Íshokkí æfingabúðir fyrir 11 ára+

Íshokkídeild verður með æfingabúðir fyrir 11 ára og eldri í sumar. Boðið verður upp á fimm námskeið.

11. - 15. júní.

18. - 22. júní.

24. - 29. júní.

6. - 10. ágúst.

12. - 17. ágúst.

Opnar fyrir skráningar 3.júní, skráningar í Nóra skráningarkerfi félagsins https://fjolnir.felog.is/


Afmæli aðalþjálfarans

Í dag á aðalþjálfari hokkídeildarinnar, Alexander Medvedev, stórafmæli. Fertugsafmæli hans var fagnað með því að iðkendur fylktu liði inn á svell í lok æfingar hjá 4. og 5. flokki með afmælissönginn í undispili og afhentu þjálfara sínum orðið „Coach“ sem að allir iðkendur voru búnir að kvitta á með nafninu sínu.

Við óskum Alexander innilega til hamingju með daginn!


Bjarnarbúðin styrkir íshokkístarfið

Með kjörútsýni yfir svellið, situr Bjarnarbúðin og tekur á móti foreldrum og iðkendum hvern æfingardag og á heimaleikjum íshokkídeildarinnar Fjölnir-Björninn. Þar er manni ávallt mætt með brosi og úr hefur orðið viss félagsmiðstöð þar sem foreldrar geta komið saman, horft á æfingar barnanna sinna með kaffibolla í hönd, hlegið saman og rætt saman um heima og geima. Bjarnarbúðarkonurnar sjá til þess að ýmiss hokkívarningur sé fáanlegur en engin sambærileg verslun er á höfuðborgarsvæðinu.

Allir þessir kaffibollar og ágóði af sölu hokkívarnings og matar hafa orðið til þess að nú fengu iðkendur ýmiss konar æfingarbúnað gefins frá Bjarnarbúðinni. Það er mikil lukka að fá búnað sem þennan til að nota til æfinga, bæði á ís og á þrekæfingum. Bjarnarbúðin hefur einnig keypt búnað og brynjur fyrir okkar yngstu iðkendur. Við í íshokkídeildinni erum afar þakklát fyrir þennan styrk til okkar, og krakkarnir svo sannarlega glaðir með nýjar leiðir til æfinga.

Á fyrri myndinni má sjá aðalþjálfara okkar, Alexander Medvedev, taka á móti styrk Bjarnarbúðarinnar sem afhentur var af þeim konum sem taka brosandi á móti foreldrum og iðkendum dag hvern (frá vinstri til hægri: Kristín Fossdal, Guðbjörg Gunnarsdóttir, Alexander Medvedev, Heiðrún Kristín Lúðvíksdóttir og Sigríður Hafdís Baldursdóttir).

Á seinni myndinni má sjá iðkendur í 3. flokki vera að prófa okkar nýju „slide boards“ sem við fengum að gjöf.

Finna má Bjarnarbúðina á Facebook hér : Bjarnarbúðin

Fyrir hönd íshokkídeildarinnar vil ég þakka Bjarnarbúðinni kærlega fyrir þessa kærkomnu gjöf og styrk til barna- og unglingastarfsins,
Hilja Guðmunds, formaður stjórnar.


IceCup 2019

Dagana 25.-28. apríl var íshokkímótið Iceland International Ice Hockey Cup 2019 haldið í Egilshöllinni. Til liðs mættu þrenn lið frá Finnlandi, stelpulið frá Akureyri, sameinað lið íslenskra félaga (SHS) og að lokum eitt lið frá okkur, Fjölnir-Björninn. Þátttökurétt höfðu iðkendur fæddir 2005 og 2006, s.s. 4. flokkur.

4. flokks lið íshokkídeildarinnar Fjölnir-Björninn vann alla sína leiki á mótinu, þar á meðal úrslitaleikinn og vann því IceCup 2019. Það er einstaklega ánægjulegt að sjá þær framfarir sem liðið hefur náð á þessu tímabili. Þrautseigja, elja, agi og viljinn til að ná lengra og gera betur hefur skilað þessum iðkendum þeim sigrum sem unnir hafa verið á svellinu. Þess má einnig geta að leikmenn úr 4. fl. Fjölnir-Björninn röðuðu sér í efstu þrjú sætin yfir stigahæstu leikmennina. Arnar Smári Karvelsson var stigahæstur leikmanna á mótinu og má sjá halda á verðlaunagripi fyrir þann titil. Hinir tveir leikmennirnir eru Haukur Freyr Karvelsson og Kristján Hróar Jóhannesson.

