Sumarstörf 2023 fyrir 15-25 ára

Líkt og fyrri ár munum við hjá Fjölni bjóða upp á fjölbreytt sumarstörf í tengslum við vinæslu sumarnámskeiðin okkar.

HÉR er umsóknareyðublað sem allir þurfa að fylla út til þess að sækja um starf.

ATH! 17-25 ára þurfa líka að fylla út umsókn í gegnum Hitt húsið. HÉR er hlekkur á þá slóð.

Umsóknarfrestur hjá Hinu húsinu er til 15. apríl.

Við hvetjum öll áhugasöm til þess að sækja um!


Skert þjónusta við skautafólk

Frímann Ari Ferdinandsson formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur hefur fært Ungmennafélaginu Fjölni þau ótíðindi að menningar- íþrótta- og tómstundaráð hafi ákveðið að loka fyrir aðstöðu til skautaiðkunar í Egilshöll í júní næstkomandi.

Undirrituð eru forviða yfir þessari fregn og lýsa yfir miklum áhyggjum vegna hennar. Ákvörðunin kemur eins og reiðarslag í andlit forsvarsmanna og iðkenda þar sem gengið var út frá því að þjónusta við þá yrði eins og verið hefur undanfarin ár. Það er álit undirritaðra að gangi lokunin eftir sé verið að mismuna iðkendum einstakra íþróttagreina.

Það er mat undirritaðra að sparnaður sé takmarkaður í ljósi þess að svellinu þarf að halda frosnu í sumar hvort sem æft er á því eða ekki, því er óraunhæft að telja þetta sem hagræðingu. Fyrir Fjölni yrði lokunin mikið tekjutap þegar æfingagjöld falla niður og þjálfarar nýtast ekki til þeirrar vinnu sem þeir eru ráðnir til.

Niðurskurður mun hafa mikil áhrif á starfsemi Fjölnis til æfinga og á sumarnámskeiða fyrir listskauta og íshokkí. Undanfarin sumur hefur Fjölnir haldið úti sumarbúðum fyrir eldri iðkendur í framhaldshópum, ásamt því að sumarstarfið hefur laðað til sín áhugasama úr öðrum félögum. Á sumarnámskeiði fyrir iðkendur í 1. – 4. bekk hefur verið boðið upp á heildstæða dagskrá sem hefur reynst vel og verið mjög eftirsótt. Fyrir utan hversu mikil forvörn felst í góðum anda og samskiptum þátttakenda.

Listskautadeild Fjölnis hefur með markvissri uppbyggingu á starfseminni náð góðum árangri, nú síðast í vor þegar bikarmeistaratitli var náð.

Ólíkt öðrum íþróttum þá er ekki hægt að vera utandyra að sumri til. Við gætum því boðið iðkendum SR í sumarbúðir okkar ásamt því að eldri iðkendur hafa tök á því að æfa sína íþrótt.

Undirrituð fara þess hér með á leit að menningar- íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur
dragi ákvörðun sína um lokun til baka þannig að iðkendur listskauta og íshokkí geti stundað sína íþrótt eins og áformað hefur verið. Meðfylgjandi er mynd af framhaldshópum Fjölnis sem urðu bikarmeistarar ÍSS fyrir 2 vikum á Akureyri í fyrsta skipti síðan félagið var stofnað.

Virðingarfyllst,

formaður Fjölnis
Jón Karl Ólafsson

varaformaður Listskautadeildar Fjölnis
Tinna Arnardóttir

framkvæmdastjóri Fjölnis
Guðmundur L. Gunnarsson

íþróttastjóri Fjölnis
Arnór Ásgeirsson


Halldór Snær á leið með U19 á lokakeppni EM

Íslenska U19 ára landsliðið tryggði sér sæti í lokakeppni EM sem fram fer á Möltu 3-16.júlí.

