Fjáröflunarkvöld körfuknattleiksdeildarinnar 17. maí

Í næstu viku fer fram fjáröflunarkvöld körfuboltadeildar Fjölnis þann 17. maí í hátíðarsal Dalhúsa. Miðakaup fara fram hér: https://xpsclubs.is/fjolnir/registration undir Körfuknattleikur.
Hlökkum til að sjá ykkur!


Sumarskákmót Fjölnis

Sumarskákmót Fjölnis í Rimaskóla á morgun fimmtudaginn 11. maí kl. 16:30-18:30. Skráning hefst kl. 16:10. Mætið tímanlega til skráningar.

  • 6 umferðir tefldar
  • 40 vinningar og happadrætti
  • Hagkaup – Gullnesti – SAM-bíóin – Bókabúð Grafarvogs – Jói útherji og Skákdeild Fjölnis gefa vinninga
  • Vignir Vatnar yngsti stórmeistarinn okkar leikur fyrsta leikinn
  • Gauti Páll Jónsson skákstjóri
  • Veitingar í lok mótsins
  • Allir þátttakendur fá verðlaunapening
  • Verðlaunabikarar
  • Skemmtilegasta skákmót ársins


Natalía Tunjeera valin í úrvalshóp stúlkna fyrir Evrópumót í hópfimleikum 2024

Fimleikasamband Íslands hefur valið í úrvalshóp stúlkna fyrir Evrópumót í hópfimleikum 2024. Það gleður okkur að tilkynna að í hópi þeirra er hún Natalía Tunjeera Hinriksdóttir.

Úrvalshópurinn er fyrsta úrtak fyrir Evrópumótið sem verður haldið í Azerbaijan 2024

Við hjá Fjölni óskum þér innilega til hamingju Natalía og gangi þér vel!

https://fimleikasamband.is/stulknalid/


Leikmenn Fjölnis í U20 kvenna og karla 2023 í körfubolta

Það gleður okkur að tilkynna að Stefanía Tera Hansen hefur verið valin í 17 manna hóp U20 kvenna í körfubolta fyrir sumarið 2023!

Einnig hefur U20 karla í körfubolta (fyrsti æfingahópur) verið boðaður en í þeim hópi eru þeir Ísak Örn Baldursson og Karl Ísak Birgisson.

Við hjá Fjölni erum gífurlega stolt af okkar fólki og óskum þeim góðs gengis í komandi verkefnum!


Heilsteyptur Haus – hugarfarsþjálfunar námskeið

Heilsteyptur Haus – hugarfarsþjálfunar námskeið

Barna og unglingaráð knattspyrnudeildar Fjölnis stendur fyrir námskeiði fyrir iðkendur í 3. og 4. flokki karla og kvenna í samvinnu við HAUS hugarþjálfun. Um er að ræða námskeið sem miðar að því að styrkja hugarfarslega þætti þátttakenda í gegnum fræðslu, heimaverkefni og eftirfylgni. Námskeiðið hófst vikuna 24. – 28. apríl og eru hóparnir fjórir sem samanstanda af u.þ.b. 20 iðkendum hver.

Hugarfarslegi/andlegi þátturinn í íþróttum og lífinu er ekki síður mikilvægur en sá líkamlegi og með þessu vill BUR stuðla að bættri líðan og sjálfsmynd iðkenda Fjölnis. Jafnframt er þetta fyrsti
viðburðurinn sem greiddur er að hluta til úr styrktarsjóð Fjölnismannsins Hálfdáns Daðasonar.

Markmið styrktarsjóðsins er að stuðla að fræðslu um geðheilbrigði og efla forvarnarstarf hjá yngri flokkum knattspyrnudeildar félagsins.

Heilsteyptur Haus er…
…hugarþjálfunarnámskeið fyrir yngri flokka og unglingaflokka í hópíþróttum þar sem iðkendur og þjálfarar læra að sinna þjálfun einbeitingar, sjálfstrausts og liðsheildar á reglubundinn hátt inni á æfingum samhliða tækniþjálfun og líkamlegri þjálfun.

