Íslandsmót í hópfimleikum og stökkfimi
Íslandsmót í hópfimleikum lauk núna um helgina með keppni hjá 3.-2.flokki. Mótið var haldið í Aftureldingu og var öll umgjörð mótsins til fyrirmyndar.
Fjölnir átti fjögur lið á mótinu sem náðu öll frábærum árangri og framförum frá síðustu mótum. Félagið skilaði inn tveimur Íslandsmeistaratitlum heim um þessa helgi.
Í lok apríl fór fram fyrri hluti Íslandsmótsins, keppt var í strákaflokkum, yngri og eldri og 5.-4.flokk. Fimm lið frá Fjölni kepptu í þessum hluta mótsins og var helgin skemmtileg og dýrmæt reynsla í bankann hjá öllum.
Öll lið okkar í A-deild og KK-yngri hafa því fengið þátttökurétt á Deildarmeistaramóti í hópfimleikum sem fer fram í júní.
Við viljum óska iðkendum, þjálfurum og foreldrum til hamingju með einstakan árangur Fjölnis í vetur.
Hér má sjá lið frá Fjölni sem náðu verðlaunasæti á Íslandsmóti 2019.
Fjölnir KK-Yngri – Íslandsmeistarar
Fjölnir KK – Eldri – 3.sæti
Fjölnir 5.flokkur – 2.sæti
Fjölnir 4.flokkur A – 3.sæti
Fjölnir 3.flokkur A – Íslandsmeistarar
Fjölnir 3.flokkur B – 4.sæti
Fjölnir 2.flokkur A – Íslandsmeistarar
Fjölnir 2.flokkur B – 2.sæti
Fréttir af leikmannahópi meistaraflokks kvenna
Meistaraflokksráð kvenna heldur áfram að styrkja liðið fyrir komandi átök í Grill 66 deildinni.
Á dögunum skrifuðu tveir leikmenn undir samning við félagið.
Victoria Þorkelsdóttir (f.1998) framlengir samning sinn eftir að hafa komið til félagsins sumarið 2017. Hún spilaði sig inn í stórt hlutverk varnarlega á síðasta tímabili og var hún saman með Guðrúnu akkeri í vörn liðsins á nýafstöðnu tímabili. Victoria er frábær liðsmaður og fyrirmynd fyrir yngri stelpur. Við bindum miklar vonir við áframhaldandi framfarir hjá henni.
Eyrún Ósk Hjartardóttir (f.1998) kemur til liðs við liðið frá Fylki. Hún getur leyst af bæði horn og því mun hún nýtast liðinu vel. Hún hefur alla tíð leikið með Fylki og spilaði lykilhlutverk í Grill 66 deildinni tímabilið 2017/2018. Við hlökkum til að sjá hana í Fjölnisbúningnum.
Formaður kosinn í stjórn hkd
Á aukaðalfundi handknattleiksdeildar þriðjudaginn 7.maí kl. 19:00 var nýr formaður stjórnar kosinn.
Davíð Arnar Einarsson bauð sig fram og var því sjálfkjörinn. Mikil ánægja er með að hafa lokið leitinni að formanni deildarinnar. Að auki bætast tveir meðstjórnendur við; Guðrún Birna Jörgensen og Magnús Þór Arnarson.
Það eru spennandi tímar framundan með karlalið í efstu deild, áframhaldandi uppbyggingu kvennaliðsins og öflugu barna- og unglingastarfi.
Stjórn deildarinnar má sjá HÉR
Viðburðarík helgi að baki
Það má með sanni segja að um stóra helgi hafi verið að ræða fyrir #FélagiðOkkar.
Íslandsmeistarar, sigur í fyrsta leik í Inkasso, mótahald og vorsýning á svellinu er flokkar og deildir félagsins iðuðu af lífi.
Fjölnir er stórt félag, með frábæra aðstöðu, sjálfboðaliða úr öllum áttum og umgjörð á hæsta stigi.
Íslandsmeistarar í 3.fl karla í handbolta og 8.fl karla í körfubolta
Fjölnir eignaðist Íslandsmeistara í handbolta og körfubolta í gær.
3.fl karla í handbolta lék gegn Val í úrslitum við mikinn fjölda áhorfenda í Kaplakrikanum. Strákarnir höfðu undirtök allan leikinn og þrátt fyrir gott áhlaup Valsmanna í seinni hálfleik, tryggðu strákarnir okkar sigurinn í lokin. Lokatölur 23-20 og er niðurstaða tímabilsins frábær; Íslands- og bikarmeistarar.
8.fl karla í körfubolta lék á heimavelli í úrslitum A riðils. Fjölmargir lögðu leið sína í Dalhúsin og það hefur greinilega gefið strákunum okkar aukinn kraft enda Nánast fullt hús var báða leikdaga og svo fór að strákarnir okkar unnu alla 4 leiki sína og þar með tryggðu þeir sér Íslandsmeistarartitilinn.
Sigur í fyrsta leik í Inkasso deild karla
Allar aðstæður voru frábærar fyrir góðan fótbolta. Grasið grænt, Kárapallurinn klár og sólin skein. Það má með sanni segja að strákarnir okkar höfðu góð tök á leiknum og uppskáru tvo flott mörk, frá þeim Alberti Brynjari Ingasyni og Hans Viktori Guðmundssyni. Gestirnir náðu reyndar að klóra í bakkann í lok leiks en niðurstaðan var góður 2-1 sigur fyrir framan rúmlega 500 manns á Extra-vellinum.