 

U19 landsliðið gerði sér lítið fyrir og vann riðillinn sinn með 7 stig. Þeir gerðu jafntefli við Tyrki 1-1, unnu Englendinga 1-0 og í gær unnu þeir Ungverjaland 2-0 en okkar maður Hilmir Rafn, uppalinn Fjölnismaður sem er nú leikmaður Venezia en á láni hjá Tromsø, skoraði annað mark Íslenska liðsins og gulltryggði sigurinn og í leiðinni miðann á EM!

 

Halldór og Hilmir eru mikilvægir hlekkir í U19 landsliðinu og er Knattspyrnudeild Fjölnis gífurlega stolt af þeim báðum og þeirra framförum!

 

Til hamingju Halldór og Hilmir og til hamingju Ísland!

 

#FélagiðOkkar 💛💙


Kveðja til þín Addi!

–> Birt með leyfi frá fjölskyldu Adda ❤️

Kveðja frá handknattleiksdeild Fjölnis,
Kæra fjölskylda og vinir Stefáns Arnars Gunnarssonar.

Kæri Addi!
Þú komst til félagsins vorið 2014. Þitt hlutverk var að taka við ungu liði sem saman stóð að mestu af uppöldum Fjölnismönnum og stýra liðinu upp á næsta stig. Það tókst þér svo sannarlega að gera. Það eru enn rifjuð reglulega upp úrslitaeinvígin sem háð voru vorin 2015 og 2016, þvílík var stemningin, þvílíkt var fjörið. Vorið 2017 vann liðið svo Grill deildina og tryggði sér sæti í Olís deildinni í fyrsta sinn og ekki var gleðin minni þá.
Þú lést oft í þér heyra, hvort sem var innan vallar eða utan, við leikmenn eða stjórn deildarinnar. Þú gagnrýndir það sem ekki var nógu gott, barðist fyrir betri aðstöðu fyrir deildina og hafðir gríðarlegan metnað fyrir liðinu. Það féll ekki vel í kramið hjá öllum eins og gerist og gengur.
Þú varst að sama skapi mikill leiðbeinandi fyrir unga og upprennandi handknattleiksmenn, jafnt innan vallar sem utan. Þeir hugsa til þín með hlýju og eru eftirfarandi ummæli leikmanna um þig, dæmi um það:
• Addi var frábær þjálfari, drífandi metnaðarfullur og með mikla leiðtogahæfileika.
• Addi lagði ekki bara metnað sinn í það að við Fjölnismenn værum góðir handboltamenn hvort sem það væri tæknilega eða hversu sterkir við værum heldur óskaði hann þess heitast að við næðum árangri í lífinu.
• Hann vildi að við myndum leggja allan okkar metnað í að stunda námið okkar og kom ekkert annað til greina hjá honum en að við kláruðum skólann meðfram handboltanum.
• Addi var fljótur að grípa inn í þegar hann sá að okkur leið illa eða áttum erfiða daga og hvatti okkur til dáða að halda áfram og einbeita okkur að styrkleikum og vinna í veikleikunum.
• Addi var einstaklega góður hlustandi og reyndist okkur öllum mjög vel í persónulegum verkefnum.
• Addi samgladdist okkur líka vel og innilega þegar okkur gekk vel og hurfum jafnvel á braut í annað félag og heyrði reglulega í okkur til að kanna hvernig við hefðum það.
Þá hugsa foreldrar líka til þín með hlýju og er eftirfarandi haft eftir móður leikmanns sem þú þjálfaðir:
• „Ég mun líklega aldrei gleyma því þegar Addi hafði samband á laugardegi um verslunarmannahelgi og tjáði mér að hann hefði áhyggjur af því að tveir leikmenn væru að leggja son minn í einelti. Addi sagðist myndu fylgjast með þessu á og í kringum æfingar og leiki en vildi upplýsa mig um stöðuna. Addi tæklaði þetta mál svo með samtölum við piltana svo úr leystist farsællega.“
Brotthvarf þitt frá félaginu var því miður ekki til fyrirmyndar. Það varð uppþot sem margir í handboltaheiminum muna sjálfsagt eftir. Þú lentir þar í hringiðu sem gerði starf þitt klárlega mun erfiðara en það hefði þurft að vera. Orð voru sögð, ákvarðanir teknar sem særðu og þykir okkur það afskaplega miður.
En við sem störfuðum með þér vitum líka að þú ert gríðarleg tilfinningavera en hefur, til að verja þig, reist í kringum þig girðingu sem þú hleyptir ekki mörgum í gegnum en eftir veru þína hjá félaginu eignaðist þú þó vini sem hafa alla tíð staðið með þér.
Við hjá handknattleiksdeild Fjölnis sendum þér hlýju og þökkum fyrir tímann okkar saman. Þú ert einstakur. Handboltaheimurinn verður fátækari án þín.
Kæra fjölskylda og vinir Adda, við hugsum til ykkar á þessum erfiða tíma. Gangi ykkur sem allra best að takast á við þá miklu óvissu og sorg sem ríkir. Við erum öll ríkari að hafa kynnst Adda.

