Flott fimleikahelgi að baki
09/11/2022Fimleikar,Félagið okkar
Flott fimleikahelgi að baki
Síðustu helgi mikið um að vera á mörgum vígstöðum. Þrepamót 1 fór fram á Akureyri, Mótaröð í hópfimleikum fór fram á Akranesi og svo fór fram hæfileikamótun stúlkna í áhaldafimleikum.
Á Þrepamóti 1 átti Fjölnir keppendur í 4. og 5. þrepi . Mótið var hið glæsilegasta og voru þjálfarar mótsins ánægðir með árangur okkar keppenda. Sumir náðu þrepum, aðrir voru nálægt því, á meðan sumir keppendanna voru að stíga sín fyrstu skref á FSÍ mótum.
Á Mótaröðinni sem fram fór á Akranesi keppi 1. flokkurinn okkar. Markmið mótsins hjá liðinu var að keppa með ný stökk og fá keppnisreynslu saman sem hópur. Liðið var ánægt með sína frammistöðu og er spennt fyrir framhaldinu.
Hæfileikamótun stúlkna í áhaldafimleikum er verkefni á vegum Fimleikasambands Íslands. En þar koma saman stúlkur frá öllum félögum þar sem áhersla er lögð á samvinnu félaga, þjálfara og að skapa vettvang fyrir iðkendur til að æfa saman, læra af hverjum öðrum og kynnast sem samherjar en ekki mótherjar. Frá Fjölni fóru þær Júlía Ísold og Kolfinna og höfðu gaman af.
Með fréttinni fylgja svipmyndir frá helginni.
Framundan er svo Haustmót í hópfimleikum, en næstu helgi keppir 4. flokkur á Selfossi og helgina 19. – 20. nóvember keppir 3. flokkur á Egilsstöðum. Haustmót ákvarða deildarskiptingu fyrir keppnistímabilið og eru því öll lið í óða önn að undirbúa sig fyrir komandi átök.
Stefnumótunardagur Ungmennafélagsins Fjölnis
Síðastliðinn laugardag, þann 29. október, var stefnumótunardagur Fjölnis haldinn. Reynt hefur verið að halda fundinn á tveggja ára festi og tókst vel til í ár. Fínasta mæting var frá öllum 11 deildum félagsins en í heildina mættu 20 manns á fundinn.
Ragnar Guðgeirsson, fyrrverandi formaður Fjölnis og ráðgjafi og stofnandi Expectus, stýrði fundinum. Meginmálefnin til umræðu voru; rekstur meistaraflokka og afreksmál, gæði þjálfunar í félaginu og gildi félagsins ásamt því að málefni sjálfboðaliða voru rædd.
Mjög góðar umræður sköpuðust og fundum við fyrir því hvað svona dagar eru mikilvægir fyrir félagið!
Takk fyrir samveruna síðastliðna helgi
Áfram Fjölnir!
#FélagiðOkkar
Fyrirliðinn framlengir!
Hans Viktor Guðmundsson fyrirliði meistaraflokks karla hefur framlengt samningi sínum til ársins 2024. Hans er uppalinn Fjölnismaður sem hefur allan sinn feril spilað með Fjölni. Á sínum ferli hefur hann spilað 143 leiki og skorað 18 mörk fyrir meistaraflokk félagsins.
Þetta eru frábærar fréttir enda er Hans fyrirliði liðsins og lykilleikmaður.
#FélagiðOkkar
Fjölniskrakkar fjölmennastir á Fischer - Spassky mótinu um helgina
Skáksamband Íslands stóð fyrir barna- og unglingamóti á Reykjavik Hotel Natura, föstudaginn, 28. október. Mótið var haldið samhliða Heimsmeistaramótinu í Fischer-slembiskák.
Keppt var í fjórum flokkum og aðalverðlaun mótsins í hverjum flokki stúlkna og stráka voru árituð taflborð þeirra átta stórmeistara sem kepptu um heimsmeistaratitilinn á Íslandi
- Tristan Fannar í 4. bekk, Emilía Embla í 5. bekk og Benedikt í 2. bekk, öll í Rimaskóla, voru í hópi þeirra 8 heppnu sem unnu árituð taflborð.
- Flestir þátttakenda komu frá Skákdeild Fjölnis og tíu þeirra unnu til verðlauna.
- Lang, langflestar stúlkur á mótinu komu frá Skákdeild Fjölnis
Flott frammistaða hjá Fjölniskrökkum sem öll sýndu mátt sinn og megin í skáklistinni. Takk fyrir að fjölmenna Fjölniskrakkar og foreldrar.
#FélagiðOkkar



Haustmót í eldri þrepum
31/10/2022Fimleikar,Félagið okkar
Nú um helgina fór fram Haustmót í áhaldafimleikum, þar sem að Fjölnir átti keppendur í 1. þrepi. En mótið var haldið í Laugabóli í umsjón Fimleikadeildar Ármanns.
Okkar stelpur stóðu sig vel og má líta á þetta mót sem góða byrjun á árinu.
Helstu úrslit:
- Þrep 13 ára og yngri – Júlía Ísold Sigmarsdóttir 1. sæti á Stökki og Slá
- Þrep 14 ára og eldri – Helena Hulda Olsen 2. sæti á Gólfi
Telma Guðrún Þorsteinsdóttir – 3. sæti á slá
Fjölnismótið í körfubolta fyrir börn fædd 2012-2016
Helgina 19-20 nóvember fer Fjölnismótið fram með pompi og prakt í Dalhúsum og Fjölnishöllinni í Egilshöll.
Fjölnismótið er eitt allra skemmtilegasta mót sem haldið er fyrir þennan aldurshóp!
Meðal þess sem verður gert er meiriháttar körfuboltafjör, kvöldvaka á laugardagskvöldinu og einnig verður frítt í bíó!
Verðið er 6500 kr. fyrir hvern þátttakanda og fer skráning fram í gegnum karfa@fjolnir.is. Skráningu lýkur 13. nóvember.
Hér er hægt að nálgast nánari upplýsingar um mótið:
Fjölnismótið

