Ekki missa af Októberfest Grafarvogs í beinni til þín

Kæru Grafarvogsbúar,

Nú er kominn tími til að lyfta sér upp með öruggum hætti. Við höfum tekið höndum saman í samvinnu með Sonik, Keiluhöllinni Egilshöll, Ölgerðinni og Múlakaffi.

Við ætlum að halda Októberfest Grafarvogs laugardaginn 28. nóvember á milli klukkan 20 og 23. Við byrjum á skemmtilegri Kahoot! spurningakeppni þar sem öll fjölskyldan getur tekið þátt. Síðan á milli klukkan 21 og 23 verður brjálað partý með Magna í Á móti sól og hans vinum. Þetta verður allt gagnvirkt þannig að þið getið sent inn og fengið ykkar óskalög. Kaupendur fá aðgang að læstri vefslóð.

Boðið verður upp á stórglæsilegan partýmat frá Múlakaffi sem verður keyrður heim til ykkar á milli klukkan 19 og 20. Valin partý verða heimsótt og sendum við beint út þaðan. Þú getur nálgast matseðilinn HÉR.

Þessu verður öllu streymt beint frá Shake & Pizza heim í stofu til ykkar – Óvænt skemmtiatriði verða í boði.

Miðaverð er aðeins 5.000 kr. á mann og er allt að ofan innifalið.

Miðasala á vidburdir@fjolnir.is

Nú er um að gera fyrir fjölskylduna eða vinahópana að sameinast með okkur með öruggum hætti þetta kvöld og gera þetta að ógleymanlegu kvöldi. Já og auðvitað þurfa allir að muna eftir að fara í októberfest fötin ef við skyldum kíkja í heimsókn til ykkar.

Nánari upplýsingar veitir Arnór Ásgeirsson á arnor@fjolnir.is.

#FélagiðOkkar


Baldur Sigurðsson í Fjölni

Knatt­spyrnumaður­inn Bald­ur Sig­urðsson er orðinn leikmaður Fjölnis og hef­ur skrifað und­ir samn­ing við fé­lagið. Hann mun gegna hlutverki spilandi aðstoðarþjálfara og tekur þar við hlutverki Gunnars Más sem er hér með þakkað kærlega fyrir allt sitt góða starf í þágu meistaraflokks karla undanfarin ár – en Gunni heldur vitanlega áfram störfum hjá félaginu sem yfirþjálfari yngri flokka karla.

Bald­ur, sem er 35 ára, er Mý­vetn­ing­ur að upp­lagi og lék fyrstu ár sín í meist­ara­flokki með Völsungi á Húsa­vík. Hann kem­ur til okkar frá FH en þar áður hafði hann m.a. spilað með Stjörnunni, KR, Keflavík, í Danmörku og í Noregi. Bald­ur hefur orðið 2x Íslandsmeistari, 5x bikarmeistari og leikið 3 A-lands­leiki.

Bald­ur hef­ur alls leikið yfir 430 KSÍ leiki og skorað í þeim 100 mörk. Hann er jafnframt einn leikja­hæsti leikmaður efstu deild­ar­ frá upp­hafi.

Á einni af myndunum má sjá þjálfarateymi meistaraflokks karla á komandi tímabili – þ.e. reynsluboltarnir Ásmundur Arnarsson og Gunnar Sigurðsson auk Baldurs.

Knattspyrnudeild Fjölnis býður Baldur hjartanlega velkominn í #FélagiðOkkar


Fjáröflunarvörur Fjölnis eru komnar!

Við erum öll #FélagiðOkkar og nú býðst þér að kaupa vörur og styrkja öflugt starf Fjölnis í leiðinni.

Við bjóðum einnig upp á þann valmöguleika að eyrnamerkja kaupin einni eða fleiri deildum.
Ef kaupin eru t.d. merkt knattspyrnudeildinni þá fer allur hagnaður af sölu til hennar.
Ef tvær deildir eru valdar þá skiptist hagnaðurinn í tvennt og svo framvegis.

Sölutímabilið stendur yfir frá og með miðvikudeginum 4. nóvember til og með sunnudeginum 8. nóvember.