Ljósmynd: Þorgils G / Fyrsti sigur liðsins í Olís deildinni, 26. nóvember 2017

#FélagiðOkkar


Listskautadeild Fjölnis bikarmeistarar 2023

Vormót ÍSS í listskautum fór fram á Akureyri um helgina. Keppendurnir okkar stóðu sig mjög vel og óskum við þeim öllum til hamingju 👏

Í Intermediate Woman náðu Fjölnisstelpurnar Rakel Sara 3. sæti og Tanja 1. sæti.

Í flokknum Basic Novice náðum við öllum 3 sætunum en Arna Dís varð í 3. sæti, Berglind Inga í 2. sæti og Elín Katla í 1. sæti.

Í Junior Women varð Lena Rut í 1. sæti
Í Senior Women varð Júlía Sylvía í 1. sæti

Einnig var keppt í fyrsta skipti í flokknum Senior Men en það var Alessandro Fadini sem nýlega gekk til liðs við Fjölni. En heildarstig hans um helgina voru 169,86.

Í lok Vormóts ÍSS í dag varð ljóst hvaða félag hreppti titilinn Bikarmeistarar ÍSS 2023 og var það listskautadeild Fjölnis sem fangaði þann titil.

Einnig var keppt í félagalínu en þar hreppti Edil Mari í 1. sæti í flokki 12 ára og yngri.


Meistaraflokkur Fjölnis kvenna er nýkominn úr frábærri æfingarferð frá Pinatar á Spáni

Meistaraflokkur Fjölnis kvenna er nýkominn úr frábærri æfingarferð frá Pinatar á Spáni. Liðið æfði í 26 gráðu hita og sól vikuna 10 til 17.mars. Ferðin var vel nýtt, æfingar voru daglega frá því að lent var á Spáni og stundum tvisvar á dag þar sem ítarlega skipulagaðar æfingar voru í allt að tvær klukkustundir í einu. Æfingarnar fóru fram á glæsilegum æfinga- og keppnisvöllum Pinatar. Þá var einnig nýliðavíxla, skemmtanakvöld, go-kart kappaksturskeppni, strandarferð, verslunarferð og lokakvöldið fóru allir út að borða saman. Glæsilegur 20 manna hópur meistaraflokks ásamt þjálfurum sótti ferðina en þó nokkrir leikmenn meistaraflokksins náðu ekki að koma með vegna háskólanáms og annarra anna. Aðbúnaður var hinn besti, fjöldi æfingavalla, keppnisvöllur, glæsilegt hótel, kokkar elduðu matinn í allar máltíðir sem stundum var aðeins of hollur, flott og rúmgóð herbergi, góð sólbekkjaraðstaða og sundlaug, stutt á stöndina og á veitingastaði. Í alla staði fullkomið fyrir meistaraflokkinn.
Efsta röð: Gunnar Hauksson, Magnús Haukur Harðarson Kristinn Jóhann Laxdal . Miðröð: Marta Björgvinsdóttir, Elvý Rut Búadóttir, Lovísa María Hermannsdóttir, Petra Hjartardóttir, Eva María Smáradóttir, Elínóra Ýr Kristjánsdóttir, Guðlaug Ásgeirsdóttir og Oddný Sara Helgadóttir. Fremsta röð: Tinna Þórsdóttir, Alda Ólafsdóttir, Freyja Dís Hreinsdóttir, Aldís Tinna Traustadóttir, Ólöf Kristjana Þorvaldsdóttir, Harpa Sól Sigurðardóttir, Anna María Bergþórsdóttir og Guðrún Bára Sverrisdóttir.
ÁFRAM FJÖLNIR

