Frábær árangur hjá Degi Ragnarssyni

Dagur Ragnarsson (2327) náði sínum öðrum áfanga að alþjóðlegum skákmeistaratitli með frábærri frammistöðu á alþjóðlegu skákmóti í Montreal í Kanada sem lauk í gær.  Dagur hlaut 6½ vinning í 9 skákum. Dagur byrjaði afar vel og hafði 3½ vinning eftir 4 umferðir. Jafntefli gerði hann í 5.-8. umferð þar sem hann var oft á tíðum afar nærri því að vinna skákirnar. Sigur í lokaumferðinni á móti kanadíska FIDE-meistaranum Mike Ivanov (2251) tryggði honum áfangann. Frammistaða Dags samsvaraði 2467 skákstigum og hækkar hann um 34 ELÓ stig sem er óvenju mikið miðað við aðra stigaháa skákmenn. Eins og Grafravogsbúum ætti að vera kunnugt um þá var Dagur valinn afreksmaður skákdeildar fyrir árið 2018. Þetta er annar áfangi Dags en til þess að verða útnefndur alþjóðlegur meistari þarf hann þrjá áfanga og komast í 2400 skákstig. Þeim fyrsta náði hann í á Íslandsmótinu í skák 2017 í Hafnarfirði. Skákdeild Fjölnis óskar Degi hjartanlega til hamingju með frábæran árangur og meistaraáfangann!


Fjölmennt á jólaæfingu

Jólaskákæfing Fjölnis var fjölmenn enda margt í boði fyrir utan taflmennskuna. Fjörutíu Grafravogskrakkar mættu til leiks og tefldu fimm umferða skákmót. Í skákhléi var boðið upp á góðar veitingar og ávaxtadjús. Einbeiting og virðing eru þau tvö orð sem við höfum valið skákæfingunum að undanförnu og þessi tvö orð svínvirka. Eftir jafnt og spennandi skákmót voru allir krakkarnir leystir út með jóla-nammipoka. Þau hjónin og Grafarvogsbúarnir Steini og Vala borgarfulltrúi hafa undanfarin ár séð um jólaglaðning á jólaskákæfingum og hafa sendingar þeirra fallið í kramið hjá okkar áhugasömu skákkrökkum. Glæsilegt skákár er að baki hjá Skákdeild Fjölnis, fjölmennar æfingar og fyrsta sætið á Íslandsmóti félagsliða að loknum fyrri hluta mótsins. Fyrsta skákæfingin á nýju ári verður fimmtudaginn 10. janúar kl. 16:30 í Rimaskóla.


Íslandsmót unglingasveita

Á Íslandsmóti unglingasveita í skák 2018 sem nýverið var haldið í Garðaskóla í Garðabæ kom C sveit Fjölnis skemmtilega á óvart með því að ná bestum árangri allra C sveita á mótinu. Í skáksveitinni eru mjög ungir krakkar sem eiga það sameiginlegt að mæta nær undantekningarlaust á allar skákæfingar Fjölnis á fimmtudögum. Sú yngsta í skáksveitinni heitir Emilía Embla og er aðeins 6 ára gömul. Hún hlaut 5 vinninga í 7 skákum. Í skáksveitinni eru þau Sindri Snær Rimaskóla, Eiríkur Emil Húsaskóla, Emilía Embla Rimaskóla og Jón Emil Vættaskóla.


Ókeypis jólanámskeið

Hin árlega jólagjöf handboltadeildarinnar er klár!

Jólanámskeið deildarinnar hefur slegið í gegn undanfarin ár, enda virkilega vel heppnað í alla staði. Handboltadeildin ætlar því að endurtaka leikinn og standa fyrir glæsilegu námskeiði fyrir iðkendur og byrjendur í handboltaíþróttinni milli jóla og nýárs. Námskeiðið verður alveg ÓKEYPIS og verður það haldið dagana 27. - 28. desember.

Námskeiðið fer fram í Fjölnishöllinni okkar í Egilshöll (nýja íþróttahúsið okkar) á eftirfarandi tímum:

1. og 2. bekkur
27. og 28. desember kl. 09:00-10:15

3. og 4. bekkur
27. og 28. desember kl. 10:30-11:45

Farið verður í grunnþætti íþróttarinnar og leikir og skemmtun höfð að leiðarljósi. Jólatónlist verður spiluð og þjálfarar deildarinnar munu leiðbeina og aðstoða unga iðkendur. Við hlökkum til að sjá ykkur í jólaskapi á þessum tíma!

