Oddný Björg Stefánsdóttir kemur til félagsins

Oddný Björg Stefánsdóttir skrifar undir samning við félagið

Meistaraflokksráð Fjölnis/Fylkis situr ekki auðum höndum. Oddný Björg Stefánsdóttir hefur skrifað undir samning við félagið. Hún er tvítugur markmaður sem kemur frá ÍR. Oddný er öflugur leikmaður og mikil styrking fyrir liðið. Hún á að baki leiki fyrir ÍR og HK.

Það eru bjartir tímar framundan hjá meistaraflokki kvenna í handbolta. Á dögunum skrifaði deildin undir samstarfssamning við Fylki um sameiginlegan meistaraflokk kvenna. Þar segir meðal annars að „markmið samstarfsins er að bæta umgjörð meistaraflokks og styðja enn frekar við uppbyggingu kvennastarfs í félögunum“.

Frekari frétta af leikmannamálum er að vænta á næstunni.

#FélagiðOkkar


Elvar Otri og Þorleifur Rafn framlengja við Fjölni

Elvar Otri og Þorleifur Rafn framlengja við Fjölni

Það er ljóst að mikið mun mæða á ungum og uppöldum Fjölnismönnum í meistaraflokki karla á næsta keppnistímabili. Tveir leikmenn sem munu spila lykilhlutverk í liðinu á næstu árum hafa nú framlengt samninga sína við félagið og fögnum við því.

Elvar Otri Hjálmarsson er öflugur leikstjórnandi með mikinn leikskilning og tækni í sínum leik.

Þorleifur Rafn Aðalsteinsson er rétthentur hornamaður sem er þekktur fyrir sinn ótrúlega hraða, áræðni og sprengikraft.

Báðir hafa þeir, þrátt fyrir ungan aldur, átt fast sæti í meistaraflokksliði Fjölnis undanfarin ár.

#FélagiðOkkar


Gísli og Gunnar taka við meistaraflokki kvenna

Fréttatilkynning frá hkd. Fjölnis og Fylkis

28.apríl 2020

Gísli Steinar Jónsson og Gunnar Valur Arason taka við þjálfun Fjölnis/Fylkis í meistaraflokki kvenna. Félögin kynntu samstarfið á fundi fyrr í dag. Þeir taka við góðu búi af þeim Sigurjóni Friðbirni hjá Fjölni og Ómari Erni hjá Fylki. Markmið samstarfsins er að bæta umgjörð meistaraflokks og styðja enn frekar við uppbyggingu kvennastarfs í félögunum. Félögin vilja byggja upp samkeppnishæfan meistaraflokk sem mun með tímanum festa sig í sessi í efstu deild. Samningur félaganna nær til næstu þriggja ára.

Gísli Steinar Jónsson er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum. Hann hefur undanfarin tvö ár þjálfað yngri flokka kvenna hjá Fjölni ásamt því að sinna hlutverki aðstoðarþjálfara meistaraflokks kvenna á liðnu tímabili. Fyrir þann tíma bjó hann í Noregi og þjálfaði yngri flokka hjá Fet IL í sex ár. Gísli hlakkar til að takast á við krefjandi og skemmtileg verkefni sem tengjast samstarfi félaganna og að fylgja áfram öllum þeim efnilegu stelpum sem hann hefur þjálfað síðustu tvö ár og auk þess kynnast nýjum leikmönnum sem eru að bætast í hópinn fyrir næsta tímabil.

Gunnar Valur Arason er uppalinn ÍR-ingur þar sem hann spilaði í yngri flokkunum og loks í meistaraflokki. Hann á einnig að baki leiki í meistaraflokki fyrir lið Víkings, Fylkis og Kríu. Gunnar byrjaði ungur að þjálfa hjá ÍR og þjálfaði yngri flokka hjá félaginu í fjölmörg ár. Hann var einnig þjálfari yngri flokka Víkings í rúm tvö ár. Það var svo á tímabilinu 2014-2015 sem hann snéri aftur til ÍR, þá hjá 3. flokki, 4. flokki og sem aðstoðarþjálfari í meistaraflokki kvenna. Vorið 2015 tók Gunnar svo tímabundið við sem aðalþjálfari meistaraflokks kvenna hjá ÍR og svo aftur sem aðstoðarþjálfari meistaraflokksins árið 2017. Gunnar hefur þjálfað 3. og 4. flokk kvenna hjá ÍR frá 2014-2020. Loks má nefna að Gunnar hefur einnig komið að þjálfun afrekshóps hjá HSÍ.

 

Virðingafyllst,

Stjórn hkd. Fjölnis og Fylkis

Meistaraflokksráð Fjölnis/Fylkis

 

Myndir: Þorgils G.


Fréttatilkynning handknattleiksdeildar

Handknattleiksdeild Fjölnis hefur gengið frá ráðningu Guðmundar Rúnars Guðmundssonar sem þjálfara meistaraflokks karla næstu tvö árin. Guðmundur hefur undanfarin tvö ár verið aðstoðarþjálfari liðsins en hefur í mörg ár starfað hjá félaginu sem þjálfari yngri flokka og sem styrktarþjálfari. 