Aðalfundur Fjölnis

Aðalfundur Fjölnis fór fram miðvikudaginn 15. mars kl. 17:00 í félagsrými Fjölnis í Egilshöll.

Fyrir fundinn var haldinn fundur með heiðursfélögum, https://fjolnir.is/felagid-okkar/heidursfelagi/ og heiðursforsetum, https://fjolnir.is/felagid-okkar/heidursforsetar/. Mæting var góð og sköpuðust skemmtilegar umræður.

Fundurinn gekk vel og viljum við þakka fráfarandi stjórnarmeðlimum fyrir gott og þarft starf. Við bjóðum nýja stjórnarmeðlimi velkomna en þeir eru, Gunnar Jónatansson, Trausti Harðarson og Gunnar Ingi Jóhannsson. Nýkjörna aðalstjórn má sjá hér, https://fjolnir.is/felagid-okkar/adalstjorn/.

Við viljum einnig þakka gestum okkar, Guðmundi Sigurbergssyni frá UMFÍ og Lilju Sigurðardóttur frá ÍBR.

Gerð var breyting á 15. grein laga félagsins:

„Heiðursveitingar UMFF eru: Silfurmerki, Gullmerki, heiðursfélagi UMFF og heiðursforseti UMFF. Heiðursráð Fjölnis skipa heiðursforsetar félagsins og heiðursfélagar Fjölnis. Heiðursráð er aðalstjórn félagsins til ráðuneytis og kemur saman að óska aðalstjórnar. Aðalstjórn setur nánari reglur um starfsemi heiðursráðs. Stjórn félagsins tekur ákvarðanir um heiðursveitingar og setur nánari reglur um þær.  Tilkynna skal um heiðursveitingar á aðalfundi.“

Eftirfarandi breytingatillaga var lögð fram og samþykkt á fundinum:

„Heiðursveitingar Fjölnis eru: silfurmerki, gullmerki, heiðursfélagi Fjölnis og heiðursforseti Fjölnis. Heiðursráð Fjölnis skipa heiðursforsetar félagsins og heiðursfélagar Fjölnis. Heiðursráð er aðalstjórn félagsins til ráðuneytis og kemur saman að óska aðalstjórnar. Aðalstjórn setur nánari reglur um starfsemi heiðursráðs. Stjórn félagsins tekur ákvarðanir um heiðursveitingar og setur nánari reglur um þær.  Tilkynna skal um heiðursveitingar á aðalfundi og/eða á sérstakri uppskeruhátíð félagsins ár hvert.“

——————————

Aðalfundur Fjölnis fer fram miðvikudaginn 15. mars kl. 17:00. Fundurinn verður í Miðjunni, félagsrými Fjölnis í Egilshöll.

Framboð stjórnarmanna þarf að berast til gummi@fjolnir.is eigi síðar en 10. mars.

Tillögur til breytinga á lögum félagsins, undirritaðar af flutningsmönnum, skulu sendar aðalstjórn félagsins eigi síðar en 10. mars.

Dagskrá:
a) Skýrsla stjórnar
b) Reikningar félagsins
c) Lagabreytingar
d) Kjör formanns
e) Kjör stjórnarmanna
f) Kjör skoðunarmanna reikninga
g) Önnur mál

8. grein
Stjórn félagsins er skipuð sjö mönnum og allt að tveimur til vara. Kosning til stjórnar skal fara þannig fram:
1. a) kosning formanns til eins árs,
2. b) kosning sex meðstjórnenda til tveggja ára, þannig að þrír eru kosnir á hverju ári,
3. c) kosning tveggja manna í varastjórn til eins árs.