Afhending á vörum verður fimmtudaginn 12. nóvember frá kl. 17-19 við Egilshöll. Starfsfólk skrifstofu, þjálfarar og sjálfboðaliðar munu sjá til þess að afhenda þér vörurnar beint í bílinn.

Við bjóðum einnig upp á heimsendingu gegn 1.000 kr. viðbótargjaldi.

Þetta er einfalt! Þú velur þær vörur sem þér líst best á, hakar við deild og heimsendingu ef það á við, leggur inn á fjáröflunarreikning Fjölnis og bíður spennt/ur eftir vörunum.

#FélagiðOkkar

 

Þú getur fyllt út sölublaðið að neðan eða smellt HÉR til að nálgast það.


Júlíus og Theódór taka við meistaraflokki kvenna

Það er Knattspyrnudeild Fjölnis sönn ánægja að tilkynna Júlíus Ármann Júlíusson og Theódór Sveinjónsson sem nýja aðalþjálfara meistaraflokks kvenna. Taka þeir við af Axel Erni Sæmundssyni sem hverfur til annarra verkefna innan félagsins.

Júlíus er reyndur og metnaðarfullur þjálfari sem þekkir vel til kvennaboltans en hann hefur gegnt starfi aðalþjálfara meistaraflokks kvenna Aftureldingar frá árinu 2015 þar sem hann stýrði liðinu meðal annars upp úr 2. deild árið 2017. Að auki hefur hann sinnt þjálfun hjá Gróttu í tæp 20 ár við góðan orðstír þar sem hann stýrði meðal annars meistaraflokki karla en hann var einnig sigursæll þjálfari þau 10 ár sem hann var við störf hjá Breiðablik. Júlíus hefur lokið UEFA-A þjálfaragráðu.

Theódór þekkjum við Fjölnismenn vel þar sem hann stýrði nokkrum yngri flokkum félagsins hér á árum áður og meistaraflokki kvenna í Landsbankadeildinni árið 2008. Síðustu ár hefur Theódór þjálfað yngri flokka Víkings með góðum árangri og jafnframt verið í þjálfarateymi meistaraflokks kvenna Víkings. Áður var hann þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Aftureldingu, Þrótti og aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna Vals sem varð Íslandsmeistari á árunum 2006 og 2007. Theódór hefur einnig lokið UEFA-A þjálfaragráðu.

Knattspyrnudeild Fjölnis bindur miklar vonir við þessa ráðningu og hlakka til samstarfsins á komandi tímabilum.

Fjölnir þakkar Axel Erni fyrir sitt mikilvæga framlag undanfarin ár og býður Júlla og Tedda velkomna til starfa.


Getraunakaffi fer aftur í gang

RAFRÆNT GETRAUNAKAFFI!

Hið margrómaða Getraunakaffi Fjölnis fer aftur í gang núna á laugardaginn 31.október og alla laugardaga eftir það til og með 19. Desember.

Leikurinn er sáraeinfaldur en það eru tveir aðilar saman í liði að giska á úrslit í enska boltanum. Flottir vinningar í boði í hópleiknum.

Skráning fer fram á 1×2@fjolnir.is þar sem fram koma nöfn beggja liðsmanna, kennitala, sími, netfang og nafn á liðinu. 

Við ætlum að vera með 8 vikna hópleik þar sem 7 bestu vikurnar gilda. Þátttökugjald er einungis 4.990 kr. per hóp eða 2.495 kr. á mann og greiðist beint inn á reikning félagsins: 0114-05-060968 kt: 631288-7589

Fólk tippar sjálft í gegnum vefsíðuna 1×2.is/felog eða í gegnum þennan link en hægt að senda á netfangið 1×2@fjolnir.is ef ykkur vantar aðstoð.

Öll lið senda inn tvo seðla sem skulu innihalda nákvæmlega 7 leiki með einu merki og 6 leiki með tvítryggingu (2 x 960 kr. seðill). Betri seðillinn gildir. Með þessu móti standa allir þátttakendur jafnt.

Hér má finna reglur og frekari upplýsingar í leiknum

Hér má finna sérstaka Facebook grúbbu fyrir Getraunakaffi Fjölnis

Taktu þátt í félagsstarfinu og vertu með frá byrjun. Allir velkomnir!

