Það hefur komið fyrir að Eydís vinni ekki þær keppnir sem hún tekur þátt í. En það er ekki ýkja algengt – og henni líkar það ekkert sérlega vel.  Sem afrekskona átti Eydís frábært ár. Oftar en ekki kom hún heim með ekki einn, heldur tvo verðlaunapeninga eftir mót.

Eftir að sigra sína flokka í bæði kumite og kata á tveimur af þremur GrandPrix mótum varð hún GrandPrix meistari í kata og svo bikarmeistari á Bikarmótaröð Karatesambands Íslands eftir að leggja hvern mótaðilann á fætur öðrum.

Þess utan sankaði hún að sér eftirfarandi verðlaunum á Íslandsmeistaramótum fullorðinna: þriðja sæti í flokki í kumite, öðru sæti í kata.  Á Íslandsmeistaramótum unglinga varð hún svo í fyrsta sæti í kata og öðru sæti í kata.  Hún varð líka í fyrsta sæti á alþjólega RIG mótinu í flokki fullorðinna í kata. Að því ógleymdu að hún náði meðal annars bronsverðlaunum fyrir Kata í flokki ungkvenna á Norðurlandamótinu nú í nóvember.

Eydís hefur verið aðstoðarþjálfari hjá karatedeildinni og er meðlimur í Afrekshópi hennar um margra ára skeið. Metnaður er það gildi Fjölnis sem Eydís hefur lifað í starfi sínu innan deildarinnar.

Það er sérstaklega ánægjulegt að veita Eydísi þessi verðlaun núna á síðasta ári hennar hjá deildinni í bili en hún flytur sig um set til annars félags á næsta ári.  Karatedeildin vill þakka Eydísi fyrir samstarfið gegnum árin og fyrir að hafa verið yngri iðkendum góð fyrirmynd til langs tíma.