Allir félagsmenn félagsins sem eru fjárráða geta boðið sig fram til formanns. Formaður félagsins getur ekki samtímis verið formaður deildar. Tilkynningar um framboð til formanns og meðstjórnenda félagsins skulu berast framkvæmdarstjóra félagsins minnst 5 dögum fyrir boðaðan aðalfund.

Formaður er kosinn beinni kosningu á aðalfundi, en að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum. Stjórn fer með umboð og vald aðalfundar á milli aðalfunda án heimildar til lagabreytinga.

Á aðalfundi skulu einnig kosnir tveir skoðunarmenn reikninga en í þeirra stað má kjósa einn löggiltan endurskoðanda.

Lög Fjölnis má finna hér


Sunddeild Fjölnis leitar að þjálfara!

Sunddeild Fjölnis leitar að metnaðarfullum þjálfara. Mikið uppbyggingarstarf er hjá deildinni þar sem megin markmið eru að fjölga iðkendum og bjóða upp á fyrsta flokks æfingaumhverfi fyrir það unga og efnilega sundfólk sem æfir hjá sunddeild Fjölnis. Um er að ræða 30-50% starf, með möguleika á hærra starfshlutfalli.

Starfslýsing þjálfara
Helstu verkefni þjálfara eru að:

  • þjálfa hópa á aldursbilinu 7-13 ára
  • aðstoða yfirþjálfara í þeim verkefnum sem hann setur fyrir, leysa af í sundskóla og vera á mótum sé þess óskað
  • taka virkan þátt í uppbyggingu deildarinnar, afla sér faglegrar þekkingar og styðja
    sundfólkið í að ná framförum í sinni íþrótt.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • þekking og reynsla af sundi og sundþjálfun og/eða menntun á sviði sundþjálfunar er kostur
  • þjálfararéttindi 1 og 2 frá ÍSÍ
  • góðir samskipta- og skipulagshæfileikar
  • metnaður og frumkvæði
  • góð íslenskukunnátta
  • hreint sakavottorð
  • lágmarksaldur 20 ára

Nánari upplýsingar veitir stjórn deildarinnar á netfanginu sund@fjolnir.is og formaður deildarinnar Aníka Lind Björnsdóttir s. 867-4371.

Senda skal umsóknir ásamt menntunar- og ferilskrá á netfangið sund@fjolnir.is fyrir 1. apríl 2023. Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál og öllum umsóknum verður svarað.


Frítt að æfa sund fyrir börn á aldrinum 7-10 ára í mars!

Sunddeild Fjölnis býður börnum á aldrinum 7-10 ára að æfa frítt í mars í útilaug Grafarvogslaugar. Þau sem vilja halda áfram að æfa eftir mars borga 40% af æfingagjöldum annarinnar sem eru 27.000 kr.

Kristinn þjálfari tekur vel á móti ykkur.

Tilkynna má þátttöku til Kristins með skilaboðum í síma 848-8566 með nafni barns eða bara mæta á staðinn.

Hlökkum til að sjá ykkur!


Íshokkínámskeið fyrir stelpur

Íshokkídeild Fjölnis býður öllum stelpum fæddum 2010-2017 á frítt stelpunámskeið 20.-27. mars. Skipt verður í tvo hópa, eldri og yngri hóp.
Eldri hópurinn er fyrir stelpur fæddar 2010-2013 og yngri hópurinn fyrir stelpur fæddar 2014-2017

Dagskrá:

Mánudagur
18:00-18:50 – Báðir hópar

Þriðjudagur
18:00-19:00 – Báðir hópar

Fimmtudagur
17:45-18:30 – Yngri hópur
18:30-19:20 – Eldri hópur

Laugardagur
11:00-12:00 – Báðir hópar og veisla eftir á!

Hvetjum allar áhugasamar stelpur til að nýta sér þetta tækifæri til að prófa íshokkí FRÍTT, hægt er að fá lánaðar allar græjur! HÉR fer skráning fram

Hlökkum til að sjá ykkur!