Heilsteyptur Haus er fyrir…
…íþróttafélög sem vilja taka stórt skref í að sinna þeim hluta þjálfunar sem hefur verið stórlega
vanræktur í íþróttaþjálfun í gegnum tíðina og leiðir af sér ánægðarar íþróttafólk og betra íþróttafólk.

Heilsteyptur Haus samanstendur af:

  • 4 fyrirlestrum fyrir iðkendur
  • Vinnu iðkenda í styrktarprógrömmum á milli fyrirlestra
  • 4 þjálfarafundum
  • Þjálfarahandbók fyrir alla þjálfara


Halldór Karl Þórsson ráðinn yfirþjálfari yngri flokka hjá Körfuknattleiksdeild Fjölnis

Halldór Karl Þórsson hefur verið ráðinn yfirþjálfari yngri flokka hjá Körfuknattleiksdeild Fjölnis og hefur þegar hafið störf.

Halldór Karl þarf hvorki að kynna fyrir Fjölnisfólki né íslenska körfuboltaheiminum. Hann hefur síðastliðin ár haslað sér völl sem metnaðarfullur þjálfari bæði hjá yngri- og meistaraflokkum Fjölnis. Hann gerði meðal annars kvennalið Fjölnis að deildarmeisturum í Subway deild kvenna árið 2022.

Halldór Karl kemur til félagsins frá Hamri en félaginu tókst að tryggja sér sæti í Subway deild karla á næsta tímabili og mun Halldór Karl starfa áfram sem þjálfari meistaraflokks karla Hamars. Halldór Karl er einnig aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna og aðalþjálfari undir 20 ára landsliðs kvenna.

Ný stjórn Fjölnis ætlar í uppbyggingu á barna-og unglingastarfi félagsins og er ráðning Halldórs liður í því að styrkja starfið sem framundan er í Grafarvoginum. Með ráðningu yfirþjálfara stefnir Fjölnir á að gera þjálfun körfuboltans markvissari og metnaðarfyllri en áður en Fjölnir stefnir á frekari afreksþjálfun í yngri flokkum sem mun á endanum leiða til sterkari barna-og unglingastarfs hjá félaginu.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Halldór Karl ásamt Salvöru Þóru Davíðsdóttu formanni Körfuknattleiksdeildar.

Við hjá Fjölni erum stolt og ánægð að fá Halldór Karl aftur til liðs við félagið og hlökkum til samstarfsins í þeirri uppbyggingu sem framundan er í körfuboltastarfi Grafarvogs.

Körfuknattleiksdeild Fjölnis


Sumarnámskeið Fjölnis í Egilshöll 2023

Fjölnir býður upp á fjölbreytt úrval námskeiða í allt sumar. Hægt er að velja eitt námskeið fyrir hádegi og annað eftir hádegi með eða án heitrar máltíðar. Sumarámskeiðin eru fyrir börn fædd 2013-2016. Fjölgreinanámskeiðin eru fyrir börn fædd 2014-2017, á því fá börnin að kynnast þeim íþróttum sem eru í boði hjá félaginu.

Skráning fer fram hér

Hvað er í boði?

  • Sumarnámskeið Fjölnis í Egilshöll (fjölbreytt úrval íþrótta) – þú setur saman daginn fyrir barnið þitt. Börn fædd 2013-2016
  • Fjölgreinanámskeið Fjölnis í ágúst – góður valmöguleiki til að kynnast úrvali íþrótta í Fjölni. Börn fædd 2014-2017

Hér má sjá nánari upplýsingar


35. Fjölnishlaup Olís - 18. maí 2023

Hið árlega Fjölnishlaup Olís verður ræst í 35. sinn við Grafarvogslaug í Dalhúsum á uppstigningardag, þann 18. maí kl. 11:00.

