Íslandsmót í áhaldafimleikum

Sigurður Ari Íslandsmeistari unglinga 2022

 

Um helgina fór fram Íslandsmót í áhaldafimleikum. Mótið fór fram í glæsilegri umgjörð í Versölum hjá Gerplu. Sigurður Ari Stefánsson og Davíð Goði Jóhannsson voru skráðir til leiks frá Fjölni en einnig átti Lilja Katrín Gunnarsdóttir að keppa en hún varð frá að hverfa vegna meiðsla. Á Íslandsmóti er keppt tvo daga í röð. Fyrri daginn fer fram keppni í fjölþraut og seinni daginn keppni á einstökum áhöldum. Á mótinu var keppt um 7 tilta í unglingaflokki karla og er skemmt frá því að segja að strákarnir okkar tóku þá alla með sér heim. Sigurður Ari sigraði með yfirburðum í fjölþraut auk þess að vinna 5 áhöld en Davíð Goði sigraði í æfingum á hringjum. Við erum einstaklega stolt af strákunum okkar og óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn.

 

.


Nýr verkefnastjóri hópfimleika

Viktor Elí ráðinn verkefnastjóri hópfimleika.

Viktor Elí Sturluson hefur verið ráðinn verkefnastjóri hópfimleika hjá fimleikadeild Fjölnis. Viktor Elí er ungur að árum en hefur mikla reynslu úr fimleikaheiminum. Viktor sem kemur úr Mosfellsbæ en hefur lengi æft hópfimleika og er hann meðal annars í landsliðshóp Íslands fyrir Evrópumótið í hópfimleikum 2022 sem fram fer í Lúxemborg. Viktor hefur reynslu af þjálfun á öllum flokkum í hópfimleikum en nú síðast var hann m.a þjálfari meistaraflokks Gróttu í hópfimleikum. Við óskum Viktori Elí til hamingju með starfið og hlökkum til samstarfsins.


Mót síðustu þrjár helgar

Það hefur verið viðburðaríkt hjá fimleikadeild Fjölnis síðustu helgar en iðkendur deildarinnar hafa tekið þátt á ýmsum mótum, bæði í áhalda - og hópfimleikum.

7. - 8. maí 

Helgina 7. - 8. maí fór fram Þrepamót 3 sem haldið var í Fjölni og voru það bæði stelpur og strákar sem kepptu í 5. og 4. þrepi ásamt keppendum í Special Olympics flokki. Það var ótrúlega gaman að sjá hvað allir keppendur skemmtu sér vel og stóðu sig með prýði.

 

21. - 22. maí 

Helgina 21. - 22. maí fór fram Mínervumót sem haldið var í Björk í Hafnarfirði og var Fjölnir með keppendur í 5. þrepi, 5. þrepi létt, 4. þrepi og landsreglum. 5. þrep keppti sem ein liðsheild á meðan 4. þrep og stúlkurnar í landsreglum kepptu í einstaklingskeppni. Allar stóðu þær sig frábærlega og geta svo sannarlega verið ánægðar með sig. 

Sömu helgi fór fram Vormót í hópfimleikum þar sem Fjölnir var með lið í 4. flokki (A og B deild) og 5 flokki (A deild). Liðin öll stóðu sig frábærlega vel og var gaman að sjá hvað skein af þeim á keppnisgólfinu.  

 

28. - 29. maí 

Um síðustu helgi fór fram Íslandsmót í hópfimleikum sem haldið var í Ásgarði, Garðabæ. Öll lið Fjölnis voru félaginu til sóma og stóðu sig virkilega vel.
2. flokkur - 2. sæti
KK eldri - 3. sæti
flokkur - 3. sæti 

Einnig fór fram Bikarmót í frjálsum æfingum í áhaldafimleikum síðustu helgi en það mót var haldið í íþróttahúsi Gerplu og var stúkan full af stuðningsmönnum sem hvatti keppendur áfram.
Fjölnir átti karla lið sem hafnaði í 4. sæti.
Lilja Katrín keppti sem gestur á mótinu þar sem Fjölnir var ekki með lið í kvennaflokki, hún sýndi nýjar æfingar á mótinu og stóð sig afar vel. 

 

Við viljum óska öllum okkar keppendum til hamingju með frábæran árangur á síðustu mótum. 

Hér fyrir neðan má sjá myndir af keppendum frá síðustu mótum.

 


Mótaröðin á Akureyri

Um helgina fór fram mótaröðin á Akureyri. Fjölnir sendi 1.flokk á mótið en á mótaröðinni gefst liðum tækifæri til að keppa með fleiri í hverri umferð. Félög geta sent keppendur úr 2.flokki og alveg upp í meistaraflokk.

Eftir langt og strangt ferðalag stóð 1.flokkur sig vel. Þær enduðu í 10 sæti þar sem gólfæfingar var þeirra besta áhald. Það voru mörg ný stökk á mótinu hjá liðinu enda kjörið tækifæri til að sýna það sem þær hafa æft í vetur.

