Skautastjóri listhlaupadeildar

Búið er að ráða Evu Björgu Bjarnadóttur til starfa á skrifstofu Fjölnis. Þar mun hún sinna ýmsum verkefnum en einnig mun hún sinna stöðu skautastjóra hjá listhlaupadeild. Eva Björg er okkur mörgum vel kunn en hún æfði með deildinni og starfaði síðar sem þjálfari og var yfirþjálfari Skautaskólans um árabil. Við erum mjög ánægð að fá hana Evu Björgu aftur til okkar og bjóðum hana velkomna til starfa.

 


Áhrif hertra sóttvarnaraðgerða á starf Fjölnis

Heilbrigðisráðherra kynnti í gær hertar sóttvarnaraðgerðir á höfuðborgarsvæðinu sem taka gildi frá og með 7. október og til og með 19. október.

Áhrif þeirra á starf Fjölnis:

Íþróttir utandyra

  • Íþróttir utandyra þ.m.t. æfingar og keppnir eru heimilar en áhorfendur á íþróttaviðburðum utandyra skulu ekki vera fleiri en 20 í hverju rými. Áhorfendur skulu bera grímu.
  • Nánari útlistun fyrir börn fædd 2005 og síðar er neðar í fréttinni.

Íþróttir innandyra

  • Íþróttastarf og sambærileg starfsemi sem krefst snertingar eða hætta er á snertingu milli fólks eða mikilli nálægð, eða þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér er óheimil innandyra.
  • Nánari útlistun fyrir börn fædd 2005 og síðar er neðar í fréttinni.

Börn fædd 2005 og síðar

  • Æfingar eru heimilar, utan- og innandyra.
  • Keppnisviðburðir eru óheimilir, utan- og innandyra.
  • Líkt og áður gilda nálægðar- og fjöldatakmörk ekki við um þennan hóp.

Svæði Fjölnis

  • Skrifstofa: hefðbundinn opnunartími en við beinum því til fólks að hafa samband á skrifstofa@fjolnir.is eða á símatíma á þriðjudögum milli kl. 9 og 12.
  • Egilshöll: æfingar samkvæmt ofangreindum reglum.
  • Dalhús: æfingar samkvæmt ofangreindum reglum.
  • Fundabókanirbóka þarf sérstaklega í gegnum arnor@fjolnir.is.

 

Æfingatafla – Dalhús

Æfingatafla – Egilshöll

 

Við minnum á almennar sóttvarnir. Gerum þetta vel og þá sjáum við vonandi starfið fara aftur á fullt innan skamms.

Nánari upplýsingar veitir Arnór Ásgeirsson á arnor@fjolnir.is.

#FélagiðOkkar


Opnunartími á styrktarsalnum í Dalhúsum

Í ljósi núverandi aðstæðna munu eftirfarandi reglur gilda um opnunartíma á styrktarsalnum í Dalhúsum:

*Þessar reglur gilda frá og með 6. október og þar til frekari upplýsingar berast frá skrifstofu.

  • Opnunartími er mánudaga til föstudaga frá kl. 08:00-22:00 og laugardaga frá kl. 09:00-14:15.
  • Aðeins er opnað fyrir bókaða tíma.
  • Húsvörður sér um að opna salinn og læsa að æfingu lokinni.
  • Arnór tekur við tímabókunum á arnor@fjolnir.is, sjá töflu hér: Æfingatafla – Dalhús.

#FélagiðOkkar


Æfingar samkvæmt töflu í dag

Allar æfingar eru samkvæmt stundatöflu í dag hjá félaginu.
Við sendum út tilkynningu seinna í dag með framhaldið.
– Skrifstofa Fjölnis


Breyttar reglur um samkomutakmarkanir

Heilbrigðisráðuneytið hefur birt breyttar reglur um samkomutakmarkanir sem taka gildi frá og með 5. október. Samkvæmt reglunum eru keppnisíþróttir með snertingu áfram leyfðar með hámarksfjölda 50 einstaklinga að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Æfingar: Áhorfendur eru ekki leyfðir á æfingar, þó með þeirri undantekningu að foreldrar leikskólabarna mega fylgja sínu barni en þurfa að notast við andlitsgrímu.

Leikir/Mót: Áhorfendur eru ekki leyfðir innandyra. Utandyra er heimilt að hafa áhorfendur að hámarki 100 í hverju rými, sitji þeir í númeruðum sætum skráð á nafn og noti andlitsgrímu.

Við beinum því til foreldra og annarra sem ekki tilheyra æfingahópum að halda sig frá æfingasvæðum félagsins. Stöndum saman og gerum allt sem við getum til að halda starfinu okkar gangandi.

Beðið er frekari fyrirmæla um þau skilyrði sem sett eru fyrir keppnisíþróttir með snertingu.

Frétt um nýjar reglur, sem uppfærð verður, má finna á vef stjórnarráðsins – sjá hér.