Fjölnishlaupið er einn elsti viðburður opinn almenningi á vegum Fjölnis. Í boði verða þrjár vegalengdir, 1,4 km skemmtiskokk, 5 km hlaup og 10 km hlaup. Margir fremstu hlauparar landsins hverju sinni hafa tekið þátt í fyrri hlaupum og metin bætt ár frá ári. Hlaupin hafa verið hvatning fyrir margra til að hefja hlaupaferilinn sinn, bæði fyrir unga sem og eldri hlaupara.

Vegalengdin 1,4 km er kjörin fyrir yngstu hlauparana og oft hafa foreldrar hlaupið við hlið unganna sinna og með því móti átt sameiginlega reynslu á hlaupabrautinni og búið til góðar minningar.

Áhugasamir hafa enn góðan tíma til undirbúnings ef hlaupaformið er ekki til staðar og er öllum velkomið að koma og taka þátt. Fjölnir rekur öflugt starf í frjálsíþróttadeild, þar sem allir aldurshópar geta fundið æfingar við sitt hæfi. Langhlaup eru góð líkamsrækt og í góðum félagsskap ræktar maður heilbrigða sál í hraustum líkama. Fyrsta skrefið er að taka þátt og síðari skrefin eru að ná framförum.

Allar upplýsingar um hlaupið í ár og skráningu má finna á www.sumarhlaupin.is

Hér til hliðar má sjá myndir frá Fjölnishlaupum fyrri ára


Fjölnir og Víkingur mætast í úrslitum umspils um sæti í Olísdeild karla

Fjölnir og Víkingur mætast í úrslitum umspils um sæti í Olísdeild karla. Þetta varð ljóst eftir að bæði lið unnu andstæðinga sína, Þór Ak. og Kórdrengi. Strákarnir okkar áttu frábæra frammistöðu þegar þeir sigruðu Þór Ak. í öðrum leik umspilsins á mánudaginn síðastliðinn á Akureyri!

Liðið sem vinnur þrjár viðureignir hreppir sæti í Olísdeild karla á næstu leiktíð. Fyllum Dalhúsin á heimaleikjunum og fjölmennum einnig á útileikina í Safamýri.

Fyrsti leikur mun fara fram í Safamýrinni, þriðjudaginn 25. apríl nk. kl. 18:00

Næstu leikir:
Fjölnir – Víkingur | 28. apríl kl. 19:30
Víkingur – Fjölnir | 1. maí kl. 14:00

Ef þarf:
Fjölnir – Víkingur | 4. maí kl. 19:30
Víkingur – Fjölnir | 7. maí kl. 14:00

Áfram Fjölnir!


Treyjunúmer

Ein af þeim knattspyrnureglum sem við verðum að fylgja er að allir hafi fast treyjunúmer. Nú er komið að þeim skemmtilegu tímamótum hjá yngra ári í 6. flokki í knattspyrnu að fá fyrstu úthlutun treyjunúmers. Iðkendur sem eru fæddir á slétttölu ári eiga að velja sér slétt númer á treyjuna sína. Þeir sem eru fæddir á oddatöluári velja sér oddatölu númer.

Ef fleiri en einn iðkandi óskar eftir sama númeri þá verður dregið um það hvaða iðkandi fær óskanúmerið. Yfirþjálfari (skrifstofa) sér um það. Aðrir iðkendur verða að velja annað númer.

Iðkendur halda sama númeri út þriðja flokk. Númerið er óbreytilegt og hver leikmaður má eingöngu hafa eitt númer.

Yfirþjálfari (skrifstofa) félagsins heldur utan um númer allra iðkenda.

Nýir iðkendur hjá félaginu tala við yfirþjálfara til að fá treyjunúmer. Þeir leikmenn sem eru í 2. flokki mega halda áfram með sama númer nema ef tveir eru með sama númerið. Ef tveir eru með sama númer þá verður að draga út. Yfirþjálfari (skrifstofa) sér um það.

Ekki hika við að hafa samband yfirþjálfara ef einhverjar spurningar vakna.