*Mælst er til þess að iðkendur mæti í íþróttafötum, í íþróttaskóm og með vatnsbrúsa.

Eina sem þarf að gera er að skrá barnið hér á listann og mæta á staðinn! https://goo.gl/forms/UTmCAkSzJng451g12 eða í gegnum NÓRA

Tenging við deildina er hér:

Heimasíða: https://fjolnir.is/handbolti

Facebook: https://www.facebook.com/fjolnirhkd/

Instagram: https://www.instagram.com/fjolnirhkd/

með Fjölniskveðju,
Barna- og unglingaráð hkd. Fjölnis


Íslandsmót 2018

Um helgina var haldið Íslandsmót barna og unglinga ásamt Íslandsmeistaramóti í Egilshöllinni. Mótið var allt hið glæsilegasta. Á laugardeginum hófst keppni hjá keppnisflokkum Chicks og Cubs. Þessir ungu og efnilegu skautarar stóðu sig mjög vel og var öllum keppendum veitt viðurkenning að keppni lokinni. Næst var keppt í flokki Basic Novice.

Mjótt var á milli tveggja efstu þar sem Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir úr SA vann með 26.71 stig, í öðru sæti var Kristín Jökulsdóttir frá SR með 26.43 stig og í þriðja sæti var Rakel Sara Kristinsdóttir úr Fjölni með 20.43 stig. Í Keppnisflokki Intermediate Novice voru það tvær Fjölnisstúlkur sem voru í efstu sætunum þar sem Valdís María Sigurðardóttir var í fyrsta sæti með 24.33 stig, í öðru sæti var Harpa Karin Hermannsdóttir með 24.18 stig og í þriðja sæti var Ólöf Thelma Arnþórsdóttir úr SR með 23.41 stig.

Á laugardeginum lauk einnig keppni í flokknum Intermediate Ladies. Þar stóð Berglind Óðinsdóttir úr Fjölni sem sigurvegari með 36.66 stig, Elísabet Ingibjörg Sævarsdóttir úr SA var í öðru sæti með 34.41 stig og Sólbrún Víkingsdóttir úr Fjölni var í þriðja sæti með 32.19 stig.

Keppendur í flokkum Advanced Novice, Junior og Senior skautuðu stutta prógramið sitt í lok laugardagsins. Þessir keppendur komu svo aftur og kepptu í frjálsa prógraminu á sunnudeginum. Að keppni lokinni var það Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir úr SA sem stóð uppi sem Íslandsmeistari í keppnisflokki Advanced Novice með hvorki meira né minna en 106.07 stig samanlagt úr báðum prógrömum, aldeilis frábær árangur hjá henni. Í öðru sæti var Rebekka Rós Ómarsdóttir úr SR með 74.64 stig og Herdís Heiða Jing Guðjohnsen úr SR í þriðja sæti með 74.21 stig. Íslandsmeistari í keppnisflokki Junior var Marta María Jóhannsdóttir úr SA með samanlagt 103.10 stig, í öðru sæti var Aldís Kara Bergsdóttir úr SA með 100.51 stig og í þriðja sæti var Viktoría Lind Björnsdóttir með 91.71 stig.

Íslandsmeistari í keppnisflokki Senior var Margrét Sól Torfadóttir úr SR með samanlagt 102.25 stig og í öðru sæti var Eva Dögg Sæmundsdóttir úr Fjölni með 86.97 stig. Óskum við þeim ásamt öllum keppendum mótsins til hamingju með frammistöðu sína um helgina.


Aðventumót Ármanns

Árlega aðventumót Ármanns var haldið nú um helgina. Á mótinu var keppt í 4., 5., og 6. þrepi í áhaldafimleikum. Mótið var ótrúlega vel heppnað og skemmtilegt og áttu Fjölniskrakkar frábæra keppni.
Við erum stolt af okkar iðkendum og þjálfurum, til hamingju öll.


Jólasöfnun körfunnar

Góðan dag,

Nú hefst hin árlega Jólasöfnun Körfuknattleiksdeildar Fjölnis.

 

Við erum að selja flatkökur, klósett- og eldhúspappír, kaffi, egg, jólarósir og kerti og vegleg handklæði merkt Fjölni. Nýtt: Fjölnishandklæði

 

Sölublöðum og greiðslu er skilað eigi síðar en sunnudag 9. desember kl. 22:00. Afhending vara verður fimmtudaginn 13. desember.