#FélagiðOkkar


Upphitun: Stjarnan - Fjölnir

Pepsi Max deild karla
11. umferð
Stjarnan – Fjölnir
Sunnudaginn 4. október kl. 17:00 á Samsungvellinum, Garðabæ.

Nú þegar fimm leikir eru eftir af keppnistímabilinu er Fjölnir tíu stigum frá Víkingi R. sem situr í næsta sæti fyrir ofan fallsvæðið. Í síðasta leik laut Fjölnir í lægra haldi í Kaplakrika, 1-0. Andstæðingur Fjölnis á næstkomandi sunnudag gerði 1-1 jaftefli við FH síðastliðið fimmtudagskvöld. Fjölnir og Stjarnan mættust í 2. umferð á Extra vellinum og vann Garðabæjarliðið 1-4 sigur. Stjarnan situr í fjórða sæti deildarinnar með 28 stig en hefur leikið leik færra en öll önnur lið deildarinnar að KR frátöldu. Stjarnan er því í harðri baráttu um Evrópusæti.

Fjölnir á ansi veika von um að halda sæti sínu í deildinni. Vinni Víkingur leik sinn á sunnudag gegn KA og tapi Fjölnir gegn Stjörnunni verður tölfræðilegur möguleiki Fjölnis á að halda sæti sínu í deildinni ekki lengur til staðar.

Leikurinn í Garðabæ verður sá síðasti fyrir landsleikjahlé. Ekki verður leikið aftur í efstu deild fyrr en 15. október. Um er að ræða frestaðan leik frá 11. umferð. Sigurpáll Melberg Pálsson verður í leikbanni í leiknum á sunnudag vegna uppsafnaðra gulra spjalda. Stjörnumennirnir Halldór Orri Björnsson og Brynjar Gauti Guðjónsson verða fjarverandi af sömu ástæðu.

Sjáumst á vellinum. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson


Nýtt fótboltatímabil að hefjast

Nú er nýtt tímabil að hefjast hjá yngri flokkum og knattspyrnudeild Fjölnis er að blása til sóknar í yngri flokka starfi. Á síðustu mánuðum hefur verið unnin mjög góð og markviss stefnumótunarvinna innan knattspyrnudeildar með það að markmiði að auka enn frekar gæði starfsins.

Stór skref hafa verið stiginn og starfa nú tveir yfirþjálfarar í fullu starfi hjá félaginu sem hvor um sig ber ábyrgð á faglegu starfi annars vegar stúlknamegin og hinsvegar drengjamegin. Þetta er stórt skref sem að vonandi leiðir til fjölgunar, ekki síst stúlknamegin, sem og enn faglegra starfi sem mun skila sér til félagsins á næstu árum.

Dagana 3. – 25. október býður Fjölnir börnum fædd árið 2015 og 2016 að æfa frítt og eru þjálfarar og starfsfólk spennt að taka á móti sem flestum börnum. 17. október verður svo haldið Októbermót Fjölnis þar sem allir þeir sem æfa geta tekið þátt gegn þátttökugjaldi.

Æfingatöflur knattspyrnudeildar eru komnar inn á heimasíðu félagsins og má nálgast þar. Minni foreldra að muna að skrá börnin inni á https://fjolnir.felog.is/ svo að æfingatöflur birtist í Sideline appinu.

Svo eru yngri flokkar Fjölnis einnig á Facebook og hvet ég ykkur öll að fylgja okkur þar
https://www.facebook.com/Fj%C3%B6lnir-Yngri-flokkar-Knattspyrnudeild-300328627123537

Árangur yngri flokka félagsins hafa verið með ágætum og er tilvalið að minna á að nýkringdir bikarmeistarar í 3. flokki karla spila úrslitaleik Íslandsmótsins sunnudaginn 4. október klukkan 13:00 á Kópavogsvelli og hvetjum við sem flesta til mæta og hvetja

#FélagiðOkkar

 

Fyrir hönd Barna- og unglingaráðs knattpyrnudeildar Fjölnis

Sævar Reykjalín
Formaður BUR


Tilkynning um barnamótið sem á að fara fram 2.-4. október.

Tilkynning frá Skautafélgai Akureyrar um barnamótið sem á að vera helgina 2.-4. október.
"Í kvöld fundaði hokkístjórn SA, stjórn foreldrafélags SA og sóttvarnarnefnd félagsins. Niðurstaða fundarins var sú að þau sjá sér ekki fært að uppfylla allar sóttvarnarreglur sem þarf á svona stóru móti. Búið var að útbúa leikjaplan og við frekari skoðun með tilliti til ramma, (uppsetningar og niðurtöku) starfsfólks, (sótthreinsun milli leikja og eftirlit meðsóttvörnum) aðgengi liða að keppnissvæði og fjölda þeirra sem koma að mótinu, (keppendur og fylgdarlið) þá treysta þau sér ekki í þetta mót eins og staðan er í dag. Við erum að skoða framhaldið ásamt stjórnum hinna félagana og látum vita þegar nýjar upplýsingar berast."
Til athugunar er þó að spilað verði U12 mót fyrir norðan. En að svo stöddu mun U8 og U10 ekki fara norður til keppni um helgina. 
Þessi grein verðu uppfærð jafnt og fréttir berast!
Kveðja, stjórn íshokkídeildar Fjölnis.

