Jólaskákæfing Fjölnis var fjölmenn enda margt í boði fyrir utan taflmennskuna. Fjörutíu Grafravogskrakkar mættu til leiks og tefldu fimm umferða skákmót. Í skákhléi var boðið upp á góðar veitingar og ávaxtadjús. Einbeiting og virðing eru þau tvö orð sem við höfum valið skákæfingunum að undanförnu og þessi tvö orð svínvirka. Eftir jafnt og spennandi skákmót voru allir krakkarnir leystir út með jóla-nammipoka. Þau hjónin og Grafarvogsbúarnir Steini og Vala borgarfulltrúi hafa undanfarin ár séð um jólaglaðning á jólaskákæfingum og hafa sendingar þeirra fallið í kramið hjá okkar áhugasömu skákkrökkum. Glæsilegt skákár er að baki hjá Skákdeild Fjölnis, fjölmennar æfingar og fyrsta sætið á Íslandsmóti félagsliða að loknum fyrri hluta mótsins. Fyrsta skákæfingin á nýju ári verður fimmtudaginn 10. janúar kl. 16:30 í Rimaskóla.