Handknattleiksdeild Fjölnis hefur gengið frá ráðningu Guðmundar Rúnars Guðmundssonar sem þjálfara meistaraflokks karla næstu tvö árin. Guðmundur hefur undanfarin tvö ár verið aðstoðarþjálfari liðsins en hefur í mörg ár starfað hjá félaginu sem þjálfari yngri flokka og sem styrktarþjálfari. 

Þetta verður frumraun Guðmundar sem aðalþjálfari í meistaraflokki og verður gaman að fylgjast með hvernig liðinu vegnar á komandi árum. Það er stjórn deildarinnar mikið fagnaðarefni að veita Guðmundi þetta tækifæri og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við hann.

Á næstunni munu þjálfari og stjórn í sameiningu fara í gegnum leikmannamál en ljóst er að liðið mun taka einhverjum breytingum næsta vetur.

 

– stjórn handknattleiksdeildar Fjölnis