Ada, Azra og Kolbrún í Fjölni

Þrír nýir leikmenn skrifuðu undir samning við félagið á dögunum.

Azra Cosic fædd 1999. Gríðarlega fljótur vinstri hornamaður sem spilaði 5 leiki í Olís deildinni og 20 leiki í Grill 66 deildinni þar sem hún skoraði 53 mörk.

Ada Kozicka fædd 1999. Gróður sóknarlínumaður og flottur varnarmaður sem á eftir að styrkja okkur verulega. Spilaði 6 leiki í Olís deildinni og 19 leiki í Grill 66 deildinni og skoraði í þeim 76 mörk.

Kolbrún Arna Garðarsdóttir fædd 1996 uppalin í HK og hefur verið viðloðandi meistaraflokk hjá þeim frá því 2015 (7 leikir). Í fyrra spilaði hún 6 leiki í Olís deildinni og 19 leiki í Grill 66 deildinni þar sem hún skoraði 54 mörk. Sterkur leikstjórnandi sem hefur fjölbreyttar árásir og getur leyst margar stöður á vellinum.

Sigurjón þjálfari hafði þetta að segja við undirskriftina; „þetta er frábær viðbót við ungt lið okkar og á eftir að styrkja okkur verulega í komandi átökum. Allar þessar stelpur smellpassa inn í leikstíl liðsins og hvernig við ætlum okkur að spila í vetur og hlakka ég til þess að sjá þær í Fjölnistreyjunni í næsta leik.

Við minnum á tvíhöfðann á morgun þar sem stelpurnar taka á móti ÍBV U kl. 18:00 og strákarnir spila gegn Fram kl. 20:00.

#FélagiðOkkar


Fjölnir og Sideline Sports

Ungmennafélagið Fjölnir og Sideline Sports hafa gert með sér þriggja ára samstarfssamning um notkun Fjölnis á hugbúnaði frá Sideline Sports. Fyrirtækið hefur um árabil boðið íþróttafélögum um allan heim upp á hugbúnað sem nýtist vel við skipulagningu á íþróttastarfi og til leikgreiningar.

Nýr samningur á milli Fjölnis og Sideline Sports gerir öllum þjálfurum Fjölnis kleift að vinna með Sideline í sínu starfi sem mun hjálpa félaginu við að efla umgjörð, skipulag og gæði í kringum íþróttastarf félagsins.

Jafnframt mun Fjölnir taka í notkun nýjan samskiptahluta í vörulínu Sideline. Samskiptahlutinn er ekki síst mikilvægur en með honum geta þjálfarar, iðkendur og forráðamenn haft yfirsýn með starfi Fjölnis í gegnum app í snjallsíma eða spjaldtölvu. Með Sideline appinu verður með einföldum hætti hægt að hafa yfirsýn yfir æfingar, mætingar og margt fleira. Þjálfari getur með einföldum hætti sent út tilkynningar og haft samskipti við iðkendur eða forráðamenn.

Markmiðið með innleiðingu á þessum samskiptahluta er að draga verulega út notkun á hópasíðum á Facebook sem mörg íþróttafélög hafa reitt sig á til að halda utan um íþróttastarf flokka. Notkun á samskiptahluta Sideline Sports fer af stað innan deilda Fjölnis í viku 42 (14. – 20.október). Með því að taka í notkun þessa nýjung frá Sideline gefst félaginu tækifæri á að efla verulega upplýsingagjöf til iðkenda og forráðamanna.

Frá og með 4.október mun Fjölnir hætta allri notkun á Sportabler appinu.

Þjálfarar, iðkendur og forráðamenn þurfa að reiða sig á heimasíðu félagsins og Facebook hópa fram að innleiðingu.

Aðeins þeir sem hafa gengið frá skráningu í félagið fá aðgang að appinu og því mikilvægt að ganga frá því á skráningasíðunni okkar https://fjolnir.felog.is/

Allar nánari upplýsingar veitir Arnór Ásgeirsson á arnor@fjolnir.is


Stuðningsmannakort körfuknattleiksdeildarinnar

Stuðningsmannakortin eru komin út og tilbúin fyrir grjótharða Fjölnismenn! Salan er í fullum gangi og eru þrennskonar kort í boði. Um að gera að tryggja sér kort fyrir fyrstu umferð Domino’s deildarinnar sem hefst fimmtudaginn 3. október nk.

Árskortið er miði á alla heimaleiki meistaraflokks kvenna og karla, fyrir utan bikarleiki, ásamt 50% afslætti fyrir einn gest. Verð 20.000 krónur.

Bakhjarl er miði á alla heimaleiki meistaraflokks kvenna og karla, fyrir utan bikarleiki, ásamt 50% afslætti fyrir einn gest. Þar að auki er hægt að boða þjálfara hvers liðs á tvo fundi yfir tímabilið sem og frítt kaffi í leikjum. Verð 35.000 krónur.