#FélagiðOkkar


Sigurpáll Melberg framlengir við Fjölni

Sigurpáll Melberg Pálsson hefur framlengt samningi sínum við knattspyrnudeild Fjölnis til ársins 2022. Sigurpáll er öflugur varnarmaður með mikla reynslu en hann hefur leikið 121 leik og skorkað 5 mörk.

Þetta eru mikil gleðitíðindi en Sigurpáll hefur staðið sig vel síðan hann kom til liðs við Fjölni fyrir tímabilið 2018 og verið einn af lykilleikmönnum liðsins undanfarin tvö ár. Knattspyrnudeild Fjölnis óskar Sigurpáli til hamingju og væntir mikils af honum.

#FélagiðOkkar


Hópefliskvöld hjá Listhlaupadeild

Þar sem yfirvöld hvatt fólk til að halda sig heima við í vetrarfríinu, ætlar Listhlaupadeildin að halda Spurningakeppni fyrir alla iðkendur og fjölskyldur núna í kvöld kl. 20:00. Við hvetjum alla skautara til að fá foreldra og systkini með sér í lið og taka þátt. Spurt verður um hin ýmsu málefni en einnig um íþróttina okkar og því um að gera að fara að lesa sig aðeins til!

Glæsilegir vinningar í boði!

Einkatími á skautum
Gjafabréf frá Subway
Gjafabréf frá Ísbúð Huppu

Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna hér

Framlenging æfingabanns

Að kröfu sóttvarnaryfirvalda og Reykjavíkurborgar höfum við framlengt æfingabann á svæðum félagsins. Staðan verður endurmetin í samvinnu við þessa aðila að viku lokinni.

Meðfylgjandi er texti úr tilkynningu sem barst frá almannavörnum:

„Sóttvarnaryfirvöld og almannavarnir hafa hvatt alla og höfuðborgarsvæðið sérstaklega til að halda áfram að koma í veg fyrir hópamyndun, nánd og blöndun aðila úr ólíkum áttum næstu vikur. Markmiðið er að draga úr dreifingu og vexti veirunnar og vinna gegn auknu álagi á heilbrigðiskerfið. Samfélagið á mikið undir því að það takist að halda skólastarfi gangandi. Því er lögð áhersla á að takmarka blöndun barna og unglinga milli ólíkra leik- og grunnskóla höfuðborgarsvæðisins. Að öðrum kosti getur eitt smit leitt til að óþarflega stórir hópar eða fleiri en einn skóli þurfi að fara í einangrun eða sóttkví.“

Við viljum hvetja iðkendur til að vera dugleg að stunda æfingar heima og taka þátt í áskoruninni okkar #FjölnirHeima.

Smelltu hér til að lesa meira um áskorunina.


Vel yfir 100 manns tóku þátt í stefnumótun Fjölnis 2020

Við viljum þakka þeim fjölmörgu sem tóku þátt í gegnum netið á stefnumótunarfundi Fjölnis 2020. Góðar og miklar umræður sköpuðust og það er ljóst að við erum með gott efni í höndunum til að taka næstu skref í stefnumótun markaðs- og kynningarmála og afreksmála.

Við þökkum Gunnari Jónatanssyni fyrir öfluga og faglega fundarstjórn.

#FélagiðOkkar

Hér má nálgast upptöku af fyrri fundinum: https://tinyurl.com/y4x94zw5

Hér má nálgast upptöku af seinni fundinum: https://tinyurl.com/y5tcmj4d


Sigurjón Daði framlengir við knattspyrnudeild Fjölnis!

Sigurjón Daði framlengir við knattspyrnudeild Fjölnis!

Sigurjón Daði Harðarson, markvörður, hefur framlengt samningi sínum við Fjölni út keppnistímabilið 2023.

Þetta eru góðar fréttir en Sigurjón er uppalinn Fjölnismaður, sem kemur úr hinum sterka 2001 árgangi félagsins. Sigurjón hefur leikið samtals 17 landsleiki með yngri landsliðum Íslands.

Við óskum Sigurjóni til hamingju og hlökkum til að fylgjast með honum í framtíðinni.

#FélagiðOkkar