Frábær árangur hjá 4 flokki kvenna í knattspyrnu á Barcelona girls Cup

Fjórði flokkur kvenna í knattspyrnu fór í síðustu viku í æfinga- og keppnisferð til Spánar. Stefnan var tekin á Salou þar sem alþjóðlegt mót stúlkna í knattspyrnu er haldið ár hvert, Barcelona girls cup. Flogið var út þriðjudaginn 6. júní og náði hópurinn nokkrum æfingum fyrir mótið sem hófst þann 10 júní. Þar voru 28 Fjölnisstelpur mættar galvaskar og tvö lið skráð til leiks.

Fjölnir 2 byrjaði mótið illa fyrri keppnisdaginn en sótti heldur betur í sig veðrið og endaði mótið á mjög svo flottum og jákvæðum nótum. Mikill stígandi var í liðinu og klárt að þessi æfinga- og keppnisferð kemur á réttum tíma og eflir liðið fyrir næstu leiki á Íslandsmótinu.

Fjölnir 1 byrjaði mótið með miklum látum og frábær spilamennska og mikil barátta skilaði liðinu í undanúrslit. Sá leikur tapaðist með einu marki, fyrir liðinu endaði á því að sigra mótið. Í leiknum um þriðja sætið mættu stelpurnar liði Aftureldingar í hörkuleik þar sem ekkert var gefið eftir. Fjölnir komst yfir í byrjun seinni með hálfleiks en Afturelding náði að jafna leikinn með síðustu spyrnu leiksins. Vítakeppni þurfti því til að fá niðurstöðu. Vítakeppnin var æsispennandi og þurfti bráðabana til, en að lokum náðu Fjölnisstelpur að tryggja sér sigur. Stelpurnar töpuðu aðeins einum leik í mótinu, í undanúrslitum. Frábær árangur og mikill stígandi hjá liðinu.

Með hópnum í Salou voru þjálfararnir Halldór Bjarki Guðmundsson og Andri Freyr Björnsson. Fararstjórar með hópnum voru hjónin Einar Ásgeir og Erna Margrét Arnardóttir. Þá fylgdu fjölmargir foreldrar hópnum út og skapaðist mikil og góð stemning innan foreldrahópsins. Stelpurnar náðu líka að skemmta sér vel á milli æfinga og leikja, farið var í bæði leiktækja- og vatnsleikjagarð. Stelpurnar stóðu sig frábærlega í alla staði og voru sér og félaginu til mikils sóma.


Borche Ilievski framlengir í Grafarvogi

Borche Ilievski hefur skrifað undir nýjan samning við körfuknattleiksdeild Fjölnis og mun hann þjálfa meistaraflokk karla hjá félaginu til ársins 2026. Borche hefur stýrt meistaraflokk Fjölnis ásamt yngri flokkum félagsins frá 2022. Borche hefur þjálfað lengi á Íslandi en hann byrjaði á Ísafirði og kom Vestra upp í efstu deild á sínum tíma. Einnig hefur hann þjálfað meistaraflokka Tindastóls, Breiðabliks og ÍR ásamt því að vera yngri flokka þjálfari hjá þessum félögum sem og KR áður en hann gekk til liðs við Fjölni í fyrra.

Borche segist hlakka til næstu ára hjá Fjölni og er spenntur fyrir næsta tímabili: ,,Við erum með góðan leikmannahóp af ungum strákum sem eru í lokahópum yngri landsliðana og við munum halda áfram að byggja upp sterkt og samheldið lið sem mun ná góðum árangri á næstu árum,“ sagði þjálfarinn þegar hann skrifaði undir á dögunum.

Samhliða þjálfun meistaraflokks mun Borche þjálfa yngri flokka Fjölnis. ,,Hafin er vinna við að betrumbæta umgjörðina í Grafarvoginum. Ég er ánægður með þróun mála sem mun á endanum skila sér inn á vellinum,“ bætti Borche við.

Með framlengingu á samningi Borche er verið að tryggja stöðuleika í þjálfunarmálum í Fjölni en félagið er lagt af stað í ákveðinna vegferð á körfuboltastarfsemi Grafarvogs. Með því að endurvekja barna-og unglingaráð, ráðningu yfirþjálfara, styrktarþjálfara og menntuðum þjálfurum í yngri flokkum félagsins er félagið að ráðast í metnaðarfulla uppbyggingu í öllu starfi klúbbsins. Takmarkið er að Fjölnir verði eftirsóknarverkt félag til að spila fyrir.