Á myndunum má einnig sjá nokkrar myndir úr úrslitaleiknum og auðvitað mynd af 4. flokk ásamt þjálfara, Alexander Medvedev. Frábært að enda keppnistímabilið á þennan hátt.

Við ætlum auðvitað að halda áfram að vaxa og ná enn lengra í komandi framtíð. Við hjá Fjölnir-Björninn hlökkum mikið til að fylgjast áfram með þessum leikmönnum vera ávallt besta útgáfan af sjálfum sér og bæði liði og félagi til sóma.

Sjá má niðurstöður mótsins og tölfræði á eftirfarandi tengli: Tölfræði IceCup 2019


Melabúðamót 5.-7.flokks

Helgina 12. – 14. apríl var haldið Melabúðarmótið í Skautahöllinni í Laugardalnum þar sem að iðkendur í 5., 6. og 7. flokki ásamt krílahópnum okkar mættu til leiks. Mótið var að vissu leyti sögulegt þar sem að SR og Fjölnir-Björninn sameinuðust um stúlknalið undir heitinu Reykjavík (5.-6. flokkur) og Reykjavíkurdætur (7. flokkur og kríli) og byrjaði mótið á því að Reykjavík mætti 5. flokks liðinu Fálkum frá SR á föstudagskvöldinu. Á opnunarhátíðinni var síðan „skills“ keppni milli þjálfara íshokkídeildarinnar Fjölnir-Björninn og SR og til að toppa kvöldið mættist 5. Björninn og 5. Ernir þar sem 5. Ernir stóðu uppi sem sigurvegarar með þrjú mörk gegn tveimur.
Mótið gekk mjög vel og voru nokkrir iðkendur að taka þátt í sínu fyrsta íshokkímóti. Það er virkilega gaman að fylgjast með mótum sem þessu og sjá alla þá litlu og stóru sigra sem áttu sér stað. Börnin eru okkar framtíð. Það verður spennandi að fylgjast með þessum ungu leikmönnum vaxa og dafna innan íshokkísins á komandi árum.
Bestu þakkir til SR fyrir að standa vel að mótinu og klára þannig mótatímabil flokkana með glæsibrag.


Markvert í mars

Fréttabréf deildarinnar má lesa með því að smella HÉR


U18 ára landsliðið í 2.sæti

U18 landsliðið lenti í 2. sæti eftir frábæran leik gegn Mexíkó þar sem Ísland vann með fimm mörkum gegn engu og átti Viggó Hlynsson stoðsendingu í tveimur af mörkunum.
Á myndinni má sjá fulltrúa Fjölnis með silfrið um hálsinn og verðlaunagripinn.

Séð frá vinstri til hægri:
Viggó Hlynsson
Hermann Haukur Aspar
Stígur Hermannson Aspar
Alexander Medvedev
Mikael Skúli Atlason
Orri Grétar Valgeirsson

Flottir fulltrúar sem við eigum og eru hluti af landsliði sem við getum öll verið stolt af.

Áfram Ísland ...
... og auðvitað, áfram Fjölnir!


Hörku spennandi leikslok í viðureign Bjarnarins og SR

Í viðureign Bjarnarins og SR í gær mættu SR-ingar sterkir til leiks og sýndu að þeir voru alveg með á nótunum með því að skora tvö mörk á fyrstu mínútunni. Þeir bættu svo um betur með tveimur mörkum til viðbótar í fyrsta leikhluta. Bjarnarmenn voru hins vegar seinir að taka við sér og var staðan 0-4 fyrir SR eftir fyrstu lotu.

Bjarnarmenn vöknuðu aðeins í leikhlé og mættu einbeittari til leiks í upphafi annar lotu og börðust vel og drengilega í gegnum alla lotuna. Ekki var mikið um mörk en þó átti Kristers Bormanis fyrstamark Bjarnarmanna með stoðsendingu frá Róberti Pálssyni. Því miður minkaði munurinn á mörkum ekkert því tæpum tíu mínútum áður höfðu SR-ingar nælt sér í eitt mark í viðbót. Staðan eftir lotuna var því 1-5 fyrir SR.

