Vorsýning

Sunnudaginn 26. maí héldum við hina árlegu vorsýningu listskautadeildar. Við viljum þakka öllum sem mættu og styrktu deildina með kaupum á miðum sem og í sjoppunni okkar. Einnig þökkum við öllum sjálfboðaliðum sem hjálpuðu til við undirbúning á sýningunni sem og að vera innan handa á sýningunni sjálfri. Án ykkar væri ekki hægt að gera þessar sýningar eða aðra viðburði.

Þema sýningarinnar að þessu sinni var hinn bleiki heimur Barbie. Um 122 iðkendur tóku þátt í sýningunni frá öllum getustigum – allt frá skautaskólakrökkum til afrekshóps og svo einnig þjálfarar deildarinnar. Var svellið fyllt af allskyns útgáfum af Barbie og Ken sem sýndu flotta takta í takt við tónlist úr nýlegri kvikmynd um Barbie.

Alls voru um 400 sem lögðu leið sína á báðar sýningarnar og var stemmingin mjög góð á þeim báðum. Við þökkum öllum þeim sem mættu á sýningarnar til að fylgjast með og styðja við iðkendur og deildina.

Kökubasar var á staðnum og gekk það mjög vel og þökkum við öllum þeim sem bökuðu fyrir basarinn ásamt þeim sem keyptu köku til stuðnings Listskautadeildarinnar. Frábært að sjá hvað var tekið vel í þennan kökubasar.

Í sjoppunni var í boði að kaupa sér vöfflur, popp og bleikt candyfloss sem sló heldur betur í gegn hjá börnunum sem og þeim fullorðnu.

Við viljum þakka styrktaraðilum sýningarinnar fyrir að hjálpa okkur í þessu ferli. Hafið Fiskverslun, Kids Coolshop, Myllan, Orkan, Rent-A-Party, World Class og Ölgerðin.

Eldri fréttir

Á föstudeginum fyrir sýninguna var hópur 1 boðið að koma fram á opnunarhátíð Ice Cup í tengslum við Special Olympics. Tóku þær því boði og sýndu atriðið úr vorsýningunni og stóðu sig mjög vel. Einnig voru iðkendur frá okkur fánaberar við inngöngu á hátíðinni. Var þetta skemmtileg reynsla fyrir hópinn sem fékk svo að hitta Guðna Th. Jóhannesson forseta.

Þann 20. apríl héldum við fjölskyldudag skautaskólans og heppnaðist hann mjög vel. Er þetta eitthvað sem við munum klárlega stefna á að gera aftur og sjáum fyrir okkur að þetta geti heppnast líka vel hjá öðrum hópum hjá okkur.

Fyrstu helgina í maí fór hópur frá okkur í keppnisferð til Riga í Lettlandi til að taka þátt í Volvo Open Cup. Mikil og góð reynsla sem keppendur fengu í þessari ferð og mun klárlega nýtast hópnum í framtíðarverkefnum.

Sumarbúðir

Deildin verður með sumarbúðir í júní og er skráning í gangi inn á XPS og eru hægt að nálgast upplýsingar HÉR og HÉR.

Boðið er upp á 3 vikur af námskeiðum og er skráð í hverja viku fyrir sig. Í annarri vikunni kemur Matteo Rizzo sem gestaþjálfari til okkar og erum við mjög spennt fyrir komu hans til okkar.

Svo munu nokkrir iðkendur fara erlendis í æfingabúðir erlendis í júlí og verður gaman að sjá hvað þau fá út úr þeirri ferð sem verður vonandi góð og skemmtileg ferð.

Næsta tímabil

Áætlað er að byrja æfingar á næstu önn fyrr heldur en venjan hefur verið. Nákvæm útfærsla er ekki komin en hún verður send út með eins miklum fyrirvara og við getum og reynum við að hafa það tilbúið sem allra fyrst.

Á næsta tímabili mun vera nýtt alþjóðlegt mót haldið hjá okkur í Egilshöllinni helgina 25.-27. október og verður mjög gaman að sjá það verða að veruleika hjá okkur.

Íslandsmót verður svo haldið í Egilshöllinni 29. nóvember til 1. desember og verður gaman að takast á við það verkefni og sjá hvar okkar skautarar standa miða við aðra iðkendur á Íslandi.

Sjálfboðaliðar

Við viljum byrja á því að þakka aftur kærlega fyrir þá sjálfboðaliða sem hjálpuðu til við að gera vorsýninguna að því sem hún varð. Takk kærlega fyrir.

Nú á næstunni er slatti sem að við þurfum aftur hjálp við frá ykkur frábæru sjálfboðaliðum. Tölvupóstar hafa verið sendir út á forráðamenn varðandi það að hjálpa til í kringum útihlaup á vegum m.a. ÍBR og þökkum við þeim sem hafa skráð sig nú þegar kærlega fyrir en ef það eru ennþá einhverjir sem vilja og hafa ekki skráð sig þá sláum við hendinni ekki á móti því.

Svo eins og komið var inn á fyrir ofan erum við að halda tvö stór mót með frekar stuttu millibili í Egilshöllinni og mun okkur vanta sjálfboðaliða á það. Það væri því frábært ef þið gætuð haft það bakvið eyrun þegar að því kemur að skrá sig sem sjálfboðaliða á þessi mót að við þurfum mjög margar hendur til að geta haldið þetta á þeim standardi sem þarf í svona mótum.

Þakkir fyrir tímabilið

Að lokum viljum við þakka kærlega fyrir tímabilið og sjáumst hress og kát í sumar og/eða í haust!