Um helgina var haldið Íslandsmót barna og unglinga ásamt Íslandsmeistaramóti í Egilshöllinni. Mótið var allt hið glæsilegasta. Á laugardeginum hófst keppni hjá keppnisflokkum Chicks og Cubs. Þessir ungu og efnilegu skautarar stóðu sig mjög vel og var öllum keppendum veitt viðurkenning að keppni lokinni. Næst var keppt í flokki Basic Novice.

Mjótt var á milli tveggja efstu þar sem Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir úr SA vann með 26.71 stig, í öðru sæti var Kristín Jökulsdóttir frá SR með 26.43 stig og í þriðja sæti var Rakel Sara Kristinsdóttir úr Fjölni með 20.43 stig. Í Keppnisflokki Intermediate Novice voru það tvær Fjölnisstúlkur sem voru í efstu sætunum þar sem Valdís María Sigurðardóttir var í fyrsta sæti með 24.33 stig, í öðru sæti var Harpa Karin Hermannsdóttir með 24.18 stig og í þriðja sæti var Ólöf Thelma Arnþórsdóttir úr SR með 23.41 stig.

Á laugardeginum lauk einnig keppni í flokknum Intermediate Ladies. Þar stóð Berglind Óðinsdóttir úr Fjölni sem sigurvegari með 36.66 stig, Elísabet Ingibjörg Sævarsdóttir úr SA var í öðru sæti með 34.41 stig og Sólbrún Víkingsdóttir úr Fjölni var í þriðja sæti með 32.19 stig.

Keppendur í flokkum Advanced Novice, Junior og Senior skautuðu stutta prógramið sitt í lok laugardagsins. Þessir keppendur komu svo aftur og kepptu í frjálsa prógraminu á sunnudeginum. Að keppni lokinni var það Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir úr SA sem stóð uppi sem Íslandsmeistari í keppnisflokki Advanced Novice með hvorki meira né minna en 106.07 stig samanlagt úr báðum prógrömum, aldeilis frábær árangur hjá henni. Í öðru sæti var Rebekka Rós Ómarsdóttir úr SR með 74.64 stig og Herdís Heiða Jing Guðjohnsen úr SR í þriðja sæti með 74.21 stig. Íslandsmeistari í keppnisflokki Junior var Marta María Jóhannsdóttir úr SA með samanlagt 103.10 stig, í öðru sæti var Aldís Kara Bergsdóttir úr SA með 100.51 stig og í þriðja sæti var Viktoría Lind Björnsdóttir með 91.71 stig.

Íslandsmeistari í keppnisflokki Senior var Margrét Sól Torfadóttir úr SR með samanlagt 102.25 stig og í öðru sæti var Eva Dögg Sæmundsdóttir úr Fjölni með 86.97 stig. Óskum við þeim ásamt öllum keppendum mótsins til hamingju með frammistöðu sína um helgina.