Þrátt fyrir mikinn markamun létu Bjarnarmenn það ekki á sig fá og komu tví (eða þrí) efldir til leiks í síðust leiklotu. Þetta var hörkuspennandi lota og sýndu strákarnir virkilega hvað í þeim býr þegar þeir röðuðu inn fimm mörkum á þrettán mínútum. Annað mark Bjarnarins skoraði Viktor Svavarsson með stoðsendingu frá Kristers Bormanis og kom stöðunni í 2-6, eftir leikhlé sem SR-ingarnir tóku sýndi Hjalti hvað í sér býr og skoraði þriðja mark Bjarnarins með stoðsendingu frá Edmunds og Jóni Alberti, sex mínútum síðar var það svo aftur Kristers sem var að verki og skoraði fjórða markið án stoðsendingar. Mínútu síðar kom Ólafur Björnsson með fimmta mark Bjarnarmanna með stoðsendingu frá Ingþóri Árnasyni og tveimur mínútum eftir það jafnaði Kristers leikinn 6-6 með stoðsendingu frá Ólafi Björnsyni.

Leikurinn endaði í framlengingu þar sem liðin léku þrír á þrjá og fyrsta mark varð sigurmark. Þrátt fyrir hörku og þrautsegju í strákunum tókst þeim ekki að innsigla sigurinn og fengu SR-ingar fyrsta markið í framlengingu og loka staðan því 6-7 fyrir SR-ingum.

Við þökkum Sr-ingum fyrir heimsóknina og hörku spennandi og skemmtilegan íshokkíleik.


Happdrætti 3. og 4.flokks

Sýslumaðurinn á Höfuðborgarsvæðinu hefur dregið úr happdrætti 3. og 4.flokks meðfylgjandi myndir eru af úrdrættinum.

Við óskum vinningshöfum til hamingju með vinningana og vonum að þeir njóti vel


Flottur sigur hjá okkar mönnum

Á þriðjudagskvöldið var hörku leikur í Hertz deild karla í íshokkí þegar Íslandsmeistarar SA kom í heimsókn í Grafarvoginn.  Leikurinn byrjaði með þreifingum í fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta fór að draga til tíðinda þegar okkar menn skoruðu tvö mörk gegn engu.  Í þriðja leikhluta héldum við áfram af sama krafti og bættum við þriðja marki og vorum komin með þægilega forystu.  SA er lið sem gefst aldrei upp og settu spennu í leikinn með að lumma inn tveimur mörkum í lokin, það dugði ekki til í þetta skiptið og fyrsti sigur Bjarnarins kominn í hús í vetur.  Frábær sigur að baki en það sem mestu máli skiptir að þetta var mjög flottur leikur tveggja góðra liða og flott auglýsing fyrir íþróttina.  Þökkum við liði SA fyrir mjög flottan leik.

Það er óhætt að segja að Bjarnarliðið sé talsvert breytt frá síðasta vetri, ekki einungis eru það máttarstólpar liðsins síðustu ár sem eru á sínum stað, ungu strákarnir okkar eru að bæta sig gríðarlega mikið og greinilegt að við eigum mikinn efnivið í Grafarvoginum.  Undanfarið höfum við líka fengið til baka gamla Bjarnarmenn sem eru frábærir leikmenn og fengum við t.a.m. tvö mörk frá einum slíkum í þessum leik.  Þess fyrir utan erum við búnir að fá í hópinn okkar flotta drengi upprunna úr liði SA ásamt öflugum útlendingum.  Hópurinn er orðinn gríðarsterkur og er að smella saman hjá okkur eins og hefur sést á síðustu leikjum liðsins, ekki bara hefur verið gaman að fylgjast með þeim inn á svellinu heldur er einnig áberandi að stemmning innan liðsins er öflug.

Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur í vetur með þennan flotta hóp og hvetjum við alla til að koma á leiki liðsins og fylgjast með.  Næsti heimaleikur okkar er nk. Þriðjudag kl: 19:45 er við tökum á móti öflugu liði SR sem hefur unnið okkur í tvígang á tímabilinu.

Áfram Fjölnir – Björninn !!