Mótahald í Dalhúsum og Fjölnishöllinni
Það var mikið um að vera í báðum íþróttahúsum Fjölnis alla helgina þegar fjölliðamót í 6.fl karla yngra ár í handbolta og úrslitakeppni A-riðils í 8.fl karla í körfubolta fóru fram. Það má áætla að um 1000 manns hafi komið í íþróttahúsum Fjölnis þar sem fjörið var mikið. Fjöldinn allur af sjálfboðaliðum sá til þess að öll umgjörð var með besta móti.
Vorsýning skautaskólans
Skautaskóli Fjölnis hélt frábæra vorsýningu á laugardaginn þar sem iðkendur sýndu listir sínar undir merkjum fjölmargra þjóða og fóru með áhorfendum heimshornanna á milli.
Myndir: Baldvin B., Þorgils G. og Gunnar Jónatansson
Sumarskákmót Fjölnis
Sumarskákmót Fjölnis í Rimaskóla laugardaginn 11.maí
Hið árlega sumarskákmót Fjölnis fer fram í hátíðarsal Rimaskóla laugardaginn 11.maí og hefst kl. 11:00. Mótinu lýkur með verðlaunahátíð og happdrætti kl. 13:15.
Keppt er um verðlaunagripi sem Rótarýklúbbur Grafarvogs gefur til mótsins og fjölda áhugaverðra vinninga; pítsur, bíómiða og 66°N húfur.
Mótið er ætlað öllum grunnskólabörnum og er þátttakan ókeypis.
Þátttakendum er bent á að mæta tímanlega til skráningar, 10 – 15 mínútum fyrir mót.
Tefldar verða 6 umferðir með 5 mínútna umhugsunartíma.
Í skákhléi býðst þátttakendum og foreldrum að kaupa veitingar á 250 kr, drykkur, prins póló og kex.
Skákmót Fjölnis eru skemmtileg og allar aðstæður á keppnisstað einstaklega góðar fyrir keppendur og foreldra.
Fjölmennum á síðasta skákmót skólaársins. Mætum í Rimaskóla 11.maí kl. 11:00.
Karen Birna framlengir
Penninn er á lofti hjá meistaraflokki kvenna þessa dagana.
Karen Birna Aradóttir hefur framlengt samning sinn við félagið.
Þetta eru góðar fréttir fyrir liðið og mikilvægt í áframhaldandi uppbyggingu meistaraflokks kvenna.
Karen átti oftar en ekki frábæra frammistöðu í leikjum liðsins í vetur og þá sérstaklega eftir áramót þegar liðið fór á flug.
Hún er einn af reyndari leikmönnum liðsins með 64 deildarleiki í meistaraflokki.
Sigur á ÍR í Mjólkurbikarnum
Strákarnir eru komnir áfram í Mjólkurbikarnum eftir sannfærandi 1-3 sigur gegn ÍR á Hertz vellinum í gær.
Þeir verða því með í pottinum þegar dregið verður í 16 liða úrslit.
Mörk Fjölnis skoruðu þeir Guðmundur Karl Guðmundsson (2) og Jóhann Árni Gunnarsson (1).
Lesa má meira um leikinn á Fótbolti.net
#FélagiðOkkar
Bjarnarbúðin styrkir íshokkístarfið
Með kjörútsýni yfir svellið, situr Bjarnarbúðin og tekur á móti foreldrum og iðkendum hvern æfingardag og á heimaleikjum íshokkídeildarinnar Fjölnir-Björninn. Þar er manni ávallt mætt með brosi og úr hefur orðið viss félagsmiðstöð þar sem foreldrar geta komið saman, horft á æfingar barnanna sinna með kaffibolla í hönd, hlegið saman og rætt saman um heima og geima. Bjarnarbúðarkonurnar sjá til þess að ýmiss hokkívarningur sé fáanlegur en engin sambærileg verslun er á höfuðborgarsvæðinu.
Allir þessir kaffibollar og ágóði af sölu hokkívarnings og matar hafa orðið til þess að nú fengu iðkendur ýmiss konar æfingarbúnað gefins frá Bjarnarbúðinni. Það er mikil lukka að fá búnað sem þennan til að nota til æfinga, bæði á ís og á þrekæfingum. Bjarnarbúðin hefur einnig keypt búnað og brynjur fyrir okkar yngstu iðkendur. Við í íshokkídeildinni erum afar þakklát fyrir þennan styrk til okkar, og krakkarnir svo sannarlega glaðir með nýjar leiðir til æfinga.
Á fyrri myndinni má sjá aðalþjálfara okkar, Alexander Medvedev, taka á móti styrk Bjarnarbúðarinnar sem afhentur var af þeim konum sem taka brosandi á móti foreldrum og iðkendum dag hvern (frá vinstri til hægri: Kristín Fossdal, Guðbjörg Gunnarsdóttir, Alexander Medvedev, Heiðrún Kristín Lúðvíksdóttir og Sigríður Hafdís Baldursdóttir).
Á seinni myndinni má sjá iðkendur í 3. flokki vera að prófa okkar nýju „slide boards“ sem við fengum að gjöf.
Finna má Bjarnarbúðina á Facebook hér : Bjarnarbúðin
Fyrir hönd íshokkídeildarinnar vil ég þakka Bjarnarbúðinni kærlega fyrir þessa kærkomnu gjöf og styrk til barna- og unglingastarfsins,
Hilja Guðmunds, formaður stjórnar.
Vinningaskrá happdrættis
Því miður voru gerð mistök í fyrri útdrætti og því þurfti að ógilda hann. Við biðjumst velvirðingar á þessum mistökum. Nýjan og gildandi útdrátt má sjá HÉR.
Hægt er að nálgast vinninga á skrifstofu Fjölnis frá og með mánudeginum 6.maí á milli kl. 9-16 frá mánudegi til fimmtudags.
Við þökkum kærlega fyrir stuðninginn. Áfram Fjölnir.