Myndakortið er miði á alla heimaleiki meistaraflokks kvenna og karla, fyrir utan bikarleiki, ásamt 50% afslætti fyrir einn gest. Þessu korti fylgir einnig tækifærismyndataka úti eða í stúdíói Ljósmyndir og Myndbönd vorið 2020 (innifaldar 30 fullunnar ljósmyndir í bestu stafrænum gæðum. Verð 40.000 krónur – ath. aðeins 8 kort í boði.

Kortin er hægt að kaupa HÉR og bjóðum við uppá greiðsludreifingu hjá Nóra.

Takk fyrir stuðninginn! Hann skiptir máli.


Vinningaskrá happdrættis

Búið er að draga í happdrætti Októberfest Fjölnis.

Vinningaskrá má nálgast HÉR og einnig með því að smella á myndirnar.

Vinninga skal vitja í síðasta lagi 31.október 2019.

#FélagiðOkkar


Happdrætti á Októberfest

Happdrættimiðar verða til sölu í matnum á Októberfest. Einnig gefst fólki tækifæri á að kaupa happdrættismiða í gegnum netfangið arnor@fjolnir.is.

Við drögum út mánudaginn 30.september.

  • Aðeins dregið úr seldum miðum
  • 1.500 miðar í boði

1 miði = 1.000 kr

5 miðar = 5.000 kr

10 miðar = 8.000 kr

Vinningaskrá má nálgast HÉR


Skráning á Kristalsmótið

Kristalsmótið verður haldið á skautasvellinu í Egilshöll helgina 19. - 20. október. Skráningu á mótið lýkur þann 11. október en allar upplýsingar um mótið má finna í mótstilkynningunni.


Sambíómótið 2019

Körfuknattleiksdeild Fjölnis í samvinnu við SAMbíóin Egilshöll heldur enn eitt árið stórmót í körfuknattleik fyrir yngstu iðkendurnar.

Þátttakendur á mótinu eru stelpur og strákar fædd 2008 og síðar. Á síðasta ári mættu um 700 þátttakendur frá öllu landinu ásamt fjölskyldum sínum, liðsstjórum og þjálfurum.

Mótið fer fram fyrstu helgina í nóvember líkt og síðustu ár, þ.e. helgina 2. – 3. nóvember 2019.

Mótið er frábær fjölskylduskemmtun þar sem m.a. er boðið upp á fullt af körfubolta, bíó, sund, hrekkjavökustemmingu, andlitsmálun og ruslapokabúningagerð fyrir blysför og kvöldvöku, gistingu, mat, pizzuveislu og verðlaun.

Allir þátttakendur fara heim með veglegan Spalding körfubolta.

Að venju verður ekki keppt um sætin og stigin eru ekki talin opinberlega, heldur verður það leikgleðin sem ræður ríkjum og fá allir keppendur verðlaunapening að móti loknu. Mót þetta hefur skipað sér sess í stórmótum vetrarins og þar má jafnan sjá fullt af væntanlegum stórstjörnum, bæði hjá stelpum og strákum.

Þarna sjást oft tilvonandi þjálfarar í efstu deildum sem gjarnan stíga sín fyrstu skref með yngri körfuboltakrakka.

Skráningu lýkur 19. október, og allar nánari upplýsingar má finna inná heimasíðu mótsins HÉR.


Meistaraflokkur kvenna spilar æfingaleiki

Fjölnir spilaði fyrsta æfingaleik tímabilsins á móti Breiðablik 12. september. Breiðablik spilar í Domino’s deildinni í vetur og var að spila sinn þriðja æfingaleik, svo vitað var að verkefnið yrði verðugt. Það var stress í okkar stelpum fyrir leikinn, enda liðið ennþá að slípast saman og stöllurnar Andrea og Elfa að komast aftur í gírinn eftir að hafa ekki spilað körfubolta í meira en ár. Fjölniskonur voru því miður áhorfendur á báðum endum vallarins í byrjun leiks en töluvert meiri reynsla Breiðabliks skilaði þeim í frábærri skotnýtingu, og endaði bandarískur leikmaður þeirra með 35 stig. Fjölnisstelpur áttu ágætis kafla inn á milli, og sjá mátti að þær voru allt en sáttar með lokaniðurstöðu leiksins, en alltaf má taka eitthvað úr stórum æfingaleikjum sem þessum. Því miður var engin tölfræði tekin í þessum leik.

