Í gær fór fram kjör á íþróttafólki og Fjölnismanni ársins 2020. Við sýndum beint frá viðburðinum á FB síðunni okkar. Hægt er að horfa á útsendinguna með því að smella á þennan hlekk https://tinyurl.com/ydyv875n.

Íþróttakarl ársins er Hans Viktor Guðmundsson frá knattspyrnudeild:

Hans Viktor er fyrirliði og lykilleikmaður meistaraflokks karla Fjölnis í knattspyrnu og lék samtals 20 leiki á nýafstöðnu tímabili eða 2 leiki í bikar og alla þá 18 leiki sem leiknir voru í Pepsi Max deildinni. Hans Viktor hefur farið upp um alla yngri flokka félagsins og braust inn í meistaraflokksliðið af eftirminnilegum krafti sumarið 2016. Óhætt er að segja að tímabilið í ár hafi verið erfitt en Hansi var að öðrum ólöstuðum öflugasti leikmaður liðsins og mun leiða liðið áfram á næsta tímabili í þeirra baráttu sem framundan er við að koma liðinu beint aftur upp í deild þeirra bestu. Að lokum má geta þess að Hans Viktor er vitanlega einnig í hinum virta 100 leikja klúbb Fjölnis.

Íþróttakona ársins er Fanney Ragnarsdóttir frá körfuboltadeild:

Fanney er ótrúlegur leiðtogi og var hún mikilvægur partur í liði meistaraflokks kvenna Fjölnis í að koma liðinu upp um deild og hefur hún staðið sig virkilega vel á nýju tímabili í Domino’s deild kvenna þar sem Fjölnir eru eins og stendur á toppi deildarinnar. Fanney býr undir miklum hraða og styrk og notar þann hraða til að gera árás á körfu andstæðinga bæði til að skora og til að finna liðsfélaga sína. Fanney fór í gegnum alla yngri flokka Fjölnis og er mikil fyrirmynd fyrir yngri iðkendur Fjölnis.

Fjölnismaður ársins er Gunnar Jónatansson

Gunnar virðist hafa fleiri klukkutíma í sólarhringnum en flestir aðrir. Hann er alls staðar í kringum starf Fjölnis. Fyrir nokkrum árum var hann formaður Bjarnarins sem nú eru hokkí– og listhlaupadeild Fjölnis. Gunnar hefur  beitt kröftum sínum víða í félaginu, hann hefur verið mjög öflugur að starfa fyrir körfuknattleiksdeildina og einnig alltaf boðinn og búinn að starfa fyrir aðalstjórn og aðrar deildir félagsins. Hann er ötull stuðningsmaður, mætir á flesta leiki, viðburði og ávallt tilbúinn að leggja hönd á plóg þegar leitað til hans. Hann er einkar laginn við að festa íþróttalífið á filmu, bæði í myndum og myndböndum. Hann veitir öllum aðgang að þessum gersemum á samfélagsmiðlum þar sem Fjölnisfólk og aðrir geta skoðað vel unnin myndbönd, viðtöl og myndir þar sem íþróttafólkið leikur aðalhlutverkið. Þar að auki hefur Gunnar tekið að sér að stýra stefnumótunarfundum körfuknattleiksdeildarinnar með mikilli lagni og eljusemi sem og rafrænum stefnumótunarfundi Fjölnis fyrir skemmstu, hann er líka liðtækur fundarstjóri, en hann hefur stýrt aðalfundum félagsins síðast liðin ár.  Gunnar tók sæti í stjórn körfuknattleiksdeildar Fjölnis í febrúar á þessu ári. Mikil verðmæti felast í framlagi Gunnars til Fjölnis, verðmæti sem félagið getur seint fullþakkað. 

Við óskum þeim innilega til hamingju með valið og vonum að þetta gefi þeim aukinn kraft til áframhaldandi góðra verka.

 

Ljósmyndari: Þorgils G.

Stjórn útsendingu: Arnór Ásgeirsson og Gunnar Jónatansson

Viðtöl: Eva Björg Bjarnadóttir

Hreyfimyndir af iðkendum: Alexander Hugi Jósepsson

Kynnir kvöldsins: Jón Karl Ólafsson

Upplestur tilnefninga: Guðlaug Björk Karlsdóttir og Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir