf


Fréttir frá Bikarmóti ÍSS 2018

Bjarnarskautarar gerðu sér ferð um síðustu helgi í Laugardalinn og tóku þátt í Bikarmóti Skautasambands Íslands. Mótið er annað mótið þeirra á tímabilinu og mikil vinna búin að eiga sér stað. Björninn átti keppendur í öllum keppnisflokkum á mótinu, margir að keppa í fyrsta sinn í nýjum keppnisflokkum og mikil eftirvænting og spenna í okkar herbúðum.

Á laugardeginum var keppt í Intermediate novice og Intermediate ladies og réðust úrslit rétt um kl 10. Í Intermediate ladies landaði Berglind Óðinsdóttir 2. sæti og Hildur Bjarkadóttir 3. sæti og að auki lentu Hildur Hilmarsdóttir 4. sæti og Sólbrún Víkingsdóttir í 6. sæti. Í Intermediate novice röðuðu Harpa Karin Hermannsdóttir, Lena Rut Ásgeirsdóttir og Valdís María Sigurðardóttir sér í 5., 6. og 7. sæti.

Eftir verðlaunaafhendingu hófst keppni í Advanced novice, junior og senior með stutta prógramið. Aníta Núr Magnúsdóttir og Júlía Sylvía Gunnarsdóttir kepptu í Advanced novice. Eftir prógramið var Júlía Sylvía í 2. sæti og Aníta Núr í 7. sæti. Í Junior ladies kepptu Helga Karen Pedersen og Herdís Birna Hjaltalín. Helga Karen átti stórgóðan sprett og sat í 2. sæti eftir daginn og Herdís Birna í því fimmta, einnig með gott prógram. Eva Dögg Sæmundsdóttir keppti í senior ladies. Evu Dögg gekk ágætlega í stutta prógraminu og vermdi fyrsta sætið þegar keppni lauk í flokkinum.

Á sunnudegi var keppt í Chicks, Cubs og Basic novice ásamt keppni í frjálsu prógrami hjá Advanced novice, junior og senior.

Í Chicks og Cubs stóðu allir Bjarnarkeppendur, Sunneva, Brynja, Emelíana og Elva, sig mjög vel og sýndi snilldar tilþrif á ísnum. Í Basic novice átti Björninn fjóra keppendur. Því miður gat einn ekki lokið keppni vegna veikinda en úrslit voru þau að Tanja Rut Guðmundsdóttir nældi í 3. sæti, Þórdís Helga Grétarsdóttir varð í 5. sæti og Rakel Sara Kristinsdóttir í því 6.

Keppni lauk svo í eldri flokkunum í mikilli spennu enda var mjótt á mununum eftir fyrri daginn. Í Advanced novice krækti Júlía Sylvía sér í 3. sætið en Aníta Núr varð því miður að hætta keppni sökum óhapps sem hún varð fyrir í prógraminu.

Í Junior luku þær Helga Karen og Herdís Birna keppni í 4. og 6. sæti í geysisterkum flokki þar sem miklar sviptingar urðu á sætaröð milli daga. Eva Dögg Sæmundsdóttir lauk svo keppnisdeginum í senior flokki með silfurverðlaunum.

Eins og áður sagði átti Björninn 20 keppendur í öllum keppnisflokkum á mótinu og komu okkar stúlkur heim með 2 silfurverðlaun og 3 bronsverðlaun í farteskinu reynslunni ríkari og fullar eldmóði fyrir Íslandsmótinu sem haldið verður í Egilshöllinni í lok nóvember.