Pepsi Max deild karla
18. umferð
FH – Fjölnir
Sunnudaginn 27. september kl. 14:00 í Kaplakrika

Næst liggur leið okkar Fjölnismanna í Kaplakrika. Fjölnir situr á botni deildarinnar með sex stig, níu stigum frá Víkingi sem er í næsta örugga sæti. Sex leikir eru eftir af mótinu. Vonin um að Fjölnir haldi sæti sínu í deild þeirra bestu veikist með hverjum leik sem ekki vinnst. Veika vonin lifir á meðan enn er tölfræðilegur möguleiki á að lifa af. Fyrst og síðast þarf Fjölnir að spila upp á stoltið í þeim leikjum sem eftir eru. Aðeins einu sinni áður hefur lið lokið tímabili með innan við tíu stig í tólf liða A-deild, það var lið Keflavíkur sem féll fyrir tveimur árum síðan með fjögur stig.

FH er í öðru sæti deildarinnar. Bæði lið töpuðu á heimavelli í síðustu umferð, Fjölnir fyrir ÍA, 1-3, og FH fyrir Val, 1-4. Fyrri leik FH og Fjölnis í sumar lauk með 0-3 sigri Hafnfirðinga. Nánar er vikið að fyrri viðureignum liðanna í upphitunarpislti fyrir leik liðanna í ár. Enginn leikmanna Fjölnis verður í leikbanni á sunnudag. FH-ingurinn Guðmann Þórisson verður hins vegar í leikbanni eftir að hafa fengið rautt spjald í síðasta leik.

Sjáumst á vellinum. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson