Landsmót UMFÍ 50+

Landsmót UMFÍ 50+ verður að þessu sinni haldið í Neskaupstað dagana 28. – 30.júní. Mótið er blanda af íþróttakeppni og annarri skemmtun þar sem fólk á besta aldri hefur gaman saman. Mótið er opið öllum þátttakendum sem verða 50 ára á árinu og eldri. Keppt verður í 16 íþróttagreinum. Þar á meðal í boccía, golfi og pútti, línudansi, ringó og pönnukökubakstri sem fyrir löngu er orðin klassísk grein. En nýjungar verða á mótinu eins og keppni í lomber, pílukasti og garðahlaupi sem er opið fyrir 18 ára og eldri. Ekki þarf að vera skráð/ur í íþrótta- eða ungmennafélag. Þátttökugjald á mótið er 4.900 krónur. Fyrir eitt gjald er hægt að skrá sig í margar greinar.

Nánari upplýsingar um keppnisgreinar og skráning á vefslóðinni: https://www.umfi.is/verkefni/landsmot-50plus/


Alana Elín gengur til liðs við Fjölni

Línumaðurinn Alana Elín Steinarsdóttir hefur skrifað undir samning við meistaraflokk kvenna í handbolta. Alana kemur frá FH en hefur verið í stuttu hléi frá handboltanum.

Sigurjón þjálfari hafði þetta að segja um undirskriftina:

„Ég er gríðarlega ánægður með að Alana hafi ákveðið að taka slaginn með okkur. Hún er fjölhæfur sóknarmaður sem mun gefa okkur mikið í baráttunni á næsta tímabili og smellpassar inn í okkar unga og efnilega hóp“.

Frekari frétta er að vænta af leikmannamálum á næstkomandi dögum.


Fimleikaþrek fyrir 12-15 ára

Fimleikadeild Fjölnis ætlar að bjóða uppá fimleikaþrek fyrir alla á aldrinum 12-15 ára í júní. Ekki eru gerðar kröfur um grunn í fimleikum og því er námskeiðið opið fyrir alla áhugasama.

Uppsetning námskeiðs

  • Markmiðasetning
  • Þrek og teygjur
  • Almenn fræðsa um heilbrigðan lífsstíl

Námskeiðið hefst þriðjudaginn 11.júní og er kennt alla virka daga.
Hægt að skrá sig á eina viku í senn eða allt námskeiðið í heild.

Skráning er opin HÉR 

 

 


Hera Björk fyrir hönd Íslands

Hera Björk Brynjarsdóttir úr tennisdeild Fjölnis tók þátt á Smáþjóðaleikunum sem fóru fram í Svartfjallalandi dagana 27.maí til 1.júní.

Hera Björk sem er nýlega komin heim eftir tímabil með tennisliði Valdosta Sate í Georgíu, keppti á móti Marie Anne Weckerle frá Lúxemberg. Hera þurfti að lúta í lægra haldi 2:0.


Góður árangur á Reykjavíkurmótinu

Opna Reykjavíkurmótið í tennis fór fram á dögunum og náðist þar frábær árangur meðal iðkenda Fjölnis.

Egill G. Egilsson og Ólafur Helgi Jónsson unnu í liðakeppni meistaraflokks og 30 ára og eldri.

Eygló Dís Ármannsdóttir vann í einliða í U-14 og tvíliða með Saule Zukauskaite, en síðarnefnda varð í 2.sæti í einliða.

Eygló lenti einnig í 2.sæti í einliða í U-16. Enn fremur vann hún einliða í 7.bekk á Grunnskólamóti Reykjavíkur.

Helgi Espel Lopez vann í einliða í U-14 og lenti í 2.sæti í tvíliða með Paul Cheron.

Að lokum varð Fjölnir í 2.sæti í meistaraflokki kvenna.

Glæsilegur árangur hjá iðkendum tennisdeildar.


Vormót Fjölnis

Vormót Fjölnis var haldið á Laugardalsvelli 3.júní. Mótið gekk vel í alla staði þó að veðrið væri frekar hvasst og kalt þrátt fyrir sól. Góð þátttaka var á mótinu en 115 keppendur tóku þátt á aldrinum 11-15 ára. Keppnisgreinar voru fjórar í hverjum aldursflokki; spretthlaup, langstökk , kúluvarp og 600 eða 800 m hlaup. Keppt var í aldursflokkunum 11 ára, 12-13 ára og 14-15 ára. Fjölnisiðkendur stóðu sig með miklum sóma og nokkur unnu til verðlauna, en  8 keppendur frá Fjölni voru á mótinu.