Fimleikadeildin þakkar Fimak fyrir flott mót og frábæra gestrisni.


Bikarmót í þrepum

Bikarmót í 1.-3.þrepi

Um helgina fór fram Bikarmót í þrepum, þetta mót er frábrugðið öðrum áhaldafimleikamótum þar sem keppt er í liðum.
Mótið var haldið í Ármanni og var keppt í 1.-3.þrepi karla og kvenna.
Stúlkur úr Fjölni og fimleikadeild Keflavíkur mynduðu saman glæsilegt lið sem keppti í 2.þrepi og náðu þær öðru sæti á mótinu.

Virkilega skemmtilegt mót, til hamingju stelpur og þjálfarar.

Liðið mynduðu stelpurnar
Jóhanna Ýr, Keflavík
Íris Björk, Keflavík
Júlía Ísold, Fjölnir
Kolfinna Hermannsdóttir. Fjölnir


Bikarmót í hópfimleikum og stökkfimi

Eftir langa bið þá var nú loksins komið að fyrsta móti vetrarins hjá okkar yngri iðkendum í hópfimleikum en líkt og hjá mörgum öðrum féll allt mótahald niður á haustönn. Nú var komið að Bikarmóti í hópfimleikum og stökkfimi. Gerpla sá um mótahaldið og voru mótin haldin í Digranesi síðustu helgi. Mótið var virkilega flott og eiga mótshaldarar mikið hrós skilið.

Bikarmót í Stökkfimi
Fjölnir sendi tvö lið til keppni á Bikarmót í stökkfimi og varð annanð liðið Bikarmeistarar í 3.flokk, A-deild. Virkilega flottur árangur hjá öllum okkar iðkendum á þessum hluta.

Bikarmót í Hópfimleikum
Fjögur lið frá Fjölni voru svo skráð til leiks á Bikarmót í hópfimleikum allt frá 5.flokk – 3.flokk.
Liðin stóðu sig ótrúlega vel og ekki á þeim að sjá að það sé langt síðan þau hafi stigið síðast á keppnisgólfið. Svo má ekki gleyma að dömurnar í 5.flokk voru að keppa á sínu fyrsta hópfimleikamóti.

Tvö lið frá Fjölni enduðu á palli
4.flokkur A – 3.sæti
3.flokkur A – 3.sæti

Öll úrslit helgarinnar má skoða Hér


Flottir keppendur frá Fjölni á Ofurhetjumóti

Ofurhetjumót Gróttu var haldið síðustu helgi og var húsið fullt af glæsilegum ofurhetjum sem tóku þátt og sumir voru að keppa á sínu fyrsta móti. Um 430 keppendur frá átta félögum voru skráð á mótið og keppa þau í  4., 5. og 6. þrepi íslenska fimleikastigans.
Til hamingju með mótið!


Glæsilegt Bikarmót í hópfimleikum í Dalhúsum

Helgina 26. – 27. febrúar fór fram Bikarmót í hópfimleikum, keppt var í efri flokkum og meistaraflokki. Mótið var haldið í íþróttamiðstöðinni í Dalhúsum í glæsilegri umgjörð og mikilli stemmingu. Þetta var fysta fimleikamótið í um tvö ár þar sem ekki hafa verið einhvernskonar samkomutakmarkanir og voru þjálfarar, dómarar og áhorfendur alveg í skýjunum með grímulaust líf. Fjölnir átti 3 lið á mótinu og stóðu þau sig öll frábærlega. Liðið okkar í 1. flokki var örstutt frá því að tryggja sér keppnisrétt á Norðurlandamóti unglinga. En liðið er ungt og efnilegt og verður gaman að fylgjast með þeim vaxa. Á sunnudeginum var svo bein  útsending á RÚV frá keppni í  meistaraflokkum. En þar bar hæst sigur Stjörnunnar í kvennaflokki.


Þrír drengir frá Fjölni í úrvalshóp unglinga

Landsliðsþjálfari unglinga í áhaldafimleikum, Róbert Kristmannsson, hefur tilnefnt 13 drengi til þátttöku í Úrvalshópi drengja keppnisárið 2022.

Í ár eru þrír drengir frá Fjölni í hópnum og erum við einstaklega stolt af okkar stráknum. Til hamingju strákar og Zoltán.

 

  • Davíð Goði Jóhannsson
  • Elio Mar Rebora
  • Sigurður Ari Stefánsson

Keppnistímabilið er hafið

Um helgina fóru fram fyrstu fimleikamót ársins 2022.
Í Laugardalnum í fimleikasal Ármanns fór fram Þrepamót 2 í áhaldafimleikum. Mótið gekk vel og iðkendur spenntir að sýna sínar æfingar.

Það var líka mikið fjör á Akranesi því þar fór fram Haustmót í Stökkfimi og GK mót í hópfimleikum. Það var mikil spenna í loftinu en engin mót voru haldin á haustönn 2021. Mótið var glæsilegt og stóðu lið Fjölnis sig frábærlega.