Fréttatilkynning handknattleiksdeildar

Handknattleiksdeild Fjölnis hefur gengið frá ráðningu Guðmundar Rúnars Guðmundssonar sem þjálfara meistaraflokks karla næstu tvö árin. Guðmundur hefur undanfarin tvö ár verið aðstoðarþjálfari liðsins en hefur í mörg ár starfað hjá félaginu sem þjálfari yngri flokka og sem styrktarþjálfari. 

Þetta verður frumraun Guðmundar sem aðalþjálfari í meistaraflokki og verður gaman að fylgjast með hvernig liðinu vegnar á komandi árum. Það er stjórn deildarinnar mikið fagnaðarefni að veita Guðmundi þetta tækifæri og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við hann.

Á næstunni munu þjálfari og stjórn í sameiningu fara í gegnum leikmannamál en ljóst er að liðið mun taka einhverjum breytingum næsta vetur.

 

– stjórn handknattleiksdeildar Fjölnis


Ókeypis dómaranámskeið

Á mánudaginn fer fram bóklegt dómaranámskeið á vegum Fjölnis og HSÍ. Námskeiðið fer fram í fundarrými Fjölnis í Egilshöllinni og hefst kl. 19:00. Reikna má með að námskeiðið standi yfir í tvær klukkustundir og endar með prófi.

Námskeiðið er opið öllum sem vilja auka þekkingu sína í dómgæslu, hvort sem það eru foreldrar, iðkendur og/eða áhugafólk um handbolta.

Hlekk á facebook-viðburð dómaranámskeiðsins má finna hér


Frítt að æfa handbolta í janúar

HSÍ í samstarfi við aðildafélögin á landinu, þar með talið Fjölni, býður öllum nýjum krökkum að æfa frítt í janúar. Við hvetjum alla krakkar til að koma og prófa æfingar í handboltanum í Fjölni. Þjálfarar deildarinnar munu taka vel á móti þeim !


Frábært Skólamót Fjölnis í handbolta

Skólamót Fjölnis í handbolta fór fram í gær og segja má að það hafi slegið í gegn. Tæplega 300 krakkar úr öllum skólum Grafarvogs komu, skemmtu sér og spiluðu í Fjölnishöllinni.

Þetta er í fyrsta skipti sem Skólamót Fjölnis fer fram í softball-formi þar sem skemmtanagildið er haft í hávegum. Það er klárt mál að um árlegan viðburð verður að ræða héðan af.

Handknattleiksdeild Fjölnis langar að þakka þessum frábæru krökkum sem komu og voru sér og sínum til mikillar sóma. Enn fremur langar Fjölni að þakka þessum drífandi íþróttakennurum í skólunum sem mættu með liðin úr skólunum.

Búningaverðlaun voru afhend í mótslok og voru þau lið leyst út með Huppuís. Sigurvegari Skólamóts Fjölnis 2020 var síðan Vættaskóli.

Öllum krökkum er boðið að prófa handboltann í Fjölni sér að kostnaðarlausu næstu daga og vonum við að sem flestir nýti sér það !

Áfram Fjölnir og áfram handbolti !

#FélagiðOkkar


Sveinn Jóhannsson á EM

Fjölnismaðurinn Sveinn Jóhannsson er á leiðinni á EM í Malmö með íslenska landsliðinu í handbolta. Þetta er frábær viðurkenning fyrir hann og félagið. Sveinn er uppalinn Fjölnismaður en skipti yfir í ÍR eftir tímabilið 2017-2018. Hann leikur í dag með danska liðinu Sönderjyske í efstu deild.

HÉR má sjá leiki liðsins í riðlinum.

#FélagiðOkkar


Ókeypis jólanámskeið í handbolta

Hin árlega jólagjöf handboltadeildarinnar er klár!

Jólanámskeið deildarinnar hefur slegið í gegn undanfarin ár, enda virkilega vel heppnað í alla staði. Handboltadeildin ætlar því að endurtaka leikinn og standa fyrir glæsilegu námskeiði fyrir iðkendur og byrjendur í handboltaíþróttinni milli jóla og nýárs. Námskeiðið verður alveg ÓKEYPIS og verður það haldið dagana 27. og 30. desember.

Námskeiðið fer fram í Fjölnishöllinni okkar í Egilshöll (nýja íþróttahúsið okkar) á eftirfarandi tímum:

1. og 2. bekkur
27. og 30. desember kl. 09:00-10:15

3. og 4. bekkur
27. og 30. desember kl. 10:30-11:45

Farið verður í grunnþætti íþróttarinnar og leikir og skemmtun höfð að leiðarljósi. Jólatónlist verður spiluð og þjálfarar deildarinnar munu leiðbeina og aðstoða unga iðkendur. Við hlökkum til að sjá ykkur í jólaskapi á þessum tíma!