Skautamót á Akureyri

Flottur hópur Fjölnisstúlkna hélt norður á Akureyri um helgina til að keppa á Haustmóti ÍSS og Frostmótinu. Langt er síðan síðasta mót var haldið þar sem öll mót féllu niður á vormánuðum vegna Covid. Stúlkurnar mættu því spenntar til Akureyrar.

Frostmót
Sex Fjölnisstúlkur tóku þátt í 4 keppnisflokkum á Frostmótinu sem haldið var á laugardeginum. Perla Gabríela Ægisdóttir keppti í 8 ára og yngri, Arna Dís Gísladóttir, Selma Kristín S. Blandon og Una Lind Otterstedt í 10 ára og yngri, Líva Lapa í 12 ára og yngri, og Kayla Amy Eleanor Harðardóttir í hóp 14 ára og yngri. Ekki voru veitt verðlaun fyrir 8 og 10 ára og yngri. Stelpunum gekk mjög vel og voru ánægðar með sitt framlag eftir daginn. Kayla skautaði gott prógram og sigraði í flokknum 14 ára og yngri.

Haustmót ÍSS
Á Haustmóti ÍSS voru 9 Fjölnisstúlkur í 6 keppnisflokkum. Allar voru þær að skipta um keppnisflokk eða koma nýjar inn á ÍSS mót. Á laugardeginum hófst keppni í Basic Novice sem var stærsti flokkur mótsins. Þar keppti ein Fjölnisstúlka, Elva Ísey Hlynsdóttir. Hún skautaði prógramið sitt af nokkru öryggi, fékk 24,18 í einkun og hreppti hún 4. sætið aðeins 0,42 stigum á eftir næsta keppanda. Því næst hófst keppni í Advanced Novice og Junior þar sem keppendur skautuðu stutta prógramið sitt. Tanja Rut Guðmundsdóttir í Advanced Novice var önnur á ísinn, skautaði fínt prógram og fékk 22,12 stig og var í 2. sæti eftir fyrri daginn. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Lena Rut Ásgeirsdóttir kepptu síðan í flokki Junior. Júlía Sylvía fékk 35,51 stig og var í 3. sæti eftir fyrri daginn en Lena Rut fékk 24,00 stig og var í 5. sæti.

Á sunnudeginum hófst keppni í Chicks þar sem Ermenga Sunna Víkingsdóttir skautaði vel í frumraun sinni á ÍSS móti. Þær Arína Ásta Ingibjargardóttir og Elín Katla Sveinbjörnsdóttir kepptu síðan í Cubs. Ekki voru veitt verðlaun fyrir keppendur í Chicks og Cubs en allir keppendur fengu þátttökuviðurkenningar og voru þær mjög ánægðar með daginn.

Því næst var keppt í flokki Intermediate Novice og þar kepptu Sandra Hlín Björnsdóttir og Andrea Marín Einarsdóttir. Sandra Hlín fór fyrst á ísinn og nældi hún sér í 22,63 stig og hafnaði í 2. sæti. Andreu Marín gekk nokkuð vel með sitt prógram, fékk 17,02 stig og lenti í 4. sæti.

Að lokum var keppt í frjálsa prógraminu í Advanced Novice og Junior. Tanja Rut fékk 36,81 stig fyrir frjálsa prógramið og var samanlagt með 58,93 stig og endaði í 2. sæti í Advanced Novice. Lena Rut fór fyrst á ísinn í flokki Junior, skautaði ágætis prógram sem hún fékk 47,04 stig fyrir, var samanlagt með 71,04 stig og var í 5. sæti. Júlía Sylvía reyndi í fyrsta skipti á móti við þrefalt Salchow sem henni tókst því miður ekki að lenda í þetta sinn, en skautaði svo fínt frjálst prógram sem hún fékk 68,82 stig fyrir, var samanlagt með 104,33 stig og var í 3. sæti í flokki Junior.

Eftir fínt gengi stúlknanna er Fjölnir í 2. sæti í Bikarmótaröðinni eftir fyrsta mót vetrarins.


Hokkí markaður fimmtudaginn 1. október

Við ætlum að hittast í Íssalnum fimmtudaginn 1. október milli 18:30 og 19:30 með gamla íshokkídótið sem við erum hætt að nota og koma því í pening eða bítta því fyrir eitthvað sem passar betur.

Þetta er markaður sem er opinn öllum sem eiga eða langar að kaupa íshokkídót.

Þjálfarar verða á svæðinu og aðstoða fólk við að finna sanngjarnann verðmiða.

Endilega takið til í skápum og geymslum og komið með allt sem þið finnið.
Einnig bendum við á að þjálfarar og stjórn taka alltaf við frjálsum framlögum á notuðu íshokkídóti ef fólk vill styrkja deildina í því formi.