Heilsteyptur Haus – hugarfarsþjálfunar námskeið

Barna og unglingaráð knattspyrnudeildar Fjölnis stendur fyrir námskeiði fyrir iðkendur í 3. og 4. flokki karla og kvenna í samvinnu við HAUS hugarþjálfun. Um er að ræða námskeið sem miðar að því að styrkja hugarfarslega þætti þátttakenda í gegnum fræðslu, heimaverkefni og eftirfylgni. Námskeiðið hófst vikuna 24. – 28. apríl og eru hóparnir fjórir sem samanstanda af u.þ.b. 20 iðkendum hver.

Hugarfarslegi/andlegi þátturinn í íþróttum og lífinu er ekki síður mikilvægur en sá líkamlegi og með þessu vill BUR stuðla að bættri líðan og sjálfsmynd iðkenda Fjölnis. Jafnframt er þetta fyrsti
viðburðurinn sem greiddur er að hluta til úr styrktarsjóð Fjölnismannsins Hálfdáns Daðasonar.

Markmið styrktarsjóðsins er að stuðla að fræðslu um geðheilbrigði og efla forvarnarstarf hjá yngri flokkum knattspyrnudeildar félagsins.

Heilsteyptur Haus er…
…hugarþjálfunarnámskeið fyrir yngri flokka og unglingaflokka í hópíþróttum þar sem iðkendur og þjálfarar læra að sinna þjálfun einbeitingar, sjálfstrausts og liðsheildar á reglubundinn hátt inni á æfingum samhliða tækniþjálfun og líkamlegri þjálfun.

Heilsteyptur Haus er fyrir…
…íþróttafélög sem vilja taka stórt skref í að sinna þeim hluta þjálfunar sem hefur verið stórlega
vanræktur í íþróttaþjálfun í gegnum tíðina og leiðir af sér ánægðarar íþróttafólk og betra íþróttafólk.

Heilsteyptur Haus samanstendur af:

  • 4 fyrirlestrum fyrir iðkendur
  • Vinnu iðkenda í styrktarprógrömmum á milli fyrirlestra
  • 4 þjálfarafundum
  • Þjálfarahandbók fyrir alla þjálfara