Sara Gunnlaugsdóttir 14 ára vann gull í 800 m hlaupi og langstökki í flokki stúlkna 14-15 ára.

Aman Axel Óskarsson 13 ára vann silfur í kúluvarpi og brons í langstökki pilta 12-13 ára.

Júlíus Helgi Ólafsson 11 ára vann silfur í langstökki pilta 11 ára.

Sturla Yafei Chijioke Anuforo vann silfur í 60 m hlaupi pilta 11 ára.

Öll úrslit mótsins eru hér.

Á myndinni er Sara Gunnlaugsdóttir.


Skráningar á sumarnámskeið félagsins í fullum gangi

Skráningar á sumarnáskeið félagsins eru í fullum gangi.

Fjölbreytt úrval námskeiða er í boði hjá deildum félagsins.  Sjá allar upplýsingar um námskeið HÉR.

Allar skráningar á námskeið og æfingar félagsins eru rafrænt í Nóra, skráningakerfi félagsins https://fjolnir.felog.is/

 


Íshokkí æfingabúðir fyrir 11 ára+

Íshokkídeild verður með æfingabúðir fyrir 11 ára og eldri í sumar. Boðið verður upp á fimm námskeið.

11. - 15. júní.

18. - 22. júní.

24. - 29. júní.

6. - 10. ágúst.

12. - 17. ágúst.

Opnar fyrir skráningar 3.júní, skráningar í Nóra skráningarkerfi félagsins https://fjolnir.felog.is/


Frábær þátttaka í Fjölnishlaupinu

Fjölnishlaupið var haldið á uppstigningardag fimmtudaginn 30. maí í frábæru sumarveðri. Er þetta 31. hlaupið sem Fjölnir heldur. Hlaupið var haldið við Íþróttamiðstöðina Dalhúsum og var 10km hlaupið ræst kl 11. Skömmu síðar var 5km hlaupið ræst og að lokum skemmtiskokkið sem var 1,4km langt. Frábær þátttaka var í hlaupinu en alls tóku þátt 135 keppendur í 10km, 84 keppendur í 5km og 66 keppendur í skemmtiskokkinu. Flögutímataka var í öllum vegalengdum og 5km og 10km brautirnar voru löglega mældar. 10km hlaupið var jafnframt Íslandsmeistaramót í 10km götuhlaupi. Verðlaunafhendingin fór fram inni í íþróttasalnum og var þar góð stemning þegar fjölmörg útdráttarverðlaun voru dregin út.

Í 10km hlaupinu sigraði Þórólfur Ingi Þórsson ÍR á tímanum 33:56, annar varð Vignir Már Lýðsson ÍR á tímanum 34:38 og þriðji varð Vilhjálmur Þór Svansson á tímanum 35:30. Í kvennaflokki sigraði Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir UFA á tímanum 39:29, önnur varð Fríða Rún Þórðardóttir ÍR á tímanum 39:46 og þriðja varð Fjölniskonan Helga Guðný Elíasdóttir á tímanum 40:33.

Í 5km hlaupinu sigraði Alfredo Caballero Benitez karlaflokkinn og Rakel Jensdóttir sigraði kvennaflokkinn. Í skemmtiskokkinu sigraði Rafael Máni Þrastarson karlaflokkinn og Aldís Tinna Traustadóttir sigraði kvennaflokkinn.

Frjálsíþróttadeild Fjölnis og Hlaupahópur Fjölnis stóðu að hlaupinu og tókst hlaupahaldið mjög vel.

Öll úrslit úr hlaupinu má sjá inná hlaup.is.

Myndir frá hlaupinu má sjá á facebooksíðu Frjálsíþróttadeildar Fjölnis. Myndirnar tók Baldvin Örn Berndsen hjá grafarvogsbuar.is

Á myndunum eru sigurvegararnir í 10km hlaupinu, Þórólfur og Sigþóra, sem jafnframt eru Íslandsmeistarar í 10km götuhlaupi 2019 og hlauparar í 10km hlaupinu.


Wim Hof námskeið

Sunddeild Fjölnis stendur fyrir Wim Hof námskeiði í júní.

Allar upplýsingar hér til hægri.