Þetta verður frumraun Guðmundar sem aðalþjálfari í meistaraflokki og verður gaman að fylgjast með hvernig liðinu vegnar á komandi árum. Það er stjórn deildarinnar mikið fagnaðarefni að veita Guðmundi þetta tækifæri og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við hann.

Á næstunni munu þjálfari og stjórn í sameiningu fara í gegnum leikmannamál en ljóst er að liðið mun taka einhverjum breytingum næsta vetur.

 

– stjórn handknattleiksdeildar Fjölnis


Ókeypis dómaranámskeið

Á mánudaginn fer fram bóklegt dómaranámskeið á vegum Fjölnis og HSÍ. Námskeiðið fer fram í fundarrými Fjölnis í Egilshöllinni og hefst kl. 19:00. Reikna má með að námskeiðið standi yfir í tvær klukkustundir og endar með prófi.

Námskeiðið er opið öllum sem vilja auka þekkingu sína í dómgæslu, hvort sem það eru foreldrar, iðkendur og/eða áhugafólk um handbolta.

Hlekk á facebook-viðburð dómaranámskeiðsins má finna hér


Frítt að æfa handbolta í janúar

HSÍ í samstarfi við aðildafélögin á landinu, þar með talið Fjölni, býður öllum nýjum krökkum að æfa frítt í janúar. Við hvetjum alla krakkar til að koma og prófa æfingar í handboltanum í Fjölni. Þjálfarar deildarinnar munu taka vel á móti þeim !


Frábært Skólamót Fjölnis í handbolta

Skólamót Fjölnis í handbolta fór fram í gær og segja má að það hafi slegið í gegn. Tæplega 300 krakkar úr öllum skólum Grafarvogs komu, skemmtu sér og spiluðu í Fjölnishöllinni.

Þetta er í fyrsta skipti sem Skólamót Fjölnis fer fram í softball-formi þar sem skemmtanagildið er haft í hávegum. Það er klárt mál að um árlegan viðburð verður að ræða héðan af.

Handknattleiksdeild Fjölnis langar að þakka þessum frábæru krökkum sem komu og voru sér og sínum til mikillar sóma. Enn fremur langar Fjölni að þakka þessum drífandi íþróttakennurum í skólunum sem mættu með liðin úr skólunum.

Búningaverðlaun voru afhend í mótslok og voru þau lið leyst út með Huppuís. Sigurvegari Skólamóts Fjölnis 2020 var síðan Vættaskóli.

Öllum krökkum er boðið að prófa handboltann í Fjölni sér að kostnaðarlausu næstu daga og vonum við að sem flestir nýti sér það !

Áfram Fjölnir og áfram handbolti !

#FélagiðOkkar


Sveinn Jóhannsson á EM

Fjölnismaðurinn Sveinn Jóhannsson er á leiðinni á EM í Malmö með íslenska landsliðinu í handbolta. Þetta er frábær viðurkenning fyrir hann og félagið. Sveinn er uppalinn Fjölnismaður en skipti yfir í ÍR eftir tímabilið 2017-2018. Hann leikur í dag með danska liðinu Sönderjyske í efstu deild.

HÉR má sjá leiki liðsins í riðlinum.

#FélagiðOkkar


Ókeypis jólanámskeið í handbolta

Hin árlega jólagjöf handboltadeildarinnar er klár!

Jólanámskeið deildarinnar hefur slegið í gegn undanfarin ár, enda virkilega vel heppnað í alla staði. Handboltadeildin ætlar því að endurtaka leikinn og standa fyrir glæsilegu námskeiði fyrir iðkendur og byrjendur í handboltaíþróttinni milli jóla og nýárs. Námskeiðið verður alveg ÓKEYPIS og verður það haldið dagana 27. og 30. desember.

Námskeiðið fer fram í Fjölnishöllinni okkar í Egilshöll (nýja íþróttahúsið okkar) á eftirfarandi tímum:

1. og 2. bekkur
27. og 30. desember kl. 09:00-10:15

3. og 4. bekkur
27. og 30. desember kl. 10:30-11:45

Farið verður í grunnþætti íþróttarinnar og leikir og skemmtun höfð að leiðarljósi. Jólatónlist verður spiluð og þjálfarar deildarinnar munu leiðbeina og aðstoða unga iðkendur. Við hlökkum til að sjá ykkur í jólaskapi á þessum tíma!

*Mælst er til þess að iðkendur mæti í íþróttafötum, í íþróttaskóm og með vatnsbrúsa.

Eina sem þarf að gera er að skrá barnið hér á listann og mæta á staðinn!

Skráning hér:
https://forms.gle/mHoAQ8qPWyf1ie697


Sjáðu Andreu og kvennalandslið Íslands gegn Færeyjum

Kvennalandslið Íslands í handbolta mætir Færeyjum í tveimur vináttuleikjum um helgina á Ásvöllum (Schenker-höllin).

Frítt verður á leikina í boði KFC! Mætum í bláu, fyllum Ásvelli og styðjum stelpurnar okkar til sigurs.

Áfram Íslands!