Flott fimleikahelgi að baki

 

Síðustu helgi mikið um að vera á mörgum vígstöðum. Þrepamót 1 fór fram á Akureyri, Mótaröð í hópfimleikum fór fram á Akranesi og svo fór fram hæfileikamótun stúlkna í áhaldafimleikum.

 

Á Þrepamóti 1 átti Fjölnir keppendur í 4. og 5. þrepi . Mótið var hið glæsilegasta og voru þjálfarar mótsins ánægðir með árangur okkar keppenda. Sumir náðu þrepum, aðrir voru nálægt því, á meðan sumir keppendanna voru að stíga sín fyrstu skref á FSÍ mótum.

 

Á Mótaröðinni sem fram fór á Akranesi keppi 1. flokkurinn okkar. Markmið mótsins hjá liðinu var að keppa með ný stökk og fá keppnisreynslu saman sem hópur. Liðið var ánægt með sína frammistöðu og er spennt fyrir framhaldinu.

 

Hæfileikamótun stúlkna í áhaldafimleikum er verkefni á vegum Fimleikasambands Íslands. En þar koma saman stúlkur frá öllum félögum þar sem áhersla er lögð á samvinnu félaga, þjálfara og að skapa vettvang fyrir iðkendur til að æfa saman, læra af hverjum öðrum og kynnast sem samherjar en ekki mótherjar. Frá Fjölni fóru þær Júlía Ísold og Kolfinna og höfðu gaman af.

 

Með fréttinni fylgja svipmyndir frá helginni.

 

Framundan er svo Haustmót í hópfimleikum, en næstu helgi keppir 4. flokkur á Selfossi og helgina 19. – 20. nóvember keppir 3. flokkur á Egilsstöðum. Haustmót ákvarða deildarskiptingu fyrir keppnistímabilið og eru því öll lið í óða önn að undirbúa sig fyrir komandi átök.