 

Eins og áður safna iðkendur fyrir sjálfa sig um leið og þeir safna fyrir körfuboltadeildina. Iðkendur safna sér inn pening með því að selja ákveðinn fjölda af vörum (sjá blöð vegna Jólasöfnunar Fjölnis 2018).

 

Leitast verður við að dreifa blöðum Jólasöfnunar Fjölnis 2018 á næstu æfingum. Hvetjum alla til að byrja söluna sem allra fyrst og nota ljósmyndina af söluvörunum t.d. með því að dreifa til vina og vandamanna.

 

Blöð Jólasöfnunar Fjölnis má nálgast hér:  https://drive.google.com/file/d/1FoTsXoMWJyce0XiJFSiGQeLaxk-QA3j_/view?usp=sharing


Samningur við Hummel endurnýjaður

Knattspyrnudeild Fjölnis og Hummel hafa endurnýjað samstarf til næstu fjögurra ára. 

Fjölnir mun því spila áfram í Hummel búningum til a.m.k. ársins 2022. Samstarfið við Hummel hefur verið farsælt í gegnum árin og hefur þjónustan hjá Hummel sífellt verið að aukast.

Nú nýlega opnuðu forsvarsmenn Hummel á Íslandi verslunina Sport 24 í Sundaborg 1 og þar er nú komin stórglæsileg alhliða íþróttavöruverslun. Samhliða þessari fjögurra ára framlengingu á Hummel samningnum þá gerist Sport 24 myndarlegur styrktaraðili knattspyrnudeildar til næstu fjögurra ára.

Á myndinni, sem tekin var þegar samningurinn var handsalaður, eru Árni Hermannsson formaður knattspyrnudeildar, Ásta Björk Matthíasdóttir búningastjóri knattspyrnudeildar, Júlíus Óskar Ólafsson frá DanSport/Hummel og Georg Birgisson frá SPORT24

#FélagiðOkkar


Málmtæknimót Fjölnis

20 ára afmælismót Sunddeildar Fjölnis

 

Málmtæknimót Fjölnis verður haldið í Laugardalslaug, laugardaginn 24. nóvember 2018   Keppt verður í 25 metra laug í tveimur hlutum.

Keppnishlutar                     

Laugardagur 24. nóvember Upphitun kl. 08:15 Mót kl. 09:00
Laugardagur 24. nóvember Upphitun kl. 14:00 Mót kl. 15:00

Verðlaunað samkvæmt aldursflokkum.

12 ára og yngri Meyja- og sveinaflokkur
13 – 14 ára Telpna- og drengjaflokkur
Þátttökuviðurkenning fyrir Hnokkar og Hnátur (10 ára og yngri)

Verðlaun verða veitt fyrir þrjú fyrstu sætin í hverjum aldursflokki í einstaklingreinum og boðsundum.
Verðlaunaafhending fer fram í loks hvers mótshluta og að auki fá allir 10 ára og yngri þátttöku viðurkenningu.

Mótið fer fram samkvæmt reglum FINA/LEN/IPC og SSÍ og er opið öllum 14 ára og yngri.

Hvetjum þjálfara til að skrá inn tíma þar sem við áskiljum okkur rétt til að takmarka

fjölda riðla í ákveðnum greinum og breyta tímasetningum ef með þarf.

 

Hver keppandi má taka þátt í mesta lagi 6 greinum á mótinu öllu.

 

Upplýsingar og úrslit frá mótinu verða birtar á heimasíðunni https://www.fjolnir.is/sund

Skráningargjald er 500 krónur fyrir einstaklingsgreinar og 800 krónur fyrir boðsundsgreinar.

Skráningarfrestur er til miðnættis sunnudagsins 18. nóvember. og frestur til úrskráninga og breytinga er til fimmtudagsins 22. nóvember.

 

Skráningum skal skila sem Splash/hy-tek skrá á  sundmot.fjolnis@gmail.com

 

 

Nánari upplýsingar veitir:

Jacky Pellerin, yfirþjálfari.  s:845-3156,  jacky@fjolnir.is
I. hluti - Laugadagur 24. nóvember - Upphitun 08:15, Keppni 09:00

 

01. grein - 200m skriðsund Telpna/Meyja (13-14 ára og 12 ára og yngri)
02. grein - 200m skriðsund Drengja/Sveina (13-14 ára og 12 ára og yngri)

03. grein - 100m fjórsund Telpna/Meyja (13-14 ára og 12 ára og yngri)
04. grein - 100m fjórsund Drengja/Sveina (13-14 ára og 12 ára og yngri)

