Pepsi Max deild karla

6. umferð

KA – Fjölnir

Mánudaginn 13. júlí kl. 18:00 á Akureyrarvelli

Eftir tapið gegn Gróttu í síðustu umferð situr Fjölnir í neðsta sæti Pepsi Max deildarinnar, einu stigi á eftir KA sem er komið í fallsæti eftir 4-1 tap gegn Fylki í síðustu umferð. Það er öllum Fjölnismönnum ljóst að upphaf tímabilsins hefur verið gríðarleg vonbrigði. Eftir fimm umferðir hefur Fjölnir náð í eitt stig, það er versta stigasöfnun Fjölnis á þessum tímapunkti í Íslandsmóti a.m.k. frá aldamótum (undirrituðum gafst ekki tími til að grafa upp úrslit fyrir aldamót). Við enda ganganna hlýtur að leynast ljós. Andstæðingar okkar í næsta leik hafa heldur ekki hafið Íslandsmótið með neinum glæsibrag. KA tapaði í síðustu umferð fyrir Fylki, 4-1. Hinn tapleikur KA í sumar kom gegn ÍA. Báðir heimaleikir KA í sumar hafa endað með jafntefli, gegn Víkingi og Breiðabliki. KA hefur leikið leik færra en flest önnur lið. Það er morgunljóst að um gríðarlega mikilvægan leik er að ræða á mánudaginn kemur. Reikna má með því að fyrirliði Fjölnis, Hans Viktor Guðmundsson, byrji leikinn gegn KA. Leikurinn verður hundraðasti leikur hans á ferlinum. Hans Viktor hefur alla tíð leikið með Fjölni.

Fyrri viðureignir félaganna

Fjölnir þekkir það ágætlega að snúa við afleitri byrjun með sigri á Akureyrarvelli. Tímabilið 2007, þegar Fjölnir tryggði sér sæti í A-deild í fyrsta sinn, hófst með miklum vonbrigðum. Eftir að Fjölnir hafði einungis nælt sér í eitt stig í fyrstu þremur leikjum Íslandsmótsins árið 2007 unnu okkar menn stórsigur á KA, 0-6. Eftir þann sigur var ekki aftur snúið. Fjölnir flaug upp um deild og í bikarúrslit það ár. Nú er ekki annað í boði en að endurtaka leikinn frá árinu 2007 og gera ferð á Akureyrarvöll að vendipunkti tímabilsins. Þá er tími til kominn að Fjölnir leggi KA í efstu deild. KA, og nú Grótta, eru þau lið sem Fjölnir hefur mætt í A-deild en aldrei unnið á þeim vettvangi. KA og Fjölnir hafa mæst fjórum sinnum í A-deild. Báðir leikirnir í Grafarvogi hafa endað með jafntefli en KA unnið leikina tvo á Akureyri. Í deildarkeppnum hafa KA og Fjölnir leikið átján leiki. Liðin hafa unnið sitt hvora sjö leikina. Fjórar viðureignir Fjölnis og KA hafa endað með jafntefli.

Tengingar á milli Fjölnis og KA

Nokkur tengsl eru á milli Fjölnis og KA. Þjálfari KA-manna, Óli Stefán Flóventsson, lék með Fjölni með góðum árangri tímabilið 2008. Tíu árum síðar lék núvernadi fyrirliði KA, Almarr Ormarsson, með Fjölni. Tveir fyrrverandi formenn knattspyrnudeildar Fjölnis, þeir Árni Hermannsson og Kristján Einarsson ólust upp í KA og léku með félaginu. Þá lék Torfi Tímoteus Gunnarsson með KA sem lánsmaður á síðustu leiktíð. Ekki er hægt að minnast á tengingar KA og Fjölnis án þess að nefna Gunnar Val Gunnarsson sem ólst upp hjá Akureyrarliðinu. Að frátöldum tveimur tímabilum með KA og nokkrum leikjum með Vængjum Júpíters lék Gunni Valur allan sinn meistaraflokksferil með Fjölni. Aðeins Guðmundur Karl Guðmundsson og Gunnar Már Guðmundsson hafa leikið fleiri leiki fyrir félagið okkar en Gunni Valur. Alls lék Gunnar Valur 204 leiki fyrir Fjölni og er nú einn liðstjóra Fjölnisliðsins. Í baráttunni sem framundan er á yfirstandandi tímabili er nauðsynlegt að Fjölnismenn tileinki sér leikstíl Gunnars Vals Gunnarssonar sem einkenndist af þrautsegju, fórnfýsi og ástríðu.

Snúum bökum saman og styðjum lið okkar til sigurs. Áfram Fjölnir!

Miðasala á leikinn er hafin. Nánar hér.

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

21 – Christian Sivebæk

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson

 

Sjá einnig:

Fyrri viðureignir félaganna