Borche Ilievski hefur skrifað undir nýjan samning við körfuknattleiksdeild Fjölnis og mun hann þjálfa meistaraflokk karla hjá félaginu til ársins 2026. Borche hefur stýrt meistaraflokk Fjölnis ásamt yngri flokkum félagsins frá 2022. Borche hefur þjálfað lengi á Íslandi en hann byrjaði á Ísafirði og kom Vestra upp í efstu deild á sínum tíma. Einnig hefur hann þjálfað meistaraflokka Tindastóls, Breiðabliks og ÍR ásamt því að vera yngri flokka þjálfari hjá þessum félögum sem og KR áður en hann gekk til liðs við Fjölni í fyrra.

Borche segist hlakka til næstu ára hjá Fjölni og er spenntur fyrir næsta tímabili: ,,Við erum með góðan leikmannahóp af ungum strákum sem eru í lokahópum yngri landsliðana og við munum halda áfram að byggja upp sterkt og samheldið lið sem mun ná góðum árangri á næstu árum,” sagði þjálfarinn þegar hann skrifaði undir á dögunum.

Samhliða þjálfun meistaraflokks mun Borche þjálfa yngri flokka Fjölnis. ,,Hafin er vinna við að betrumbæta umgjörðina í Grafarvoginum. Ég er ánægður með þróun mála sem mun á endanum skila sér inn á vellinum,” bætti Borche við.

Með framlengingu á samningi Borche er verið að tryggja stöðuleika í þjálfunarmálum í Fjölni en félagið er lagt af stað í ákveðinna vegferð á körfuboltastarfsemi Grafarvogs. Með því að endurvekja barna-og unglingaráð, ráðningu yfirþjálfara, styrktarþjálfara og menntuðum þjálfurum í yngri flokkum félagsins er félagið að ráðast í metnaðarfulla uppbyggingu í öllu starfi klúbbsins. Takmarkið er að Fjölnir verði eftirsóknarverkt félag til að spila fyrir.

Salvör Þóra Davíðsdóttir og Borche Ilievski eftir að sá síðarnefndi skrifaði undir á dögunum