05. grein - 50m flugsund Telpna/Meyja (13-14 ára og 12 ára og yngri)
06. grein - 50m flugsund Drengja/Sveina (13-14 ára og 12 ára og yngri)
07. grein - 100m baksund Telpna/Meyja (13-14 ára og 12 ára og yngri)
08. grein - 100m baksund Drengja/Sveina (13-14 ára og 12 ára og yngri)

Verðlaun verða veitt á meðan á móti stendur í hinum enda laugarinnar

 

 

 

II. hluti - Laugadagur 24. nóvember - Upphitun 14:00, Keppni 15:00
09. grein - 50m baksund Meyja (12 ára og yngri)
10. grein - 50m baksund Sveina (12 ára og yngri)

11. grein - 100m bringusund Telpna/Meyja (13-14 ára og 12 ára og yngri)
12. grein - 100m bringusund Drengja/Sveina (13-14 ára og 12 ára og yngri)

13. grein - 200m fjórsund Telpna/Meyja (13-14 ára og 12 ára og yngri)
14. grein - 200m fjórsund Drengja/Sveina (13-14 ára og 12 ára og yngri)

15. grein - 100m skriðsund Telpna/Meyja (13-14 ára og 12 ára og yngri)
16. grein - 100m skriðsund Drengja/Sveina (13-14 ára og 12 ára og yngri)

Verðlaun verða veitt á meðan á móti stendur í hinum enda laugarinnar

17. grein - 4 x 50m skriðsund Telpna/Meyja (13-14 ára og 12 ára og yngri)

18. grein - 4 x 50m skriðsund Drengja/Sveina (13-14 ára og 12 ára og yngri)

Verðlaun grein 17.-18.

 

 

Með sundkveðju
Stjórn Sunddeildar


Hörku spennandi leikslok í viðureign Bjarnarins og SR

Í viðureign Bjarnarins og SR í gær mættu SR-ingar sterkir til leiks og sýndu að þeir voru alveg með á nótunum með því að skora tvö mörk á fyrstu mínútunni. Þeir bættu svo um betur með tveimur mörkum til viðbótar í fyrsta leikhluta. Bjarnarmenn voru hins vegar seinir að taka við sér og var staðan 0-4 fyrir SR eftir fyrstu lotu.

Bjarnarmenn vöknuðu aðeins í leikhlé og mættu einbeittari til leiks í upphafi annar lotu og börðust vel og drengilega í gegnum alla lotuna. Ekki var mikið um mörk en þó átti Kristers Bormanis fyrstamark Bjarnarmanna með stoðsendingu frá Róberti Pálssyni. Því miður minkaði munurinn á mörkum ekkert því tæpum tíu mínútum áður höfðu SR-ingar nælt sér í eitt mark í viðbót. Staðan eftir lotuna var því 1-5 fyrir SR.

Þrátt fyrir mikinn markamun létu Bjarnarmenn það ekki á sig fá og komu tví (eða þrí) efldir til leiks í síðust leiklotu. Þetta var hörkuspennandi lota og sýndu strákarnir virkilega hvað í þeim býr þegar þeir röðuðu inn fimm mörkum á þrettán mínútum. Annað mark Bjarnarins skoraði Viktor Svavarsson með stoðsendingu frá Kristers Bormanis og kom stöðunni í 2-6, eftir leikhlé sem SR-ingarnir tóku sýndi Hjalti hvað í sér býr og skoraði þriðja mark Bjarnarins með stoðsendingu frá Edmunds og Jóni Alberti, sex mínútum síðar var það svo aftur Kristers sem var að verki og skoraði fjórða markið án stoðsendingar. Mínútu síðar kom Ólafur Björnsson með fimmta mark Bjarnarmanna með stoðsendingu frá Ingþóri Árnasyni og tveimur mínútum eftir það jafnaði Kristers leikinn 6-6 með stoðsendingu frá Ólafi Björnsyni.

Leikurinn endaði í framlengingu þar sem liðin léku þrír á þrjá og fyrsta mark varð sigurmark. Þrátt fyrir hörku og þrautsegju í strákunum tókst þeim ekki að innsigla sigurinn og fengu SR-ingar fyrsta markið í framlengingu og loka staðan því 6-7 fyrir SR-ingum.

Við þökkum Sr-ingum fyrir heimsóknina og hörku spennandi og skemmtilegan íshokkíleik.