Salvör Þóra Davíðsdóttir og Borche Ilievski eftir að sá síðarnefndi skrifaði undir á dögunum

Tilkynning um lok strætófylgdar

Sú ákvörðun hefur verið tekin að hætta með fylgd á æfingar í haust. Undanfarin 6 ár höfum við fylgt börnum í 1. og 2. bekk til og frá æfingum með Strætó.

Margir þættir höfðu áhrif á þessa ákvörðun, þar með talið hefur ekki tekist að tryggja nægt fjármagn. Verkefnið hefur aldrei verið gallalaust en síðastliðinn vetur komu upp nokkur mál sem vöktu okkur alvarlega til umhugsunar um öryggi barna sem eru í fylgdinni og teljum við það óásættanlegt að geta ekki tryggt öryggi þeirra í okkar umsjá.

Við viljum þakka Strætó, frístundaheimilunum hverfisins og annarra samstarfsaðila fyrir gott samstarf síðustu ár og við kveðjum þetta verkefni með miklum trega því upphaflega var markmiðið að stytta vinnudag barnanna og auka samverustundir fjölskyldunnar. Fylgdin kenndi iðkendum okkar að taka strætó á æfingar sem er gott veganesti inn í framtíðina og vonandi jók sjálfstæði þeirra.

Vinna er hafin við það að stilla upp æfingatímum fyrir þennan aldur og er það gert í samráði við yfirþjálfara og verkefnastjóra deildanna.

 


Vormót Fjölnis í frjálsum íþróttum

Vormót Fjölnis í frjálsum íþróttum var haldið í blíðskaparveðri fimmtudaginn 1. júní á frjálsíþróttavellinum í Mjódd.
Ágætis þátttaka var í mótinu en 90 keppendur á aldrinum 11-15 ára mættu til leiks.

Keppnisgreinar voru fjórar: spretthlaup, langstökk, kúluvarp og 600m eða 800m hlaup og keppt í þremur aldursflokkum – 11 ára, 12-13 ára og 14-15 ára.

Keppendur Fjölnis settu fjölmörg persónuleg met og komu heim með 8 verðlaun:

Eva Unnsteinsdóttir vann gull í kúluvarpi og 600m hlaupi og brons í 60m hlaupi og langstökki í flokki 11 ára stúlkna

Haukur Leó Kristínarson vann brons í 600m hlaupi í flokki 11 ára pilta

Hilmir Snær Eyjólfsson vann gull í 800m hlaupi og brons í langstökki í flokki 12-13 ára pilta

Guðrún Ásgeirsdóttir vann brons í kúluvarpi í flokki 14-15 ára stúlkna

Að auki var keppt í nokkrum greinum fullorðinna þar sem Fjölniskeppendur bættu mörg hver sín persónuleg met

Á myndunum má sjá Evu Unnsteinsdóttur taka á móti gullverðlaunum og Guðrúnu Ásgeirsdóttur taka á móti bronsverðlaunum


Ísak Örn Baldursson skrifar undir hjá Fjölni

Ísak Örn Baldursson hefur framlengt samning sinn við Fjölni og mun leika með liðinu í 1. deild í vetur.

Ísak hefur spilað með yngri landsliðum Íslands og var á dögunum valinn til að leika með U-20 landsliðinu á tveimur sterkum alþjóðamótum í sumar. Ísak, sem lék stórt hlutverk hjá Fjölni á síðasta tímabili, var á dögunum valinn varnarmaður félagsins á lokahófi félagsins.

,,Ég er spenntur fyrir komandi tímabili, það er góður andi í hópnum, og við ætlum okkur að byggja ofan á það sem við gerðum á síðasta tímabili. Það var vaxandi stemning fyrir körfunni í Grafarvogi síðasta vetur og við vonumst til að sjá sem flesta í stúkunni á þessu tímabili,” sagði Ísak þegar hann skrifaði undir.