*Mælst er til þess að iðkendur mæti í íþróttafötum, í íþróttaskóm og með vatnsbrúsa.

Eina sem þarf að gera er að skrá barnið hér á listann og mæta á staðinn!

Skráning hér:
https://forms.gle/mHoAQ8qPWyf1ie697


Sjáðu Andreu og kvennalandslið Íslands gegn Færeyjum

Kvennalandslið Íslands í handbolta mætir Færeyjum í tveimur vináttuleikjum um helgina á Ásvöllum (Schenker-höllin).

Frítt verður á leikina í boði KFC! Mætum í bláu, fyllum Ásvelli og styðjum stelpurnar okkar til sigurs.

Áfram Íslands!


Ada, Azra og Kolbrún í Fjölni

Þrír nýir leikmenn skrifuðu undir samning við félagið á dögunum.

Azra Cosic fædd 1999. Gríðarlega fljótur vinstri hornamaður sem spilaði 5 leiki í Olís deildinni og 20 leiki í Grill 66 deildinni þar sem hún skoraði 53 mörk.

Ada Kozicka fædd 1999. Gróður sóknarlínumaður og flottur varnarmaður sem á eftir að styrkja okkur verulega. Spilaði 6 leiki í Olís deildinni og 19 leiki í Grill 66 deildinni og skoraði í þeim 76 mörk.

Kolbrún Arna Garðarsdóttir fædd 1996 uppalin í HK og hefur verið viðloðandi meistaraflokk hjá þeim frá því 2015 (7 leikir). Í fyrra spilaði hún 6 leiki í Olís deildinni og 19 leiki í Grill 66 deildinni þar sem hún skoraði 54 mörk. Sterkur leikstjórnandi sem hefur fjölbreyttar árásir og getur leyst margar stöður á vellinum.

Sigurjón þjálfari hafði þetta að segja við undirskriftina; “þetta er frábær viðbót við ungt lið okkar og á eftir að styrkja okkur verulega í komandi átökum. Allar þessar stelpur smellpassa inn í leikstíl liðsins og hvernig við ætlum okkur að spila í vetur og hlakka ég til þess að sjá þær í Fjölnistreyjunni í næsta leik.

Við minnum á tvíhöfðann á morgun þar sem stelpurnar taka á móti ÍBV U kl. 18:00 og strákarnir spila gegn Fram kl. 20:00.

#FélagiðOkkar


Tvöfaldir Reykjavíkurmeistarar

Í gær lauk Reykjavíkurmóti karla í meistaraflokki og á sama tíma flottu undirbúningstímabili karla og kvennaliðana okkar.

Stelpurnar höfðu tryggt sér sigur á Reykjavíkurmótinu og strákarnir fylgdu því glæsilega eftir með góðum sigri á Víkingi. Þess má geta að Fjölnir U tók þátt í tveimur leikjum og fengu því góða æfingu fyrir Grill 66 deildina.

Við óskum meistaraflokkunum okkar innilega til hamingju með þennan árangur og hvetjum Fjölnisfólk til að fjölmenna á leiki í Olís deild karla, Grill 66 deild karla og kvenna.

Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar


Handboltaskóli Fjölnis að hefjast

Á þriðjudaginn hefst Handboltaskóli Fjölnis 2019. Skólinn er ætlaður strákum og stelpum sem eru að fara í 1. - 6.bekk næsta vetur. Boðið er upp á tvær vikur, 6. - 9.ágúst og 12. - 16.ágúst.

Handboltaskóli Fjölnis er frábær undirbúningur fyrir vetrarstarf Fjölni en í honum er fléttað saman skemmtilegum handboltaæfingum í bland við leiki og skemmtun. Byrjendur eru sérstaklega velkomnir.

Handboltaskólinn stendur yfir frá kl. 09:00 til 12:00 með stuttri nestispásu.

Skólastjóri og aðalleiðbeinandi er Andri Sigfússon yfirþjálfari yngri flokka en auk hans verða þjálfarar hjá deildinni auk leikmanna sem munu aðstoða.

Verð:
6. - 9.ágúst / 5900 kr
12. - 16.ágúst / 6900 kr

Ef báðar vikurnar eru teknar kostar skólinn 9900 kr.

Skráning fer fram í Nóra, skráningarkerfi Fjölnis (http://fjolnir.felog.is)