Málstofa HKK um stöðu kvenna í stjórnum knattspyrnudeilda
26/10/2022Knattspyrna,Félagið okkar
Ungmennafélagið Fjölnir vekur athygli á málstofu sem Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna standa fyrir um framtíð knattspyrnu kvenna á Íslandi. Málstofan verðu haldin fimmtudaginn 27. október, þar sem staða kvenna knattspyrnunnar verður rædd ásamt framgangi og þróun íþróttarinnar hér á landi.
Yfirskrift málstofunnar er „Framtíðin er kvenna en við erum hins vegar föst í núinu!“ Knattspyrna kvenna er sú hlið íþróttarinnar sem vex hvað hraðast í heiminum og bæði UEFA og FIFA hafa skilgreint sem framtíð knattspyrnunnar. Það má líkja stöðu stjórna íþróttafélaga í dag við stöðu stjórna fyrirtækja áður en sérstök lög voru sett um hlutfall kvenna í þeim. Á málþinginu verður rætt hvort gera þurfi það sama fyrir íþróttafélög – og þá sérstaklega fyrir knattspyrnudeildir – ef mark er á takandi á fréttum undanfarnar vikur um stöðu knattspyrnu kvenna hjá nokkrum
félögum á landinu.
Önnur mál sem verða til umræðu á málstofunni:
- Afhverju eru konur í miklum minnihluta stjórna í knattspyrnudeildum á Íslandi?
- Hvernig er hægt að breyta því?
- Hvað þurfa margar konur að vera í stjórn til að hafa áhrif?
Þátttakendur í málstofunni verða Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og alþingismaður, Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Artic Adventures, og Helena Jónsdóttir sem hefur skrifað mastersverkefni um þetta málefni og mun fara yfir niðurstöður þess sem varpa nýju ljósi á þessa umræðu. Stjórnandi málstofunnar verður Bogi Ágússton fréttamaður.
Málstofan verður haldin fimmtudaginn 27. október kl. 17.30-19.30 í Veröld – húsi Vigdísar, Brynjólfsgötu 1, 107 Reykjavík. Hún er öllum opin og verður einnig í beinu streymi í gegnum heimasíðu HKK (knattspyrnukonur.is) og á Facebook síðu samtakanna.
Hér er einnig linkur á Facebook viðburðinn

Baldvin Þór Berndsen framlengir til 2025!
Varnarmaðurinn ungi, Baldvin Þór Berndsen, hefur framlengt samningi sínum við Knattspyrnudeild Fjölnis út tímabilið 2025. Baldvin sem fæddur er 2004 var máttarstólpi í Íslandsmeistaraliði 2. flokks auk þess sem hann spilaði 10 leiki fyrir meistaraflokk félagsins í sumar.
Knattspyrnudeild Fjölnis óskar Baldvini til hamingju með nýjan samning og hlakkar til að fylgjast með honum næstu árin.
#FélagiðOkkar 💛💙
Þorrablót Grafarvogs 2023
Hið margrómaða Þorrablót Grafarvogs 2023 verður haldið hátíðlegt þann 21. janúar næstkomandi!
Hér við hliðina má sjá borðaskipanina. Til þess að panta borð þarf að senda email á vidburdir@fjolnir.is
Miðasala á ballið sjálft fer í gegnum tix.is
Hlökkum til að sjá ykkur í partýi aldarinnar!


Skákhátíð í höllinni
Það fór vel um 350 skákmenn og skákkonur í Fjölnishöll í Egilshöllinni á Íslandsmóti skákfélaga, fyrri hluta, sem fram fór um helgina í Úrvalsdeild og í 1. – 4. deild.
Skákdeild Fjölnis hefur í 15 ár skaffað þessu fjölmennasta skákmóti heppilegt húsnæði og þar með keppnisskilyrði, fyrst í Rimaskóla og nú annað árið í röð í Fjölnishöll.
Það sem einkennir mótið er óvenju breið aldursdreifing keppenda. Þeir eru á aldursbilinu frá yngstu bekkjum barnaskóla og allt upp i 90 ára öldunga. Þarna eru mættir íslensku stórmeistararnir, erlendir stórmeistarar sem styrkja skáksveitir úrvals-og 1. deildar svo og þekktir íslenskir einstaklingar sem kunna ýmislegt fyrir sér í skáklistinni.
Skákmenn kunna vel við sig í rúmgóðri Fjölnishöll og njóta veitingasölunnar sem efnilegar skákstúlkur Fjölnis sinna og safna fyrir þátttöku á skákmóti erlendis næsta ár.
Skákdeild Fjölnis sendi 3 skáksveitir til leiks á Íslandsmótið og eru flestir skákmenn Fjölnis uppaldir Grafarvogsbúar og íbúar í hverfinu.
A sveitin teflir i 6 liða efstu deild og á þar í harðri baráttu um að halda sæti sínu. Með A sveitinni tefldi tvítugur stórmeistari, Litháinn Valery Kazakouski sem náði 80% vinningshlutfalli og vakti taflmennska hans athygli og aðdáun.
Síðari hluti Íslandsmótsins verður tefldur í Fjölnishöll í Egilshöll helgina 17. – 19. mars 2023.