Sumaræfingar keppnishópa

Fyrstu helgina í júní héldum við vorsýninguna okkar sem heppnaðist ótrúlega vel og erum við virkilega stolt af öllum okkar iðkendum og þakklát fyrir alla þá hjálp sem við fengum frá sjálfboðaliðum. Þetta eru alltaf skemmtilegir dagar og eftirminnilegir.

Grunnhópar og æfingahópar eru komnir í sumarfrí og við viljum þakka þeim kærlega fyrir önnina.
Keppnishópar æfa eftir sumartöflu í júní og ágúst og má sjá sumaræfingatíma keppnishópa hér.

Skráning fyrir haustönn verður opnuð á vefnum þann 1. júlí næstkomandi, passið að vera tímanlega til að tryggja iðkendum pláss í hópum.


KKÍ: U16 - U18 - U20 Landsliðshópar - Lokaval

Nú hafa þjálfarar yngri landsliða Íslands valið sína endanlega liðsskipan en það eru 12 leikmenn í U16, U18 og U20 landsliðunum sem leika á NM og EM í sumar.
Það er okkur mikil ánægja að tilkynna að við eigum nokkra flotta fulltrúa í landsliðunum

U18 stúlkna
Bergdís Anna Magnúsdóttir · Fjölnir
Heiður Karlsdóttir · Fjölnir

U18 drengja
Brynjar Kári Gunnarsson · Fjölnir

U20 kvenna
Stefanía Tera Hansen · Fjölnir
Heiður Karlsdóttir · Fjölnir (mun leika með liðinu á EM)

U20 karla
Ísak Örn Baldursson · Fjölnir

Innilegar hamingjuóskir!

Ljósmyndir: Gunnar Jónatansson


Lokahóf Körfuknattleiksdeildar Fjölnis

Lokahóf Körfuknattleiksdeildar Fjölnis fór fram á dögunum þar sem leikmenn meistaraflokka félagsins tímabilið 2022-2023 voru útnefnd fyrir sitt framlag.

MEISTARAFLOKKUR KARLA
Besti íslenski leikmaðurinn – Hilmir Arnarson
Bestir erlendi leikmaðurinn – Lewis Diankulu
Mestar framfarir – Brynjar Kári Gunnarsson
Besti varnarmaðurinn- Ísak Örn Baldursson

MEISTARAFLOKKUR KVENNA
Besti íslenski leikmaðurinn – Heiður Karlsdóttir
Bestir erlendi leikmaðurinn – Brittanny Dinkins
Mestar framfarir – Stefanía Tera Hansen
Besti varnarmaðurinn- Urte Slavickaite

Innilegar hamingjuóskir kæra Fjölnisfólk!


Halldór valinn í EM hóp U19 ára landsliðsins

Ólafur Ingi Skúlason, landsliðsþjálfari U19 karla, hefur valið hóp sem spilar fyrir Íslands hönd á lokakeppni EM 2023 á Möltu dagana 3. – 16. júlí.

Ísland er í riðli með Grikklandi, Noregi og Spáni. Ísland endaði í efsta sæti síns riðils í undankeppni mótsins.

Knattspyrnudeild Fjölnis óskar Halldóri innilega til hamingju!

https://www.ksi.is/um-ksi/frettir/frettasafn/frett/2023/06/06/U19-karla-hopur-fyrir-EM-2023-kynntur/


Viktor Steffensen skrifar undir hjá Fjölni

Viktor Máni Steffensen hefur framlengt samning sinn við Fjölni og mun leika áfram með liðinu á næsta tímabili.  Viktor, sem er uppalinn hjá Fjölni, hefur jafnframt  verið valinn í æfingahópa yngri landsliða KKÍ.

Viktor hefur verið mikið frá vegna hnémeiðsla síðustu tvö tímabil en átti frábæra innkomu í lok síðasta keppnistímabils og segir liðið í stakk búið að fara upp í Subway deildina.  ,,Ég er gríðarlega spenntur fyrir komandi vetri og mér líst vel á hópinn sem samanstendur af ungum og efnilegum strákum undir stjórn virkilega góðs þjálfara.  Við ætlum okkur alla leið og hlakka ég virkilega til að hefjast handa á því verkefni,” sagði Viktor þegar hann skrifaði undir á dögunum.

 

Kkd Fjölnis