Frísk í Fjölni er hreyfingarúrræði fyrir einstaklinga 60 ára og eldri og er þjónustan byggð í kringum hópþjálfun undir handleiðslu menntaðra þjálfara. Þjálfarar og stjórnendur verkefnisins eru öll menntaðir íþróttafræðingar frá Háskólanum í Reykjavík.  Á æfingum er lögð áhersla á styrktar-, þol, liðleika- og jafnvægisæfingar og er þjálfun aðlöguð að hverju og einum iðkanda. Markmið Frísk í Fjölni er að bæta líkamlega, andlega og félagslega heilsu þátttakenda og gefa eldra fólki tækifæri á að stunda hreyfingu í Fjölni. Einnig að auka þekkingu þátttakenda á mikilvægi hreyfingar og stuðla þannig að auknu heilsulæsi, farsælli öldrun og fjölgun heilbrigðra æviára.

Í vetur fóru fram þrennar líkamlegar mælingar á hópnum eftir stöðluðu prófi kallað The Senior Fitness Test og erum við stolt að segja frá því að niðurstöður þeirra mælinga eru alveg hreint frábærar. Þol þátttakenda jókst að meðaltali um 15% á tímabilinu, styrkur í efri líkama jókst að meðaltali um 26% og styrkur í neðri líkama jókst að meðaltali um 24%. Skipulögð styrktarþjálfun sem þessi vinnur gegn vöðvarýrnun og beinþynningu og stuðlar því að bættri heilsu þátttakenda.

Í viðhorfskönnun sem send var út á dögunum kom í ljós að 95% þátttakenda mátu líkamlegt ástand sitt betra og 63% mátu andlega heilsu sína betri eftir að þeir höfðu þátttöku í Frísk í Fjölni. 100% þátttakenda sögðust hafa kynnst nýju fólki og sögðust vilja halda áfram á næstu önn. Má því segja að verkefnið er að mæta þeim markmiðum sem sett voru í upphafi. Mælingar sýna fram á bætta líkamlega heilsu og í svörum þátttakenda í viðhorfskönnun hafa allir kynnst nýju fólki og flestir meta andlega heilsu sína betri.

Það er ekki hægt að draga úr því hversu stolt við erum af öllum þátttakendum og hversu ánægjulegt það er að sjá bætingar þeirra. Ekki síður er gaman að sjá hversu ánægðir þátttakendur virðast vera með starfið.