 

Næsti æfingaleikur liðsins var á móti Hamri, þann 19. september og fór sá leikur mikið betur en sá fyrri. Augljóst var frá fyrstu mínútu að stelpurnar höfðu harma að hefna, og vildu sýna hvað í þeim býr. Gestirnir frá Hveragerði byrjuðu mjög sterkt og komust í smá forystu í upphafi leiks. Okkar konur voru þó aldrei langt undan, og eftir slæma byrjun komst Fjölnir yfir fyrir lok 1. leikhluta. Í öðrum leikhluta var sett í fluggírinn og stelpurnar komnar í þægilega stöðu fyrir seinni hálfleikinn. Þegar svo 3. leikhluta lauk voru heimakonur komnar í góða 30 stiga forystu, eftir að hafa náð að loka algjörlega á Hamar með þéttum varnarleik. Hamarskonur bitu frá sér í síðasta leikhlutanum, og unnu þann leikhluta, en það var líkt og Fjölnir hefðu hætt að spila saman og nokkrir tapaðir boltar gerðu það að verkum að Hamar nýtti tækifærið. Leikurinn endaði 78-59 fyrir Fjölni. Atkvæðamestar voru Fanney með 22 stig og 4 stoðsendingar, Heiða Hlín með 19 stig og 4 fráköst og Fanndís María með 10 stig of 6 fráköst.

 

Næsti æfingaleikur liðsins, og jafnframt sá síðasti, er annað kvöld, 24. september, á móti Njarðvík suður með sjó. 


Fjölnisjaxlinn 2019

Það var mögnuð stemning um helgina þegar fyrsti „FJÖLNISJAXLINN“ fór fram. Um hundrað íþróttaiðkendur, foreldrar, þjálfarar, leikmenn og aðrir áhugasamir tóku þátt í að gera þessa íþróttaþrekraun að veruleika. Boðið var upp á tvær útfærslur fyrir íþróttaiðkendur krakka og foreldra þ.e. synt 200 metra, hjólað 3km og hlaupið 1km. Fyrir íþróttaiðkendur unglinga, foreldra, þjálfara, leikmenn og þá sem æfa þríþraut var synt 400 metra, hjólað 10km og hlaupið 3km. Það var tvöfalt meiri þátttaka en gert hafði verið ráð fyrir, mögnuð stemning allan tímann og gríðarlega mikil ánæga með fyrsta jaxlinn. Áfram Fjölnir og áfram Fjölnisjaxlinn - Allir með á næsta ári!!!

Aðalstyrktaraðili Fjölnisjaxlins er eitt nýjasta og besta fyrirtækið í hverfinu Fanntófell og myndir er hægt að skoða hjá besta hverfisfjölmiðlinum okkar “Grafarvogsbúar”

https://www.facebook.com/Grafarvogsb%C3%BAar-111119802396520/

Knattspyrnudeild, Frjálsíþróttadeild og Sunddeild Fjölnis vilja sérstaklega þakka öllum fyrir sitt framtak til að gera Fjölnisjaxlinn að veruleika þ.e. þátttakendum/keppendum, starfsmönnum/sjálfboðaliðum, ÍTR og Grafarvogssundlaug, starfsmönnum Grafarvogslaugar, áhorfendum, öllum styrktaraðilum og hverfisfjölmiðlinum Grafarvogsbúar fyrir ljósmyndatöku.

Myndir frá jaxlinum má sjá hér.


Frábærum sumarlestri lokið

Sumarlestrarátak Fjölnis vakti mikla lukku meðal gesta Borgarbókasafnsins í Spöng í sumar, en þetta er annað árið sem Fjölnir stendur fyrir þessu átakinu. Átakið gengur út á að minna börn og fullorðna um mikilvægi lesturs og að gleyma ekki að viðhalda lestrarfærni yfir sumartímann.

„Ég hef setið ófáa fundi sem formaður Foreldrafélags Kelduskóla með skólastjórum og kennurum þar sem fjallað hefur verið um hve mikið lestrar færnidettur niður á sumrin. Mér fannst því tilvalið að nýta starf mitt í þágu barna- og unglingaráði knattspyrnudeildar Fjölnis til að minna á mikilvægi lesturs á sumrin“ segir Sævar Reykjalín í barna- og unglingaráði knattspyrnudeildar Fjölnis.

Fjölnisfólk úr ýmsu greinum valdi sínar uppáhaldsbækur og var þeim í framhaldi stillt upp í sérstökum standi í Borgarbókasafninu í Spöng.

„Við urðum greinilega vör við áhuga og að gestir skoðuðu útstillinguna á bókunum og það sem sagt var um Fjölnisfólkið. Sérstaklega vakti þetta athygli hjá börnum og gaman hvað þau voru ánægð að sjá þjálfarann sinn eða leikmann sem þau voru hrifin af og varð það oft tilefni til smá spjalls þeirra á milli um bækurnar, íþróttirnar, Fjölni og fleira“ segir Katrín Guðmundsdóttir, deildarstjóri Borgarbókasafnsins í Spöng og Árbæ.

„Okkur starfsfólkinu þykir mjög gaman að geta tekið þátt í þessu og láta safnið þannig tengjast betur hverfinu og íbúum þess“

Fjölnir vill þakka öllum þeim sem komu að og tóku þátt í þessu átaki kærlega fyrir og það er alveg öruggt að þetta verður endurtekið á næsta ári.

#FélagiðOkkar